Höfundur: Katrín Harðardóttir
Hótel Nordica, 20. janúar, 2016.
Í janúar boðuðu konur á Alþingi til þverpólitískrar samkundu til þess að ræða áframhaldandi baráttu íslenskra femínista. Alltof stór salurinn gaf til kynna bjartsýni skipuleggjenda en hún þarf nú ekki að koma á óvart eftir annað eins byltingarár. Það var sem sagt fámennt en góðmennt, og nokkuð víst er að snefil sé að finna af áhuga fyrir málefninu. Athygli vakti að auk kvenna úr öllum flokkum voru fundargestir á afar breiðu aldursbili, allt frá menntaskólastúlkum yfir í heldri borgara. Ekki þarf að koma á óvart að hægt var að telja karlmenn á fingrum annarrar handar.
Fundarstjóri hóf mál með því að benda á að nú þegar kerfisbreyting hin ytri hefur átt sér stað með viðhorfsbreytingu í samfélaginu sé komið að innri kerfisbreytingu, að við hefðum loks gert okkur grein fyrir því að þetta sé eilíf barátta, allra kynslóða og kynja. Hún nefndi að fengur væru í sér yngri konum, þær væru sterkari og að auki væru komnir samfélagsmiðlar sem efldu baráttuna.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Hjalti Vigfússon úr skipulagskjarna Druslugöngunnar stigu fyrst í pontu.
Upphafsorð þeirra minntu á mikilvægi eðli þessa fundar, að öryggi felist í fjöldanum og að aðeins með samtakamætti kvenna væri áframhaldandi barátta möguleg. Þau sögðu að læra mætti af dæmum síðasta árs, og greindu frá samanburði sem þau gerðu við Druslugönguna í Berlín, en hún er ekki jafn öflug og hér heima. Ástæðan er m.a. sú að þar var ekki tekið mið af fjölmenningunni sem þar er að finna. Í göngunni voru hvorki konur af öðrum uppruna en hvítum né úr ólíkum trúarbrögðum. Hér heima eru t.d Tabúkonur áberandi en frá upphafi göngunnar var lögð áhersla á ólíka hópa kvenna því íslensku Druslurnar eru meðvitaðar um að hvítar millistéttakonur njóta forréttinda. Því miður hefur Druslugöngunni ekki tekist að ná til karlkyns brotaþola þó að framlag Hallgríms Helgasonar til umræðunnar hafi vonandi hjálpað öðrum körlum að opna sig. En Salvör og Hjalti spurðu einnig um mömmurnar og ömmurnar, hvernig væri hægt að ná til þeirra?
Þær pólitísku breytingar sem þau kölluðu eftir eru:
-Bætt staða neyðarmóttökunnar
-Bætt menntun lögreglunnar og breyting á verkferlum sem farið er eftir, t.d. með styttri tíma
-Bætt eftirfylgni
-Stóraukin framlög til Stígamóta og annarra samtaka sem hlúa að brotaþolum
-Opinská umræða
–Afskrímslavæðing
-Fræðsla
Fræðsla og opinská umræða er eitthvað sem við getum öll tekið okkur í hendur, svona rétt á meðan stjórnmálamenn átta sig. Ofbeldið þrífist í þögninni og því ættum við að nýta tækifærið til þess að standa með þolanda því ofbeldislaust samfélag er ekki útópía. Að lokum sögðu Salvör og Hjalti frá #DRUSLUÁKALLINU og komu því áfram til viðstaddra stjórnmálakvenna, með von um að það myndi ná til allra stjórnmálamanna.
Iva Marín Abrichem kom fram fyrir hönd fatlaðra ungra femínista í TABÚ.
Skilgreining Ivu á femínista er manneskja sem berst fyrir jafnrétti óháð ytri aðstæðum. Hún sagði það ekki auðvelt að vera fötluð kona á Íslandi árið 2015. Í því sambandi minntist hún okkur á kröfugönguna í haust, þegar upp komst um kynferðislega misnotkun tveggja fatlaðra kvenna. Hún var sammála Salvöru og Hjalta um að ofbeldi þrífst vegna þöggunar í kerfinu og sagði hún jafnframt að ofbeldið þrífist í þeirri aðgreiningu sem fyrirfinnst í þessu sama kerfi. Í máli hennar kom fram að á þrjár af hverjum fjórum fötluðum konum verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Iva sagði almenna jafnréttisbaráttu gefa byr undir báða vængi. Fatlaðar konur eru ekki sýnilegar vegna skorts á aðgengi, aðhaldi og þjónustu. Fötlunin jaðarsetur en auk þess að vera fatlaðar tilheyra þær öðrum jaðarhópum, sumar eru til dæmis lesbíur. Yfirleitt eru „venjulegar“ konur í kastljósinu, fatlaðar konur eiga það til að gleymast, þær eru ósýnilegar. Í þessu sambandi vöktu athygli orð Ivu um að góðverk eiga það til að verða að fíkn og þá tekur við ómeðvituð forræðishyggja. Starfsmenn eiga það til að kæfa rödd fatlaðra í samfélaginu og afleiðingin er fórnarlambsvæðing fatlaðra sem aftur á móti leiðir til skertrar sjálfsmyndar.
