Höfundur: Gabrielle Motola
„An Equal Difference“ (Jafn mismunur) er bók um mannlýsingar, frásagnir og visku. Í tvö og háft ár hef ég rannsakað, talað við og ljósmyndað yfir 70 áhugaverðar manneskjur sem lifa í íslensku nútímasamfélagi. Þetta er mín tilraun til þess að skilja menningu sem kallar eftir aðgerðum eins og að setja fjármálafólk sem ábyrgt er fyrir hruninu á bak við lás og slá, koma orkustefnu á sem byggir á sjálfbærum, endurnýtanlegum auðlindum, viðhalda ríkisreknu leikskólakerfi og gera vændi ólöglegt með því að glæpavæða kaup á vændi í stað sölu á því. Það sem virkilega vakti athygli mína er krafa samfélagsins á „kvenvæðingu í fjármálarekstri“. Að skoða hegðunarmynstur á vandamálum í stað þess að skoða kynferðislegu hlið þeirra – og álykta af því að við erum öll blanda af karllægri og kvenlægri hegðun og virkni. Þessi fyrirmynd virkar ekki aðeins sem sönn heldur býður hún líka upp á svigrúm til aukins skilnings á okkur sjálfum og hvert öðru.
Ferlið byrjaði á því að ég velti fyrir mér hvernig hugsun kvenna hér væri í samburði við þá sem ég hafði upplifað í samfélögum sem ég hafði áður búið í (Bandaríkjunum og Bretlandi) – samfélögum sem veita tiltölulega lítinn stuðning vegna líffræðilegrar ábyrgðar kvenna og sem hafa tilneigingu til að ala stúlkur þannig upp að þær eiga í stöðugri sjálfsmyndarbaráttu. Ég vildi komast að því hvað það var sem gerði að verkum að kynjajafnrétti virkaði til hagsbóta fyrir alla. Hvernig hefur það áhrif á hugsun fólks og hegðun þess í samfélagi? Hvernig mótar það samfélagið sjálft?
Það er mikilvægt að hafa í huga að jafnrétti er enn hvergi til. Af þeim viðtölum sem ég tók og á þeim tíma sem ég varði á Íslandi áttaði ég mig á því að konur upplifa kynjafordóma hér ekki síður en í öðrum löndum, en kannski ekki á eins áþreifanlegan hátt. Á heildina lítið hegðar fólk sér betur á Íslandi en það útskýrir á engan hátt það sem fer fram í huga þess.
Áður en ég get farið að skoða kynjafordóma annarra með skýrum huga þarf ég fyrst að skoða eigin fordóma. Konur eru venjulega myndaðar vegna fegurðar þeirra, ekki vegna vitsmunalegra afreka. Þessi skilyrðing á sínar djúpu rætur í menningu og mannshuga bæði kvenna og karla í mörgum samfélögum. Án þess að ætla mér það, þá vöknuðu hjá mér spurningar í upphafi verksins um hvernig ég sá og sýndi konur í mínum myndum. Gandhi sagði: „Þú þarft að vera breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.“ Ég vildi breytast.
Í fyrstu tók ég myndir og valdi myndefni af konum út frá kreddum sem ég áttaði mig ekki einu sinni á að ég hefði. Ómeðvitað fegraði ég frekar viðfangsefnin mín heldur en að draga fram persónuleika þeirra. Það sem varð til þess að opna augun mín var spjall sem ég átti við Margréti Pálu Ólafsdóttur, stofnanda Hjallastefnunnar, eina af konunum sem ég myndaði.
Á fundi ári eftir að ég tók fyrstu myndirnar, spurði Magga Pála mig að því hvort hún hefði verið tekin út sem öðruvísi en hinar „töfrandi“ konurnar í verkefninu. Hún velti fyrir sér hvort ég hefði viljandi ætlað að gefa öðruvísi mynd af henni. Ég fullvissaði hana um að svo væri ekki. Ég mundi eftir að ljósmyndatakan hafði verið erfið. Ég gat ekki stýrt henni á neinn hátt og gerði mér ekki grein fyrir á þeim tíma að ég væri að reyna að troða henni í eitthvert box. Ég man að mér fannst úrvinnslan ekki nógu góð til að byrja með. Mér fannst ég ekki vera með „góða mynd“ af henni, en á þeim tímapunkti var ég heldur ekki með skýra mynd af því hvað ég ætti við með „góðri mynd“. Meðan á spjallinu stóð gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði ómeðvitað leitað eftir að ná fram ljúfum myndum af kvenlegum þokka og fegurð. Það var erfitt að velja mynd af valdhafa eða persónuleika sem ekki væri „fagur“.
