Hvað hefur kyn að gera með heimsfrið?

Höfundur: Valerie M. Hudson

Þýðandi: Kristín Jónsdóttir

myndmeðþýðinguKJHér er birt þýðing á fjögurra ára gamalli grein, en hún birtist upphaflega á vefritinu Foreign Policy. Hún er sem sagt skrifuð tveimur árum áður en bandaríski herinn dró sig í hlé frá Afganistan og í henni er ákall til bandarískra yfirvalda um að þrýsta áfram á afgönsk yfirvöld um að halda áfram umbótum á stöðu kvenna í landinu.

Í pistlinum er þó gerð ágæt grein fyrir því hvers vegna mikilvægt er að hlúa að jafnrétti kynjanna og þótti okkur hjá Knúz því réttlætanlegt að þýða hana í heild sinni þótt seint sé og með fyrirvara um að ekki eru allir sammála um hvort og hvernig Hillary Clinton hefur staðið sig í sambandi við að vinna að friði í heiminum. Heimsfriði hefur í það minnsta ekki verið náð, ekki frekar en jafnrétti. Kannski helst það einmitt í hendur? Þetta er eina ástæðan fyrir því að okkur langar að birta þennan pistil hér og nú.

Staðreyndir tala sínu máli: Stöðugleika ríkis má mæla með því að skoða hvernig farið er með konur innan þess.

Í háskólarannsóknum á öryggismálum ríkja er svokölluð realpolitik, eða hagsýnispólitík, oftast ráðandi. Þau sem aðhyllast þessa heimssýn samþykkja umyrðalaust vísbendingar byggðar á reynslu, sjá heiminn eins og hann er „raunverulega“ en ekki eins og hann ætti að vera ef allt væri eins og best yrði á kosið. Svo vitnað sé í Walter Lipppmann: „Við megum ekki setja ímyndaðan heim í stað þess sem er.“[1]

Og hér kemur staðreynd byggð á reynslu sem ekki er hægt að hunsa: Með því að styðjast við stærsta gagnagrunn sem til er um stöðu kvenna í heiminum í dag, sem settur var saman af mér og þremur samstarfsmönnum, fundum við út að það er sterk og óvefengjanlega merkingarbær tenging á milli öryggisástands ríkis og öryggis kvenna þar. Í reynd er besta vísbendingin um frið í ákveðnu ríki hvorki fjárhagslegt ástand þess, lýðræðisstig né trúarbrögð og siðir; besta vísbendingin um stöðu friðarmála er hversu vel er farið með konur. Þar að auki má sjá að í lýðræðisríkjum þar sem ofbeldi gegn konum er algengt, er öryggi og stöðugleiki á jafn slæmu stigi og í ólýðræðislegum ríkjum.

Þessar uppgötvanir eru tíundaðar í bók sem kom út í mánuðinum, Sex and World Peace. Þær ríma við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að því breiðara sem kynjabilið er í meðferð á konum og körlum innan samfélags, því líklegra er að landið hafi átt í innanríkis- eða milliríkjadeilum. Einnig er líklegra að gripið hafi verið til vopna í þeim deilum og að ofbeldið hafi verið verra. Þegar skoðaðir eru málaflokkar eins og þjóðarheilbrigði, hagvöxtur, spilling og félagsstyrkjakerfi, er staða kvenna enn og aftur besta vísbendingin um ástandið. Það sem kemur fyrir konur hefur áhrif á öryggi, stöðugleika, velmegun, ofbeldishneigð, spillingu, heilbrigði, stjórnskipulag og (já) vald ríkisins. Sá tími þegar hægt var að halda því fram að staða kvenna varðaði á engan hátt þjóðar- eða heimsöryggi er óumdeilanlega liðinn undir lok. Staðreyndir sem benda til annars eru bara of margar og of sterkar til að hunsa þær.

En þegar við skoðum okkur um í heiminum, sjáum við að staða konunnar er allt annað en örugg. Gagnagrunnur okkar gefur löndum stig byggð á nokkrum undirflokkum sem varða öryggismál kvenna, frá 0 (best) til 4 (verst). Stigagjöfin er byggð á ítarlegri leit innan fleiri en 130.000 upplýsingapunkta í fyrrnefndum gagnagrunni (WomanStatsDatabase), þar sem tveir óháðir matsmenn þurftu að ná sameiginlegri niðurstöðu í stigagjöf hvers lands. Á kvarðanum sem mælir líkamlegt öryggi kvenna, náði ekkert land í heiminum að fá 0 stig. Ekki eitt einasta. Meðaltal heimsins er 3,04 sem sýnir hversu útbreitt og þrálátt ofbeldi gegn konum er, jafnvel í þróuðustu og frjálsustu löndum. Til dæmis fengu Bandaríkin 2 stig á þessum kvarða, vegna hárrar tíðni heimilisofbeldis og nauðgana.

