Gleymt er þá gleypt er – klámnotkun ungra karla

Höfundar: Alexandra Antevska og Nicolas Gavey
Þýðandi: Bára Jóhannesdóttir Guðrúnardóttir

Almennt er viðurkennt að klámnotkun ungra karlmanna sé orðin viðtekin venja. Talið er að klámefnið sem þeir horfa á sé að mestu leyti „hefðbundið gagnkynhneigt efni“, þar sem karlarnir ráða en hlutverk kvenna er að vera undirgefin viðföng þeirra.

Af hverju horfa menn á klám? Hvaða áhrif hefur það á þá? Hvernig samband er milli áhorfs á klám og væntinga til eigin kynlífs, og þá sérstaklega hvernig koma skal fram við konur? Þessum spurningum er erfitt að svara og þess vegna ákváðu rannsakendur að skoða hvernig karlmenn tala um klám og klámnotkun og skoða það út frá því hvernig kyn er félagslega mótað. Rannsakendur gengu ekki út frá þeirri skilgreiningu að klám væri slæmt, heldur vildu þau vita meira um hvaða klám er vinsælt og einnig vildu þau vita hvernig karlar nota klám.
Hvernig skilgreina karlar klám? Hvaða skilning leggja þeir í hvað sé klám? Finnst þeim klámneysla vera samlíkjanleg við hverja aðra neysluvöru? Þeir voru spurðir að því hvað  þeim þætti vera heillandi við klám. Þá var sérstaklega spurt um hluti eins og yfirráð karla (e. male dominance) og ofbeldi og hvort þeir sæju tengingu á milli þess hvernig konur væru niðurlægðar í því klámi sem rannsakendur létu fylgja með annars vegar og vandamála í sambandi við að ná jafnrétti fram hins vegar. Því er hægt að segja að rannsakendurnir hafi upplýst karlana um að þetta gæti verið hugmyndafræðileg úlfakreppa (e. ideological dilemma).

Karlmennirnir sem talað var við töldu eðlilegt fyrir karla að horfa á klám, og að klámefnið sem þeir horfðu á væri hefðbundið efni þótt einhverjir aðrir gætu mögulega kallað það öfgakennt. Einnig kom í ljós að þeir voru ekki vanir því að gera grein fyrir því hvað það væri við klám sem höfðaði til þeirra. Svo virðist sem karlmennirnir forðist að taka afstöðu til spurningarinnar um stöðu karla og kvenna innan klámsins. Þeir aftengi sig því tilfinningalega til að þurfa ekki að taka afstöðu til þess að klám gerir ráð fyrir yfirráðum karlmanna yfir líkömum kvenna, að konur innan þess sýni undirgefni og að þar viðgangist ofbeldi gagnvart konum.

Fræðifólk er sammála um tvennt

1) Notkun á klámi er almenn meðal karlmanna.

2) Meðal þess sem finnst í klámi er kvenfyrirlitning (e. sexism) og/eða kvenhatur (e. misogyny).

Rannsóknin

Rannsóknarspurningin var: Af hverju höfðar klám til þeirra? Rannsakendurnir lögðu upp með að fá karlmenn sem hefðu reynslu af klámnotkun og væru tilbúnir til að tala um það. Markmiðið með rannsókninni var að öðlast almennan skilning á klámnotkun karla en ekki aðeins þeirra sem tóku þátt í rannsókninni. Rannsakendur greindu hvað viðmælendurnir sögðu og hvernig þeir töluðu um klám en tóku því ekki sem persónulegri skoðun þátttakenda. Þannig var orðræðan í samfélaginu um klám og  almenna klámnotkun greind.

Greining gagnanna

Gengið var út frá þessum spurningum: Hvernig lýsir hópur ungra ný-sjálenskra karla klámi, aðdráttarafli klámefnis og neyslu þess. Hvernig ræða þeir um innihald, framleiðslu og notkun á hefðbundnu klámi í tengslum við valdahlutfall kynjanna innan þess og hvernig birtist kynjuð valdbeiting (e. gendered dominance) karla og undirgefni (e. submission) kvenna innan þess. Einnig voru þeir spurðir um ofbeldi í klámi.

Það var aðallega þrennt sem rannsakendurnir sáu við greiningu gagnanna: Í fyrsta lagi hversu eðlilegt það þótti að karlmenn horfi á og neyti kláms, hve fjölbreytt klámefni er í boði og hve auðvelt það er að nálgast efni sem viðmælendur kölluðu öfgakennt (e. extreme) og að þeir töluðu um það eins og þeir þekktu það ágætlega. Annað sem rannsakendurnir tóku eftir var að viðmælendurnir voru ekki vanir að þurfa að útskýra klámnotkun sína, höfðu ekki þurft að spá í eða útskýra hvað það er sem höfðar til þeirra í kláminu eða af hverju klám sé til yfir höfuð.  Útgangspunktur viðmælenda var: „klám er til og svona eru hlutirnir bara“. Þriðja atriðið var að þegar þeir voru spurðir óþægilegra spurninga um stöðu kvenna í klámi, um yfirráð karla og undirgefni kvenna í klámi og hvernig það seytlar inn í daglegt líf almennings – þá kom í ljós að þeir aftengdu sig frá því. Fimm viðmælendur viðurkenndu að hafa upplifað óþægindi við áhorf á klámi vegna kvenfyrirlitningarinnar sem fyrirfinnst í því.

