Brennandi blús

Höfundur: Brynhildur Björnsdóttir

Karen Lovely hóf feril sinn sem blússöngkona árið 2007, þá komin vel yfir fertugt. Henni skaut upp á blúshimininn þegar hún tók þátt í alþjóðlegri blúskeppni 2010 og lenti í öðru sæti. Árið 2011 var hún tilnefnd til þriggja verðlauna á Blues Music Awards sem besti samtímakvenblúsarinn, fyrir bestu samtímablúsplötuna og besta lagið en það var lagið Still the rain af samnefndri fyrstu plötu, lag sem fjallar um heimilisofbeldi. Hún hefur fest sig í sessi sem söngvari og lagahöfundur með einstakan stíl og er tilnefnd til verðlaunanna10MilesPortraitCOLORhirez í ár sem besti samtímakvenblúsarinn. Hún er þekkt fyrir ástríðufullan og kraftmikinn flutning og hefur einnig hlotið fjölda viðurkenninga á því sviði. Karen Lovely er gestur Blúshátíðar í Reykjavík að þessu sinni og Knuz.is fékk tækifæri til að ræða við hana um blúsinn, jafnréttismál í tónlistarheiminum og virka þátttöku hennar í baráttu gegn heimilisofbeldi.

„Ég er elst af níu systkinum og við vorum skítfátæk. Tónlist var stór hluti af uppvexti mínum, bæði mamma og amma sungu allan daginn, mest blús. Uppáhaldslagið hennar ömmu var Pennies from heaven með Billie Holliday. Mig langaði alltaf til að verða söngkona en var með sviðsskrekk og þorði ekki að syngja ein. Ég bjó í London árið 1987 og þá vorum við í tríói nokkur saman sem flutti allskonar tónlist og ég söng, komin nógu langt frá heimahögunum til að þora. Síðan liðu tuttugu ár þar sem ég var upptekin við annað og hafði lagt drauminn á hilluna. Árið 2007 var sonur minn mjög veikur og lá á spítala og ég hætti öllu sem ég var að gera til að annast hann. Ein hjúkkan á spítalanum hálfpartinn dró mig með sér á kóræfingu því henni fannst nauðsynlegt fyrir mig að komast aðeins frá. Ég lét tilleiðast sem var mjög gott fyrir mig og fór að mæta með kórfélögum á blúsdjammklúbb eftir kóræfingu á mánudagskvöldum. Þá kviknaði einhver blúshugur í mér aftur og ég spurði klúbbeigandann hvort ég mætti ekki djamma hjá honum. Ég steig á svið í september 2007 og þá var ekki aftur snúið,“ segir Karen hlæjandi og bætir við að mörgum hafi fundist það frekar stórhuga af miðaldra konu skipta um hest í miðri á og byggja upp söngferil frá grunni. „En ég er mjög heppin hvað allt hefur gengið vel. Eitt af því sem ég elska við blúsinn er að fólk er boðið velkomið á öllum aldri, ólíkt til dæmis poppinu þar sem allt snýst um að vera ung. Etta James var að syngja alla ævina og flestir blúslistamenn eru að spila fram eftir öllum aldri. Ég hef hvatt vinkonur mínar til dáða og ein þeirra er að taka sín fyrstu skref, að nálgast sextugt og var að koma lagi á vinsældalista.“