Upprunalega fannst mér myndin sem ég valdi af henni vera málamiðlun. Hún hefur hingað til reynst vera ein af þeim vinsælustu í myndaröðinni með tilliti til viðbragða fólks við henni. Þessi uppgötvun neyddi mig til þess að fara yfir myndatökurnar aftur og velja upp á nýtt. Ég stend enn við val mitt á sumum myndanna, en öðrum hef ég skipt út fyrir myndir sem sýna minni „fegurð“ en draga betur fram sterkan persónuleika manneskjunnar sem í hlut á. Það sem kemur mér verulega á óvart er hversu mikið fyrir neðan mín viðmiðunarmörk þær voru. Það eru engar ýkjur þegar ég segi að ég muni eftir hverri einustu merkingarþrungnu mynd sem ég tek meðan á töku stendur. Ég hreinlega sé hana þegar hún fer gegnum myndavélina. Samt sem áður hafði ég enga minningu um tilvist þeirra mynda sem valdar voru í „síðara valinu“ fyrr en ég skoðaði þær aftur. Ég hef ekki trú á því að þær hafi orðið til fyrir slysni – frekar að þær hafi ómeðvitað verið „val“ sem hefur svo verið bælt niður af minni meðvituðu löngun til að hafa þær „fallegar“.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra (fyrra myndval)
Katrín Jakobsdóttir var sú fyrsta sem ég skoðaði aftur. Myndin sem ég valdi fyrst er meira í ætt við þær myndir sem venjulega eru gefnar af Katrínu; sæt, stelpuleg og ekki ógnvekjandi. Og það þrátt fyrir að vera formaður stjórnmálaflokks og vera einn af ábyrgðaraðilum byggingar Hörpu. Ég man eftir að hafa lesið grein um hana í breska blaðinu The Independent áður en ég hitti hana og þar var henni lýst þannig að hún líti út fyrir að vera „…12 ára gömul!“. Reyndar ekki alveg, hún „leit út fyrir að vera allt að 16 ára“ og þannig lögð áhersla á hversu lítið útlitið samrýmdist þeim völdum sem hún í raun hafði.
Hin myndin, sem einnig var tekin í Hörpu í sömu myndatökunni, er sú sem ég fann eftir að hafa talað við Margréti Pálu. Myndin fór algjörlega framhjá mér við fyrstu skoðun. Myndin lýsir styrk og gefur betri mynd af þeim innra persónuleika sem einhver verður að hafa til að geta afrekað það sem Katrín hefur afrekað í lífinu. Ég hunsaði myndina algjörlega vegna þess að hún var ekki „fegrandi“. Ég vildi velþóknun á sama hátt og ég vildi hafa velþóknun á Katrínu.
Ég lærði eitthvað um hvernig ég lít á sjálfa mig og aðrar konur, sem er afskaplega mikils virði fyrir minn skilning á þeirri menningu sem ég hrærist í og því að hvaða marki ég gengst undir hana. Áður en verkefnið hófst hafði ég enga hugmynd um að ég hugsaði á þennan veg. Það var ekki þægilegt að finna kynjafordóma hjá sjálfum sér. Kvenhatur mitt var ekki einu sinni af þeirri „illkvittnislegu“ tegund sem mikilvægt er að kanna betur, en þó það hafi ekki verið með vilja gert var það ekki meinlaust. Þessi naflaskoðun gerði mér kleift að skilja betur hvernig samfélög líta á konur, hvaða hlutverki ég gegni í því að viðhalda þessu viðhorfi og að endingu hvað ég vel að gera. Áður fannst mér ég ekki hafa neitt annað val en að búa til myndir eins og ég gerði þær. Með umhugsun get ég ákveðið að líta á sjálfa mig og aðrar konur sem persónuleika, ekki aðeins sem falleg andlit. Þó ég hafi vitsmunalega vitað af þeim möguleika áður og að það „væri það rétta“ sem ætti að gera, þá skildi ég það ekki fullkomlega og fór sannarlega ekki eftir því. Þessi staða minnir mig á að enginn getur látið þig finnast eitthvað nema þú gefir leyfi fyrir því. Að hversu miklu leyti höfum við þitt leyfi til að kynda undir kynjafordóma með karlahatri og kvenhatri sem leynist í hjörtum og hugum venjulega velmeinandi fólks?
Guðrún C. Emilsdóttir þýddi fyrir Knúzið.