Iva kallaði eftir almennri vitundarvakningu og aðstoð við fatlaða til þess að búa á eigin vegum, með notendastýrðri persónulegri aðstoð. Hún sagði það hafa verið mistök að færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna því afleiðingin hafi verið skert þjónusta.
Jafnframt nefndi hún að engar skýrar lagasetningar séu um þjónustuna, mikill munur sé á milli lítilla og stærri sveitarfélaga. Í samfélagi okkar sé mismunað á grundvelli fötlunar, fatlaðir sviptir mannlegri reisn. Það er eitthvað að samfélagi sem telur mannréttindi vera of dýr, þau eiga að vera sjálfsögð. En fatlaðir segir Iva vera „fighters“ og baráttan mun halda áfram.
Samkvæmt Ivu var sigur ársins 2015 loforð um fund með velferðarráðherra. Draumurinn er að við getum öll lifað með reisn og fyrsta skrefið í þá átt svo það verði að veruleika þurfa íslensk stjórnvöld að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk.
Næst í pontu var Kriselle Lou Suson Cagatin, sem kom fram fyrir hönd kvenna af erlendum uppruna, W.O.M.E.N.
„Í hópi innflytjenda er að finna fólk með ólíkan menningarbakgrunn og gildi, á Íslandi eru að minnsta kosti 22.000 mismunandi ástæður að baki búferlunum.“
Kriselle sagðist vera þakklát móður sinni sem ákvað að skilja og koma hingað fyrir 12 árum. Hún þurfti þó að berjast fyrir menntun sinni og fékk ekki ríkisborgarrétt fyrr en fyrir 4 árum. Hún leggur nú stund á nám í Jafnréttisfræðum auk þess að starfa sem aðstoðarkennari. Hún hefur starfað með innflytjendum, bæði við móðurmálskennslu og á Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Kriselle sagði að til þess að verða hluti af íslensku samfélaginu hjálpaði mikið að eignast vini hér á landi. Erfitt væri þó að rækta vinatengslin og nefndi hún að ef við sæjum hóp af fillipeyskum konum með mikil læti, væri það einfaldlega vegna þess að þær hafi ekki hist í langan tíma.
Mismununin er af ýmsum toga og minnti Kriselle á að birtingarmyndir mismunar skarast eins og Kimberly Crenshaw leiddi í ljós undir lok síðustu aldar. Sjálfmyndir okkar skarast og sú mismunun sem við verðum fyrir samtvinnast. Þess vegna þarf samfélagið að ávarpa þessar ólíku birtingarmyndir því eins og kom frá í erindinu á undan þá takmarkar flokkarskiptingin okkur.
Tungumálið sagði Kriselle skipta miklu máli. Það var einkar fróðlegt og viðeigandi á fundi sem þessum að heyra að í fillipeysku eru engin fornöfn sem lýsa kyni. Það getur vissulega gefið okkur sem ólumst upp með íslensku sem fyrsta mál nokkra hugmynd um það hvað Kriselle og vinir hennar þurfa meðal annars að takast á við á Íslandi.
Auðvitað sé frumkvæði einstaklinga mikilvægt en svo ólíkir einstaklingar geti þrifist í íslensku samfélagi þurfi meiri áherslu á fjöllbreytileikann.
Steinunn Ýr Einardóttir var síðasti ræðumaður í pontu en hún var ein af aðstandendum byltingum sumarsins, #konurtala, #þöggun og #outloud.
Steinunn Ýr sagði byltingu ekki spretta úr engu heldur vegna tímasprengju og að á síðasta ári hafi hún einfaldlega sprungið. Við séum nefnilega stödd á spengjusvæði.
Í kjölfar þessarra orða var spurning sem var afar viðeigandi:
Og hvar er áfallamiðstöðin?
Steinunn sagði það hafa verið sorglegt að fagna 100 árum kosningaréttar kvenna í skugga alls þess ofbeldis sem kom upp á yfirborðið í fyrra. Og eðlilega spurði hún:
Hvar er ofbeldisvarnarráð?
