Konan á seðlinum

margretbenedictssonSamantekt: Gísli Ásgeirsson

Þetta er kanadískur 100 dala seðill. Á hann hefur verið sett mynd af Margaret Benedictson. Nafnið hljómar mjög íslenskt og við eftirgrennslan kom margt í ljós. Hún fæddist 16. mars 1866 að Hrappsstöðum í Víðidal og hét Margrét Jónsdóttir þegar hún fór vestur um haf ásamt foreldrum sínum og fleiri Íslendingum árið 1877 og settist að í Norður-Dakóta. Hún lagði hart að sér til að geta stundað nám og var 2 ár í Bathgate College.

1881 flytur hún til Winnipeg og heldur þar áfram námi við Verslunarskóla bæjarins, lærði hraðritun, vélritun og bókhald og var virk með íslenska kvenfélaginu þar sem stóð fyrir leikritum og tombólum í fjáröflunarskyni til að styrkja stúlkur til náms.

Fjórum árum síðar flutti hún til Manitoba. Þá hét hún Margaret og tók upp eftirnafnið Benedictsson þegar hún giftist Sigfúsi Benediktssyni, þekktum rithöfundi, prentara og útgefanda. Hún gerðist öflug baráttukona fyrir jafnrétti og í febrúar 1893 hélt hún fyrsta fyrirlestur sinn um jafnrétti fyrir Vestur-Íslendinga í Manitoba og þeir áttu eftir að verða fleiri. Fyrirmynd hennar var Elizabeth Cady Stanton, fræg bandarísk kvenréttindakona.

Ásamt Sigfúsi stofnaði hún kvenréttindablaðið Freyju, sem kom út í tólf ár.

Freyja var fyrsta og einnig eina tímarit femínista í Kanada á þessum tíma. Margrét skrifaði mikið af femínískum greinum, samdi ljóð og þýddi sögur í tímaritið. Hún birti einnig þýðingar sínar í Almanak, sem gefið var út í Selkirk, en í því birtust þýðingar hennar á femínískum smásögum og grein um anarkisma sem er meðal fyrstu greina á íslensku um þá stjórnmálastefnu.

Margaret barðist fyrir því að konur hösluðu sér völl á vinnumarkaðnum en væru ekki bundnar við heimilisstörf. Í sögum sínum fjallaði hún um helstu áhugamál sín; mannréttindi, konur og ábyrgð þeirra og fátækt og talaði fyrir jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum. Hún virðist oft hafa skrifað undir karlmannsnafni þar sem hún hefur talið líklegra að meira mark yrði tekið á skrifum hennar ef lesendur teldu karlmann vera höfundinn.

Hún stofnaði Icelandic Women’s Suffrage Society í Winnipeg 1908 og varð fyrsti forseti félagsins. Útgáfu Freyju var hætt árið 1910 þegar ósætti Margrétar og Sigfúsar varð til þess að hann meinaði henni aðgang að prentvélunum. Í kjölfar þess skildu þau hjónin og Margaret flutti til Washington með börn þeirra. Þetta þótti djarflega gert af henni því skilnaðir voru nær óþekktir á þessum árum og var ferlið bæði flókið og dýrt.

Ævisaga Margrétar J. Benedictsson, Fyrsti vestur-íslenski femínistinn, eftir Björn Jónsson, var gefin út árið 2007.

freyjablað

Gaman væri að geta endað þessa stuttu samantekt á því að hrósa Kanadabúum fyrir að prýða 100 dala seðilinn með mynd af Margaret. Sú er þó ekki raunin, heldur er hún í hópi þeirra sem lagt er til að verði á seðlinum við næstu útgáfu. Hvort af því verður á eftir að koma í ljós.

Stuðst var við eftirtaldar heimildir en þar er margt fróðlegt að finna um Margréti Jónsdóttur, ævi hennar og störf í Kanada.

Gleymda súffragettan

Þrjár í hópi frumherja

„Hér gefur enginn mér kredit“ .

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.