Kona á ferð í Tyrklandi. Spoiler alert: Það sökkar

Höfundur: Steinunn Ólína Hafliðadóttir

Í gegnum sumarið langaði mig tvisvar að beila á útskriftarferðinni. Það voru nokkrar ástæður fyrir því en ég einblíndi aðallega á fjórar ástæður.
Í fyrsta lagi þá eru hormónarnir mínir og ég ekki vinir, svo ég vissi að það biði mín ekkert nema slæm húð úti í Tyrklandi, landi rakans. Í öðru lagi tímdi ég varla þessum pening. Ég er kona munaðar og elska að stjana við sjálfa mig og aðra. Ég elska að eiga pening til þess að geta eytt honum í rauðvín, fallegar stílabækur og fisk dagsins á Nora Magasin. Í þriðja lagi hafði Patti Smith boðað komu sína í Hörpu á þeim tíma sem ég yrði úti, sem mér fannst sárt að hugsa til að ég væri að missa af. Ég held þó að þessar afsakanir mínar hafi verið ákveðin undankomuleið við rót vandans. Rót vandans lá nefnilega í fjórðu ástæðunni. Hræðsla mín við alla karlrembuna sem ég var viss um að myndi slá mig í andlitið þarna úti.
Ég hafði ákveðna draumóra um að fara frekar í bakpokaferðalag um Evrópu með sálufélaga mínum (enn ófundinn) en ákveðnin í þeim órum var ekki nógu sterk því að innst inni vissi ég að ég ætti það inni hjá sjálfri mér að fara allavega í eina soraferð í heitu landi á lífsleiðinni. Að lokum komst ég að niðurstöðu: Evrópa mátti bíða því djammið kallaði.

marmaris_cruise_port_03

Marmaris, Tyrklandi.

„Þú ert ekki að fara að breyta heiminum í Tyrklandi“
Ég sat til móts við foreldra mína við eldhúsborðið þegar ég tilkynnti þeim ákvörðun mína. „Parents, I’m going to Marmaris, Turkey!“. „Steinunn, þú manst síðan að þú ert ekki að fara að breyta heiminum í Tyrklandi.“ sagði áhyggjufulla móðir mín sem vissi að dóttir hennar væri skörungur með kjaft og ætti það til að þenja lungun út með réttlætiskennd sem hún blési síðan yfir aðra. „Og varastu síðan karlmennina í hvítu skyrtunum með bringuhárin og gullkeðjurnar“, bætti hún við.

Ummæli foreldra minna komu mér ekki á óvart. Ég hafði lagt mikla hugsun í réttindi mín sem kona úti í Tyrklandi og komist að þeirri niðurstöðu að þau væru lítil sem engin. Einungis fyrir um ári sagði forseti Tyrklands í opinberri ræðu: „Karlar og konur eru ekki jafningjar. Það fer gegn öllum náttúrulögmálum.“

Konan í karlaveldinu
Í fluginu á leið til Tyrklands spruttu þrjár nýjar bólur fram á andlitinu á mér. Ein á hægri kinninni og tvær á hökunni. Ég þreifaði á þeim, þetta voru kýli, þið skiljið. Bólur sem eru rauðar og bólgnar en jafnframt ósprengjanlegar. Fokking worst. Flugið tók 6 tíma. Ég svaf, tók nokkrar myndir af skýjum, fór tvisvar á klósettið. Síðan vorum við lent. Rakinn skall á okkur öll um leið og við stigum út úr flugvélinni. Sumir tóku honum með opnum örmum á meðan aðrir, þar með talin ég, duttu aftur úr í andköfum. Þessu þyrfti ég að venjast.
Ég þurfti reyndar að venjast allt öðrum raunveruleika þarna úti.
Ég var alltaf vör um mig. Mér fannst óþægilegt að klæðast einhverju aðsniðnu og hjartað sökk í buxurnar ef ég aðskildist að einhverju leyti frá hópnum. Ég passaði mig að hækka róminn ekki um of og þurfti að skilja við mörg persónueinkenni sem ég hafði lagað að mér á Íslandi.

images

Grand Pasa, Marmaris.

