Mæðraveldi, staðalímyndir og bull

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

leikskoliÍ dag er haldin ráðstefnan Karlar í yngri barna kennslu.. Þar segir í yfirskrift:

„Einungis 1% leikskólakennara eru karlkyns hér á landi.
Bæði stúlkur og drengir eiga skilið karlkyns fyrirmyndir.
Það tekur hugmyndina frá drengjum að líta á starf leikskólakennara sem framtíðarstarf þegar svo fáir karlkyns leikskólakennarar eru starfandi.“

Hörður Svavarsson leikskólastjóri fékk tíu mínútna viðtal á RÚV í tengslum við þessa ráðstefnu. Þrátt fyrir að stærsti vandi leikskólanna felist í of mörgum börnum í of litlu plássi í of langan tíma, eins og hann sagði sjálfur, væri brýnt að huga að þessum karlaskorti og ekki skorti hann skýringar. Leikskólar hafi verið mótaðir og þeim stýrt af konum og lögin um þá séu eftir konur. Það sé líka konum í stjórnunarstöðum á leikskólum að kenna hversu fáir karlar starfi þar og helst er á honum að skilja að „mæðraveldið“ haldi körlum markvisst frá starfinu.

Í viðtali í Fréttatímanum tekur Egill Óskarsson leikskólakennari í sama streng og segir: „Það er synd að karlmenn skuli missa af starfi sem veitir mikla gleði, aðeins vegna úreltra staðalímynda.“

Við þessar fullyrðingar þeirra félaga er ýmislegt að athuga.

 1. Mæðraveldi er ákveðin samfélagstegund þar sem konur eru leiðtogar og dætur taka við af mæðrum sínum. Hæpið er að skilgreina stofnun sem er háð ytra lagaumhverfi og fjárveitingum sem mæðraveldi nema öllu samfélaginu væri stjórnað af konum, hagsmunum þeirra og með kvenlægri nálgun. Leikskólar og grunnskólar eru háðir fjárveitingum og ákvörðunum ofar í kerfinu, sem karlar mótuðu á þeim forsendum að umönnunarstörf væru fyrir konur og bæri að launa sem slík. Hugsanlega lítur Hörður svo á að mæðraveldi felist í því að konur sjái um öll umönnunarstörf og stjórnunarstörf innan þess míkrósamfélags sem leikskólinn er, jafnvel þótt sú umsýsla sé að flestu leyti háð ytri aðstæðum sem þær hafa litla stjórn á. Það er ákaflega feðraveldislegt viðhorf.
 2. Bæði Hörður og Egill skauta fimlega fram hjá lágum launum og löngu námi, sem hlýtur að hafa áhrif á karlafæðina. Á liðnu vori útskrifuðust 16 með B.Ed próf í leikskólakennarafræði, 5 með M.Ed próf og 1 með diplóma. Allt konur. Engir karlar.
 3.  Ég leyfi mér að taka persónulegt dæmi: Ég er með B.Ed próf frá KHÍ og 22 ára kennslureynslu. Ég kenndi lengst af 7-12 ára börnum, einu sinni sex ára bekk. Mér þótti ákaflega gaman að kenna og það voru þung spor að ganga út úr skólanum haustið 1997 vegna þess að ég hafði ekki efni á þessu starfi lengur. Í mörg ár íhugaði ég að snúa aftur. En þá hringdi ég jafnan í launadeildina og fékk upplýsingar sem komu í veg fyrir það. Það er nefnilega ekki nóg að þykja gaman í vinnunni. Ánægja borgar ekki reikningana um mánaðamótin.

Ef ég færi aftur út á skólamarkaðinn hefði ég tvo kosti. Í grunnskóla fengi ég 465 þúsund á mánuði og um 319 þúsund útborgað.  Þetta eru skikkanleg laun sem starfsaldur og lífaldur ákveða. Nýliði eða skólaliði fengi snöggtum minna. Ef ég myndi sinna kallinu og ráða mig á leikskóla yrði ég leiðbeinandi A með 374 þúsund á mánuði  og 267 þúsund útborgað. Þ.e. ef „mæðraveldið“ myndi ráða mig til starfa. Til að verða fullgildur leikskólakennari þarf ég að bæta við mig nokkrum árum í skóla.

Ég vil gjarna að skólakerfið hafi á að skipa hæfu starfsfólki. Miklar kröfur eru gerðar til kennara á öllum skólastigum. Þá verða launin að vera í samræmi við það. Ég get ekki mælt með því við nokkurn mann að leggja á sig fimm ára háskólanám til að festast í láglaunastarfi. Ég hafna skýringum á borð við þær sem Hörður og Egill hafa hér á lofti. Það er eins og þeir séu að segja að þessi staða sé konum að kenna og stjórnun kvenna í leikskólunum. Það er frekar lélegt. Það er feðraveldið sem hefur hagsmuni af því að viðhalda þessum staðalímyndum, undirskipa konur og kvennastörf og útdeila launum á vinnumarkaði misjafnt eftir kynjum. Við skulum endilega sameinast um að jafna kynjahlutföll í skólakerfinu. Á réttum forsendum.

 Athugasemd höfundar: Á það hefur verið bent að ósanngjarnt sé að setja Egil og Hörð undir sama hatt eins og hér er gert. Það er bæði ljúft og skylt að leiðrétta það. Hafa skal það sem sannara reynist. Höfundur stendur að öðru leyti við framsettar fullyrðingar. Egill hefur einnig svarað þessari grein hér:

5 athugasemdir við “Mæðraveldi, staðalímyndir og bull

 1. Grunnskólarfyrirkomulagið er upprunnið í gegnum „karlaveldið“. Karlar sáu löngum um alla kennslu, og lauk skólagöngu flestra karla og nær allra kvenna við fermingu.

