Efnisviðvörun: Eftirfarandi texti inniheldur lýsingar á kynferðisofbeldi.
Það eru að verða 18 ár síðan þú nauðgaðir mér. Ég kærði þig í kjölfarið og þú skildir ekkert í þessum „röngu“ ásökunum og sagðir að allt hefði farið fram með mínu samþykki. Þú kærðir mig strax til baka fyrir meiðyrði og fórst fram á hærri skaðabætur en ég hafði gert.
Ætli æra karlmanns sé verðmætari en kynfrelsi konu? Ég hef oft spurt mig að því síðan. Því vissulega var það óþægilegt fyrir þig að ég skildi segja frá, hvað þá að kæra þig. Æra þín hefði getað borið hnekki, en svo virðist ekki hafa verið raunin, enda sé ég þig oft dásamaðan í fjölmiðlum og þú hefur haldið áfram með líf þitt eins og ekkert sé.
Frásagnir okkar voru samhljóma í yfirheyrslu hjá lögreglu en okkur greindi á um samþykkið. Þú taldir þig hafa samþykkið og ég staðhæfði að þú hefðir ekki haft það.
Ég veit ekki hvort þú hefur einhvertíma efast um sjálfan þig, hvort það sé einhver rödd sem hefur hvíslað að þér að þú hafir í raun beitt aðra manneskju kynferðisofbeldi. Ég efast um það en ég get sagt þér að ég hef oft efast um réttmæti þess að hafa leitað réttar míns.
Meginástæðan er sú að mér fannst ég ekki bregðast rétt við þegar þú réðst á mig og byrjaðir að rífa niður buxurnar mínar. Ég tosaði á móti, þær rifnuðu, rennilásinn sprakk, ég varð skíthrædd og ég fraus. Ég var skelfingu lostin, stödd upp í sveit, engin nálægt og ég vissi að það þýddi ekki að öskra. Ég vissi ekki hvernig ég kæmist út, hvernig ég kæmist heim eða hvar ég væri í rauninni stödd.
Þetta kvöld drakk ég ansi ótæpilega (það var rangt), þú bauðst til að keyra mig heim og hafðir bílstjóra á þínum snærum. Það var „rangt“ af mér að þiggja farið. Ég man eftir jeppa, við sátum aftur í og miðstöðin var á fullu þótt það væri júlí og heitt í veðri. Mér leið ömurlega, varð flökurt og þurfti að æla. Ég bað þig um að lofa því að gera ekkert við mig. Ég sagði líka ansi oft að ég vildi alls ekki sofa hjá þér og bað þig um að virða það.
Ég veit ekki hvenær þú hélst að ég hefði skipt um skoðun. Kannski var það þegar ég þurfti að æla og þið stoppuðuð bílinn, þú hjálpaðir mér og ég trúði því að allt yrði í lagi. Kannski var það þegar þú spurðir mig ælandi hvort ég vildi fara heim og ég neitaði því þar sem mér fannst ég vera allt of drukkin. Kannski hélstu þá að það þýddi að ég væri samþykk kynmökum en veistu það er ekki að samþykkja kynlíf, þótt ég sitji með þér í bíl og vilji ekki fara heim til mín strax. En auðvitað var það „rangt“ af mér að treysta þér. Ég hefði átt að vita betur.
Ég man eftir að við vorum komin út fyrir borgina, í hvaða átt vissi ég ekki. Ég hélt áfram að tönglast á því að ég vildi ekki sofa hjá þér. Ég veit ekki af hverju ég gerði það. Líklega vegna þess að ég fann vanmátt minn í aðstæðunum, ég hafði enga stjórn og varð mjög hrædd. Bílstjórinn þinn hlýtur að hafa heyrt í mér því hann heyrði alla vega í þér þegar þú sagðir honum hvert hann ætti að fara. En kannski hefur hann valkvæða heyrn og getur lokað á sér eyrunum þegar hann er ekki sjálfur ávarpaður.
Bílinn stoppaði við einhvern bæ, sem þú kallaðir búgarðinn þinn. Ég hélt að við færum öll inn í búgarðinn þinn en það var „rangt“ hjá mér að halda það og það var „rangt“ af mér að stíga út úr bílnum. Ég gerði það samt, þurfti aftur að æla og þú fórst með mér en bílstjórinn þinn keyrði í burtu.
