Kæri Rúnar Helgi

Höfundar: Þóra Kristín Þórsdóttir og Kristín Jónsdóttir

Í Kjarnanum í fyrradag (27. jan) birtist eftir þig pistill undir heitinu “Útvistun uppeldis”, þar sem þú viðrar áhyggjur þínar af hlutverki stofnana í uppeldi íslenskra barna, sem þér finnst vera orðið svo veigamikið að þú jafnvel spyrð þig „hvort þessar stofnanir séu orðnar að eins konar munaðarleysingjahælum“.
Það er vissulega mikilvægt að móta stefnu og norm hvað varðar uppeldi og því getur verið gagnlegt að ræða það hvort of miklar kröfur séu gerðar til barna og það hvaða áhrif það hefur á börn að verja drjúgum hluta bernskunnar fjarri foreldrum. Það sem hins vegar stakk okkur var innskotið þegar þú ræðir hvers vegna fyrirkomulagið er, með hjálp jafnréttisbaráttunnar (sem færði okkur dagvistunarúrræðin sem nú standa til boða), orðið eins og raunin er:

Niðurstaðan er hins vegar sú að flestir foreldrar vinna fulla vinnu frá því barn verður eins árs eða svo; fæðingarorlofið bjargar fyrsta árinu. Og hvaða ástæða er oftast gefin? Jú, fólk hafi ekki efni á því að vera heima hjá börnunum, rétt eins og barnið sé ekki rétthærra en peningar.

Hér seturðu sökina á herðar foreldra, sem hreinlega meta börn sín ekki rétt og setja peningagildi ofar manngildi þegar að þeim kemur (og þar sem uppeldi barna er frekar ábyrgðarhluti kvenna en karla ertu óbeint að skamma konur fyrir þessa röngu forgangsröðun). Þar með líturðu framhjá, hvort sem er viljandi eða óviljandi (spurning hvort er verra), þeim veruleika sem íslenskir foreldrar búa við og ekki síst tregðu aðila vinnumarkaðarins til að aðlaga vinnumarkaðinn fjölskyldulífi, en þar liggur megin sökin.

Á Íslandi er nefnilega full vinnuvika 40 stundir. Hvað sem líður umræðu um sveigjanlegan vinnutíma og möguleika á að minnka við sig vinnu, er slíkt víða ekki í boði. Til að halda sama starfi eftir fæðingarorlof neyðist fólk því að vinna fulla vinnuviku. Þetta þarf ekki að vera svona, verkalýðsfélög og stjórnmálaöfl gætu og ættu að berjast fyrir styttri vinnuviku. Eins er skoðandi að fara að dæmi Svíþjóðar, sem sett hefur í lög að fólk með börn geti óskað eftir að færa sig úr 100% starfi í 80% starf í sama starfi á meðan börnin eru á ákveðnum aldri, án þess að lækka meira í launum en nemur skerðingu á starfshlutfalli. En veruleikinn er sem sagt þessi, auk þess sem laun eru almennt lág í samanburði við önnur lönd um leið og verð á húsnæði og mat er hátt, svo fjölskylda þarf helst tvær fyrirvinnur ef vel á að vera. Þessu væri líka hægt að breyta.

Children_games_Louvre_Ma99_n2

Börn í boltaleik. Rómversk lágmynd frá 2. öld e.Kr. (Louvre).

Þann 5. desember 2014 var skipaður starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála, en þar sem ekkert hefur frést af starfi hópsins, lagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður VG inn fyrirspurn til handa Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, einmitt nú fyrir skömmu.

Einnig er í gangi tilraunaverkefni með styttingu vinnuviku. Ríkið hefur skuldbundið sig til stofnunar starfshóps utan um slíkt verkefni, sem lesa má um hér, og Reykjavíkurborg hyggst kynna niðurstöður úr sínu tilraunaverkefni í lok febrúar, en það hófst í ársbyrjun 2015.

Það væri sannarlega frábært ef hérlendis hæfist almennileg umræða um útvistun uppeldis, áhrif hennar á börn (það eru til mýmargar rannsóknir á sviðinu sem þú getur kynnt þér) og það í hvernig samfélagi við viljum búa. En sú umræða verður aldrei vitræn nema við skoðum heildarmyndina. Að skella skuldinni á ranga forgangsröðun foreldra er hvorki vitrænt, sanngjarnt, né uppbyggilegt.

Deilimynd fengin héðan.

Ein athugasemd við “Kæri Rúnar Helgi

  1. „(og þar sem uppeldi barna er frekar ábyrgðarhluti kvenna en karla ertu óbeint að skamma konur fyrir þessa röngu forgangsröðun)“

    Ósköp eru höfundar fastir í staðalímyndum og kynjahlutverkum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.