Klám og neysla þess

Hvernig skilgreindu viðmælendur klám? Þeir notuðu orð á við „berar konur“, „hverskyns athafnir sem nýta kvenlíkamann“, „fallegt fólk að ríða“ og „menn og konur að ríða hlutum“. Flestir viðmælandanna skilgreindu klám á sambærilegan hátt og orðabókin gerir (OED Online, 2013). Flestir sögðust nota internetið til að afla sér efnis því þar væri auðvelt að nálgast það. Fjölbreytileiki efnisins er talsverður og sögðu viðmælendur að það væri erfitt að ganga fram af þeim. Þeir töluðu um klámið

Skyldi þessum körlum ganga vel að ræða klámneyslu sína og birtingarmynd kynjanna í klámefni?

Skyldi þessum körlum ganga vel að ræða klámneyslu sína og birtingarmynd kynjanna í klámefni?

og fjölbreytnina eins og hverja aðra vöru sem þeir kaupa og nota. Hér má skynja orðræðu nýfrjálshyggjunnar um framboð og eftirspurn og að alltaf þurfi að finna upp á nýjum hlutum því að annars verði neyslan leiðigjörn. Meðal viðmælendanna var neysla kláms talin eðlileg og þeir töldu að allir horfi á klám. Þeir tali um klám og grínist með það sín á milli (meðal karla). Þeir sögðu að stundum væri horft á það í hópum en oftast væri það gert í einrúmi og notað til að fróa sér yfir. Ekki er talið við hæfi að ræða klám af alvöru við annan karl og flestir viðmælendanna voru sammála um að klámefni væri að verða öfgakenndara. Þegar fólk fær leið á þessu gamla þá fær það sér bara nýtt og meira spennandi, aftur kom lögmál frjálsa markaðarins inn og þeir finna nýja leið til að víkka út sjóndeildarhringinn. Þannig eru athafnir eins og rass í munn (e. ATM) ekki taldar öfgakenndar heldur tilheyra hefðbundnu klámi.

Margir viðmælandanna höfðu horft á ofbeldisfullt klám en þeir töluðu oftar en ekki að þeir hefðu ekki sóst eftir því (vildu í raun ekki láta bendla sig við það), en þegar þeir sáu það hættu þeir ekki að horfa. Í einum hóp rannsóknarinnar voru karlmennirnir að ræða nauðgunaratriði almennt og einn karlanna sagði: „Ég sá, humm, atriði þar sem það voru fjórir á einni, þ.e. fjórir karlar á einni konu og þeir voru … einn var að berja konuna. Það virtist samt sem hún fílaði það, sem er skrítið.“ Eins og þessi tiltekni maður sagði þá þykir ekki eðlilegt að það sé ein kona á móti fjórum og að hún njóti þess að vera barin. Það var ekki eins og hann hafi verið að lofsyngja eða réttlæta það, heldur tók hann eftir því og setti það í orð. Getur verið að þetta segi til um hvernig ofbeldi innan klámiðnaðarins er réttlætt? Að þar sem það sé sýnt eins og þolandinn samþykki það verði mörk þess hvað sé raunverulegt og hvað sé leikið frekar óljós? Fyrir karlmann sem fróar sér yfir svona efni hlýtur að vera siðferðislega erfitt að spyrja sig hvort þetta sé alvöru eða ekki. Innan klámiðnaðarins er viðurkennt að konur verða fyrir ofbeldi í klámi og það þrífst í þeirri staðreynd að konurnar hafi sjálfar valið sér þessa vinnu. Þótt viðmælendurnir hafi ekki leitað sérstaklega eftir svona efni þá töldu þeir að upphaflegar óskir/langanir (e. preferences) og siðferðisleg mörk þeirra væru að verða óljósari.

Gert grein fyrir: af hverju heillar klám

Varðandi spurninguna um hvers vegna klám heillar, var áhugavert að heyra viðmælendurna segja að neysla kláms sé ekki eitthvað sem þeir ræða opinberlega. Dæma má af því hvernig þeir töluðu um klám að augljóst er að þeir hafa ekki þurft að verja neyslu sína. Aðspurðir sögðu karlarnir að „svona [væri] þetta bara“, og oftar en ekki hikuðu þeir við að svara. Klámið rennir stoðum undir þá trú þeirra að karlar séu graðari en konur. Þar sem þú getir ekki stundað kynlíf á hverjum degi þá sé klám ágætis viðbót. Einn viðmælandinn talaði um hvernig ungir karlmenn þjálfast í að horfa á klám, gangi alltaf lengra í áhorfinu og fari inn á slóðir sem þeir þekktu ekki áður. Þegar ungir drengir eldist þá sé þetta partur af þeirra tilveru og ef þér líkar ekki klám færðu á þig þann stimpil að þú sért hommi (en samkvæmt þeim er það neikvætt).

