Höfundar: Ása Fanney Gestsdóttir og Katrín Harðardóttir
Það er ekkert verið að skafa utan af því í leikritinu Old Bessastaðir sem frumsýnt var í Tjarnarbíói í gærkvöldi. Íslenski þjóðernisrembingurinn, óttinn við útlendinga, pólítískar tilraunir og almennur plebbaskapur er dreginn miskunnarlaust fram í dagsljósið. Ítrekað heyrast kunnuglegir og klisjukenndir frasar úr orðræðu dagsins, hugsað er í „heildrænum lausnum“, stöðugt er verið að „rýna til gagns“ og „ómaklega er vegið“ að hverjum þeim er dirfist að vera ósammála. Í verkinu eru pólítískar umbótatilraunir heimfærðar á hversdaginn með skúringum og þrifum og morðið á Sesar verður að lóguðum heimilisketti.
Þrjár konur eru staddar á eins konar verkstæði og ljóst er að mikið verk er fyrir höndum, það á að framkvæma, framkvæma, framkvæma. Til þess klæða þær sig í hlífðarfatnað og búa sig undir stórvirki. Það á að taka allt í gegn og byggja múra til að verjast utanaðkomandi hættum (Smáralind stendur í ljósum logum). Gildin eru það mikilvægasta sem starfið byggir á en eru stöðugt að breytast eftir hentugleik. Frelsið snýst jú um að að geta tekið spægipylsubrauð af næsta manni, er það ekki annars?
Aðgerðarhópurinn og áhorfendur þurfa að taka afstöðu til siðferðislegra spurninga. Hvað er vont eða gott fólk? Hverjir erum við og hverjir eru hinir? Svörin reynast hins vegar jafnhverful og gildin sjálf, undirstrikað af leikmyndinni, þar sem orðið „við“ snýst í hringi á stórum krossi. Persónurnar eru þversagnakenndar, undir stórkarlalegu yfirborðinu eru viðkvæmar sálir sem hafa orðið fyrir ofbeldi og eru hræddar, afskaplega hræddar. Fyrst og fremst vilja þær gegna alvöru hlutverki og vera einhvers virði. Þeim er umhugað um hina minnstu systur og bræður en aðeins ef það er „okkar fólk“. Viljinn til að vera góð systir er til staðar en þvingaður systrakærleikurinn fellur í valinn fyrir hlaupandi múgnum íklæddum píkubleikum íþróttafötum. Við sjáum minnstu og aumkunarverðustu systurina í meðförum Elmu Lísu Gunnarsdóttur verða að pópúlískum múgæsingamanni og lýðskrumara. Kristilegi kærleikurinn er afmyndaður á þann hátt að ef við réttum fram hinn vangann verður hann skorinn af, og hendurnar líka. Trúarhiti persónu Arndísar Hrannar Egilsdóttir nægir ekki til þess að bæla niður viðbjóðinn sem hún hefur á samferðafólki sínu. Markþjálfunar- og maraþonáhugamanneskjan sem leikin er af Maríu Hebu Þorkelsdóttur er undir niðri haldin sjúklegri söfnunaráráttu, heimili hennar er einn sorphaugur.
Leikkonurnar í leikstjórn Mörtu Nordal eru afar sannfærandi í hlutverkum sínum og vekja meðaumkun, samkennd og hlátur. Handritið kemur við kvikuna á íslenskri samfélagsumræðu og er ein samfelld ádeila á þjóðarsálina. Leikmynd og búningar eru einföld og skýr og endurspegla ofstopann í textanum á beinskeyttan og ótvíræðan hátt. Tónlistin er hrá eins og ljósanotkunin sem undirstrikar óöryggistilfinninguna þegar kastljósinu er beint að áhorfendum. Handritið varpar að sama skapi absúrd ljósi á veruleikann með nútímatilvísunum sem uppskáru ófá hlátrasköll. Alvaran er hins vegar ekki langt undan og enginn er óhultur, áhorfendur eru króaðir af í sóttkví og úðaðir með óræðu efni, barn er sótt í skarann um miðja nótt, leitt upp á svið og út úr myndinni. Yfirvofandi árásir „hinna“ eru stöðug hætta en „hinir“ sitja í salnum og fylgjast með sífellt öfgakenndari tilburðum kvennanna.
Sýningarsalur Tjarnarbíós er tilvalið umhverfi fyrir sýningu af þessu tagi, nálægðin er mikil og áhorfendur komast ekki hjá því að verða hluti af framvindunni. Knúzið hvetur til þess að láta ekki þessa sýningu fara framhjá sér en aðeins eru eftir þrjár sýningar.
Höfundur: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjórn: Marta Nordal
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Lýsing: Arnar Ingvarsson
Tónlist: Högni Egilsson
Leikkonur: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir