Konur tala 2015

Höfundar: Brynhildur Björnsdóttir og Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

Í kvikmyndinni Suffragette er fjallað meðal annars um erfiðleika þeirra kvenna sem börðust fyrir kosningarétti sér og kynsystrum sínum til handa í Bretlandi við að koma málstað sínum á framfæri í fjölmiðlum. Hundrað ára afmælisár kosningaréttar kvenna á Íslandi færði með sér byltingu í tjáningu kvenna á sínum veruleika þar sem samfélagsmiðlar léku lykilhlutverk. Hver bylgjan rak aðra þar sem konur rufu þögnina um hvunndagskynjamismunun, blæðingar, kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi, stöðu fatlaðra kvenna og fjölmargt fleira. Hér á eftir verður stiklað á stóru um þá sem kannski hafði mest margfeldisáhrif, Beauty Tips! byltinguna svonefndu. 11214703_10153937268161029_1337881135112190470_n
Beauty tips! byltinginn svokallaða hófst með einni færslu á Facebook. Í frétt Stundarinnar frá 27. maí má sjá að Guðrún Helga Guðbjartsdóttir auglýsti á vefsvæðinu Beauty tips eftir reynslusögum frá stúlkum sem hefðu „lent í“ lögfræðingnum Sveini Andra Sveinssyni. Þetta gerði hún fyrir hönd vinkonu sinnar Rebekku Rósinberg sem safnaði í hópmálsókn gegn lögmanninum.

Þráðurinn var umdeildur á vefsvæðinu og var á endanum fjarlægður. Við það spratt upp mikil óánægja í hópnum og konur kvörtuðu yfir þöggun. Þann 29. maí hvatti Elísabet Ýr Atladóttir konur í Beauty tips! hópnum til að pósta undir tagginu #þöggun.

Nokkrar konur settu reynslusögur sínar af kynferðisofbeldi inn á vefsvæðið undir merkinu, eða tagginu, #þöggun auk þess sem fljótlega bættist við taggið #konurtala. Þetta varð að einskonar snjóboltaáhrifum þar sem fleiri og fleiri konur komu fram í skjóli fjöldahreyfingar og vefsvæðið fyllist af þúsundum átakanlegra frásagna af reynslu meðlima hópsins af kynferðisofbeldi. Mikil samstaða skapaðist og hver frásögn fékk viðurkenningu í formi „like-a“ og styðjandi athugasemda sem voru í formi texta eða bara sett inn mynd af hjarta. Ljóð Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur lýsti stemmingunni mjög vel sem lesa má hér.

Útfrá þessu fóru töggin #þöggun og #konurtala af stað utan Beauty Tips og konur tjáðu sig á twitter og póstuðu reynslusögum fyrir augu almennings. Fjölmiðlar fylltust af fréttum um byltinguna og konur stigu fram opinberlega og rufu þögnina. Byltingin vakti mikla athygli og umræður um stöðu kynferðisbrotamála á Íslandi og algengi þeirra. Fólki var brugðið að sjá flóðgáttir þöggunarmúrsins opnast og úr ýmsum áttum mátti heyra ákall um að bruðgist yrði við því sem margir líktu við hamfaraástand.
Vefritið Knúz tók þátt í þessu ákalli með því að birta opið bréf til ríkisstjórnarinnar.

xLHw0-Ok_400x400Aðgerðarhópurinn Aktívismi gegn nauðgunarmenningu varð til, auk annarra hópa, sem svar grasrótarinnar við ákalli þúsunda kvenna sem stigu fram í byltingunni. Um áramótin 2016 taldi hópurinn yfir 1200 konur sem hafa staðið fyrir ýmsum aðgerðum sem beinast að því að vekja athygli á, mótmæla og uppræta nauðgunarmenningu. Í hópnum kynnti Edda Ýr Garðarsdóttir fyrst appelsínugulu og gulu prófílmyndirnar sem hafa orðið táknmynd byltingarinnar eftir að ótrúlegur fjöldi þolenda og aðstandenda þeirra settu upp myndirnar til að sýna á táknrænan hátt hversu útbreiddur vandi kynferðisofbeldi er. Þessar sérstöku prófílmyndir vöktu mikla athygli, bæði hérlendis og víða um heim.
Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 16. júní „að fela ofbeldisvarnarnefnd að vinna tillögur að aðgerðum borgarinnar til að styrkja forvarnarstarf vegna kynbundins ofbeldis og mæta þörfum þolenda. Enn fremur þarf að efla aðstoð og ráðgjöf fyrir gerendur, auk fræðslu um mörk og virðingu.” Í málflutningi sínum vísuðu borgarfulltrúar í Beauty tips! byltinguna sem ákall um viðbrögð hins opinbera og var þessi samþykkt svar við því ákalli.

