Í MINNINGU FALLINNA SYSTRA

 

eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur

*TW lesendaviðvörun*

kerti2Í dag, 8. mars, er alþjóðabaráttudagur kvenna. Í hvers kyns baráttu er mikilvægt að nema staðar reglulega, líta yfir farinn veg og heiðra fallna félaga.

Frá því 21. öldin hóf innreið sína hafa tíu íslenskar konur verið myrtar.*

Við vitum ýmislegt um líf og dauða þessara föllnu systra okkar.

Við vitum að þær voru á aldrinum 20–49 ára.

Þær voru leikskólakennarar, námsmenn, ræstitæknar, opinberir starfsmenn, rekstrarstjórar, fyrirtækjaeigendur og umönnunaraðilar.

Áhugamál þeirra voru margvísleg, allt frá ljóðaskrifum til hljóðfæraleiks, ferðalaga og sjálfboðastarfs.

Þær áttu sér margvíslega drauma. Sumar þeirra voru búnar að leggja land undir fót og koma sér fyrir á nýjum stað. Sumar voru að mála og gera upp nýtt heimili þegar voðaverkið var framið. Þær töldu sig eiga framtíð.

Föllnu systur okkar voru í flestum tilvikum myrtar heima hjá sér.

Flestar drógu þær síðasta andardráttinn á baðherbergi sínu eða liggjandi í eigin rúmi.

Í öðrum tilvikum var morðvettvangurinn heimili árásarmannsins, bifreið og stigagangur.

Föllnu systur okkar voru stungnar með hnífi, skotnar með haglabyssu, barðar með handlóðum og kúbeini, hrint fram af svölum, kyrktar með taubelti, reim úr hettupeysu, þvottasnúru, bílbelti og handafli.

Föllnu systur okkar voru mæður ellefu barna.

Níu þeirra voru 18 ára eða yngri. Það yngsta var ársgamalt.

Sex barnanna voru viðstödd morðið, undir sama þaki. Eitt þeirra sat aftur í á meðan móðirin var myrt í framsætinu.

Í flestum tilvikum var morðinginn faðir barnanna.

Stundum uppgötvaðist voðaverkið strax.

Í öðrum tilfellum var föllnu systur okkar troðið í taupoka, dröslað inn í kompu, hent ofan í hraungjótu, hún geymd í farangursgeymslunni eða látin liggja í blóði sínu sólarhringum saman.

Meirihluti föllnu systra okkar höfðu reynslu af heimilisofbeldi.

Í þremur tilvikum voru þær búnar að fá nálgunarbann á þann sem varð valdur að dauða þeirra.

Flestum þeirra hafði verið hótað af morðingja sínum.

Föllnu systur okkar voru allskonar fólk. Þær voru fæddar í Keflavík og Indónesíu, Reykjavík og Sauðárkróki. Þær voru úthverfamæður og heimshornaflakkarar, komu víða við og áttu gleði og sorgir. Í raun eiga þær fátt sameiginlegt, annað en að líf þeirra hlaut grimmilegan og sviplegan endi.

Eitt er þó sammerkt með þeim öllum:

Morðinginn var karl. Karl sem þær treystu á einhverjum tímapunkti.

Ofbeldi karla gegn konum er dauðans alvara.

Baráttan heldur áfram

á alþjóðabaráttudegi kvenna

til heiðurs föllnum systrum

í þágu þeirra systra sem enn má bjarga.

Sameinaðar stöndum vér

og þú ert ekki ein.

– – – – – – –

* eða konur sem bjuggu og störfuðu á Íslandi þegar þær voru myrtar.

 

Ein athugasemd við “Í MINNINGU FALLINNA SYSTRA

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.