  „Karlaveldið“ hefur að því virðist alltaf úthýzt flestu því sem kemur að leikskólum og forskólauppeldi til „kvennaveldisins“. Því er höfundur með bakgrunn við kennslu í grunnskóla, þar sem hann kaus að hætta vegna lágra launa, í takmarkaðri stöðu til þess að gagnrýna einstaklinga, sem sannarlega vinna í leikskóla, fyrir að segja frá upplifun sinni þar. Og auðvitað spila launin inn í, en með þeim forsendum sem greinarhöfundur (sem hefur aldrei starfað í greininni) beitir til þess að hafna algjörlega (orðum tveggja karla sem starfa í greininni) að eitthvað annað en lág laun geti haft áhrif á starfsval karla, vegna þess að samrýmist ekki þeirri hugmyndafræði hans að konur geti mótað samfélagið og séu fyrir vikið ekki óvirk fórnarlömb feðraveldisins í einu og ollu; og þar að leiðandi, að „örsamfélag“ þar sem konur hafi ráðið ferðinni, henti ekki endilega hinum helmingi mannkyns.

  Þöggun?

 2. Hmm mér sýnist þú ekki hafa nálægt því nægjanlega þekkingu á þessu máli til að birta um það grein á internetinu. Ég sat þessa ráðstefnu og hlustaði á langar tölur frá bæði Herði og Agli og hvorugur þeirra „skautaði framhjá“ þeirri staðreynd að lág laun séu hluti af vandamálinu. Hinsvegar verður einfaldlega að viðurkenna að launin útskýra 99-1% kynjaskiptingu ekki nema að litlu leyti. Í fyrsta lagi eru laun grunnskólakennara þau sömu og kollega þeirra í leikskóla en samt eru margfalt fleiri strákar sem sækja í kennslu þar. Í öðru lagi hafa nágrannalönd okkar, einkum Noregur og Danmörk, farið í markvissa vinnu við að fjölga karlmönnum í leikskólastarfi með góðum árangri en það hafðist án þess að hækka launin. Svo má alveg bæta við að hugmyndin um að karlmenn forðist illa launuð störf er einfaldlega röng, það eru til fullt af illa launuðum „karlastörfum“ sem krefjast menntunar (t.d. listgreinar, kennslustörf, blaðamennska).

  Það gera sér allir grein fyrir því að karlafæð í stjórnunarstöðum leikskólanna sé aðallega vegna fárra karla með gráður í leikskólakennarafræðum. Spurningin er hinsvegar hversvegna svo fáir ungir menn leiti í þetta nám til að byrja með. Þar er einfaldlega ekki hægt að líta framhjá þeim hefðum sem myndast hafa í kringum þennan geira (á ráðstefnunni var mikið talað um Bordieu og habitus í þessu samhengi).

  Ég skal vera sammála þér í því að orðið „mæðraveldi“ er óheppilegt, einkum vegna þess að það býður upp á „gagnrýni“ eins og þá sem þú birtir hér að ofan. Hinsvegar þarf að gera sér grein fyrir því að þetta kerfi er algjörlega teiknað upp í kringum konur og þeir fáu karlmenn sem koma þar inn finna mjög vel fyrir því að þeir skeri sig úr. Vissulega er það upphaflega tilkomið vegna feðraveldishugmynda um „barnagæslu og ummönnun“ sem kvennastörf, en það er bara ekki það eina sem skiptir hér máli. Leikskólinn er nú svo gott sem fullviðurkenndur sem fyrsta skólastigið og starfsmenn hans teljast kennarar. Því er fátt sem réttætir þessa „kvenlægni“ sem enn loðir við hann. Gerum okkur grein fyrir því að tilkoma karlmanna inn á vinnustaði sem hingað til hafa aðeins verið skipaði konum mun þurfa að fela í sér breytingu á menningu þeirra (sem og samfélagsins í heild), ekkert síður en þegar konur koma inn á karlavinnustaði.

  • Eins og sést þegar greinin er lesin, er hún rituð áður en ráðstefnan hófst og miðast við viðtöl við Hörð og Egil í blöðum. Ég efa ekki að innlegg þeirra á ráðstefnunni hafa verið öllu ítarlegri en þessi stuttu blaðaviðtöl, þar sem hvergi var minnst á launin. Það þótti mér nógu mikið tilefni til að drepa fingrum á lyklaborð. Mínar forsendur til að fjalla um skólakerfið eru 22 ára starfsreynsla í fimm skólum. Kv. Gísli.

   • Það er reyndar ekki rétt að ég hafi ekki minnst á launin:

    „Egill er ekki viss um að fjölgun karla í stéttinni myndi hafa áhrif á launin, aðrar kennarastéttir þar sem fleiri karlmenn séu til staðar séu ekki með glimrandi hærri laun en leikskólakennarar.“

    Ég var spurður hvort ég héldi að launin myndu hækka ef fleiri karlar kæmu inn í stéttina. Það var eina spurningin sem ég fékk í þessu stutta símaviðtali sem tengdist launum. Og ég benti á að kynjahlutföllin séu betri í öðrum stéttum með sambærileg laun. Það bendir til þess að aðrir þættir spila allavega jafn mikla rullu, og líklega meiri, heldur en þau.

 3. Bakvísun: Karlar í kennslu yngri barna | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.