Staða kvenna í Íran

Höfundar: Guðrún C. Emilsdóttir og Ása Fanney Gestsdóttir

IMG_20151023_150737

Elham Zanjani og Elaheh Arj

Einn af stórviðburðum 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna var alþjóðleg ráðstefna sem haldin var dagana 22. og 23. október 2015 í Hörpu. Á ráðstefnunni stigu margir frábærir fyrirlesarar frá hinum ýmsu löndum í pontu og sögðu frá áhugaverðum málefnum um heim allan sem snerta konur á einn eða annan hátt. Dagskráin var fjölbreytt og vonandi verður gert nánari grein fyrir efni hennar síðar. En gestir ráðstefnunnar, sem einnig komu hvaðanæva að úr heiminum, voru ekki síður áhugaverðir og gafst tækifæri í kaffi- og matarhléum til að kynnast þeim nánar. Meðal þeirra voru tvær íranskar konur og höfðu þær frá mörgu að segja um réttindi kvenna í Íran eða réttara sagt réttindaleysi.
Við fengum þær Elham Zanjani og Elaheh Arj til að segja okkur nánar frá því sem er að gerast í Íran og baráttu þeirra fyrir auknum réttindum og frelsi íranskra kvenna.

Forsagan
Staða kvenna í Íran hefur ekki alltaf verið svona slæm eins og hún er í dag. Fyrir byltinguna 1979 voru konur tiltölulega frjálsar ferða sinna; þær þurftu ekki að hylja hár sitt og þær máttu kjósa. Landið var í efnahagslegum uppgangi. Konungsveldi var þá við lýði undir stjórn Mohammad Reza Shah Pahlavi (frá 1941), en hann hafði þá átt í góðu sambandi við Bandaríkin. Hins vegar fór að bera á óánægju með hvert stefndi nokkrum árum fyrir fall konungsættarinnar. Mörgum þótti vestræn áhrif vera of mikil, efnahagur fór versnandi og eins þóttu tilburðir Shah Palavi gagnvart þjóðinni verða sífellt einræðislegri og hann sakaður um spillingu, ofbeldi, kúgun o.fl. Smátt og smátt myndaðist andspyrnuhreyfing vinstrisinnaðra, ýmissa íslamskra félaga og stúdenta gegn Shah-stjórninni, sem hún Elaheh meðal annars tók þátt í. Eftir röð verkfalla og mótmæla sá Shah Pahlavi sinn kost vænstan að flýja land og stjórnarandstaðan tók við taumunum. Í þessu andrúmslofti var Ayatollah Khomeini boðið að koma heim 1979, en hann þótti líklegastur til að geta snúið þjóðinni til íslamskra gilda á ný. Svo virðist sem völd Khomeinis hafi verið vanmetin – margir héldu að hann væri bara á leiðinni heim í þorpið sitt þar sem hann myndi enda ævi sína í rólegheitunum. Hann var ekki talinn mikil ógnun og stjórnarandstæðingar töldu að auðvelt yrði að setja hann til hliðar síðar. Raunin varð önnur. Þann 1. apríl 1979 var konungsveldinu formlega lokið í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið var um að Íran yrði íslamskt klerkaveldi, með Khomeini í broddi fylkingar sem Æðsta leiðtogann.
Hugmyndafræðin sem Khomeini aðhylltist var svokallað Vilayat-e Faqih (e. Guardianship of the Islamic Jurists). Í því felst að Æðsti leiðtoginn er sá sem ber ábyrgð á að framfylgja því sem íslamsk trú boðar í landinu og þar með stýra fólkinu sem í því býr. Völdin eru því að mestu í hans höndum.