Þann 19. júní stigu appelsínugulu og gulu prófílmyndirnar svo út úr netheimum og yfir í raunheima þegar fjöldi manns merkti sig með litunum í formi andlitsmálningar, uppblásinna blaðra auk skilta og mótmæltu undir fyrirsögninni „Enginn helvítis blóm: borgið okkur mannsæmandi laun og hættið að nauðga okkur“. Sjá einnig hér.

11372115_101213800223031_1353455962_n

Vinkonurnar Ásta Elínar og Ninna Karla Katrínardóttir í druslugöngu.

Varaþingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson flutti ræðu í eldhúsdagsumræðum á Alþingi 1. júlí þar sem hann kallaði eftir sambærilegum viðbrögðum við holskeflu appelsínugulu og gulu prófílmyndanna og frásagnanna sem voru á bak við þær og við náttúruhamförum. ,,Appelsínugulu andlitin voru ótrúlega mörg. Svo mörg, að mér leið helst eins og náttúruhamfarir hefðu orðið. Í náttúruhamförum hefðu viðbrögðin ekki staðið á sér. Þá skipuleggja stjórnvöld fjöldahjálparmiðstöðvar, þau bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna. Þau laga það sem lagað verður.
En hver voru viðbrögðin þegar þagnarmúrinn brast?
Þau voru lítil. Að minnsta kosti ekki í neinu samræmi við umfang vandans.”

Í fimmtu Druslugöngunni sem gengin var þann 25. júlí voru áberandi áhrif frá byltingunni. Víða mátti sjá gula og appelsínugula liti og slagorðin „Ég mun ekki þegja“ og „Ég skal hlusta á þig“ voru einkennandi fyrir gönguna í ár.

Skömmu síðar vakti það athygli að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sendi frá sér bréf til viðbragðsaðila á Þjóðhátíð með tilmælum um að halda upplýsingum um kynferðisbrot sem hugsanlega verði framin yfir hátíðina frá fjölmiðlum. Þetta vakti mikla reiði almennings og var því mótmælt að enn væri verið að þagga niður kynferðisofbeldi. Fjöldi greina birtist í fjölmiðlum og málið var áberandi í netheimum. Hljómsveitin Amabadama flaggaði í mótmælaskyni fána #konurtala #þöggun byltingarinnar í atriði sínu í Herjólfsdal.

konutalaherjólfsdalurSíðla ágústmánaðar tók Reykjavíkurborg við fána byltingarinnar og ferilbók sem honum fylgdi. Reykjavíkurborg var fyrsti áfangastaður fánans í herferð og „mun fáni þessarar baráttu fara út um allt land; í ráðuneyti, til sveitarfélaga og stofnana sem hvatning til frekari umræðu og að gripið verði til aðgerða,“ eins og segir í bókinni. Viðkomandi stofnunum er meðal annars ætlað að skrá í ferilbókina hvaða aðgerða þær hyggjast grípa til til að bregðast við þeim vanda sem byltingin hefur afhjúpað.

Á alþjóðlegu ráðstefnunni Borgaraleg réttindi kvenna í 100 ár sem fram fór í Hörpu í október var stafrænu byltinganna minnst með gjörningi sem nefnist Birta //Post Þar hljómuðu setningar úr stafrænu byltingunum á meðan hundrað konur á sviðinu kveiktu ljós á farsímum sínum ein af annarri, bæði til að tákna ljósið sem var varpað á reynslu kvenna en einnig til að minna á að byltingarnar áttu sér stað á netinu og farsíminn er nettengt tæki.

fr_20151116_026891

Elsku stelpur – eftir að verðlaunin voru kunngjörð.

Eitt af því kraftmesta sem árið gat af sér var siguratriði Hagaskóla í hæfileikakeppni
grunnskólanna, Skrekk, í nóvember. Þar stóðu tuttugu stelpur með sér og fluttu með orðum og dansi hið magnaða ljóð Elsku stelpur um það hvernig er að vera ung stúlka í íslensku samfélagi.

Byltingin lifir enn og sem dæmi má nefna að þegar fréttir um kynferðisofbeldi komast í hámæli í fjölmiðlum sprettur gjarnan fram bylgja af nýjum frásögnum í Beauty tips! undir tagginu #þöggun. Auk þess hefur grasrótarhreyfingin stækkað og orðið öflugri eins og sjá má á viðbrögðum við Hlíðarmálinu svokallaða þegar önnur hreyfing fór af stað undir tagginu #almannahagsmunir auk þess sem margar notuðu taggið #þúertekkiein til að senda konunum í málinu stuðning þegar þær voru kærðar fyrir rangar sakargiftir áður en afstaða hafði verið tekin til þess af dómstólum hvort um slíkt væri að ræða. Þegar fimm ungir menn voru svo sýknaðir af ákæru um hópnauðgun fór taggið #eftirkynferðisofbeldi af stað þar sem konur mótmæltu mýtum sem virðast ríkjandi um trúverðuga hegðun brotaþola eftir kynferðisofbeldi.

Konur hófu upp raustir sínar árið 2015, byrjuðu að tala og segja frá og þær ætla ekki að hætta því.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.