Höfundur: Katrín Harðardóttir
Flestum þýðendum og bókaunnendum er líklega kunnugt um orðasambandið „les belles infidèles“, eða ótryggu fegurðardísirnar. Klisjan hefur verið eignuð Gilles Ménage sem hafði þessi orð um frjálslegar þýðingar Nicolasar Perrots d ́Ablancourt sem þýddi klassíkera Rómarveldis á fyrri hluta 17. aldar. Í henni felst að ef þýðingar halda tryggð við uppruna sinn hljóti þær að vera ljótar, og ef þær eru fallegar þá er næsta víst að þær séu ótrúar (1). Orðatiltækið tjáir vel hve bæði tryggð og eignaréttur voru ofarlega í huga endurreisnarmanna, tryggð konu við eiginmann og tryggð þýðanda við upprunalegan texta. Eins og við hjúskaparheitið er við þýðingu lofað tryggð sem ein og sér tryggir lögmæti afurðarinnar, það er barnsins eða verksins. Forvitni vekur að aðferðir ́d’Ablancourts líkjast póststrúktúralískum aðferðum þýðingafræðinga á síðari hluta 20. aldar en hann áleit að nýr tími kallaði á ný rök og ný orð og þá skoðun lét hann í ljós og varði í formálum og bréfum (2). Sömu aðferð notuðu femínískir þýðendur á níunda áratug síðustu aldar með því að leiða athygli að þeim áhrifum og sporum sem þýðandi, í þessu tilviki einstaklingur með kyn, skilur eftir sig (3). Þessi sýnileiki gengur þvert á þýðingarhefðina sem leggur þýðingar og konur að jöfnu, eins og klisjan margtuggna ber merki um.
Ein af forvígismönnum þessara hugmynda var Lori Chamberlain. Hún rannsakaði tenginguna á milli kyns og þýðinga í ritgerðinni “Gender and the Metaphorics of Translation”, með því að greina goðsagnir og myndlíkingar fyrri alda og taldi hún að þýðingalíkingarnar væru (sjúkdóms)einkenni á stærri (vanda)málum vestrænnar menningar vegna kynjaðra valdatengsla. Hún mótmælti þeirri viðvarandi áráttu að leggja tungumál að jöfnu við siðferði, þessari leit að uppruna eða heild sem hún sagði leiða af sér óþol fyrir tvíræðni, fyrir því sem ekki verður afráðið (4). Eins og Chamberlain spyr spænska fræðikonan Pilar Godayol af hverju í ósköpunum kynjaðar þýðingalíkingar hafi átt svo miklu langlífi að fagna, afhverju kyni og þýðingum sé líkt saman í ráðandi orðræðu? Hennar svar felst í valdinu, að stjórna því sem er okkar:
„Undirstaða félags- og siðferðislegra gilda fjölskyldu, kynlífs og jafnvel ríkis er skilningurinn á eignarhaldi. Það sama á við um höfundarleyfi. (…) Svo tryggja megi skipan samfélagsins þarf að vera fylgispekt, í þessu tilviki fylgispekt við rétt höfundar til texta og afurða hans. (…) Bæði upprunalegi textinn og þýðing hans eru afleiðing félagslegra skipta sem eru oftar en ekki í formi ágreinings frekar en samkomulags. Útkoma þessara skipta í stigveldiskerfi okkar eru fagurfræði- og menningarleg gildi samfélagsins“ (5).
Það eru þessi gildi sem skapa stigveldislíkingar og mannhverfðar forsendur til þess að vernda yfirráð upprunalega textans. Godayol segir þetta ekki vera dóm yfir gildiskerfi tiltekins tímabils heldur vill hún draga gildin í efa til þess að varpa ljósi á það hvernig „neysla og endur/framleiðsla texta tengjast félags- og menningarlegum valdavenjum, og til þess að minna okkur á það að við erum hluti af kerfi sem matar okkur á huglægni í þýðingum og í sköpun líkinga“ (6).
