Hvers vegna Panamaskjölin varða femínista

Þýðing: Katrín Harðardóttir og Magnea Matthíasdóttir

Öllum í heiminum verður tíðrætt um skatta þessa dagana, svo hér fáið þið eina söguna enn af skattamálum. Asana Abugre á litla verslun í Accra í Ghana þar sem hún býr til hnútabatík og annan batíkvefnað og selur hann. Asana borgar skattana sína reglulega. Konur eins og hún, sem vinna á mörkuðum í borginni, greiða stundum allt að 37% af tekjum sínum í skatt. Skattheimtumenn koma í búðirnar þeirra til þess að innheimta skattinn og þær komast ekki hjá því að greiða hann, sama þótt tekjurnar hafi kannski verið litlar þann daginn.

Farsæl í viðskiptum og berst fyrir jafnrétti kynjanna. Mynd: Asana Abugre. Christian Aid / Sarah Filbey

Farsæl í viðskiptum og berst fyrir jafnrétti kynjanna. Mynd: Asana Abugre. Christian Aid / Sarah Filbey

Þetta eru auðvitað ekki skattamálin sem allir eru að ræða. Birting ICIJ (Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna) á Panamaskjölunum eru mesti gagnaleki sögunnar og í þetta sinn þarf sumt af valdamesta fólki heimsins að vera uggandi um sinn hag, þegar kastljósið beinist loksins að leynilegu skattapukri þess.
En þessar tvær sögur eru tengdar. Þegar fólkið sem trónir efst á efnahagspíramídanum finnur leið til að borga lága eða enga skatta bitnar það harðast á þeim sem dúsa á botninum – fólki eins og Asönu.

Þegar litið er á nöfn stjórnmálamanna og viðskiptajöfra í Panamaskjölunum kemur í ljós að þeir sem hagnast á því að nota skattaskjól eru langflestir karlmenn. Ef til vill endurspeglar það þá staðreynd að valdastöður eru sem stendur aðallega í höndum karla. Á hinn bóginn vitum við að afleiðingar skattaundanskota bitnar harðast á fátækasta fólki heims, en það eru aftur á móti konur og stúlkur. Fjármálaleynd og skattaundanskot og þurrðin í opinberum sjóðum sem stafar af þeim stefnir í hættu aðgengi kvenna og stúlkna að opinberri þjónustu, eykur umfang umönnunarstarfa sem þær vinna launalaust og færir skattabyrðina á herðar þeirra sem minnstu efnin hafa.

Panamaskjölin leiða ennfremur í ljós umfang skattaundanskota á heimsvísu og áhrif þeirra á fátækt og misrétti, ekki síst á suðurhveli jarðar. Skattaskjól eru talin kosta fátæk lönd að minnsta kosti 170 milljarða bandaríkjadala (2 billjónir íslenskra króna) í töpuðum skatttekjum á hverju ári. Þetta eru fjárhæðir sem skipta sköpum og gætu greitt fyrir skóla, sjúkrahús, dagvistun barna eða úrræði til að uppræta ofbeldi gegn konum.
Jafnrétti mun aldrei verða að veruleika ókeypis. UN Women hafa greint aðgerðaáætlanir einstakra landa um kynjajafnrétti og komist að því að í sumum skortir allt að 90% af því fjármagni sem þarf til að ná því markmiði. Þess vegna ættu femínistar allra landa að gefa Panamaskjölunum gaum.

Og það er ekki bara Panama. Fyrir stuttu vann Center for Economic and Social Rights (Miðstöð fjárhagslegra og félagslegra réttinda) skýrslu fyrir Sameinuðu þjóðirnar og kannaði eftirfylgni við sáttmála um réttindi kvenna. Í skýrslunni voru dregnar fram áhrifin sem ógagnsæ fjármálalöggjöf Sviss hefur á réttindi kvenna utan lögsögu landsins og þá einkum í þróunarlöndunum.
Það eru að minnsta kosti þrjár ástæður fyrir því að fjármálaleynd og skattaundanskot eru femínískt málefni. Sú fyrsta er sú, að þegar stjórnvöld geta ekki aflað nægra skatttekna frá auðugum einstaklingum og fyrirtækjum hneigjast þau til að hækka óbeina skatta, til dæmis virðisaukaskatt, en það hefur mest áhrif á þá sem hafa lægstar tekjur – sem eru langflestir konur. Vegna kynjahlutverksins sem þeim er skipað í er það í þeirra verkahring að halda utan um kostnað við heimilisrekstur.