Konur breiddu út blúsinn

Blúsinn hefur alltaf staðið hjarta hennar nærri. „Ég hef alltaf elskað blúsinn, bæði tónlistina en ekki síður sögurnar sem sagðar eru í textunum og heiðarleikann, það er ekki mögulegt að vera óekta eða yfirborðsleg í blús. Textarnir eru um alvöru hluti, raunveruleikann og þegar ég er að syngja þá finn ég fyrir þeim þótt ég hafi kannski ekki upplifað nákvæmlega þetta sjálf. Ég hlustaði mikið á blússöngkonurnar frá þriðja áratugnum þegar ég var lítil og alltaf síðan og þær eru fyrirmyndirnar mínar. Margar af blússöngkonunum frá þessum tíma sömdu sína eigin tónlist og sú tónlist var úr þeirra eigin lífi. Möguleikar þeirra á því að framfleyta sér voru ekki miklir, þær höfðu um það að velja að vera húshjálp, vændiskona eða söngkona og sumar gerðu þetta allt saman. Það gleymist alltaf þegar talað er um blús að blúsinn væri ekki til ef þessar listakonur hefði ekki verið til. Bessie Smith t.d. bjargaði Columbia Records með plötusölu. Á upphafsárum blússins voru það söngkonurnar sem slógu í gegn, festu blúsinn í sessi en þetta veit enginn núna. Allir eru svo uppteknir af Robert Johnsson en það voru þessar konur sem fóru með blúsinn til Norðurríkjanna og voru að selja plötur og breiða út fagnaðarerindið, ekki karlarnir.  Þær voru aðalatriðið.“

Karen er það sem kallað er contemporary blues artist, sem þýðir að hún syngur yfirleitt sín eigin lög frekar en sígild lög annarra listamanna. „Ég gaf samt út „tribute“plötu þar sem ég söng lög eftir þessar konur, fyrirmyndirnar mínar eins og Bessie Smith, Billie Holiday, Alberta Hunter, Victoria Spivy, Ma Rainy sem er stundum kölluð mamma blússins og Big Mama Thornton. Hún var gítarleikari, söngvari, munnhörpuleikari og stórkostleg söngkona sem var farið illa með í tónlistariðnaðinum og sagan hefur týnt. Annað sem er týnt eða gleymt er sú staðreynd að þessar konur voru upp til hópa lesbíur eða tvíkynhneigðar og þær sungu um það! Þessi gömlu lög eru með stókostlegum textum, fullum af skilaboðum og orðfæri sem aðeins minnihlutahópar meðal áhorfenda skildu, stundum bara þeldökkir og stundum bara samkynhneigðar konur.“

Karen segir blúsheiminn mjög afturhaldssaman þegar komi að samkynhneigð. „Ég þekki blúsara sem þora ekki að koma út úr skápnum því þeir eru hræddir um að missa aðdáendur sína. Það er sorglegt því blúsinn gefur sig út fyrir að vinna gegn kynþáttafordómum en bæði kynjamisrétti og fordómar í garð annarra minnihlutahópa lifa þar góðu lífi.“ Karen telur að ástæðan fyrir því að blúskonurnar gleymdust í sögunni séu margþættar. „Ég held að þetta hafi gerst eftir seinni heimstyrjöldina þegar konur voru eiginlega reknar aftur inn á heimilin eftir að hafa unnið karlastörfin í stríðinu. Blúsinn fór úr tísku á þesum tíma líka og þá hurfu sögurnar. Það var ekki fyrr en á sjöunda og áttunda áratugnum að blúsinn kom aftur í tísku og þá var bransinn orðinn mjög karllægur og ekki margar konur við stjórnvölinn og svoleiðis hefur það verið allt of lengi. En vonandi fer það að breytast.“