Það er kaldhæðnislegt að höfundar á borð við Steven Pinker sem halda því fram að heimurinn sé að verða friðsamlegri, hafi ekki áttað sig á því að ofbeldi gegn konum hefur aukist en ekki minnkað. Sú staðreynd ein skyggir á það að stríð og vopnaskak sé minna en áður. Að halda því fram að friður ríki í landi þar sem konur eiga á hættu að vera myrtar vegna kyns síns – eða að hunsa ofbeldi gegn konum um leið og því er haldið fram, líkt og Pinker gerir, að heimurinn sé nú öruggari staður – er einfaldlega þversögn.

Kynbundið ofbeldi er því miður rótgróið á sumum menningarsvæðum, svo kirfilega að það á sér ekki aðeins stað meðan konan lifir, heldur jafnvel áður en hún fæðist. Á kvarðanum sem mælir hvort sonur sé tekinn fram yfir dóttur og kynjahlutfall, er meðaltal heimsins 2,41 sem sýnir fram á að almennt séu synir taldir æskilegri en dætur. Í 18 löndum, frá Armeníu til Víetnam, er hlutfall drengja óvenjulega hátt. Samkvæmt Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna, hafa 163 milljónir kvenna horfið í Asíu frá 2005, hvort sem um var að ræða kynbundnar fóstureyðingar, barnamorð eða aðrar leiðir. Lýðfræðingurinn Dudley Poston í Texas A&M University hefur reiknað út að í Kína muni skorta um 50 milljónir ungra uppkominna kvenna í lok þessa áratugar. Hugsið út í það hvernig þetta ójafnvægi mun hafa áhrif á stöðugleika og öryggi í Kína – og um leið á aukin völd þess í heiminum – á þessari öld.

Aðrar almennar vísbendingar eru jafn miður uppörvandi. Í fjölskyldurétti er konum mismunað í hjónabandi, við skilnað og í erfðamálum. Þessi mismunun er grunnur fyrir ofbeldi gegn konum, um leið og hún grefur undan möguleika þeirra til að verja sig og börnin sín. Við félagar í rannsóknarhópnum komumst að þeirri niðurstöðu að meðaltal stiga í mismunun í fjölskyldurétti er 2,06, sem bendir til þess að flest lönd eru með lög sem mismuna konum meira eða minna. Sum af þeim löndum sem tilheyra Arabíska vorinu, til dæmis hið fjölmenna Egyptaland, sýna merki um að þessi mál eru að versna. Mæðradauði er svo að meðaltali 2,45 sem er virkilega sorglegur vitnisburður um forgangsröðun og gildismat ríkja þegar kemur að lífi kvenna.

Að lokum er mæling á hlutfalli radda kvenna í ákvarðanatökum mæld með hlutfalli kvenna stjórnun ríkja og þar fær heimurinn hið ömurlega lélega meðaltal 2,74. Þetta kemur ekki á óvart, vitað er að hlutfall kvenna í ríkisstjórnum er innan við 20 prósent. En það er einnig satt að meðal verstu landanna, þegar kemur að þátttöku kvenna í ríkisstjórnum, eru lýðræðisríki líkt og Japan (13,4 prósent á japanska þinginu) og Suður-Kórea (14,7 prósent), að ekki sé minnst á Ungverjaland (8,8 prósent). Bandaríkin eru undir meðallagi, með aðeins 17 prósent hlutfall kvenna á þingi. Það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa að þegar Bandaríkin réðust inn í Afganistan og Írak, kröfðust þau 25 prósent þátttöku kvenna í þeim ríkjum. Bæði þessi ríki ná nú betri stigagjöf en innrásaraðilinn: Afganistan er með nærri 28 prósent hlutfall kvenna og Írak aðeins yfir 25 prósent. Á þessu sviði hafa Bandaríkin því gert meira fyrir konur í Afganistan og Írak, heldur en í eigin landi.

Ljóst er að ofbeldi gegn konum er staðreynd. Svo hvaða gildi hefur það fyrir heimsfrið? Hugsið um áhrifin af kynbundnum fóstureyðingum og fjölkvæni: Bæði atriðin hjálpa til við að skapa undirskipaðan hóp ungra fullorðinna karla sem eiga engra hagsmuna að gæta í samfélaginu þar sem þeir verða aldrei höfuð fjölskyldu, sem er tákn um manndóm í þeirra menningu. Aukning ofbeldisglæpa, þjófnaða og smygls kemur ekki á óvart, en það er leið þessara ungu manna til að gera sig álitlegri á hjónabandsmarkaðnum. Aukinn fjöldi þessara ungu hviklyndu karla á hugsanlega þátt í betri árangri í nýliðun hryðjuverkamanna og ýtir jafnvel undir þátttöku í þrætistríðum sem grisja í hópnum. Til dæmis sagði eini hryðjuverkamaðurinn sem lifði af árásina í Mumbai 2008 frá því að það var hans eigin faðir sem sannfærði hann um að taka þátt til að safna pening upp í heimanmundinn sem hann og bræður hans þyrftu að reiða fram til að geta kvænst.

Rannsóknir sýna einnig að friðarsáttmálar sem gerðir eru án aðkomu kvenna endast styttra en þeir sem konur eiga aðild að. Þegar karlar koma einir að málum taka þeir meiri áhættu og taka agressívari og kaldranalegri ákvarðanir en blandaðir hópar gera – sem aftur getur leitt til harðari deilna milli ríkja.