Ég veit ekki af hverju ég hélt að hann kæmi með líka. Kannski vegna þess að þið ætluðuð að keyra mig heim. Þú bauðst mér inn til að hressa mig við, ég gæti farið í sturtu og jafnað mig. Ég hikaði, ég skildi ekki hvað var að gerast eða af hverju bílstjórinn þinn keyrði í burtu. Bílinn var farinn og hvernig átti ég að komast heim? Ég vissi ekkert hvar ég væri, nema einhverstaðar upp í sveit, ein með þér. Þú sagðir mér að þú mundir redda mér heim. Gætir hringt á bílstjórann þinn aftur eða í leigubílsstjóra sem væri vinur þinn. Ég fór með þér inn í húsið, það var „rangt“. Ég hefði átt að gera eitthvað allt annað. Hlaupa í burtu… bara eitthvert, þótt ég vissi ekki hvar ég væri eða í hvaða átt ég ætti að hlaupa. Ég varð hrædd, mjög hrædd og ég fraus í þessum aðstæðum. Það voru „röng“ viðbrögð. Ég veit ekki hvaða viðbrögð hefðu verið réttari. En þessi voru „röng“.
Mér finnst óþarfi að fara út í smáatriði á þessum tveimur tímum sem voru þeir lengstu sem ég hef lifað. Ég gerði allt sem ég gat til að hafa lágmarksstjórn á aðstæðum. Ég gerði mér strax grein fyrir því að ég gæti ekki öskrað, að ég gæti lítið barist á móti, þú virtist bara taka viðnámi mínu sem ögrun.
Ég hugsaði allan tímann að ég skildi koma mér út úr þessum aðstæðum hvað sem það kostaði. Það var „rangt“ af mér að reyna að bjarga lífi mínu í þessum aðstæðum. Ég hefði átt að berjast meira á móti, ég hefði átt að vera með meiri áverka. Ég hefði átt að gera allt öðru vísi en ég gerði.
Það var „rangt“ af mér að vilja gera nánast hvað sem er til að komast í burtu frá þér. Ég beið bara eftir að þú samþykktir að hleypa mér heim. Að þú hringdir á leigubíl og hleyptir mér út. Það var „rangt“ af mér að reyna svona mikið að bjarga sjálfri mér.
Loksins kom leigubílinn og það var einn af vinum þínum sem keyrði mig heim. Og vegna þess að hann var vinur þinn, öskraði ég ekki né grét inn í leigubílnum eða lét hann keyra mig beinustu leið upp á Neyðarmóttöku. Það var „rangt“ af mér að upplýsa ekki vin þinn um að þú hefðir nauðgað mér. Hann hefði líklega tekið mér opnum örmum og gert allt til að hjálpa mér til að fá aðstoð. En ég sat bara í leigubílnum og sagði ekki orð. Grét ekki einu sinni, vafði bara að mér kápunni og reyndi að láta eins og ekkert væri að. Og ég fór ekki á Neyðarmóttöku fyrr en tveimur dögum seinna vegna þess að ég ætlaði að harka þetta af mér. Það var „rangt“ að fara ekki strax á Neyðarmóttökuna. Það var líka „rangt“ að fara beint í sturtu en mér fannst ég bara svo skítug, að ég vildi þvo þig af mér. Lyktin af þér var föst í minninu og ég fór að þrífa mig mjög mikið næstu mánuðina, því ég fann lyktina af þér alls staðar.
Það var út af sársauka sem ég fór á neyðarmóttöku, vegna þess að ég gat varla setið. Þar var mér sagt að ég væri það illa farin að þau vildu helst leggja mig inn. Vegna þess að ég kenndi mér um að hafa brugðist „rangt“ við og barist ekki nóg á móti sögðu þau á Neyðarmóttökunni að það væri „rangt“ af mér að finnast ég bera ábyrgð á því sem gerðist. Þau sögðu að ég gæti kært þig, ég hefði áverka og rifin föt því til sönnunar. Það er víst betra að hafa eitthvað en ekki neitt, meiri líkur á sakfellingu. Ég varð í smá stund ánægð með þá áverka sem ég fékk, vildi samt að þeir hefðu verið meiri og var í mörg ár að fyrirgefa sjálfri mér fyrir hversu „rangt“ ég hafði brugðist við.
Lengi vel skildi ég ekki af hverju ég hafði ekki barist eins og ljón, af hverju ég hafði ekki bara leyft þér að drepa mig, þegar mig langaði mest af öllu að deyja þegar mér leið sem verst. Það tók mig tíma að meðtaka að ef ég kýs að taka eigið líf, þá er það mín ákvörðun. Það er annað ef einhver annar tekur þá ákvörðun; þá berstu fyrir lífi þínu eins og á vígvelli, með hverri einustu frumu því að lífsviljinn er það síðasta sem fer, að því komst ég síðar.