Upphafið sagði Steinunn vera núna. Starfsumhverfið sé breytt og að ekki sé hægt að horfa framhjá því kynferðisofbeldi sem á sér stað. Sem dæmi mætti nefna fjárskort samtakanna Sólstafa sem komst í fréttirnar fyrir jól. Sjálfsprottin samtök hafa skilað miklu meira til samfélagsins heldur en samanlagðir bitlingar sem þau hafa fengið í styrk. Hún kallaði eftir:
-Rannsóknum
-Fræðslu um mörkin á milli kynlífs og ofbeldis
-Sjálfstyrkingu kvenna
-Átaki til að uppræta kynferðislegt ofbeldi
-Að ofbeldið sé rannsakað og að það sé greint í tætlur
Í umræðunum að loknum erindunum kom fram margt áhugavert. Þær voru í formi spurninga sem lagðar voru fyrir ræðumenn sem svöruðu eftir bestu getu. Inntak erindanna endurspeglaði auðvitað umræðurnar en segja má að rauði þráðurinn hafi verið samstaða ólíkra hópa.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, tók fyrst til máls og nefndi að 60% þolenda í nauðgunarmálum eru undir lögaldri. Spurði hún um leiðir til þess að ná til þess hóps.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði stjórnmál ekki hafa gert nóg en að jarðvegur fyrir að fá þingmenn allra flokka væri til staðar og að dropinn holi steininn. Jafnframt spurði hún hvernig hægt væri að leggja af mörkum með lagasetningum og auka skilning innan kerfisins?
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir sagði vanta tölfræði um afdrif mála í kerfinu, tölur um niðurfellingar mála, sýknanir, sakfellingar o.sfr.
Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, 17 ára menntskælingur, kallaði eftir aukinni umræðu, t.d. um hvað kynferðisofbeldi sé. Hún spurði jafnframt hvort hægt sé að gera ráð fyrir því að fólk sé ekki gott og beiti ofbeldi í eigin hagsmunaskyni. Nefndi hún að enga fræðslu er að fá í grunnskólum og að alvarlegir trúnaðarbrestir eigi sér stað á milli nemenda og skóla.
Spurt var úr sal af hverju karlarnir væru ekki sýnilegri í baráttunni. Hjalti svaraði til að það sé ekki hlutverk kvenna að kenna körlum vegna þess að „feminismi er ekki mamma þín“.
Einnig kom fram að innan veggja skólanna beri enn til þeirrar tilhneigingar að segja að strákar verði alltaf strákar eða „boys will be boys“, og að þess vegna sé erfitt að ná til karlkyns brotaþola, til að mynda í Druslugöngunni.
Meðal annarra svara má nefna að til þess að gera betur við hina ólíku hópa kvenna í íslensku samfélagi er nauðsynlegt að koma á fót mannréttindaskrifstofum í hverju sveitarfélagi til þess auðvelda þeim að leita réttar síns.
María Rut Kristinsdóttir, embættismaður í þjálfun, kom með þær góðu fréttir að tölfræðin sé á leiðinni. Nú þegar hafa Hildur Fjóla Antonsdóttir og Sigríður Þorbjörg Gunnlaugsdóttur, með aðstoð Maríönnu Þórðardóttur, gefið út skýrslu um einkenni og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008-2009. Jafnframt er unnið að fleiri rannsóknum sem líta dagsins ljós á næstunni.
Það ríkti stríðsástand í fyrra og sprengjurnar hafa enn ekki hljóðnað. Af þinginu má læra að það vantar fjármagn, pening í fræðslu og forvarnir. Það á að virka, sbr. minni áfengisdrykkju unglinga eftir mikið forvarnarstarf síðustu tuttugu ára. Þá má spyrja sig að því hvort þær tölur sem Heiða Björg nefndi eigi ekki einungis við tilkynnt brot? Má þá ekki frekar segja að það þurfi að ná til eldra fólks, því ofbeldið þrífist í þögninni? Og er það ekki í krafti þessa eldra fólks að knýja fram þá innri kerfisbreytingu sem fundastjóri kallaði eftir? Sigríður Ingibjörg innti eftir lagabreytingum. Eftir því sem lögfræðingurinn Björg Valgeirsdóttir hefur sagt er meiri þörf á skilningi á kynferðisbrotum á meðal laganna varða heldur en nýjum lögum. Eða er kannski hægt að leggja upp frá því að ætlun fylgi gjörðum og ekki ganga út frá sakleysi heldur sekt þeirra sem fremja kynferðisbrot? Það er alla vega víst að viðhorfsbreytinga er þörf innan þessa kerfis. Ef ekki er gert ráð fyrir málaflokknum í fjárframlögum hvers árs er ekki að sjá að vilji sé fyrir hendi til þess að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi.
Það verður spennandi að sjá hvort viðstaddar þingkonur muni ná eyrum þingheims alls sem láti verkin tala. Hvað mun fara á milli velferðarráðherra og Ivu og Tabúkvenna? Og hvernig er það með þessa karla, geta þeir lagt baráttunni lið á forsendum kvenna? Af dræmri mætingu þeirra á fundinn er ekki að sjá að fyrir hendi sé mikill áhugi á því.
Deilimynd fengin af facebooksíðu atburðarins.
Skýringarmynd er fengin héðan.
Myndin af Audrey Lorde er fengin héðan.