Fatlaðir karlar og vændiskaup – kvenhatur og „ableismi“?

Höfundur: Jess Martin.

Nýlega las ég frétt eftir Emily Lazatin á kanadíska Huffington Post um nýtt vændisþjónustufyrirtæki í Vancouver, sem leggur sérstaka áherslu á að bjóða fötluðum karlmönnum upp á að kaupa sér kynlíf. Sem kona sem á á tvo nána karlkyns ættingja með þroskahömlun (annar er bróðir minn og hinn er mágur minn) og hefur rúmlega áratugar reynslu af starfi við sérkennslu og skammtímavistun fann ég mig knúna til að bregðast við fréttinni, með hliðsjón af minni persónulegu reynslu. Ég hef auk þess næstum tíu ára reynslu af stuðningsþjónustu við hóp kvenna sem störfuðu áður í kynlífsiðnaði og berjast nú fyrir sjálfsákvörðunarrétti sínum og annarra kvenna í sömu stöðu. Ég vona að þessi reynsla geri mig nægilega hæfa til að fjalla sérstaklega um það sértæka og nokkuð viðkvæma umræðuefni sem er vændiskaup fatlaðra karlmanna.

Bróðir minn, sem er bæði með Downs-heilkenni og á einhverfurófi, fæddist tveimur mánuðum áður en ég byrjaði í leikskóla. Samband mitt við bróður minn hefur haft djúpstæð og margháttuð áhrif á mig. Það hefur verið miðlægt í allri mótun minni sem einstaklings og haft áhrif á námsval mitt, starfsferil minn og jafnvel á val mitt á maka. Ég skal verða fyrst til að viðurkenna að það myndi gefa mér aukinn þunga sem greinarhöfundur ef ég væri sjálf fötluð, en svo er ekki. Mig langar þrátt fyrir það að koma skoðun minni á framfæri.

Myndin er af Tim Rose og konu hans, en um þá má lesa á https://broadly.vice.com/en_us/article/how-people-with-disabilities-have-sex .

Myndin er af Tim Rose og konu hans, en um þau og samtök þeirra,  Rose Centre for Love, Sex and Disability, má lesa á vice.com.

Fólk með fatlanir fæddist ekki í þennan heim í þeim sérstaka tilgangi að verða öllum „hinum“, sem sagt venjulegu ófötluðu fólki, innblástur. Þetta kann að valda vonbrigðum þeim ykkar sem hafa litla reynslu af fötluðu fólki, aðra en þá að hafa tárast yfir Forrest Gump og I am Sam í bíó. Fatlað fólk er heldur ekki hafið yfir gagnrýni, þar á meðal gagnrýni frá femínistum. Ef við viljum viðurkenna fatlaða sem manneskjur, en ekki sem einhver frávikatilfelli, fylgir því skammrifi sá óþægilegi böggull að gera sér ljóst að sumt fatlað fólk er femínínstar og bandamenn femínista, sem og þeirra sem starfa á sviði annarrar mannréttindamála, en einnig að fatlað fólk getur líka verið haldið kvenfyrirlitningu, kynþáttahyggju og „ableisma“ [innsk. þýðanda: hugtakið „ableismi“ hefur verið þýtt sem „hæfishroki“ á íslensku en engin íslensk þýðing hefur enn fest sig í sessi og ég nota því orðið „ableismi“]. Og mér er skapi næst að staðhæfa að fatlaðir karlar sem notfæra sér vændiskonur til að fullnægja kynlöngunum sínum  séu oftar en ekki haldnir öllu þessu.

Mér sortnar fyrir augum af bræði þegar ég heyri ófatlað fólk réttlæta notkun fatlaðra karla á vændiskonum með því að það athæfi tengist á einhver hátt mannréttindum eða kynverund. Sú röksemdafærsla byggir á þremur forsendum sem allar eru rangar. Í fyrsta lagi er gengið út frá því að allir fatlaðir séu, eðli málsins samkvæmt, svo óaðlaðandi kynferðislega að það myndi enginn vilja lifa með þeim kynlífi. Í öðru lagi er gengið út frá því að kynlíf og kynhegðun séu mannréttindi. Í þriðja lagi er gengið út frá því að kynferðisleg fullnægja fatlaðra karlmanna sé ofar í forgangsröðinni en framþróun og efling kvenfrelsis og kvenréttinda. Mig langar að taka þessar forsendur fyrir hverja fyrir sig. Eigum við að byrja?

Fólk með fatlanir þarf ekki að leita til vændiskvenna til að upplifa líkamlega nánd við aðra eða lifa kynlífi. Fjöldi fatlaðs fólks lifir kynlífi, með öðru fötluðu fólki eða með ófötluðu fólki. Innan samfélagshópa fólks með þroska- eða greindarskerðingu er algengast að einstaklinga myndi kynferðisleg sambönd við aðra sem eru á svipuðu þroskastigi, til að lágmarka hættuna á valdaójafnvægi. Þessi pörun tengd hæfnistigi er síður áhyggjuefni fyrir þá sem eru líkamlega fatlaðir og raunar þekki ég fjölmörg dæmi um að líkamlega fatlað fólk eigi kynlífsfélaga eða maka sem ekki eru fatlaðir á neinn hátt. Fólk með fötlun myndar félagsleg tengsl og fer á stefnumót. Það giftir sig. Það stundar skyndikynni. Það kemur fyrir að slíkt eigi sér stað á óheppilegum stöðum og í óheppilegu umhverfi, en það gerist svo sannarlega. Sættið ykkur bara við það. Ef þú, lesandi góður, hafðir hrósað sjálfum þér í hástert fyrir þá víðsýni að halda að fatlað fólk gæti yfirhöfuð lifað einhverju kynlífi skaltu núna jafna þig og vara þig á því að fá yfirlætið ekki of harkalega aftur á hausinn.