Gítarinn síðasta vígið

National Women in Blues eru nýstofnuð samtök sem hafa það að markmiði að koma konum á framfæri í blúsnum, að vinna saman að því að finna framleiðendur  sem halda konum á lofti og gera veg blúskvenna meiri. Karen tekur virkan þátt í starfi samtakanna. „Við hittumst á International Blues Competition í febrúarla2015 síðastliðnum og áttum saman frábæra daga þar sem konur í blús spjölluðu saman, deildu reynslu og gáfu hver annarri ráð um hvernig skal koma sér á framfæri. Söngkonurnar eiga auðveldara uppdráttar en hljóðfæraleikararnir þar sem það er meiri hefð fyrir blússöngkonum en blúskonum sem spila á gítar, trommur, bassa eða píanó, auk þess sem söngkonur eru tilnefndar til verðlauna í sérstökum söngkvennaflokki og fá því sjálfkrafa meiri athygli. Á sumum hátíðum er blúskonum öllum troðið saman á sérstök kvennakvöld þar sem á að afgreiða blúskonur á einu bretti, uppfylla einhvern kvóta þó margar konur standi körlum fyllilega á sporði sem hljóðfæraleikarar og geti algerlega staðið við hliðina á þeim á hvaða sviði sem er. En nú eru margar yngri stelpur sem spila á bassa, trommur eða píanó að fá viðurkenningar í „blönduðum“ hópum, þ.e. þar sem bæði karlar og konur koma til greina. Gítarinn virðist þó ennþá vera vígi blúskarlsins. Sem er óþolandi. Laura Chavez er einn besti gítarleikari í heimi og hún er aldrei tilnefnd til verðlauna fyrir gítarleik og það má einnig nefna Samönthu Fish og fleiri og fleiri. Nú þegar það er kona, Barbara B. Newman, sem veitir The Blues Foundation forstöðu fer þetta vonandi að breytast. Blúsgítarinn er síðasta vígið en það fellur á endanum.“

Syngur um það sem skiptir máli

Blúsinn fjallar gjarna um samskipti kynjanna og textarnir lýsa oft ofbeldi og kvenfyrirlitningu. Hvernig líður Karen með það? „Á upphafsárum blússins var ofbeldi svo mikill hluti af samfélaginu að það var næstum eins og það tæki því ekki að tala um það nema í framhjáhlaupi, svona var þetta bara og það viðhorf endurspeglast oft í gömlu textunum. Núna er miklu meiri vitund í samfélaginu um ofbeldi og að það þrífst hjá ríkum og fátækum, hvítum og svörtum, gagnkynhneigðum og samkynhneigðum. Mitt þekktasta lag Still the rain er um konu sem drepur manninn sinn eftir margra ára heimilisofbeldi. Ég hef náð til margra með þessu lagi enda er þetta sterkt lag. Það er ólíkt gömlu textunum að því leyti að það snýst um að borga til baka, að taka stjórnina á þann eina hátt sem kona í stöðu þeirrar sem er í laginu hefur í úrræðaleysinu sem einkennir þennan málaflokk í dag og hefur alltaf gert. Þú spurðir hvernig mér líði með ofbeldið í blústextunum. Ég er reið og æst og brjáluð. Ég vil tengjast tilfinningalega við það sem ég syng og ég finn til þegar ég syng. Ég get alveg sungið fyndin og hress lög líka en ég vil nota tónlistina sem miðil til að fjalla um það sem skiptir máli og ég syng um heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, kúgun og fleira. Þetta eru málefni sem brenna á mér og ég sem um þau því ég vil tala um þau og vekja fólk til vitundar.“

Karen er bjartsýn á framtíð blússins og lítur þá helst til þátttöku kvenna. „Konur eru að taka stjórnina, búnar að stofna umboðsskrifstofur og útgáfur og þetta stuðningsnet er að virka vel. Ég vil hjálpa yngri listakonum og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á miðjum aldri eins og ég gerði. Næsta skref er að hafa vinnustofu þar sem byrjandi blúskonur geta komið og fengið leiðbeiningar og aðstoð hjá þeim sem gengur vel.“ Komið er að lokum spjallsins en Karen vill segja eitt að lokum: „Ég bið alltaf um að með allri umfjöllun um mig og mín verk sé hlekkjað á síður stofnanna og athvarfa þar sem fórnarlömb heimilis- og kynferðisofbeldis á staðnum geta fengið aðstoð.“ Knuz.is er ljúft og skylt að verða við þeirri beiðni: Kvennaathvarfið og Stígamót.

Karen Lively er eins og áður sagði gestur Blúshátíðar í Reykjavík og leikur á stórtónleikum á Reykjavík Hilton Nordica fimmtudaginn 24. mars kl. 20. Miðasala er á miði.is og við innganginn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.