Mannréttindahneyksli

Höfundur: Kat Banyard

katbanyardmyndTólfta mars 2015 var Alejandra Gil, 64 ára, dæmd í 15 ára fangelsi í Mexico-borg fyrir mansal. Að sögn stjórnaði hún vændisstarfssemi sem hagnýtti um 200 konur. „Maddaman á Sullivan“ eins og hún var kölluð, var meðal valdamestu vændismangara á Sullivan-stræti sem er alræmt fyrir vændi. Gil og sonur hennar tengdust mansalsnetum í Tlaxcala-ríki, sem er miðstöð mansals í Mexíkó.

Madai, 24 ára kona sem var seld til Mexíkó-borgar, var ein þeirra sem bar vitni gegn Gil. Hún sagði að Gil hefði jafnan fylgst með þeim úr bílnum. Sonur hennar eða hún ók þeim á hótelin og rukkaði þær. „Hún hélt bókhald yfir allt, jafnvel hve lengi við vorum að þessu.“ Madai hitti mansala sinn þegar hún var 19 ára. „Hann heillaði mig og ég varð ástfangin af honum og trúði hverju orði hans, hélt við myndum búa saman og að hann myndi giftast mér. Hann var sá sem afhenti mig Alejandra Gil og syni hennar.“ Hector Perez, lögmaður þolenda í máli Gil, sagði að Gil hefði fengið 15 ára dóm „því hún tók á móti seldum þolendum og fékk þær með blekkingum til að stunda vændi. Ásamt daglegum störfum sínum að hórmangi var Alejandra Gil einnig forseti Aproase, samtaka sem að eigin sögn berjast fyrir réttindum fólks í vændi, en voru í raun skjól fyrir hórmangið. Og allt fram að handtöku Gil í fyrra, var „Maddaman á Sullivan“ varaforseti samtakanna Global Network of Sex Work Projects (NSWP).

NSWP er enginn jaðarhópur. Árið 2009 var hann skipaður til meðstjórnar í ráðgjafahópi um HIV og vændissstörf innan UNAIDS. UNAIDS er alþjóðlegt samvinnuverkefni sem ber ábyrgð á heimsátaki til að stöðva útbreiðslu HIV og var ráðgjafahópurinn stofnaður til að „fara yfir og taka þátt í þróun stefnu UNAIDS, bæði hvað varðar fræðslu-og upplýsingaefni sem og yfirlýsingar frá þeim“.  Í ársskýrslu WHO 2012 um vændissölu er Alejandra Gil tiltekin sem ein af „sérfræðingunum“ sem lögðu til „tíma og sérþekkingu“ til að móta tillögur sínar. Merki NSWP er á forsíðunni ásamt merki WHO, UNAIDS og Mannfjöldasjóðs SÞ.

Amnesty International vísar einnig til NSWP og ráðgjafahópsins í drögum að stefnu sinni þar sem hvatt er til þess að vændishúsarekstur verði afglæpavæddur – tillaga sem fyrrverandi vændiskonur og jafnréttishópar víða um heim hafa fordæmt, þar á meðal SPACE InternationalWomen’s Aid og Coalition Against Trafficking in Women. Stefna Amnesty, tilgreinir „mannréttindasamtök“ sem styðja téða tillögu. „Mestu máli skiptir“ segir Amnesty „að mörg samtök vændisstarfsmanna og neta, þar á meðal Global Newwork of Sex Work Projects styðja afglæpavæðingu vændisvinnu“.

Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat hórmangari komist í næstæðstu stöðu alþjóðasamtaka sem opinberlega veittu SÞ ráðgjöf um vændisstefnu og sem vitnað er til í drögum að stefnu Amnesty International? Sagði Maddaman á Sullivan skilið við hagsmuni sína sem hórmangari þegar hún gerði kröfur til stjórnvalda og alþjóðastofnana fyrir hönd NSWP?

Hún þurfti þess ekki. NSWP berst fyrir afglæpavæðingu „þriðju aðila“ í vændi. Þeir eru að sögn samtakanna, „framkvæmdastjórar, vændishússtjórar og allir aðrir sem teljast stuðla að sölu á vændi“. Samtökin staðhæfa einnig að „vændisstarfsmenn geti verið undirmenn, yfirmenn eða aðilar að víðtækum vinnutengdum samböndum.“ Samkvæmt stefnu NSWP var hórmangarinn Alejandra Gil „vændisstarfsmaður“ sem gegndi hlutverki „framkvæmdastjóra“ í iðninni. Samtökin berjast fyrir því að hórmang og vændishúsarekstur verði viðurkennd sem lögmæt iðja.  Í hlutverki sínu sem varaforseti NSWP þurfti Gil ekki að leyna hagsmunum sínum sem hórmangari, hún hafði umboð til að vinna þeim brautargengi og þessum hagsmunum hefur verið fylgt eftir með undraverðum árangri hjá sumum helstu mannréttindastofnunum heimsins.

