Höfundur: Katrín Harðardóttir
Í liðinni viku fór undirrituð á fyrirlestur Marciu Allison, doktorsnema frá Annenberg School for Communication and Journalism, University of Southern California. Fyrirlesturinn, sem var á vegum Málfræðifélagsins, hét G“hen”der Neutral: (Post)- Feminism, Feminist Language Planning, and Gender Neutrality, og eins og titillinn ber með sér fjallaði Marcia um (síð-)femínisma, femíníska málstýringu og kynhlutleysi í tungumálinu með sérstakri hliðsjón af sænska fornafninu hen.
Það er skemmst frá því að segja að fyrirlesturinn var kærkomin búbót í umræðuna um kynjaslagsíðu tungumálsins. Lesendum Knúzzins er kunnugt um fornafnið hán í íslensku og hvaðan fyrirmyndin kemur, en í fyrri hluta fyrirlestrarins hóf Allison mál sitt á sögu fornafnsins og stöðu þess innan Sænsku Akademíunnar. Fyrst var stungið upp á fornafninu árið 1966 af málvísindamanninum Rolf Dunås, og svo aftur 1994 af öðrum málvísindamanni, Hans Karlgren, í báðum tilvikum með vísun í finnska persónufornafnið hän, en finnska tungumálið hefur engin málfræðileg kyn. Staða fornafnsins í dag er góð,
það er talið til nýyrða og öll helstu dagblöð nota það. Sænska tungumálaráðið hefur ekki gefið út sérstaka forskrift fyrir notkun hen, en mælir með því að það sé hens í eignarfallsbeygingu og hen í andlagi frekar en henom sem hefur sést notað. Hen er aðallega notað á tvennan hátt: til að forðast flokkun í kyn (kk eða kvk) eða sem vísun í transkynja einstaklinga, sem skilgreina sig af þriðja kyni eða hafna skilgreiningu hefðbundinna kynhlutverka af hugsjón, þar á meðal hinsegin skilgreininga.
Femínísk málstýring sprettur úr 2. bylgju femínísma og á ættir að rekja til hins enskumælandi heims við Atlantshaf. Til þess að leiða áhugasama um kjörlendur gúgglsins má benda á hugtak Debru Schweikart „pseudo-generic“ sem undirrituð fjallar um hér, Man-made language hennar Dale Spender og Janet Hyde um kynjahlutleysi á leikskólum en áhugavert er að hlutlaust mál fékk sinn fyrsta stuðning einmitt frá leikskólum og kennslu yngstu barna. Í seinni hluta fyrirlestrarins var fjallað um sænsk nýyrði og tengt við hugræna táknfræði.
Marcia nálgast umræðuefnið út frá síð-femínískum kenningum sem einnig kallast 4. bylgju femínismi eða svartur femínismi/samtvinnun mismunabreyta (intersectionality) og er andsvar við 2. bylgjunni sem hefur verið gagnrýnd fyrir að einblína um of á stöðu hvítra millistéttakvenna. Síðfeminisminn tekur þannig til allra minnihlutahópa og gagnrýnir tví- og eðlishyggju eldri kynslóða. Hugmyndirnar ná því til allra, hvað sem líður lit, þjóðfélagsstöðu, kyni og kynáttun. Marcia leggur áherslu á mikilvægi þjóðfélagslegra breytinga og áhrifa þeirra á tungumálið, svona eins og þegar Vigdís varð forseti og ákveðið var að sleppa samsvörun fornafna og nafnorða, allt í einu mátti segja hún forsetinn. Marcia tekur Ensku Oxford orðabókina sem dæmi um öll þau nýju orð og hugtök sem innleidd hafa verið á síðustu árum. Þau gefa okkur hugmynd um þær breytingar sem eiga sér stað og má hér að ofan sjá eitt nærtækt dæmi sem fengið er úr íslenskri orðabók, kynáttun.
Í fyrra var hen bætt við Sænsku orðabókina, „Svenska Akademiens ordlista“ (SAOL). Þrátt fyrir áhyggjur sumra femínista um að fornafnið komi í veg fyrir kynhlutleysi heldur Marcia því fram að orðið sé jákvætt skref í átt til jafnræðis því það dragi úr tvíhyggju orðræðunnar sem er að finna í fornöfnunum. Hún fylgir því Susan Bordo og Lynn Hornsceidt að málum, en til þess að glöggva sig á þessari deilu má byrja á þessari grein. Samkvæmt Marciu veikir hen táknmið kynjaðra fornafna, ríkjandi heterónormatíska orðræðu sem er innbyggð í tungumálið. Aukin notkun og viðurkenning á orðinu í opinberum gögnum, t.d. í dómsgögnum, stefnum flokka og á leikskólum, dregur því ekki aðeins úr mismunun heldur eykur kynjajafnrétti um gervalla Svíþjóð.