Ef við viljum kafa enn dýpra, má minna á að forskriftin fyrir því að geta búið með öðrum manneskjum sem eru ólíkar okkur í hverju samfélagi mótast að miklu leyti af samskiptum milli karla og kvenna. Í löndum þar sem karlinn ræður yfir heimilinu með ofbeldi, er ríkinu einnig stjórnað í gegnum ofbeldi af körlum sem eru af æðri stéttum. Þetta sást greinilega þegar íranskir karlar í röðum mótmælenda sem, í hinni mislukkuðu Grænu byltingu frá 2009, skýrðu ákvörðun sína um að vera með höfuðklúta til að mótmæla stjórninni og sem samstöðutákn með konum sem hafa lengi verið kúgaðar af henni. Líkt og einn stuðningsmanna sagði: „Við íranskir karlar erum seinir til … Ef við hefðum gert þetta fyrir þrjátíu árum, þegar rusari (höfuðklútnum) var troðið á systur okkar þvert á vilja þeirra, værum við kannski ekki hér í dag.“ Þetta er vel grundvölluð staðhæfing: Karlar sem sjá konur sem hóp sem má undiroka, munu sjálfir halda áfram að vera undirokaðir. Karlar sem sjá konur sem jafningja og kunna að meta þær sem félaga eru einu karlarnir sem eiga raunhæfan möguleika á því að verða frjálsir og njóta friðar.

Það lofaði góðu þegar utanríkismálaráherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton lýsti því yfir að staða kvenna væri meginfókus amerískrar utanríkismálastefnu. Árið 2010 lét hún hafa eftir sér að „kvennajafnrétti [væri] ekki aðeins siðferðisleg spurning, ekki aðeins spurning um mannúð, ekki spurning um sanngirni. Þetta [snerist] um öryggi,“ sem, bætti hún við, er „brýnt hagsmunamál Bandaríkjanna“. En miðað við hversu óyggjandi vísbendingarnar eru um að með því að bæta öryggi kvenna batni öryggi og stöðugleiki ríkja, er ótrúlegt að sjá að enn skuli einhverjir færast undan, og halda því fram að vonlaust sé að hjálpa til meðan inngróin menningin sé óbreytt. Brýnasta dæmið nú er Afganistan, þar sem háttsettir ráðamenn hersins lýsa því yfir umbúðalaust, í tengslum við brottför hersins 2014, að „kynjamálin þurfa að færast aftur fyrir önnur brýnni mál.“ Við getum aðeins gert ráð fyrir því að staða afganskra kvenna muni aðeins versna þegar herinn yfirgefur svæðið. Afganskar konur telja svo sjálfar. Hvernig rímar þetta við álit Hillary Clinton?

Bandaríkin eru ekki vanhæf til þess að hjálpa konum í Afganistan, jafnvel þótt þau yfirgefi þetta óupplýsta land. Þau geta í það minnsta reynt að tryggja mýkri lendingu fyrir þær eftir 2014. Áður en Bandaríkin fara, væri hægt að setja á laggirnar áætlun sem tryggði afgönskum konum í lífshættu pólitíska vernd, eða styrkjakerfi til handa framúrskarandi afgönskum námsmeyjum, sem gætu komið og stundað nám í bandarískum háskólum. Þau gætu tryggt að konur hefðu góða stöðu í friðarsamningum við Talíbana. Þau gætu hvatt Alþjóðaglæpadómstól til að ganga alla leið með ákærur á hendur talíbönskum leiðtogum sem hafa fyrirskipað kvennamorð. Þau gætu fjármagnað Radio Free Women of Afghanistan útvarpsstöðina og stofnað moskur sem byðu upp á fræðslu fyrir konur. Bandaríkin gætu krafist þess af afgönskum yfirvöldum að taka ekki yfir kvennaathvörfin. Og þau gætu haldið umbótastarfi á stöðu kvenna í Afganistan inni sem skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð. Vonandi mun Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna, og aðrir, skoða alla þessa möguleika.

Staðreyndir eru skýrar: Mikilvægasta áskorun 21. aldarinnar er að útrýma ofbeldi gegn konum og taka burt hindranir á veginum til að styrkja þær, gefa þeim sköpunarkraft og rödd. Fugl með brotinn væng, eða dýrategund þar sem annað kynið er í veikri stöðu, mun aldrei ná langt. Það vitum við. Mannkynið hefur þúsund ára reynslu – og hefur greitt fyrir hana með blóði og þjáningu. Heimurinn verður að prófa aðra leið, leið sem allt bendir til þess að muni geta af sér betri heilsu, velmegun og öryggi fyrir okkur öll. Kyn hefur ýmislegt að gera með heimsfrið, það þarf ekkert spurningamerki.

[1] Tengill á þessa tilvísun er óvirkur og ekki tókst þýðanda að finna nýja tilvísun í nákvæmlega þessa setningu frá Lippmann. Nokkrir aðrir tenglar úr upprunalegum texta eru óvirkir og verður því sleppt hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.