ATH! Til að forðast áreiti:
Rútuferðin frá flugvellinum að hótelinu okkar tók um tvo tíma. Það minnir mig allavega. Í rútuferðinni voru línurnar strax lagðar fyrir okkur. Stelpur máttu ekki ferðast einar og stelpur áttu helst af öllu að grípa tvo til þrjá stráka með sér í alla hópferðaleiðangra til þess að sporna gegn áreiti. „Við erum nefnilega ekki lengur á Íslandi.“ tilkynnti túrgædinn okkur líkt og ekkert áreiti fyrirfinndist á Íslandi. Þessi ummæli fóru í taugarnar á mér. Átti ég bara að sitja á rassgatinu, fórna höndum og samþykkja að svona væri hlutunum bara raðað og obbosíja bara láta mig hafa það? Svo virtist vera.

Sjúss, sæla og sviti

Marmaris er falleg borg þrátt fyrir túristastimpilinn sem loðir við hana. Uppröðun flestra húsa og litasamsetning þeirra gleður augað. Hlýjir litir ásamt hlýjum vindum. Grand Pasa varð heimili okkar þá tíu daga sem við dvöldum úti í Tyrklandi. Sú bygging er reyndar ljót að mínu mati.

--turkey--mula--id=17216

Frá Marmaris.

Rútan silaðist í stæði fyrir utan hótelið. Sveittir menntskælingar stigu frá borði einn af öðrum og hömuðust við að sækja töskurnar sínar. Ég og mín taska sameinuðumst en þegar ég ætlaði að leiða mína heittelskuðu upp tröppurnar að hótelinu krafðist starfsmaður hótelsins þess að hann bæri töskuna fyrir mig. Ég þakkaði fyrir kurteisina en afþakkaði pent. „It’s too heavy for you, let me help.“ Taskan var tekin af mér og ég var skilin eftir í sárum. Motherfokker.
Ég þurfti að kyngja stoltinu og ganga einsömul, í mínu veiklulega kvenmannslíki, inn á hótelið.
Eftir langt innritunarferli tóku ég og vinkona mín lyftuna upp að hótelherberginu okkar, komum okkur fyrir og dásömuðum loftkælinguna sem fylgdi með herberginu. Svalirnar á herberginu okkar sneru beint að útisvæði hótelsins þar sem tónar teknósins fengu stanslaust að gjamma framan í okkur. Það er reyndar alveg merkilegt svona sér á báti hvað Tyrkir veigra sér ekki að teknóvæða hvert einasta lag. Guilty pleasure lag ferðarinnar? Englishman in New York með PH Electro.
Dagarnir voru langir á Marmaris og næturnar líka. Fjörtíugráðu hitinn kom samt ekki í veg fyrir glensið og gamanið, sjússinn og sæluna og djammið og djúsinn hjá okkur, sveittu menntaskælingjunum.

marmaris-banner-01

Ströndin.

Kona spyr sig
Hótelið veitti konu ákveðið skjól. Þar var kona umkringd verndarvæng sinna vina og vandamanna. Þar gat kona bölvast yfir því að konu klæjaði í píkuna eftir að hafa rakað sig sköllótta fyrir ferðina og þar gat kona reykt eina eða tvær rettur í friði úti á hótelsvölunum. Kona þurfti reyndar að þvinga fram bros þegar kona pantaði sér Sex on the Beach á hótelbarnum og sagt var við konu að þjónninn væri „free off work at 2 o’clock“ fyrir slíkar gjörðir. Kona þurfti einnig að passa sig að svara ekki til baka þegar konu var sagt að brosa meira því það væri ljótt að sjá sæta konu með fýlusvip svona í morgunsárið.
Kona fór oft út fyrir veggi hótelsins. Þar þurfti kona að venjast því að oft á tíðum var hlustað meira á vini konu heldur en konu sjálfa. Kona þurfti að venjast því að skoðanir konu voru ekki jafn gildar og kona hefði haldið og að stundum þótti klæðnaður konu bjóða upp á nánari samskipti en kona hafði áhuga á. Eitt kvöldið þurfti kona að leita skjóls hjá vini sínum og biðja hann um að gerast kærasti sinn í eitt kvöld til þess að kona fengi frið frá áreitinu. Það kvöld skildi kona ekki hvað hún hafði gert rangt. Kona spurði sig; Af hverju hlustar enginn á mig?

