Hin frækna Jessica Jones

Höfundur: Karlotta Leósdóttir

jessicajonesJessica Jones er söguhetjan í samnefndri þáttaröð á Netflix. Hún er einkaspæjari og fyrrum ofurhetja sem býr yfir yfirnáttúrulegum styrk. Krysten Ritter, sem leikur Jessicu, er ekki hin staðlaða hollywood kynbomba og margt við útlit, stíl og jafnvel persónu Jessicu minnir óneitanlega á hina fræknu Lisbeth Salander úr sögum Stieg Larssons. Hún er töffari sem bjargar sér sjálf, er kuldaleg og geðstirð á köflum og á heildina litið mjög mannleg þrátt fyrir það að búa yfir ofurkröftum. Hún getur verið þver og þrjósk en er tilbúin að vaða eld og brennistein til að verja þá sem minna mega sín. Hún hefur gengið í gegnum ýmislegt erfitt í lífinu, bæði missi og misnotkun, og á það til að halla sér að flöskunni þegar álagið er mikið.

Aðalefni þáttanna er barátta Jessicu við hinn illa Kilgrave, sem hefur þann mátt að fá fólk til að gera það sem hann fyrirskipar með hugarorkunni einni. Baráttan við þennan óvin snýst um það að losna undan valdi hans og verja aðra fyrir honum. Kilgrave er maður sem er vanur því að geta valtað yfir fólk og fengið allt sem hann vill. Hann skipar konum að brosa og tekur þær með valdi. Þegar hann finnur að hann hefur ekki lengur vald yfir Jessicu vill hann allt gera til að vinna hana yfir á sitt band því hún er það eina sem honum tekst ekki að stjórna. Hann er hvíti forréttindakarlinn sem fær allt upp í hendurnar, misnotar vald sitt og þolir ekki ósigur.

Mikilvægasta sambandið í þáttunum er ekki ástarsamband milli karls og konu heldur sterk og góð vinátta Jessicu og vinkonu hennar, Trish, og maður hefur á tilfinningunni að þær geti sigrað allt ef þær standa saman. Þetta er frekar skemmtilegur vinkill. Að auki eru samkynhneigð sambönd eðlilegur hluti af þáttunum og leikaraval fjölbreytt hvað varðar kyn og kynþátt. Margar sterkar og fjölbreytilegar kvenpersónur koma fram og persónur af báðum kynjum eru vel úthugsaðar og nokkuð lausar við staðalímyndir. Kynferðislegt samband Jessicu við Luke er ekki haft þannig að konan sé óframfærin eða hlutlaus, eins og oft vill verða á skjánum, heldur er hún sýnd sem kona með kynferðislegar þarfir sem nýtur kynlífs og hikar ekki við að taka stjórnina. Í einum þættinum gerir Jessica líka grín að pari með barn og segir eitthvað á þá leið að sumir geri ekkert annað en að fjölga sér, sem gefur til kynna að hún hafi lítinn áhuga á barneignum. Það er skemmtileg tilbreyting frá þessari klassísku kvenpersónu sem undir niðri á alltaf að þrá að gifta sig og eignast börn. Ein persóna þáttanna fer í fóstureyðingu eftir að hafa verið misnotuð af Kilgrave og það ferli er alveg laust við fordæmingu eða sektarkennd, sem er jákvætt og undirstrikar enn og aftur að konan á að eiga líkama sinn sjálf.

Það er frábært að fá loks að sjá þáttaröð þar sem söguhetjan er sterk kvenkyns persóna og ekki er lögð áhersla á að hún sé „kvenleg“ og viðkvæm, eins og oft vill verða raunin þegar aðalpersónan er kona. Jessica er spennandi persóna með skemmtilegan karakter og það verður áhugavert að sjá hver hennar næstu verkefni verða. Við getum beðið spennt eftir næstu þáttaröð.

Ein athugasemd við “Hin frækna Jessica Jones

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.