Fátækrahverfið Tondo í Manilla, Filippseyjum, 2014. Mynd: Dewald Brand, Miran fyrir Oxfam

Fátækrahverfið Tondo í Manilla, Filippseyjum, 2014. Mynd: Dewald Brand, Miran fyrir Oxfam

Í öðru lagi hefur tap á skatttekjum mun meiri áhrif á konur en karla og þá einkum konur sem búa við fátækt og hafa því mestan ávinning af vel fjármagnaðri opinberri menntun, heilsugæslu og félagslegu neti. Það bitnar oftast fyrst á þeim þegar þessi brýna samfélagsþjónusta er ekki fyrir hendi þegar til þarf að taka og fjölskyldur þurfa að taka þá ömurlegu ákvörðun hver í fjölskyldunni eigi að ganga fyrir. Skattaundanskot svelta ríki af fjármunum sem þau bráðvantar – en það þýðir að stúlkur sem ættu að vera í skóla eru það ekki og að mæður sem ættu að njóta heilsugæslu handa sjálfum sér og börnum sínum fá hana ekki. Sem dæmi um það má nefna olíufyrirtæki sem greiddi Mossack Fonseca fyrir aðstoð við að komast hjá því að greiða 400 milljónir bandaríkjadala í skatt í Úganda. Það er hærri upphæð en öll heilbrigðisfjárlög landsins.

Þriðja ástæðan og sú sem vegur einna þyngst er að þeir sem færa auð sinn milli landa og leyna honum, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, svíkjast um að borga sinn skerf til velferðarkerfisins – fólksins sem framleiðir og skapar vinnuafl dagsins í dag og morgundagsins. Konur og stúlkur inna af hendi meira en 75% af þeim störfum, að mestu án þess að njóta nokkurrar viðurkenningar eða umbunar fyrir það. Þótt auðugasta fólkið hagnist á þessu – því býðst nóg af menntuðu, hraustu og vel nærðu vinnuafli – svíkst það um að greiða til skattkerfis sem getur dreift ábyrgð og kostnaði með því að fjármagna opinbera þjónustu og félagslegt net. Dæmin sýna að þegar þessi þjónusta er skorin niður eða er ekki til staðar bitnar það á konum að reyna að bæta úr því og þannig eykst tíminn sem þær verja til umönnunar annarra en tíminn sem þær hafa til náms, launavinnu eða hvíldar minnkar.

Illu heilli virðast valdhafar ekki skilja það hve réttlátir skattar skipta miklu máli fyrir réttindi kvenna. Nefnd um stöðu kvenna sendi nýlega drög að ályktun frá SÞ til aðildarríkja og hvatti þau til að „auka fjárúrræði heimila með því að koma stofn á framsæknum skattkerfum með samþættingu markmiða kynjajafnréttis“ og „færa skattabyrðina til tekjuhærri hópa og tryggja ennfremur að fyrirtæki, fjármálageirinn og jarðefnaiðnaðurinn borgi sinn réttláta skerf“. Þegar umræðum um ályktunardrögin lauk var því miður mikill kraftur horfinn úr þessari hvatningu.

Við stefnum auðvitað ekki að því að jafnmargir kvenkyns og karlkyns milljarðamæringar geti svikið undan skatti. Öllu heldur þurfum við að berjast fyrir sanngjarnara hagkerfi og betri stefnu i stjórnmálum þannig að bæði örbirgð og óhóflegur auður heyri sögunni til og konur jafnt sem karlar komi jafnt að ákvarðanatöku á öllum stigum. Svo vitnað sé í orð forsætisráðherra Kanada, Justins Trudeau, þár er árið 2016 runnið upp og allt annað væri fáránlegt. Allir forystumenn okkar – konur jafnt sem karlar – þurfa að beita sér af öllu afli fyrir réttindum kvenna og efnahagslegu jafnrétti. Það þýðir upprætingu skattkerfis sem gerir auðugasta fólkinu kleift að komast hjá því að greiða sinn réttmæta skerf. Með því móti yrði hægt að fjárfesta í því sem brýnast er til að kynjajafnrétti nái fram að ganga.

Greinin birtist fyrst hér á opendemocracy.net og var þýdd með góðfúslegu leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.