?????????????

Götulíf í Marmaris um nótt.

Karlmennirnir í hvítu skyrtunum með gullkeðjurnar 
Ég sá þá eitt kvöldið. Þeir sátu allir saman úti í horni á einum af þeim mörgu skemmtistöðum sem við heimsóttum. Ég virti fyrir mér borðið sem þeir sátu við. Þrír tómir kokteilar og einn hálfkláraður. Fjórir öskubakkar yfirfullir af vindlingum dreifðu sér um borðið og við miðju stóð tignarlegt ílát fyllt klökum og freyðivínsflöskum. Mig langaði að nálgast þá og þóknast þeim. Mig langaði að spyrja hvað ég gæti gert fyrir þá og hneygja mig pent. Hvaðan komu þessar fokking tilfinningar. Vinkona mín reif í mig. Trap Queen var komið í spilun inn á staðnum og ég var dregin út á dansgólfið. En ég náði ekki einbeitingu og gat ekki vippað og nei nei-að almennilega. Augu mín höfðu blindast af gullkeðjunum sem þeir báru um hálsinn. Frá dansgólfinu bar ég kennsl á gífurlegan skjöld sem umkringdi þá. Ég þefaði út í loftið og fann lykt af sterkri typpafýlu sem liðaðist sjónrænt út frá skildinum. Þrífa þessir menn aldrei á sér punginn?

Hey baby, wadup?
Pungslyktin fékk að róma frjálslega um götur Bar Street, Laugarveg Marmaris. Hún þröngvaði sér inn á skemmtistaði og leyfði sér að klípa í rassinn á mér og halda utan um mjaðmirnar mínar. Það var erfitt að kæfa hana niður.
Pungslyktin hafði ekki áhuga á persónu minni en hún hafði hins vegar brennandi áhuga á kyni mínu. Aldrei hefur það verið jafn ljóst fyrir mínum augum hvað kyn mitt skilgreinir mig mikið. Let’s be frank, kyn okkar skilgreinir okkur hvert sem við förum og það gerir það á Íslandi jafnt sem í Tyrklandi. Í Tyrklandi kemur skilgreiningin aftur á móti bersýnilegar fram heldur en hérna heima. Á götum Marmaris mátti heyra, á hvaða tíma dags sem er, hrópaðar einhverjar aðdróttanir í garð kvenna. Cat-calling var yfirþyrmandi þarna úti en cat-calling á líka sitt heimili hér á Íslandi sem og annað karlrembu-kjaftæði. Ísland er ekki besta land í heimi.

Hvernig er að vera kona?
Sem femínisti á Íslandi hef ég lifað í ákveðinni loftbólu. Ég er hvít, vestræn kona, sem geng í skóla sem hefur þá ímynd út á við að vera meðal femíniskustu skóla landsins. Skólinn er staðsettur á landi sem státar sig að því að vera „jafnréttisparadís.” í erlendum fréttamiðlum (þrátt fyrir viðurkenndan launamismun kynja og ömurlega úrvinnslu kynferðisafbrotamála).
Það er auðvelt að benda fingrum til annarra landa og segja: „Sjáiði, við erum komin lengra en þetta“, en það er ekki réttur hugsunarháttur. Káfið á skemmtistöðunum hætti sem dæmi ekkert eftir að ég sneri heim í íslenska djammið.
Það er því rangt af mér að segja að ég hafi óttast karlrembuna „þarna úti“. Ég óttast karlrembuna bara almennt og hana þarf ekki að einskorða við neitt ákveðið land. Lokahugsun: Mig langar ekki að kyn mitt skilgreini mig svona gífurlega. Má ég vera ég sjálf takk fyrir.

Greinin birtist upphaflega í Beneventum og er endurbirt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.