Nokkur orð frá hipphoppfeminista: Hin 20 ára gamla tugga

Höfundur: Laufey Ólafsdóttir

FoxyBrownÉg legg nú ekki í vana minn að vera að tjá mig mikið um persónulegt val einstaklinga til þess að nýta sér tjáningarfrelsið, hvort sem það er til að tjá sig á ögrandi hátt (t.d. með því að rappa um kynfærin á sér) eða að bregðast við ögrandi tjáningu með andófi (t.d. með því að ganga út þegar manni ofbýður). Hvort tveggja eru réttindi tryggð með landsins lögum og ég ætla mér ekki að reyna að ráðskast með hvernig einstaklingar nýta sér þau réttindi, svo fremi sem gjörðir þeirra skaða ekki aðra. (Særð blygðunarkennd ein og sér flokkast n.b. ekki undir skaða).
Ég legg heldur ekki í vana minn að skipa mér í fylkingar eða lið. Ég er óttalegur anarkisti og kann ekki einu sinni að halda með íþróttaliði svo ég er glötuð klappsstýra. Ég ætla því ekki að taka upp hanskann fyrir neina einstaka persónu, enda eru umræddar persónur allar fullfærar um að bæði mynda sér skoðanir og tjá þær. Það sem mig hinsvegar langar að gera er að taka upp hanskann fyrir ástina í lífi mínu. Stóru ástina sem kom mér í gegnum unglingsárin, meðgöngur, fæðingar, sorgir og sigra. Ástina sem lætur hjartað alltaf slá aðeins hraðar og líkamann til að dansa. Lífsförunautinn minn, Hipp hopp.

Það skemmtilegasta við að eldast er að fylgjast með hvernig hlutir fara í hringi. Um leið er það samt oft og tíðum pirrandi því ekkert er leiðinlegra en að uppgötva að baráttumál sem kona telur afgreidd og liður í framþróun dúkki aftur upp í umræðunni á 20 ára fresti eins og ekkert hafa nokkurn tímann gerst. Þetta var einmitt það sem ég hugsaði, bæði þegar ég heyrði fyrst gagnrýni á Reykjavíkurdætur fyrir nokkrum misserum og svo núna þegar lætin urðu s.l. föstudag þegar Ágústa Eva ákvað að yfrgefa sjónvarpsútsendingu sem hún deildi með umræddum dætrum.

Uppákoman í sjónvarpinu (sem ég reyndar missti af, en sá á netinu), veitti mér netta deja vu tilfinningu. Vegna ástar minnar á hipp hoppi setti ég upp eftirfarandi stöðufærslu á Facebook síðunni minni: „20 ára gömul tugga. Blablabla. Reykjavíkurdætur eru bara böns af skólastelpum við hliðina á næntís gellunum sem skipuðu hörðum gangsterum að sleikja á sér píkuna. Það varð í kjölfarið mikil vitundarvakning meðal karlkyns rappara um að þetta væri eitthvað sem vert væri að leggja metnað í og byrjuðu að metast um hver væri bestur í þeirri list.“

Foxy Brown, Lil’ Kim, Khia, Missy Elliott, MC Boss og fleiri naglar sem ruddu brautina fyrir kynfrelsi rappkvenna. Margar höfðu auðvitað komið fram áður en þessar voru fyrstar til að fá athygli með því vera jafn-grafískar og karlpeningurinn í orðavali.
Svo er auðvitað heilmikið til af hipp hopp listamönnum (af öllum kynjum og kúltúrum) sem eru að rappa um pólitík og mannréttindi. Það fær ekki mikla spilun í útvarpinu.

Ég tek hér fram að ég persónulega nota ekki orðið „píka“ á opinberum vettvangi nema mér sé mikið niðri fyrir. Í myndbandinu sem ég lét fylgja með er frétt frá árinu 1996 þar sem talað er um ögrandi texta tveggja rappkvenna, Foxy Brown annars vegar og Lil’ Kim hinsvegar. Ég man hvað þær voru frábær ný rödd inn í hipp hopp á sínum tíma, sem mótvægi við Snoop Doggy Dogg, Notorious B.l.G., Tupac, Wu-Tang Clan og fjöldan allan af karlmönnum sem röppuðu af mikilli innlifun um kynlíf.

