Karlar í kennslu yngri barna

Höfundur: Egill Óskarsson

leikskolivopnÁ föstudaginn síðasta birtist hér á Knúzinu pistill þar sem ég kem við sögu. Tilefnið er viðtal við mig sem birtist í síðasta Fréttatíma, um það hversu fáir karlar eru í stétt leikskólakennara. Gísli Ásgeirsson skrifar pistilinn og segir mig annars vegar skauta framhjá því að laun og lengd náms hafi áhrif á það hversu fáir karlar eru í stéttinni og hinsvegar að ég virðist segja að staðan sé konum og kvenstjórnendum að kenna. Ástæðan fyrir því að ég var í þessu viðtali í Fréttatímanum er ráðstefna sem haldin var á föstudaginn, Karlar í kennslu yngri barna – Hvað ætlar þú að gera? Hún fjallaði um þetta málefni, hversu fáir karlar eru í stéttinni, af hverju þeir eru svona fáir og hvað við getum gert til þess að breyta stöðunni.

Ég var einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar og var einnig fenginn til þess að halda erindi á henni. Það þótt við hæfi þar sem ég er einn af eina prósentinu. Karlar með leyfisbréf sem leikskólakennarar eru 1% af félagsmönnum í Félagi leikskólakennara. Ég hef starfað í leikskóla í rúm 11 ár, verið leikskólakennari í fimm ár og er einnig með MA gráðu í menntavísindum. Í dag er ég deildarstjóri í 68 barna leikskóla í Kópavogi. Ég er líka stofnmeðlimur í SKÁL, Samráðshópi karlkennara í leikskólum. Í erindinu fjallaði ég um mína leið inn í stéttina, mína upplifun af því viðmóti og þeim móttökum sem ég hef fengið, mínar hugmyndir um af hverju við karlarnir erum jafn fáir og raun ber vitni og hvað ég held að þurfi að breytast til þess að okkur fjölgi.

Gísli hefur viðurkennt að hafa haft mig fyrir rangri sök og beðist afsökunar og því er engin ástæða til þess að velta sér meira upp úr því máli öllu saman. Mig langar hinsvegar að nýta tækifærið og fjalla nánar um mínar skoðanir á þessu málefni, og þakka Knúzinu kærlega fyrir tækifærið til þess. Ástæðurnar fyrir stöðunni sem nú er uppi eru nokkrar að mínu mati, en margar tengjast þær beint eða óbeint staðalímyndum og kyngervum.

Ég get nefnt sem dæmi um þetta að ég sjálfur þurfti að svara allt öðruvísi spurningum eftir að ég ákvað að fara í leikskólakennaranámið en ef ég hefði farið í t.d. lögfræði eða tæknifræði. Ég þurfti í raun að verja þessa ákvörðun, og þá ekki bara gagnvart öðrum heldur þurfti ég að ákveðnu leyti að gera það gagnvart sjálfum mér líka. Spurningarnar sem ég fékk voru af öllu tagi. Þær furðulegustu voru án nokkurs vafa þær hvort ég nyti ekki aukinnar kvenhylli eftir að ég fór í námið. Eitthvað sem ég kannaðist nú ekki alveg við. Ég veit líka að einhverjir veltu því fyrir sér hvort að ég væri hommi. Það truflaði mig ekkert en ég skildi ekki af hverju fólk velti því fyrir sér fyrr en ég komst að því að þetta er algeng staðalímynd um karla í „kvennastörfum“.  Og jú, ég var líka mikið spurður um launin, blessuð launin.

Launin eru auðvitað ein af ástæðunum fyrir því hversu fáir karlar eru í stéttinni. Þau eru reyndar sjálfsagt ástæða fyrir því að það er skortur á leikskólakennurum yfirhöfuð. Við erum langt frá því að uppfylla lög um lágmarkshlutfall leikskólakennara í leikskólum yfir landið. En ég skal segja ykkur leyndarmál. Launin eru ekki jafn hræðileg og margir virðast halda. Nú verð ég seinastur til þess að afþakka hærri laun og miðað við aðrar stéttir með sambærilegt nám að baki og ábyrgðina sem við berum ættu þau auðvitað að vera hærri, en þau eru samt ekki jafn slæm og margir virðast halda. Við erum frá þarsíðustu kjarasamningum komin á sama stað og grunnskólakennarar. Og þar er hlutfall karla talsvert betra en hjá okkur í leikskólunum, þannig að fleira hlýtur að liggja að baki því hversu fáir við karlarnir erum. Það sama gildir um lengd námsins. Það hefur líka áhrif, en þó að karlar í grunnskólakennaranáminu séu alltof fáir, þá eru þeir miklu fleiri en karlarnir sem fara í leikskólakennarann. Samt er námið jafn langt og launin svo gott sem þau sömu.

