Höfundar: Katrín Harðardóttir og Kristín Vilhjálmsdóttir
Þetta hefur heldur betur verið hressandi helgi á veraldarvefnum og æsispennandi að sjá hver heldur með hverjum, eftir að Ágústa Eva Erlendsdóttir gekk út úr atriði Reykjavíkurdætra í Vikunni hans Gísla Marteins í sjónvarpi allra landsmanna. Er gjörningur dætranna réttlætanlegur og er Ágústa Eva tepra, eða var hún í fullum rétti og fóru þær yfir mörkin?
Vissulega er áhugavert að internetið logi út af gjörningi listakvenna og feminískum pælingum. Reykjavíkurdætur eru að ögra valdinu með því að undirstrika og flagga kynfrelsi kvenna. Réttilega var bent á að enginn kippir sér upp við að karlkyns rapparar segi áheyrendum að sjúga hann á sér, á meðan allt verður vitlaust um leið og kvenkyns rapparar beita sömu brögðum. Og sitt sýnist hverjum, hvort verið sé að skjöna ríkjandi ástand og sýna með því fram á fáránleikann og hræsnina, eða hvort verið sé að beita sömu orðræðu og valdið, sem sé ekki gagnlegt til breytinga. En við þurfum að ögra valdinu, við þurfum að benda á að kynfrelsi kvenna er víða fyrirlitið og fótum troðið, ekki síst hér á litla sæta Íslandi. Þannig sýna Reykjavíkurdætur mikið hugrekki með þessum gjörningi sínum.
Ágústa Eva gekk út úr settinu og sagði frá því á samfélagsmiðlum. Henni fannst að sér vegið, það var gengið inn á hennar persónusvæði, hún upplifði þetta sem áreiti. Hún hefur fullan rétt til sinna skoðana, upplifana og tilfinninga og það er algjör óþarfi að fara að rugla Silvíu Nótt saman við þetta atvik (Silvía Nótt var nefnilega alls ekki á staðnum). Getur fólk sett sig í hennar spor og spurt sig hvernig það sjálft hefði brugðist við? Gæti fólk hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að það hefði brugðist nákvæmlega eins við í þessum aðstæðum? Er það virkilega orðinn einhver tepruskapur að koma sér út úr aðstæðum sem misbjóða manni persónulega? Gjörningurinn hefði litið töluvert öðruvísi út ef Reykjavíkurdætur hefðu beint gerviskaufunum hver að annarri, en ekki otað þeim að og framan í aðra gesti Gísla Marteins.
Það er líka nokkuð hart að nota gegn Ágústu Evu að hún orði ekki vel ástæður þess að hún gekk út af settinu, þegar allir sem vilja sjá geta séð að farið var yfir mörk hennar. Það núllast einfaldlega ekki út þó hún orði reynslu sína klaufalega. Hér er heldur ekki verið að krefja fólk um að fleygja barninu út með baðvatninu, ekki þarf að vera samasemmerki á milli þess að gagnrýna það sem er gagnrýnisvert hjá Reykjavíkurdætrum og að demonisera þær.
Reykjavíkurdætur (sem og listakonur almennt, þar með talið Ágústa Eva þegar hún er í gervi Silvíu Nætur) taka sér ákveðið vald með því að stíga á svið. Öllu valdi fylgir ábyrgð og ber að fara vel með. En um leið verður að undirstrika að ekkert vald er hafið yfir gagnrýni, jafnvel ekki þegar einstaklingar taka sér vald til að gagnrýna ríkjandi valdakerfi.
Skítt með það þó að Reykjavíkurdætur hafi sagt fólki að sjúga snípinn á sér. Það er ekki punkturinn hérna. Punkturinn sem allir skauta svo fimlega framhjá, og snúa í leiðinni öllu upp í grín á kostnað Ágústu Evu, er að það er hreint út sagt ömurlegt að gert sé lítið úr manneskju sem forðaði sér úr aðstæðum þar sem henni var kynferðislega misboðið. Hvað er að í þjóðfélagi sem sameinast um að skamma konu sem kemur sér út úr aðstæðum sem ofbuðu henni? Er aktívisminn og listin mikilvægari en kynfrelsi Ágústu Evu? Er einhver að pæla í því, eða er öllum sama?