Ég fékk réttargæslumann og mætti í skýrslutöku á lögreglustöð viku eftir nauðgunina. Það var „rangt“ að mæta svona seint. Ég hafði gert allt „rangt“, farið í bað, farið tveimur dögum seinna á Neyðarmóttöku. En guði sé lof fyrir áverkana, fyrir áfallastreituna og fyrir sjálfsvígstilraunina, sem voru vísbending um að eitthvað meira væri að mér en ásókn eftir peningum eða rætin þörf til að kæra saklausan mann að ósekju.
Annað og næstum verra áfall kom eftir að málinu var vísað frá hjá Ríkissaksóknara. Ég trúði því af einlægni að réttarkerfið virkaði. Að menn sem nauðga færu í fangelsi, fengju í það minnsta smá bakþanka og iðruðust framkomu sinnar. Gæfu loforð um að gera þetta aldrei aftur og myndu aldrei meiða fleiri konur, því ég vissi að þú hafðir meitt þær nokkrar. Kannski hefði ég mátt vita að þar sem þú kærðir mig til baka fyrir rangar sakagiftir væri afar ólíklegt að þú iðraðist. Þegar niðurfellingin kom frá Ríkissaksóknara veifaðir þú henni sem vitnisburð um að þú værir saklaus. Ég hef oft spurt mig hvort að þú trúir því sjálfur. Hvarflaði það aldrei að þér að þú hefðir í raun meitt mig? Að ákæran væri vegna þess að þú hafðir gert eitthvað rangt?
Ég veit að þú sagðir að þetta væru áverkar eftir mig sjálfa, því þú sagðist ekki hafa veitt mér þá. Í niðurfellingu Ríkissaksóknara stóð að áverkar gætu mögulega hafa átt sér stað við harkaleg kynmök og allur vafi væri sakborningi í vil. Réttargæslumaðurinn minn sagði að niðurfellingin þýddi ekki að mér væri ekki trúað, aðeins að ekki hafi tekist að sanna að nauðgun hafi átt sér stað. Hann tjáði mér jafnframt að kæra þín um meiðyrði hafi verið felld niður vegna þess að ekki hafi tekist að sanna að ég hefði kært þig að ósekju.
Þessi niðurstaða gjörbreytti minni heimsmynd, ég gat náð utan um að til væru menn sem nauðguðu. Sem gætu ekki átt í jafningjasamskiptum við annað fólk, sem fengju kikk út úr valdi og hefðu ekki samkennd eða innsæi í samskiptum við annað fólk. Ég átti hinsvegar erfiðara með að ná utan um þá staðreynd að réttarkerfið sé frekar hannað sem vörn fyrir sakborninga. Að kynferðisbrotamál séu næstum alltaf felld niður, þrátt fyrir áverka, þrátt fyrir rifin föt og þrátt fyrir áfallastreituröskun. Að brotaþoli kynferðisofbeldis sé alltaf tortryggður á meðan sakborningur kærir þig bara til baka fyrir rangar sakagiftir.
Réttarkerfið er byggt þannig upp að betra sé að 10 sekir menn gangi lausir en einn saklaus sitji í fangelsi. Eftir stendur að þín niðurfelling varð mín sakfelling. Ég naut aldrei neins vafa, ég hafði ekkert um mál mitt að segja, var aðeins vitni í eigin máli, þar sem mér var nauðgað. Ég gat því ekki kært niðurstöðu ríkissaksóknara um niðurfellingu en þú hefðir getað það sem sakborningur.
Ég hef stundum spurt mig að því hvort að ég mundi kæra nauðgun ef ég yrði aftur fyrir slíku broti. Í hreinskilni sagt veit ég það ekki. Lítið hefur þokast í þessum málum á þeim 18 árum síðan ég kærði. Ég hef oft heyrt sagt að það hreinlega þýði ekkert að kæra kynferðisbrot.
Þá kemur upp tilhugsunin um þig kær(ð)i ofbeldismaður. Ef menn eins og þú fá þau skilaboð að þeir geti virt að vettugi kynfrelsi annarra þá hafið þið ekkert aðhald. Það eina sem virðist skipta menn eins og þig máli er ÆRAN ykkar og orðsporið. Þess vegna mundi ég kæra þig aftur, þótt að niðurstaðan yrði sú sama. Vegna þess að nauðgun er RÖNG samkvæmt lögum og samkvæmt samfélagslegum sáttmálum. Það sem þú gerðir mér var RANGT. Það er ekki hægt að bregðast rangt við þegar manneskja verður fyrir nauðgun. Áherslan á að vera á verknaði geranda, ekki viðbrögðum brotaþola.
Anna Bentína Hermansen