Til að skilja hvernig samtök Gil fóru að þessu er vert að skoða það sem gerðist 2007. Þá birti UNAIDS „leiðbeiningar“ um hvernig þjóðir skyldu bregðast við HIV krísu í vændissölu og ályktaði með réttu að til að berjast gegn HIV væri mikilvægt að ráðast gegn spurn eftir vændi: „það er mögulegt og tímabært að ná fram samfélagslegum breytingum og breyttu hegðunarmynstri meðal karla, til að draga úr spurn eftir vændi.“ Þetta féll í grýttan jarðveg hjá samtökum Gil sem lýstu yfir „áhyggjum“ gegnum vinnuhóp, um „áherslu skýrslunnar á að draga úr vændissölu.“

Girl with a bar-codeAf óskiljanlegum ástæðum ákveður UNAIDS í kjölfarið að setja NSWP – samtök sem vilja að vændissala og vændishúsarekstur verði skilgreind sem „venjuleg vinna“ – yfir nýjan ráðgjafarhóp um HIV og vændisstarfsemi. Í kjölfarið var endurskoðuð útgáfa „leiðbeininga“ UNAIDS birt, í þetta sinn með viðauka sem ráðgjafarhópurinn hafði útbúið. Þar er mælt með þessu: „Ríki ættu að víkja frá glæpavæðingu vændis eða starfsemi sem tengist því. Afglæpavæðing vændisstarfssemi ætti að felast í því að afnema hegningarlög og viðurlög við kaupum og sölu á kynlífi, umsjón með vændissölum og vændishúsum og annarri starfsemi sem tengist vændisstarfsemi.“ Þessi skýrsla er nú aðalheimild hópa sem þrýsta á stjórnvöld til að lögleiða hórmang og rekstur vændishúsa.

Þetta lagakerfi sem NSWP berst fyrir – alger afglæpavæðing vændissölu – er einmitt það sem forystumenn Amnesty International kusu að styðja í ágúst, og sem þau hyggjast taka upp sem opinbera stefnu í þessum mánuði. Amnesty staðhæfir að stefna samtakanna sé afrakstur tveggja ára rannsókna og að hún sé besta leiðin til að tryggja mannréttindi fólks sem fær greitt fyrir kynlíf. Það er vægt til orða tekið að segja að rannsakendum Amnesty hafi sést yfir „smáræði“ og nær á engan hátt utan um það hve fáránleg þessi nýja stefna samtakanna er. Vændishúsarekstur, hórmang og greiðsla fyrir kynlíf eru birtingarform viðskiptavæðingu kynlífs. Amnesty International er í þann veginn að lýsa yfir afglæpavæðingu ákveðins forms af ofbeldi gagnvart konum, sem gerir ríkjum kleift að taka sér hlutverk hórmangara: viðurkenna og leyfa vændishús og skattleggja konurnar sem vinna þar.

Esohe Aghatise, framkvæmdastjóri hjá Equality Now, segir: „Það er skelfilegt að dæmdur mansali skuli hafa áhrif á stefnu, sem er í sjálfu sér í ósamræmi við mannréttindi og alþjóðalög. Við þurfum að binda enda á eftirspurnina sem kyndir undir mansali, frekar en að afglæpavæða þá sem hagnast á því að misnota aðra. Stofnanir SÞ þurfa tafarlaust að skýra afstöðu sína gagnvart vændissölu – einkum í ljósi þessara fordæmandi gagna“.

Það er hafið yfir vafa að afglæpavæða ætti þá sem sem selja sig. En ekki þá sem nýta aðra til þess að hagnast, hórmangara, vændishúsarekendur og vændiskaupendur. Þeir eru gerendur – ekki framkvæmdamenn eða neytendur. Mia de Faoite, sem lifði af vændi, sagði mér: „Ég kom úr vændinu algerlega niðurbrotin sem mannvera og get ekki skilið hvernig slíkt ofbeldi gæti nokkru sinni verið viðurkennt og flokkað sem „vinna“.

Það er mannréttindahneyksli að dæmdur mansali, Alejandra Gil, og samtök hennar, skuli hafa átt svona ríkan þátt í stefnumótun SÞ um vændi. Brýnt er að UNAIDS framkvæmi ítarlega og gegnsæja endurskoðun á öllum stefnumálum sem NSWP hefur veitt ráðgjöf um og rannsaki hvernig þetta gat gerst. Hvað Amnesty International varðar, þá væri sturlun að sjá samtökin fara lengra með kröfu sína um algera afglæpavæðingu vændissölu – það þarf ekki dóm yfir einum helsta málsvaranum fyrir mansali til að sjá hverjir munu hagnast mest þegar ríki lögleiða vændishúsasrekstur og hórmang.

Kat Banyard, höfundur Pimp State: Sex, Money and the Future of Equality, útgefin 2016. Greinin birtist upphaflega hérna og er birt með leyfi höfundar. Gísli Ásgeirsson þýddi.  Á Knúzinu eru einnig greinar um vændi og kynlífsvinnu.

notforsalebanner

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.