Dulsmál hin nýju – Tillaga að orðnotkun.

Höfundur: Ásdís Thoroddsen

images-2Undanfarin misseri hafa hrannast á fjölmiðlana sögur af kynferðisbrotum sem haldið hefur verið leyndum í mislangan tíma. Það er eins og verið sé að lofta út sársaukanum úr leyndum kimum samfélags og einstaklinga. Þörf hreinsun og fagna flestir.

Kynferðisbrot er óþjált orð. Undirritaðri datt í hug hvort hægt væri að nota gamla orðið dulsmál um hin leyndu afbrot, kynferðisbrotin.

Orðið dulsmál var mikið notað á 17. og 18. öld til að ræða refsiverða kynlífshegðun og þá ekki síst barnsfæðingar utan hjónabands og ungbarnadráp ógiftra mæðra sem eignuðust börn í leynum, en yfir þeim vofði refsing, jafnvel dauðarefsing ella. Uppvíst varð um útburð á óskilgetnu barni nær þriðja hvert ár að jafnaði á tímabilinu 1600-1900. Nægði til sakfellingar ef barn fæddist látið og giltu þau lagaákvæði fram á 19. öld. Refsingar voru grimmilegar og síðasta aftaka fyrir dulsmál fór fram árið 1792.  Elstu dæmi um notkun á orðinu í Orðabók Háskólans Íslands eru frá 17. öld.

Orðabókin talar annars vegar um dulsmál sem „launung og leynd“ og hins vegar sem „barnsfæðingu á laun.“ Inga Huld Hákonardóttir heitin sagði í öndvegisritinu „Fjarri hlýju hjónasængur“ að orðið væri þýðing úr dönsku, frá dølgsmål en sögnin dølge þýðir að leyna ef marka má Ingu Huld.

images-1Ég legg til að taka aftur upp orðið dulsmál en þá í víðari merkingu sem leynd í kringum kynferðismál. Dulsmálabörn eru færri nú en á tíma Stóradóms, en nóg er af leyndarmálunum ennþá þótt það sé von mín og trú að þeim muni fara fækkandi.

 

2 athugasemdir við “Dulsmál hin nýju – Tillaga að orðnotkun.

  1. Mér finnst þetta fín pæling og þarft og gott að minnast þeirra sem liðu undan harkalegri kynlífspólitiík fyrri alda. Hins vegar er eitthvað sem stuðar mig við að þetta fallega orð sé notað yfir kynferðisbrot nútímans sem dregin eru fram úr þagnarhylnum. Í dag er verið að tala um þá sem beittir voru margs konar kynferðisofbeldi og gerendur ofbeldisins. Í eldri dulsmálum var ekki endilega um brot einstaklings gegn öðrum einstaklingi að ræða samkvæmt okkar skilningi í dag, heldur regluverk samfélags um hvenær kynlíf yfirhöfuð var samþykkt og hvenær ekki, en í stuttu máli nær titill bókar Ingu Huldar vel yfir það: Fjarri hlýju hjónasængur. Skilgreiningin á „löglegu“ kynlífi var afar þröng, aðeins kynlíf innan hjónabands var samþykkt skv regluverkinu en heimildin til að ganga í hjónaband líka þröng. Jafnvel elskendur sem gengu gegn þessu regluverki sættu refsingum. Eðlilega má álykta að í eldri dulsmálum hafi verið mikið um brot, sifjaspell og misneytingu. Hinir seku þá voru alltaf konurnar og stundum karlarnir líka, sem einnig voru nokkurs konar fórnarlömb regluverksins., eignalausir, jarðnæðislausir karlar sem ekki máttu giftast. Það er þessi eðlismunur á merkingu hugtaksins dulsmál og kynferðisbrotum nútímans sem að mínu viti gerir að verkum að ég get ekki fellt mig við að við breytum merkingu hugtaksins dulsmál til að það sé tækt í umræðum kynferðisbrot í dag.

  2. Slæm tillaga sem eykur bara þá röngu tilfinningu illa menntaðra Íslendinga, að það sem sé „dulið“, þ.e.a.s. óþekkt, sé að öllum líkindum slæmt, sem er forheimskandi tilfinning sem er orsök sjálfskapaðrar fáfræði og beturvitringahátts, sem og fordóma og ofsókna. Orðið er líka full ljóðrænt og fallegt, og ég tel ekki að neinn kunnur þessum málum af eigin reynslu eða sinna myndi velja slíkt orð yfir mannlegan hrylling.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.