„Hvar er gæludýrabúðin?“

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

*TW* Maður heitir Daryush Valizadeh og kallar sig Roosh V. Hann er rithöfundur og bloggari sem hefur sérhæft sig í kynlífsferðahandbókum þar sem hann kennir karlmönnum að komast yfir konur í ýmsum löndum. Þessar bækur eru núna fimmtán talsins og ein þeirra fjallar um Íslandsdvöl hans fyrir nokkrum árum. Í bókinni Bang Iceland segir hann affarasælast til kynlífs með íslenskum konum að ná þeim afsíðis og hella þær fullar. Þessi boðskapur féll í grýttan jarðveg hérlendis og var bókin kölluð leiðarvísir fyrir nauðgara. DV fjallaði mikið um Roosh og bókina haustið 2011 og með þessum tengli er vísað í þá umfjöllun. Roosh skrifaði marga pistla um veru sína á Íslandi og þá má lesa hér.
rooshmynd

Roosh sárnaði gagnrýnin á sínum tíma enda telur hann sig mann með heilbrigðar og hefðbundnar skoðanir á kynhlutverkum þar sem karlar eiga að vera stórir, sterkir og glæsilegir til að ganga betur í augun á konum. Helstu gildi kvenna að hans mati felast í útliti þeirra og undaneldishæfni, þeirra hlutverk er fyrst og fremst að þjóna karlmönnum og fullnægja hvötum þeirra, þær eru ílát til að losa í þegar svo ber undir. Þessi boðskapur er kunnuglegur þeim sem hafa lesið ritsafn Egils Einarssonar.

Roosh vill bæta samfélagið og gera það móttækilegra fyrir kenningum sínum og lífsviðhorfum. Honum þykir t.d. of mikið um nauðgunarkærur og hans lausn er að lögleiða allt sem fer fram í einkarými, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi, því slík lög myndu kenna konum að passa sig betur.

Roosh heldur úti vefsvæðinu Return of Kings þar sem er að finna stórt safn greina eftir hann og skoðanabræður hans. Þarna er að finna margan „fróðleiksmolann“ og eftir lestur á einum þeirra nægir að lesa fyrirsagnirnar á hinum. Gott dæmi er þessi: http://www.rooshv.com/women-must-have-their-behavior-and-decisions-controlled-by-men. Roosh og félagar hata femínista eins og glöggt má sjá á fyrirsögnum í viðamiklum greinaflokki. Helstu gallar femínista eru að vera á annarri skoðun en Roosh, henda gaman að viðhorfum hans og mótmæla útbreiðslu þeirra.

rooshvicelandauglýsing Roosh er Íslandsvinur samkvæmt skilgreiningum fjölmiðlafólks og á enn tengsl við landið. Þann 6. febrúar næstkomandi dregur víða til tíðinda eins og lesa má í fundarboði. Þá verða haldnir 165 fundir, samkomur eða hittingar í 43 löndum. Forsvarsmönnum funda hefur verið falið að bíða á tilteknum stað milli 20:00 og 20:20 en þangað eiga fundargestir að mæta. Í leiðbeiningum segir orðrétt:

„To identify your fellow tribesmen, ask the following question to a man you suspect is there for the meetup: “Do you know where I can find a pet shop?” If you are asked this question, answer in the affirmative: “Yes, it’s right here.” You can then introduce yourself and get details about where to proceed at 8:20. If you ask someone for the pet shop and they appear confused or actually try to direct you to a real pet shop, they’re not there for the meetup.“

Verður þú fyrir framan Hallgrímskirkju við styttu Leifs á laugardaginn? Veist þú hvar gæludýrabúðin er? Verður þú í hópi örfárra hræða sem norpa með sultardropa á nefi í febrúarfrostinu með það efst í huga að stofna alfakarlasamtök sem eiga að drottna yfir konum? Eða áttu þér líf og hefurðu kannski margt meira spennandi að gera á laugardagskvöldi?

2 athugasemdir við “„Hvar er gæludýrabúðin?“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.