Þá komum við að forsendu tvö. Fyrirgefðu mér, Gomeshi, en kynlíf og kynhegðun eru ekki, hafa aldrei og munu aldrei verða mannréttindi. Klámvæðingin og klámmenningin hafa hins vegar orðið til þess að margir karlmenn (þeirra á meðal fatlaðir karlmenn) eru farnir að trúa því að þeir hafi ekki aðeins óumdeilanlegan rétt á kynlífi með annarri manneskju en hafi einnig rétt á að stunda það kynlíf með konum sem líta út og haga sér eins og konurnar sem þeir hafa séð í klámefninu. Að rugla kynferðislegri löngun saman við tjáningu og kynferðislega virkni eru alvarleg mistök. Við, sem manneskjur, erum öll kynverur en kynferðisleg útrás krefst ekki endilega kynlífsfélaga. Sum okkar munu upplifa kynlíf með öðrum einstaklingi eða einstaklingum og sum okkar (þar á meðal bæði fatlaðir og ófatlaðir) munu hugsanlega aldrei fá að upplifa það. Þegar „líkamleg nánd“ (eins og sumir talsmenn kynlífsiðnaðarins kjósa að kalla það) er annars vegar geta væntingar sem byggja á kvenfyrirlitingu, kynþáttahyggju og „ableisma“ (svo sem löngun til að stunda aðeins kynlíf með grönnum konum í frábæru formi með nauðrökuð sköp og stinn brjóst, eða löngun til að raungera í kynlífinu staðalgoðsagnir (e. Tropes) sem byggja á kynþáttahyggju) verið mjög skaðlegar.  Kaup á vændi skaða færni fólks til að efla og mynda nánd í samböndum þar sem engin greiðsla er innt af hendi vegna þess að vændi innrætir körlum að þeir geti pantað sér konu, svona eins og þeir geta pantað sér tvöfaldan latté.

Forbidden fruitOg að lokum: Kynlanganir fatlaðra karlmanna eiga ekki og mega ekki teljast mikilvægari en kvenfrelsi og kvennabarátta. Jafnvel þótt kynlíf með annarri manneskju gæti talist mannréttindi myndi það aldrei geta réttlætt vændi – kerfi sem byggir á djúpstæðu misrétti og undirskipun. Ég ætla ekki fjalla um „kvennahreyfingarnálgunina“ á vændi hér (sem sumir kalla „skandinavíska módelið“ og aðrir „afnámskerfi“) en ég hvet lesendur til að kynna sér það, til að átta sig betur á samhengi orða minna hér. Ein af forsendunum fyrir þeirri nálgun er sú kenning að flestar konur byrji að stunda vændi vegna sárrar fátæktar eða fjárhagsvandræða, jafnvel þótt Nico í greininni í Huffington Post sem áður var minnst á geri það kannski ekki. Jafnvel þótt fatlaðir karlar ættu enga aðra möguleika á að finna sér kynlífsfélaga, væri það samt  réttlætanlegt að konur úr jaðarhópum samfélagsins – konur sem eru margar hverjar líkamlega eða andlega fatlaðar eða með þroskaskerðingar af ýmsu tagi – sjái þeim fyrir þeirri „þjónustu“? Það finnst mér ekki. Það er óásættanlegt að etja með þeim hætti saman hagsmunum tveggja samfélagshópa sem báðir eru afar berskjaldaðir og sæta báðir einhvers konar undirskipun.

Hitt tel ég ljóst að samfélagið þarf að taka margs konar breytingum í því skyni að gera kynlíf bæði aðgengilegra og ánægjulegra fyrir fólk með fatlanir. Ég lít hins vegar ekki svo á að vændi geti verið hluti af lausninni. Reyndar tel ég að það vinni beinlínis gegn því markmiði. Þess í stað verðum við að horfa til samskiptatækni, tækniþróunar á sviði stoðtækja og almennrar upplýsingar og bættrar menntunar. Bræður mínir bera djúpa virðingu fyrir konum, bæði sem ættingjum sínum, vinum, aðstoðarkonum og umönnunaraðilum, þegar þannig ber undir. Þeir leita ekki til vændiskvenna og þeir þurfa engrar meðaumkunar við. Það samfélag sem býður vændi sem lausn á vanda fatlaðs fólks, sem einhvers konar staðgengil fyrir kynlíf sem báðir aðilar njóta og enginn þarf að borga fyrir, er samfélag afturhalds og stöðnunar.

Greinin birtist fyrst hér 11. nóvember 2014. og er birt á knuz.is með góðfúslegu leyfi. Halla Sverrisdóttir þýddi.

Jess Martin er einn stofnenda Exploited Voices’ Allies, sem er aðgerðahópur undir forystu kvenna sem hafa áður starfað í kynlífsiðnaði. Hún býr í Vancouver, Kanada.

Myndir eru fengnar úr þessum greinum::

http://newint.org/features/1992/07/05/fruit/

https://broadly.vice.com/en_us/article/how-people-with-disabilities-have-sex

http://www.theatlantic.com/health/archive/2015/03/sex-and-disability/386866/

Ein athugasemd við “Fatlaðir karlar og vændiskaup – kvenhatur og „ableismi“?

  1. Því kaþólska kirkja hefur einmitt kennt okkur það að ef fólk fær ekki kynferðislega lausn þá mun það vera bara í gúddí það sem eftir er. Frumhvatir eru frumhvatir og ekkert hægt við því að gera.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.