Tehran

Teheran

Byltingin étur börnin sín
Margir úr röðum byltingasinna höfðu sjálfir verið í fangelsi nokkrum dögum fyrir byltinguna og átt á hættu að vera pyntaðir eða teknir af lífi. Nú snérist þetta við; í kjölfar byltingarinnar voru margir handteknir og teknir af lífi. En fyrst og fremst hafði byltingin bein áhrif á konur, því skv. túlkun Khomeinis á íslamskri trú eiga konur að vera heima, ala börn og sjá um eiginmann sinn. Þegar í stað var konum gert að hylja hár sitt. Þeim var meinað um forsetaembætti. Háskólum var lokað því þeir voru rót hins illa, þar grasseraði allt sem kom frá hinum vestræna heimi og konur í námi voru þar í meirihluta. Þess vegna þurfti að hemja konurnar og kúga þær til hlýðni. Þegar skólarnir voru opnaðir aftur voru konur útilokaðar frá um 70 greinum. Fög eins og verkfræði, eðlisfræði og fleiri eru ekki talin vera þeim til gagns þar sem þær eiga að vera heima og hugsa um börnin.
Þannig hafa yfirvöld smátt og smátt ýtt konum inn á heimilin aftur og tekið af þeim hver réttindin á fætur öðrum. Fyrir byltinguna var löglegur giftingaraldur kvenna 18 ára. Sá aldur var fljótlega lækkaður niður í 13 ár. Þær hafa engin forráð og réttindi þeirra sama sem engin í dómsölum. Þær mega ekki einu sinni ferðast án leyfis eiginmanns síns. Það eina sem konur hafa meira af en karlmenn í Íran er niðurbæling, kúgun.
Siðustu árin hefur þetta enn versnað. Löglegur giftingaraldur kvenna eða stúlkna hefur enn verið lækkaður, nú niður í 9 ár. Það er jafnvel hægt að gefa stúlkur yngri en 9 ára í hjónaband með samþykki föðurs eða með úrskurði dómara. Árlega má áætla að um 45 þúsund barnabrúðir hafi ekki náð 12 ára aldri.
Frá því Khomeini komst til valda hefur konum verið bannað að syngja opinberlega. En síðustu tvö ár hefur lögum gagnvart kvenkyns listamönnum fjölgað og verið hert. Nú mega þær varla koma fram lengur, hvorki til að syngja né spila á hljóðfæri eða nokkurs annars menningarlegs eðlis. Að hlusta á rödd konu er einfaldlega djöfullegt og gæti orðið til þess að vekja tilgangslausa ánægju sagði Khomeini og Khamenei, núverandi Æðsti leiðtoginn, bætir um betur „ef röddin er ekki fjölbreytileg (með tíðum hæðum og lægðum) og hlustandinn er ekki að hlusta með saurugar sæluhugsanir í huga og röddin stuðlar ekki að neinu leyti til spillingar, þá er það leyfilegt. Hins vegar, ef hún felur í sér einhvern snefil af spillingu eða vekur upp girnd, þá er það ekki leyfilegt“. Slík bönn leiða auðvitað til þess að konur einangrast enn meira og þykja ekki lengur fýsilegur kostur þegar kemur að t.d. hljóðfærakennslu, því hvernig er hægt að taka mark á konu sem aldrei kemur fram á sviði? Ennfremur hefur konum nú verið meinaður aðgangur að íþróttaviðburðum þar sem þeim er bannað að fara inn á íþróttaleikvanga.
Síðasta útspilið er svo það að nú er verið að undirbúa lög sem á að gera konur að útungunarvélum og heimilishjálp.

images

Götulíf í Teheran.

Hvað er til ráða? Hvað geta íranskar konur gert?
Aðspurðar segja þær Elham og Elaheh að lausnin felist í andófi kvennanna sjálfra. Konurnar hafa alltaf verið menningarlega sterkari og sögulega framsæknari. Þær hafa staðið í baráttu í yfir 150 ár og eiga að baki þrjár stórar byltingar. Það er ekki að ástæðulausu að fyrstu fórnarlömb nýrra yfirvalda eru ætíð konur, því þær eru ógnun við kerfið.
Elaheh var meðlimur í andspyrnuhreyfingu stúdenta þegar byltingin var gerð 1979. Eins og fyrr segir var háskólunum lokað og hún var handtekin ásamt mörgum öðrum vinum hennar, sem margir hverjir voru teknir af lífi. Sjálf varð hún að flýja land og skilja fjölskyldu sína eftir og hún getur ekki haft samband við fjölskylduna án þess að eiga á hættu að vera elt uppi eða að eitthvað komi fyrir ættingjana. Elham fæddist um það leyti sem Elaheh tók þátt í andspyrnuhreyfingunni, ekki í Íran heldur í Kanada. Hún ólst þar upp í góðu yfirlæti, en foreldrar hennar höfðu flúið Íran stuttu áður en hún fæddist. Eftir því sem hún varð eldri varð henni meira hugsað til Írans og þess óréttlætis sem konur þurfa að búa við þar. Það varð til þess að rúmlega tvítug fór hún til Camp Ashraf, sem staðsett var Íraksmegin við landamæri Íraks og Írans. Þar höfðu meðlimir PMOI (People‘s Mojahedin Organization of Iran), helstu andstæðinga Íransstjórnar, fengið úthlutað landskika eftir byltinguna, en þar var einnig starfrækt herstöð Bandaríkjamanna. Þannig vildi Elham hjálpa löndum sínum, sérstaklega konunum, sem höfðu þurft að flýja Íran. Árið 2009 fól Bandaríkin stjórn búðanna í hendur Íraka, sem hafði hörmulegar afleiðingar í för með sér. Írakar vildu losna við flóttamennina og hófu kerfisbundið að stuðla að því með því að veita þeim litla aðstoð, koma í veg fyrir að þeir fengju mat og að lokum með innrás í búðirnar. Í þeirri innrás varð Elham fyrir miklum líkamlegum skaða á höndum og fótum. Það varð til þess að hún snéri heim til Kanada þar sem hún náði sér á strik og í framhaldinu byrjaði hún að flytja fyrirlestra um ástandið í Camp Ashraf og síðar í Camp Liberty þangað sem flóttamennirnir voru síðan fluttir. Sögu hennar má einnig lesa hér.
Hvorugar eiga afturkvæmt til Írans, a.m.k. ekki á meðan núverandi yfirvöld eru við lýði. En þær vilja ekki gefast upp. Þær segja að konur séu í fremstu víglínu. Konur í Íran eru búnar að fá nóg og þær vilja koma á breytingum. Fólk er hrætt við að tjá sig, en mikil ólga er undir niðri og hvert lítið tilefni hvetur konur til að fara út á götu að mótmæla. Þær átta sig á hættunni en engin önnur leið virðist vera fær. Um 120.000 manns úr andspyrnuhreyfingunni hafa verið teknir af lífi, þar af voru um 30% konur. Konum í fangelsum er nauðgað til fá þær til að tala. Eins er óspjölluðum stúlkum og konum nauðgað áður en þær eru teknar af lífi, því þannig verða dyr himnaríkis þeim að eilífu lokaðar. Allt er gert til að berja andóf kvenna niður. Það er fjöldi lögregludeilda fyrir hin ýmsu brot. Brotin þurfa ekki að vera stórvægileg; ein kona var handtekin í brúðkaupsveislu vegna þess að hún hafði ekki hulið hár sitt nógu vel; önnur var dæmd í 13 ára fangelsi fyrir að teikna mynd af meðlimum þingsins í dýralíki og í framhaldinu var hún látin sæta rannsókn á meydómi sínum vegna þess að hún hafði snert karlkynslögfræðing með því að taka í höndina á honum; aðgerðasinnar sem hafa sýnt hina minnstu andstöðu á vefmiðlum hafa fengið allt að 10 ára fangelsisdóma fyrir vikið.
Íranskar konur hafa í rauninni aldrei beygt sig undir slíka kúgun. Vegna alls þess sem þær hafa þurft að þola, eru þær enn sterkari – það eru þær sem taka slaginn í mótmælum dagsins í dag. Þær vilja getað sleppt hári sínu lausu, verið frjálsar, klæðast þeim fötum sem þær vilja.