Og af hverju ættu launin frekar að hafa áhrif á karla en konur? Er það ekki dæmi um hugmyndir um stöðu kynjanna sem við viljum breyta? Svona staðalímyndir hafa áhrif á stöðuna í dag. Annað dæmi sem ég get nefnt um það er að ég held að staðalímyndin af ungum körlum í leikskólum hafi líka letjandi áhrif á einhverja að fara að lokum í námið. Það vill nefnilega brenna við að ungu karlarnir sem starfa sem leiðbeinendur detti strax í hlutverk hressa gæjans, þessa sem er bara mest í því að spila fótbolta við börnin  og í ærslaleikjum. Þeim er, oftast ómeðvitað, pínu ýtt inn ákveðið box. Og í þessu boxi kynnast þeir lítið þeim hliðum starfsins sem helst laða fólk að því að fara í námið og leggja starfið fyrir sig til frambúðar. Það var faglegi þátturinn sem varð til þess að ég gerðist leikskólakennari. Ef ég hefði ekki fengið að kynnast honum er ólíklegt að ég væri þar sem ég er í dag.

Það eru hlutir sem gerast bæði innan og utan leikskólana sem þurfa að breytast til þess að laga stöðuna. Við þurfum að ná að breyta þessum staðalímyndum um að starf leikskólakennara sé á einhvern hátt „kvennastarf“. Við þurfum að sýna fólki að við karlarnir erum alveg jafn góðir í því að búa börnum umhverfi og tækifæri til þess að efla þroska sinn og færni. Að við séum alveg jafn góðir í því að veita þeim góða og nærandi umönnun.

Innan leikskólanna þurfum við að taka vel á móti þeim körlum sem koma til starfa. Menningin innan leikskóla mótast m.a. af því að í gegnum tíðina hafa nánast eingöngu konur sinnt starfinu. Fyrstu karlarnir útskrifuðust sem leikskólakennarar 1983, 10 árum eftir að körlum var yfirhöfuð leyft að fara í námið. Það hefur auðvitað áhrif, á nákvæmlega sama hátt og það hefur reynst barátta fyrir konur að koma sér inn í stéttir sem karlar hafa mótað frá upphafi. Við þurfum að taka vel á móti ungu körlunum sem koma til starfa. Við þurfum að leyfa þeim að taka þátt í faglega starfinu og fá aukna ábyrgð. Við þurfum líka að vera meðvituð um að þeir eiga ekki að upplifa óþægindi vegna umræðunnar í kaffistofunni frekar en konur sem starfa á stöðum þar sem karlar eru í meirihluta.

Við þurfum að gera eitthvað. Við þurfum fleiri karla í leikskólana. Ekki bara barnanna vegna, þó að auðvitað nytu þau góðs af fleira fagfólki og meiri fjölbreytni. Heldur líka karlanna sjálfra vegna. Þetta er frábært starf. Það er ótrúlega gefandi að vinna með ungum börnum, að fá að upplifa með þeim alla sigrana þegar þau ná tökum á nýrri færni og sjá þau þroskast og dafna. Fag- og fræðaheimurinn að baki starfinu er líka stórmerkilegur og í sífelldri þróun og það er lifandi fagleg deigla hér á landi. Ég er ofboðslega ánægður með starfið mitt og þess vegna finnst mér ömurlegt að hópur sem telur um helming þjóðarinnar virðist fara á mis við það vegna ástæðna sem ekki bara er hægt að breyta, heldur hreinlega á að breyta.

Hér hef ég farið yfir brot af því sem ég fjallaði um í erindi mínu á ráðstefnunni á föstudaginn. Ráðstefnan var tekin upp og fyrir áhugasama er hér erindi mitt í heild.

Egill Óskarsson from Samband islenskra

2 athugasemdir við “Karlar í kennslu yngri barna

  1. Bakvísun: Mæðraveldi, staðalímyndir og bull | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: Egill þurfti að verja ákvörðun sína um leikskólakennaranám: „Einhverjir veltu því fyrir sér hvort að ég væri hommi“ - DV

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.