Forréttindaforeldrar og sameiginlegu sjóðirnir

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Dagvistun fyrir börn er eitt elsta baráttumál kvennahreyfingarinnar. Um miðja tuttugustu öldina (á tímum þegar ein fyrirvinna nægði og viðeigandi þótti að konur væru heimavinnandi) var dagvistun aðeins í boði fyrir börn einstæðra mæðra en með aukinni stjórnmálaþátttöku kvenna, sérstaklega Kvennalistanum, jókst framboðið svo hérlendis var dagvistun orðin almenn á tíunda áratugnum.

Myndin er fengin að láni á fasthomeremedy.com

Kröfur sem gerðar eru til dagvistunarstofnana hafa einnig aukist, sérstaklega með því að barnaheimilin véku fyrir leikskólum og menntun starfsfólks færðist úr fósturskólanum yfir í kennslufræði á háskólastigi. Inntak starfsins hefur því tekið ýmsum breytingum. Á sama tíma hefur samfélagið breyst, m.a. var hér innleitt svokallað 24 stunda hagkerfi, með lengri opnunartíma ýmissa verslana. Á undanförnum árum og áratugum hefur því sá hluti vinnuaflsins sem vinnur vaktavinnu farið sístækkandi. Þá hefur tilkoma og þróun internetsins gert hluta vinnuaflsins kleift að vinna sveigjanlegan vinnutíma. Hafa Íslendingar verið löngum þekktir fyrir mikla atvinnuþátttöku og eigum við heimsmet í atvinnuþátttöku sumra hópa, meðal annars mæðra. Það hefur gerst þrátt fyrir að hér sé foreldrum að mörgu leyti gert erfitt fyrir. Aðilar vinnumarkaðarins hafa þráast við að stytta vinnuvikuna, dagvistunin er bundin við átta tíma dagvinnu þrátt fyrir breytingar á vinnumarkaði, og svo er sérstök refsing lögð á foreldra í fullu starfi með því að hafa níunda klukkutímann dýrari en hina átta. Það er því ýmislegt sem hérlendis mætti bæta til að auðvelda foreldrum og öðrum samspil fjölskyldu og vinnu.

Gjaldtökuna þarf einnig að endurskoða. Vissulega er daggæslan niðurgreidd og meira fyrir tekjulægri foreldra, en auðvitað ætti alvarlega að skoða það að greiða leikskólana að fullu úr sameiginlegum sjóðum. Leikskólinn er jú skilgreindur sem fyrsta skólastigið og ættu því gjöld að vera sambærileg þar og í grunnskólum landsins – og raunar ættu bæði skólastigin að vera gjaldfrjáls. Það var því athyglisvert þegar fréttir bárust af því að eitt sveitarfélagið, Hafnarfjörður, ætlaði nú að hefja tilraunaverkefni með gjaldfrjálsan leikskóla. Snýst verkefnið um að foreldrar sem nýta sex klukkustunda vistun á leikskólanum eða minna muni hér eftir ekki greiða neitt fyrir gæsluna, séu þau með pláss í þeim leikskólum sem taka þátt í verkefninu.

Það er einnig einkar athyglisvert að í fundargerðum bæjarstjórnar og í Tillögum í leikskóla- og dagvistunarmálum er ekkert að finna um forsendur þessarar ákvörðunar, en ljóst er að hún er ekki í samræmi við áskoranir foreldra ungra barna í Hafnarfirði sem þau unnu og afhentu bæjarstjórn, því áheyrnarfulltrúi leikskólabarna lét bóka á fundi fræðsluráðs þar sem fjallað var um málið (1. júní 2015) „að mikilvægara sé að lækka leikskólagjöld og auka systkinaafslátt til jafns við nágrannasveitarfélög“ til að allir njóti góðs af.

Staðreyndin er nefnilega sú að Hafnarfjarðarbær hefur með þessu ákveðið að gera tilraun til að veita þeim foreldrum sem eru fyrir í þeirri forréttindastöðu að geta haft börn sín stutt í leikskólanum (tvö foreldri á heimili, hafa efni á því að vera ekki bæði í fullu starfi eða eru með gott stuðningsnet) þau verðlaun að greiða ekkert fyrir gæsluna. Þótt vissulega séu leikskólagjöldin það lág að þetta verkefni ætti ekki að vera hvati fyrir fólk til að draga úr vinnu, þá stangast það að nota sameiginlega sjóði í sérstakar niðurgreiðslur fyrir forréttindafólk á við grundvallarhugmyndirnar á bak við velferðarkerfið.

Þá má einnig velta fyrir sér menningarlegum afleiðingum þess að gera styttri daggæslu gjaldfrjálsa, því samband stefnubreytinga stjórnvalda og menningarinnar gengur í báðar áttir, stefna stjórnvalda er ekki bara afsprengi menningarinnar heldur hefur einnig áhrif á hana (gott dæmi er viðhorf til þess að feður taki fæðingarorlof og áhrifin af feðraorlofinu um aldamótin). Þrátt fyrir að kvennahreyfingin hafi barist fyrir því í eina og hálfa öld að vinna kvenna verði álitin jafn verðmæt vinnu karla, hvort sem þær vinna innan eða utan heimilis, og að kynin deili ábyrgð og álagi á öllum vígstöðvum sýnir launamunur kynjanna og rannsóknir á fjölskylduábyrgð og heimilisstörfum það glögglega að enn er langt í land. Ef veitt eru sérstök verðlaun fyrir styttri dagvistunartíma, á sama tíma og konur eru með lægri laun og meiri fjölskylduábyrgð, styrkir það fyrirliggjandi hugmyndir um að konur eigi að leggja minni áherslu á vinnu utan heimilis en karlar og því frekar að vera í hlutastarfi (sem síðan hefur ekki bara áhrif á laun og þar með lífeyrisréttindi heldur einnig möguleika á starfsframa). Þá geta slík norm orðið til þess að leikskólarnir fari að gera enn meiri kröfur á foreldra um þátttöku í starfinu, sem skapar ójöfnuð meðal barnanna sem er nú þegar til staðar, því þó þessi tilefni séu skemmtileg þá komast ekki allir foreldrar frá vinnu í ferðir og kaffiboð í leikskólann.

Þær raddir heyrast alltaf reglulega að slæmt sé fyrir börn að vera lengi á dagvistunarstofnunum og verið getur að þetta tilraunaverkefni Hafnarfjarðarbæjar sé runnið af þeim meiði, búa eigi sumsé til hvata fyrir fólk til að vera meira með börnunum sínum. Þá er bærinn á villigötum, því það er ekki þess háttar hvati sem fjölskyldufólk þarfnast. Það sem þarf er að laga vinnumarkaðinn að fjölskyldulífi, til dæmis með því að stytta vinnuvikuna og hækka launin, lengja þarf fæðingarorlofið og hækka þar greiðslur, bjóða þarf upp á almennileg dagivstunarrúrræði eftir að orlofi lýkur, fjölga þarf veikindadögum vegna barna og annarra fjölskyldumeðlima, auka jöfnuð með lægri gjaldtöku í skólakerfinu og hækkuðum barnabótum. Það er sum sé af nógu að taka ef bæta á aðstæður fjölskyldufólks, en grundvallaratriðið þar er að fólk geti unnið minna. Ekki að fólk sem nú þegar hafi efni á því fái auka bónus í formi niðurfellingar gjalda.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.