Uppeldi drengja – gusa frá móður.

Höfundur: Julie Kaiser-Hansen Taylor

bíllívasaÉg spjallaði eitt sinn við mjög skynsama móður afar greinds sjö ára drengs. Hann átti erfitt með að sitja kyrr í kennslustundum en var hins vegar 3-4 árum á undan jafnöldrum sínum í stærðfræði. Kennarinn hafði ákveðið að drengurinn mætti valsa um stofuna að vild og sitja í gluggakistunni ef hann vildi. Hann var jú drengur og ekki er hægt að ætlast til þess af drengjum að þeir sitji kyrrir. Þetta fannst móðurinni slæm lausn og orðaði álit sitt svona: „Þegar hann byrjar í háskólanum er um seinan að kenna honum að hann megi ekki sitja úti í glugga og láta hugann reika að vild.“ Ég held að þessi drengur muni nýta hæfileika sína til fulls. Hann var líka ánægður drengur, sjálfsöruggur, viðmótsþýður en sanngjarn og hugulsamur. Hann var vel upp alinn í fjölskyldu sem vildi líka að kröfur væru til hans gerðar.

Hraðspólum nokkur ár áfram og ég hlusta á aðra móður annars drengs sem getur ekki heldur setið kyrr. Hann truflar alla í bekknum sínum, er sífellt skammaður, beitir stundum ofbeldi og er almennt upp á kant við bekkjarfélaga sína. Oft í viku brotnar hann niður í bekknum, grætur, stingur af eða felur sig. Móðir hans segir: „Hann er jú strákur.“ Önnur móðir segir í málamiðlunartóni að hún eigi líka tvo syni sem geti setið kyrrir í tímum, sýnt öðrum tillitssemi og geti hlýtt fyrirmælum sem beint er til hópsins. Þessu svarar móðir hins drengsins svona: „Já, en við getum ekki gert alla stráka að stelpum.“ Ef ríkjandi viðhorf heima fyrir eru á þá leið að maður sé stelpa ef maður uppfylli skilyrði um skólafærni, hvaða möguleika hefur maður þá ef maður er strákur? Er skólinn orðinn svona kvenlægur? Eða bregðumst við drengjunum með því að telja þeim trú um að þeir geti ekki tileinkað sér sömu félagsfærni og við ætlumst sjálfkrafa til af stelpunum?

Spólum tólf ár til baka. Ég er nýkomin heim eftir sex ára dvöl í London, veit ekki hvað ég vil og ræð mig því í afleysingar á frístundaheimili þar sem ég á að vinna sumarlangt með börnum í skólaaðlögun. Þetta er skóli úti á landi og öll börnin koma frá tveimur leikskólum. Greinilegur munur er á hegðun drengja eftir því hvaðan þeir koma. Enginn munur sést á stelpunum. Hinir starfsmennirnir segja mér að í öðrum leikskólanum hafi stefnan verið „boys will be boys“ og strákum leyft að leysa ágreiningsmál sín með slagsmálum og þeir hafi fengið að hafa allt eftir sínu höfði á leikvellinum án mikilla afskipta. Í hinum leikskólanum fór mikill tími í að kenna bæði drengjum og stúlkum að leysa ágreiningsmál og sýna samkennd. Strákarnir úr BWBB skólanum geta ekki tekið við hópfyrirmælum. Þeir eru síður búnir undir skólann en drengirnir úr hinum skólanum sem lærðu að einbeita sér, tjá tilfinningar sínar og virða hópinn og reglurnar.

Nú á ég tvö börn á skólaaldri og hef því undanfarinn áratug rekist á margs konar drengi. Það er næstum án undantekningar að þeir sem eru óöruggastir og skapa fyrir vikið flest vandamálin fyrir jafnaldrana, eiga foreldra sem skrifa vandamál þeirra á kyn en ekki vanlíðan. Ég skil það vel. Maður vorkennir svona barni og langar ekki að hugsa um að kannski beri maður einhverja ábyrgð á því. Kannski eru það kennarar og skólastarfsmenn sem trúa því að drengir fæðist til að vera ómögulegir. En þegar ofbeldiskennd, ögrandi, óróleg og tillitslaus framkoma er talin kynbundin, er um leið verið að segja að ekkert sé við því að gera. Maður lokar augunum fyrir merkjum um vanlíðan sem síðar á ævinni leiða til ofbeldisglæpa, sjálfsvíga og auðnuleysis. Fullorðnir verða að læra eðlileg félagsleg samskipti í æsku. Það þýðir að það á ekki að berja aðra, ekki einu sinni þegar maður er hrikalega reiður. Það þýðir að læra að maður er ekki miðdepill heimsins og að aðrir hafa líka þarfir og réttindi. Það þýðir að læra að axla ábyrgð, læra að bíða, miðla málum og þola vonbrigði. Að hægt er að vera drengur á margan hátt og meðan maður er góður við aðra, verður allt í lagi. Maður lærir að maður verður sjálfur að karlmanni þegar fram líða stundir. Það þarf ekki að sanna fyrir öðrum að maður „er ekki stelpa.“ Af því að maður lærir að líta ekki niður á hitt kynið og veit með vissu að maður ákveður sjálfur hvað það er að vera karlmaður.

Mitt áramótaheit fyrir hönd okkar allra er að við hættum að ofvernda og dekra drengi og sköpum svigrúm fyrir allar hliðar þeirra. Einkum þær hliðar persónuleika þeirra sem gera þeim kleift að verða að góðum fullorðnum mönnum sem þora að viðurkenna ótta og depurð, þora að biðja um hjálp þegar allt er í óefni. Pössum drengina okkar og berjum ekki allt fallegt úr þeim meðan þeir eru litlir. Það skiptir ekki máli hvort þeir hafa áhuga á fótbolta eða Minecraft, útsaumi, vélhjólum eða My Little Pony. Þeir verða samt að karlmönnum. Góðum karlmönnum.

Julie Kaiser-Hansen Taylor ritaði þetta á fésbókarsíðu sína í byrjun janúar og heimilaði Knuz.is að birta.

Ein athugasemd við “Uppeldi drengja – gusa frá móður.

  1. „Pössum drengina okkar og berjum ekki allt fallegt úr þeim meðan þeir eru litlir.“

    Sammála!

    Módel að fallegum dreng: Þægur, hljóðlátur, þolinmóður, tillitssamur, síglaður og lætur að stjórn. Þeir sem eru ekki þannig eru ljótir! Það sama gildir um stúlknamódelið nema þær koma yfirleitt fallegri úr kassanum. Önnur börn eru misheppnuð og foreldrarnir eru lélegir, skólarnir óhæfir, enda framtíðin ónýt. Skilaréttur fylgir ekki en það eru fáanlegar pillur og meðferð ef ekki næst að berja eða refsa í börnin fegurðina.

    Bestu kveðjur,
    Stepford Bio Inc.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.