Hvernig þeir verja klámnotkun sína í tengslum við siðferði og jafnrétti kynjanna

Flestir viðmælenda voru sammála um að kynferðisleg yfirráð karlmanna væri ríkjandi í flestu því klámi sem þeir þekktu og að klámið væri búið til fyrir karla að horfa á, út frá þeirra sjónarhorni en ekki sjónarhorni kvenna. Ávallt þegar þetta umræðuefni kom upp, voru svör þeirra á þann veg að þetta væri nú ekki eitthvað sem þeir hefðu áhyggjur af eða tækju eftir. Þegar þeir svöruðu spurningum um yfirráð karla, tóku þeir á því með gríni og minnkuðu þannig alvarleika þess. Einnig gripu þeir til frjálshyggjurakanna, að fólk væri í klámiðnaðinum á eigin forsendum. Svo nefndu þeir að þetta væri ekki spurning um þeirra smekk (yfirráð karla) heldur væri þetta bara svona. Þannig urðu yfirráð karla að aukaatriði en rannsakendur halda því fram að yfirráð karla sé einmitt aðalatriðið.

Viðmælendur í þessari rannsókn litu á það sem sjálfsagðan hlut að klámið sé sett fram sem gagnkynhneigt og spurðu sig engra spurninga varðandi það – þetta er bara svona. Mennirnir tóku heldur ekki neina afstöðu til „money shot“ (brundur í andlit/líkama) eða annarrar hegðunar sem er talin dæmigerð fyrir klámið og hafa komist í gegnum lífið án þess að þurfa að taka afstöðu til þess. Einn viðmælandi sagði að það væri algeng fantasía kvenna að láta koma svona fram við sig þótt þær myndu ekki játa það. Hér var hann farinn að taka „eðlilega“ hegðun úr kláminu og spyrða það við „allar“ konur. Þannig að „money shot“ er eitthvað sem öllum konum likar við án þess að viðurkenna það – samkvæmt honum. Þarna hefur hegðun úr klámi seytlað inn í hið almenna rými. Í annarri rannsókn þar sem talað var við konur um klámnotkun þeirra (þær voru virkir áhorfendur) var talað um „money shot“ og þar kom í ljós að þeim fannst það ekki heillandi þegar karlinn fær það í andlit mótleikkonu sinnar, þær töldu það ógeðslegt og þessi athöfn minnti þær á það hver það er sem ræður (Parvez, 2006). Á Nýja Sjálandi, sem og annarsstaðar í heiminum, er klámnotkun ungra karla ekki aðeins normið heldur virðist það vera undanþegið gagnrýni þökk sé frjálshyggjulógíkinni um friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi.

Niðurlag

Viðmælendurnir töluðu um klám og hvernig það sýnir yfirráð karla og undirgefni kvenna sem normið og eitthvað sem ylli þeim engum áhyggjum. Það hvernig viðmælendur svöruðu spurningunum sýndi að þeir aftengja sig siðferðislegum sjónarmiðum og hugsa ekki um kynjapólitík þegar þeir eru horfa á klám. Það sýnir sig og að þeir hafa ekki haft tækifæri eða verkfæri til að hugsa/tala gagnrýnið um klám. Samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bretlandi, Svíþjóð og á Nýja-Sjálandi hefur klám seytlað meir og meir inn í daglegt líf almennings. Einnig virðist fjallað um karlmennsku líkt og hún sé skilgreind út frá klámi. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka hvernig karlmenn undanskilja sig frá siðfræðilega truflandi þáttum klámsins sem þeir horfa á. Þá er jafnframt mikilvægt að halda áfram rannsóknum og skoða hvernig karlmenn streitast við kvenfyrirlitningu og kvenhatri í klámi, og leita leiða til þess að draga gagnrýna athygli karlmanna að kynjuðum vandamálum klámsins.
Sama hvernig karlar réttlæta það fyrir sér að horfa á klám og samþykkja ofbeldið sem viðgengst þar gegn konum, þá megum við ekki gleyma að vera gagnrýnin og gefa drengjum og ungum körlum verkfærin til þess að vera það einnig.

Þessi þýðing er mjög stytt útgáfa af greininni ‘‘Out of Sight and Out of Mind’’: Detachment and Men’s Consumption of Male Sexual Dominance and Female Submission in Pornography, sem finna má hér gegn gjaldi.

Ein athugasemd við “Gleymt er þá gleypt er – klámnotkun ungra karla

  1. Bakvísun: Vandað klám – fyrir mig og börnin mín? | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.