Þetta er saga Írans, hver einasta fjölskylda er tengd andspyrnuhreyfingunni að einhverju leyti, þess vegna verður að halda áfram. Í dag taka þær Elham og Elaheh þátt í starfi samtaka sem hefur aðsetur í París og nefnast The National Council of Resistance of Iran (NCRI). Þeim er stjórnað af konu að nafni Maryam Rajavi, sem sjálf var einn af leiðtogum andspyrnuhreyfingar stúdenta þegar byltingin átti sér stað og missti tvær systur sem teknar voru af lífi, önnur þeirra þá komin 8 mánuði á leið. Um 52% meðlima samtakana eru konur. Samtökin telja að aðskilja eigi ríki og kirkju/trú, að konur eigi að hafa jafnan rétt á við karla á öllum sviðum lífsins. Jafnrétti á að vera grunnur samfélags.

Á alþjóðadegi kvenna, þann 7. mars s.l. var haldin samkoma í Berlín sem titluð var: For Tolerance and Equality against Fundamentalism and Misogyny (ísl. Umburðarlyndi og jafnrétti gegn bókstafstrú og kvenhatri) og var styrkt af NCRI. Um 20.000 konur frá 40 löndum úr fimm álfum sóttu samkomuna. Aðalfyrirlesarinn var Maryam Rajavi þar sem hún sagði: „Í dag hvílir meginábyrgð til björgunar Miðausturlöndum frá hinni illu bókstafstrú á herðum kvenna. Í þeirri baráttu, er stærsta vopn þeirra, mikilvægasta hlutverkið og besta úrræðið, sú sterka samstaða sem er meðal þeirra.“ Að sama skapi virtust flestir fyrirlesarar vera á því að þessi samtök sem leidd eru af íranskri konu og berjast gegn bókstafstrú klerkanna í Teheran væru helsta von og eina lausnin sem raunhæft væri að styðja á lýðræðislegan hátt.

Að lokum
Bókstafstrú er vandamál heimsins alls segja Elham og Elaheh, ef hún verður ekki stöðvuð mun hún brátt vera við dyrnar hjá okkur. Það á ekki að gera neitt samkomulag við írönsku stjórnina án þess að krefjast þess að aftökur verði stöðvaðar. Af hverju lítur Evrópa framhjá þessu? Ísland getur og ætti að vera í fremstu línu og mótmæla kúgun og aftökum. Íslensk stjórnvöld halda því fram að Ísland sé svo lítið land og hafi því lítil áhrif, en það er ekki rétt – einhvers staðar þarf að byrja.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.