Áhugaverður vinkill á femínískri málstýringu kemur frá Robin Lakoff og hugrænni táknfræði, en hugræn fræði má lesa um í Ritinu, 3/12. Í bókinni The Language War leggur Lakoff út frá því að tungumál og vald séu tengd órjúfanlegum böndum:
„And since so much of our cognitive capacity is achieved via language, control of language—the determination of what words mean, who can use what forms of language to what effects in which settings—is power. Hence the struggles I am discussing in this book are not tussles over “mere words,” or “just semantics”—they are battles over the ability to define, and thus create, a large part of our reality.“ (2001:46)
Marcia tengir því á milli hugrænnar táknfræði og femínískrar málstýringar af augljósum ástæðum, ef við viljum efla vald kvenna, og um leið annarra minnihlutahópa, er lykilinn að finna í tungumálinu.
Það leiðir okkur að nýyrðasmíði sem beinist að því að berjast gegn skömm og karllægri sýn (öðru nafni gægur, gauragláp eða karlastara) en samkvæmt Marciu ná möguleikar smíðinnar langt inn í framtíðina. Nýyrðið sem um ræðir er snippan sem er gæluorð á píku, en frændur okkar vantaði orð sem gæti staðið með snoppen eða tilla. Hér að neðan má sjá skemmtilega fræðslu handa börnum um kynfæri þeirra, en tilgangurinn er að eyða skömm og tabúum sem oft eru leiðinlegur fylgifiskur uppvaxtar.
Annað nýyrði er slidkrans, sem er nýtt orð yfir meyjarhaft, en gamla orðið er það sama og það íslenska: mödomshinna. Orðið er mjög gott dæmi um hugræna táknfræði og hvernig hugmyndir hafa áhrif á tungumálið en nú hefur komið í ljós að meyjarhaftið er og hefur aldrei verið til, eins og lesa má hér. Má jafnvel leiða líkum að því að karlar hafi í gegnum tíðina þurft að þola huglægt rof í veruleikaskynjun. Til þess að bæta þetta rof og koma í veg fyrir að konur komi fyrir sjónir sem viljalaus verkfæri í tungumálinu, svo sem með haft sem karlar einir geta rofið, getur nýyrðasmíði að þessu tagi verið birtingarmynd þess valds, virðingar og ákvörðunarréttar sem þær hafa tilkall til.
Marcia spyr hvernig hægt sé að aðlaga málfræðina mismunandi skoðunum á kyni. Hún segir víst að kynjuð fornöfn leiði til þess að við takmörkumst innan tvíhyggjunnar, en að fornafnið hen geti orðið til þess að kyn skipti ekki jafn miklu máli. Það var einkar viðeigandi að Marcia vitnaði í Audrey Lorde (sjá mynd hér að ofan), enda varð hún manna fyrst til þess að gagnrýna femínisma 2. bylgjunnar fyrir einhliða umfjöllun og að viðurkenna ekki mikilvægi mismunarins. Í þennan mismun getur málfræðin sótt styrk sinn. Það gefur allavega auga leið að mismunurinn gerir tungumálið ríkara, eins og þær samfélagslegu breytingar sem Marcia talar um í upphafi bera vitni um.
Eins og gefur að skilja er hér aðeins tæpt á yfirborði fyrirlestrarins og er mörgu enn ósvarað. Nokkur umræða átti sér þó stað eftir á, m.a. var spurt hvort femínísk málstýring beri ekki keim af málvöndunarstefnum 19. aldar og hvort slík forræðishyggja sé æskileg. Ég held ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég segi okkur Marciu vera sammála um að í þessu samhengi helgi tilgangurinn meðalið. Femínísk málstýring er ekki forræðishyggja því það sem er í húfi eru sjálfsögð mannréttindi, en ekki er hægt að segja það sama um þágufallssýki og annan áður talinn fagurfræðilegan ósóma. Hvað varðar íslenskuna er kannski kominn tími til að finna annað nafn á ´mál-beggja-kynja´ sem ber með sér áðurnefnda tvíhyggju og mætti jafnvel kalla refhvörf, allavega frá síðfemínískum sjónarhóli.
Ef „hún forseti“ er gegnum Vigdísi allt í einu allt í lægi, þá er líka í sama jafngildisskyni, og í sömu andrá, ekki annað en rétt að hvorugkynja öll persónuorð málsins: „hún forsetið“ , „hann forsetið“ , „hán (eð“ það“) forsetið. 😊
Endurbirti þetta á NYÖLD and commented:
ASthyglisvert og rétt hugsað!