Rétt eins og má segja um Reykjavíkurdætur og fleiri ungar rappkonur í dag, mátti alveg gagnrýna þessar konur fyrir 20 árum. Eins og kvenkyns viðmælendur í myndbandinu hér að ofan benda á, eru þær ímyndir sem þær setja fram ekki endilega dæmigerðar fyrir allar konur. Hinsvegar, eins og síðasti viðmælandi bendir á, eru þær frjálsar konur sem eigna sér sinn eiginn líkama og tjá sitt kynfrelsi af eigin lyst. Ef karlar mega það, hvers vegna ekki konur?

Á tíunda áratugi síðustu aldar var ég á aldur við meðlimi Reykjavíkurdætra og eins og þær, ástfangin af flæði rímna. Ég gekk um með vasadiskó sem spilaði spólur sem ég mixaði sjálf heima og gat hlustað aftur og aftur á þéttan takt og heitir 16 (jafnvel 32) létu líf mitt meika sens. KRS O.N.E. menntaði mig í sögu, Native Tongues meðlimir fengu mig til að fletta oft upp í orðabókinni (með misgóðum árangri), MC Lyte, Salt’n’Pepa og Latifah kenndu mér að taka pláss og Public Enemy sögðu mér að kerfið sökkaði. Þótt flest af þessu hafi ég fengið að vita í gegnum óhefðbundið uppeldi var svo miklu skemmtilegra að geta dansað við alla þessa gagnrýnu hugsun.

Ég tek fram að tónlist Reykjavíkurdætra höfðar ekki til mín. Ég er af þeirri kynslóð sem núna er kölluð „gamli skólinn“ (sem í mínu ungdæmi var kynslóðin á undan mér). Ég vil sjá tvo plötuspilara, vínyl og mixer og væri til í að sérstakur skattur yrði settur á ofnotkun á auto tune. Ég kann samt að meta Reykjavíkurdætur fyrir það sem þær eru. Þær skapa samtal í íslenskri rapptónlist og það er mikilvægt.

Femínismi er ekki eitthvað eitt. Femínismi þarf að fara fram alls staðar í samfélaginu og á hverjum stað þarf hann að veita mótsvar við ríkjandi rödd. Karlmenn hafa engan einkarétt á kynlífi og ef þú ert kona sem starfar í umhverfi þar sem mikið af karlmönnum tala um kynlíf, þá svarar þú með því að tala um þitt eigið kynlíf og hvernig þú villt hafa það. Ef þú hinsvegar vilt ekki tala um kynlíf, þá labbarðu bara út eða talar um eitthvað annað. Það er líka í lagi, en það skapar ekki samtal.

Ég geri mér fulla grein fyrir að Ágústa Eva er engin tepra og kann örugglega að meta klúryrði, dólgshátt og kynlífstal við réttar aðstæður. Þetta voru bara sennilega ekki réttar aðstæður að hennar mati og hún hefur örugglega nokkuð til síns máls. Ég ætla ekki að fara að gagnrýna það þar sem ég hef enga sérstaka skoðun á því máli. Það er fyrir aðra að meta en mig.

Hipp hopp snýst hinsvegar ekki bara um kynlíf. Það fjallar líka um pólitík, mannréttindi, kynþáttafordóma, sjálfsmynd, ást, fjölskyldu, heimilisofbeldi, dapurleika fíknar, lífið sjálft og allt þar á milli. Það er bara svo undarlegt að fæst af þessum viðfangsefnum býr til peninga. Fólk elskar að hata hipp hopp en fattar ekki að það á sér ríka og langa sögu og er alveg jafn fjölbreytt og hver önnur tónlistarstefna.

Mig langar að lokum að deila hér sýnishornum af verkum nokkurra klúrra hipp hopp kvenna sem opnuðu huga karlkyns rappara (og annarra) fyrir þeirri staðreynd að konur eru líka kynverur. Endilega skoðið texta þessara kvenna og berið saman við texta Reykjavíkurdætra.

Góða skemmtun!

Foxy Brown: “Ill Na Na” 1996.

Lil’ Kim: “Not Tonight” 1996.

Og uppáhaldið mitt MC B.O.S.S.: 1993

MC Lyte vill hafa þá harða. “Ruff Neck” 1993

R&B gellurnar slógu ekki slöku við heldur. Adina Howard. “Freak Like Me” 1996

Missy Elliott “Sock It To Me” 1997

Khia: “My Neck, My Back” 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.