Sænskt frumvarp til laga um skaðabætur til transfólks

Höfundur: Anna Kristjánsdóttir

annakristjáns1Að kvöldi 26. apríl bárust mér fréttir þess efnis að sænska ríkisstjórnin hefði samþykkt að leggja fram lagafrumvarp til greiðslu skaðabóta til þess transfólks sem hefði verið þvingað í ófrjósemisaðgerðir á árunum 1972 til 2013. Þetta eru um 800 manneskjur sem lentu í þessu þar á meðal ég sjálf og minnst tvær íslenskar manneskjur að auki, önnur þeirra látin fyrir fáeinum árum.

Þegar óskir um þessar skaðabætur komu fyrst til umræðu var ég dálítið efins, ég hafði jú fengið það sem ég óskaði mér, að vísu ekki eins og ég hafði óskað mér, en endanleg niðurstaða var engu að síður hin sama. En svo fór ég að velta þessu fyrir mér og á endanum samþykkti ég að vera með í hugsanlegri málshöfðun gegn sænska ríkinu og ástæðurnar eru margar.

Málshöfðunin gegn sænska ríkinu er ekki einvörðungu vegna þvingaðra ófrjósemisaðgerða heldur er hún miklu djúpstæðari en svo. Hún er miklu frekar spurning um mannréttindi. Lítum nú aðeins á lögin frá 1972 sem þessar ófrjósemisaðgerðir byggðust á, það er lög um ändrad könstillhörighet i vissa fall eins og það hét. Þar var skýrt tekið fram að lögin gildu einungis um „ugift svensk medborgare som fyllt arton år, är steriliserad eller som av annan anledning saknar fortplantningsförmåga.“ (lögin giltu um ógiftan, sænskan ríkisborgara eldri en átján ára sem hefur gengist undir ófrjósemisaðgerð eða er ófrjór af öðrum ástæðum). Þetta var svosem allt gott og blessað, en lögunum var framfylgt til hins ítrasta. Þannig voru lögin túlkuð á þá leið að bannað væri að frysta egg eða sæði úr viðkomandi persónu.

Þó var kannski meðferðarferillinn helsta niðurlægingin og mannréttindabrotið. Allt frá 1972 til aldamótanna síðustu var meðferðarferillinn mjög strangur og það voru mörg atriði sem gátu komið í veg fyrir að viðkomandi kæmist alla leið í kynleiðréttingu. Þar voru talin upp atriði á borð við geðsjúkdóma, sálræna kvilla, alkóhólisma og eiturlyfjafíkn, afbrotaferil, samkynhneigð (sic!), neikvæða fjölskyldu, slæma afkomumöguleika, óheppilega líkamsbyggingu, sjúkdóma og fleira sem talið var hindrun fyrir því að viðkomandi gæti lifað eðlilegu lífi eftir kynleiðréttingu. Til að komast alla leið þurfti maður því að vera nokkurs konar ofurmenni eða ofurkvendi til sálar og líkama og þegar allt hafði verið margprófað og sannað að viðkomandi væri ekki með neinn geðsjúkdóm eða aðra kvilla sem taldir eru að ofan og síðan eftir fleiri ára reynslutíma fékk viðkomandi úrskurð um geðsjúkdóminn transsexualisma.

Eins og gefur að skilja komust einungis örfáir einstaklingar í gegnum nálarauga kerfisins á árunum 1972 til aldamóta, þetta fimm til fimmtán á ári þótt umsóknirnar á hverju ári væru oft margir tugir. Þannig var ég í hópi ellefu einstaklinga sem komust í gegn árið 1995 og þá eftir áralanga baráttu, viðtöl við fleiri geðlækna og sálfræðinga og aðra sérfræðinga, allskyns próf og mælingar og vottorð (eins gott að ég var með tandurhreint sakavottorð eftir langa farmennsku) og loks mætingu fyrir hálfgerðum fjölskipuðum dómstól sem úrskurðaði um hæfi mitt til áframhaldsins, þ.e. að ég væri nógu heilbrigð til að það mætti úrskurða mig geðveika skv geðveikisstaðlinum F64.0. Jafnvel þar var sérstaklega tekið fram að ekki fengist samþykki fyrr en að framkvæmdri ófrjósemisaðgerð.

Meðan á þessu stóð mátti ég ekki hegða mér eins og ég vildi. Ég varð að ganga um í pilsi eða kjól hvernig sem veður var. Það var ekki sama hvernig pilsið var, mátti ekki vera of stutt og ekki of þröngt og ég varð að ljúga því við læknana að ég væri tilbúin að hoppa í rúmið með næsta karli sem fyrst eftir aðgerð þótt ég ætti langa sögu að baki sem gagnkynhneigður karl..

Sem betur fer voru yngri læknar að koma til starfa á þessum tíma en gömlu íhaldskurfarnir sem höfðu mótað reglurnar að hætta eða fara á eftirlaun og hinir yngri öllu jákvæðari þó með jákvæðum undantekningum meðal hinna eldri eins og Gunnar Hambert í Uppsölum og Bengt Jansson í Huddinge sem fóru á eftirlaun fljótlega eftir að ég hafði lokið aðgerðarferlinu.

Þegar ég hugleiddi ferlið allt sem ég þurfti að ganga í gegnum, þá niðurlægingu sem ég þurfti sífellt að samþykkja oft að óþörfu gat ég ekki annað en samþykkt að taka þátt í málshöfðuninni gegn sænska ríkinu.

annakristjáns2
Þessi grein birtist upphaflega hér og er endurbirt með leyfi höfundar.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s