#WeAreNotThis: Uslaótti í Norður Karólínu

Höfundur: Herdís Schopka

Andrew M. Cuomo, ríkisstjóri í New York ríki, gaf á mánudaginn út tilskipun þess efnis að nánast öll ferðalög á vegum NY-ríkis til Norður-Karólínuríkis væru óheimil. Þetta gerði hann til að koma í veg fyrir að New York-ríki styrkti á nokkurn hátt að nauðsynjalausu ríki sem hefur leyft með lagasetningu mismunun gegn hinsegin fólki.

Lögin nýju í NK, sem nefnd eru „Public Facilities Privacy and Security Act“ eða einfaldlega „House Bill 2“, eru nánast fordæmalaus í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim eru ríkislög alltaf rétthærri en tilskipanir í Capture d’écran 2016-03-30 à 09.49.27einstaka borgum og sveitarfélögum í málum sem snerta laun, vinnurétt og aðgengi að almenningsþjónustu.  Þannig banna nýju lögin sveitarfélögum að setja eigin reglur gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (sexual orientation and gender identity) í almannarými. Í ríkinu voru fyrir lög sem banna mismunun á grundvelli kynþáttar, trúar, litarhafts, uppruna og líffræðilegs kyns. Þau lög banna hins vegar ekki mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar.

Forsaga málsins er sú að í borginni Charlotte í Norður-Karólínuríki var búið að samþykkja tilskipun sem átti að banna fyrirtækjum að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Sem dæmi myndi tilskipunin gera transfólki kleift að nota almenningssalerni þess kyns sem viðkomandi telur sig tilheyra. Tilskipunin átti að taka gildi 1. apríl nk.

Þessu vildi Norður-Karólínuþing ekki una og á miðvikudag fyrir skírdag, 23. mars sl, var haldinn aukaþingfundur til þess að setja þessi nýju lög og hindra að tilskipunin í Charlotte tæki gildi. Á þessum aukaþingfundi, þeim fyrsta í 35 ár, var frumvarpið lagt fram, rætt og samþykkt og eftir stífa 12 tíma törn staðfesti loks ríkisstjórinn, repúblikaninn Pat McCrory, lögin. Transfólki í Norður-Karólínu mun þannig einungis vera heimilt að nota almenningssalerni þess kyns sem það fæddist í. Eina undantekningin frá þessu er ef transfólk hefur fengið kyni sem því var úthlutað við fæðingu breytt á fæðingarvottorði og/eða hefur undirgengist kynleiðréttingaraðgerð.

Myndin er fengin að láni hjá nationofchange.org og sýnir nokkra mótmælendur á staðnum.

Auk New York-ríkis hafa San Francisco, Seattle og New York-borg bannað starfsfólki sínu eða öðrum á þeirra vegum að fara í ónauðsynlegar vinnuferðir til N-Karólínu. Hröð málsmeðferð í þinginu gerði mótmælendum ómögulegt að koma í veg fyrir að lögin væru samþykkt en mikil mótmæli urðu fyrir utan þinghúsið og voru a.m.k. fimm manns handteknir. Á Twitter tjáir fólk sig með tagginu #WeAreNotThis.

Mótmælin sem mestu kunna að skipta í framtíðinni eru hljóðlát en líklega kostnaðarsöm mótmæli fyrirtækja. Repúblikanar í Norður Karólínu eru ákafir í að fá sem flest og stærst fyrirtæki til að flytja starfsemi sína til fylkisins en mörg slík eru ákaflega ósátt við nýju lögin. Meðal þeirra sem hafa látið í sér heyra eru Dow Chemical, IBM, American Airlines, PayPal og Apple. Bandaríska úrvalsdeildin í körfubolta, NBA, hefur sagst vera að íhuga að hætta við að halda mikilvægasta leik ársins 2017 í Charlotte. Og listinn lengist dag frá degi.

Ríkisstjórinn lætur sér fátt um finnast og kallar mótmælin „pólitískt leikhús“. „Góða fólkið er orðið alveg kexruglað,“ segir hann, yppir öxlum og harðneitar að gefa sig.

 

Heimildir:

https://www.governor.ny.gov/news/governor-cuomo-bans-non-essential-state-travel-north-carolina

http://www.npr.org/sections/thetwo-way/2016/03/24/471700323/north-carolina-passes-law-blocking-measures-to-protect-lgbt-people

http://abcnews.go.com/US/north-carolinas-controversial-anti-lgbt-bill-explained/story?id=37898153

http://www.npr.org/sections/thetwo-way/2016/03/29/472268519/n-y-governor-bans-most-state-travel-to-north-carolina-over-lgbt-law

http://www.theatlantic.com/politics/archive/2016/03/the-backlash-to-north-carolinas-lgbt-non-discrimination-ban/475500/

http://www.nbcnews.com/news/us-news/north-carolina-gov-pat-mccrory-calls-lgbt-criticism-political-theater-n546846

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.