Godayol gerir greinarmun á tvennskonar stigveldislíkingum. Sú fyrri tengist ímynduðum millirýmum, með augljósri tilvísun í millirými Derrida, þar sem jaðarupplifanir eru bornar saman við þýðingar. Það er seinni gerðin sem ég vil vekja athygli á hér, en sú hefur að geyma líkingar sem tengjast kvenpersónum goðsagna eða staðalímyndum og endurheimtingu skáldaðra eða raunverulegra karaktera úr gleymsku með því að tengja þær við þýðingarferlið (7). Ein af þeim er Pandóra, fyrsta konan í grísku goðsögnunum og kona Prómeþeifs, en um hana skrifaði Karin Littau í ritgerðinni „Pandora´s tongues“ sem kom út árið 2000. Littau vísar í George Steiner sem greinir frá tveimur goðsögulegum tilgátum sem eiga að útskýra ástæðu fyrir tungumálafjölda heimsins. Sú fyrri er auðvitað sagan af Babel, en sú seinni hefur að geyma söguna af því þegar „tungumálaglundroðinn losnaði úr öskju Pandóru, fyrir einhver hræðileg mistök” (8). Í hefðbundinni orðræðu stendur Pandóra því fyrir ógnina sem stafar af glundroðanum, torræðni og merkingarrugling. Littau býður upp á annarskonar lestur goðsögunnar og „endurritar hana í jákvæðu ljósi femínisma til þess að snúa við neikvæðum og karlhverfðum tengslum Pandóru við fall mannsins” (9). Pandóra sameinar sögurnar af Babel og Ödipusi því báðar merkja þær missi, Babel vísar í missi fyrsta tungumálsins og Ödipus stendur fyrir geldingaróttann. Askjan hennar Pandóru tengist þessu tvennu, hættunni við tungumálaglundroðann eða skilningsleysið, og ógninni við kynferði kvenna, eða reðurleysi þeirra. „Goðsagan af Pandóru er ímynd fallósentrísks kvíða Konunnar, bæði hvað lýtur að tungumálinu eða móðurmálinu, og hvað varðar kynfæri eða kynferði hennar”. Í stað þess að grafa upp rótfasta tvíhyggjuslagsíðu feðraveldisins á fyrri tíma túlkunum á Pandórusögunni, er tilgangur Littau með nýrri túlkun sá að leggja fram spurningar um móðurmálið og kynferði konunnar. Því á meðan Babelsturninn varpar ljósi á tengingu þýðingar og orðs Föðurins, þá flettir sagan af Pandóru ofan af mótum þýðinga og móðurmálsins, með öðrum orðum, sagan opnar fyrir nýja möguleika í þýðingu og á kyngervi.
Á móti hinni úreldu tvíhyggju teflir Littau fram sögunni af formóðurinni Pandóru (þ. das Urweib) en nafn hennar hefur einnig að geyma margræðar túlkanir líkt og nafnið Babel. Til marks um það er skilningur Hesíods á orðinu sem hann gefur þrjár merkingar; hún er gefandi allra gjafa, hún tekur við öllum gjöfum og hún er sjálf gjöf allra guðanna. Littau bendir á að hér kemur ekki fram hvað felst í gjöfinni sjálfri, það er hvert sé innihald öskjunnar, hvort Pandóra hafi opnað hana eða hvort askjan hafi nokkurn tíma verið til, hvort hún hafi verið nægtahorn, óhreyfanlegt geymsluker (gr. pithos) eða lítið færanlegt ker (gr. pyxis). Littau spyr hvort Erasmus frá Rotterdam geti verið sekur um að þýða ˛pithos’ sem ˛pyxis’ og hvort rekja megi óvissuna í þýðingu Erasmusar til málfræðilegrar tvíræðni, óvissunnar um það hvort Pandóra hafi nokkuð opnað öskjuna, heldur hafi það verið mágur hennar, Epimeteus. Til eru margar útgáfur af sögunni af Pandóru og eru þær allar dæmi um það hvernig þýðingar ákvarða innihald goðsögunnar, það er, hvernig askjan er og hvert kyn þess er sem opnar hana (10).
Samkvæmt einni sögunni er Pandóra Gaia, Móðir Jörð, fyrsta konan og eiginkona Prómeþeifs, sem skapaði hana úr vatni og jörð og blés hana lífi með eldi. Í þeirri goðsögu er askjan nægtahorn sem geymir birgðir til að næra allt mannkynið, og þar á meðal frjósemi. Þessi útgáfa er vel að merkja ekki frá Hesíodi komin, en hann segir frá Pandóru sem Seifur skapaði til þess að hefna guðanna og refsa Prómóteusi fyrir að stela eldinum frá þeim. Þegar Pandóra opnar öskjuna af forvitni sökum, sleppir hún lausri allri illsku heimsins, og þegar hún lokar því er aðeins vonin eftir. Hér er Pandóra femme fatale hverrar fegurð, töfrar og seiður verða karlinum að falli, askjan er líkami hennar sem ógnar með tælandi kynferði. Samkvæmt freudískum lestri er askjan ímynd þess dulda og dularfulla og veldur líkingu við kynfæri kvenna, sem ólíkt reðrinum, eru hulin og ósýnileg og geyma leyndarmál sem eru hættuleg karlinum. Þannig geymir askjan ekki endilega gjafir til mannkyns heldur er hún gjöf til hans, borin von og óaðgengileg mannkyninu (11).
Þannig eru að minnsta kosti til tvær útgáfur af sögunni af Pandóru, eða eins og Littau segir, „Pandóra talar (allavega) tveimur tungum, hún færir von og/eða illsku til mannkyns eftir því hvernig goðsögufræðingar hafa kosið að lesa í söguna” (12). Því er með Pandóru verið að spyrja um þýðingar, og ekki aðeins á milli mála heldur einnig innan þeirra eins og grískunnar, eins og Derrida lýsir í hnotskurn í The ear of the other, á mörgum tungum í einu (fr. plus d´une langue), en ekki lengur [aðeins] einni (13). „Fjölbreytileiki tungumála innan þess sem ekki er lengur eitt, gefur til kynna að þýðing sé alltaf að verkum í einu og sama málinu, og þess vegna „eru allar tungur óhreinar“ og því „ætti þessi staðreynd að ógna á einhvern hátt heilindum tiltekins málkerfis“, grafa undan þeirri ætlun að „til sé eitt tungumál og ein þýðing í bókstaflegum skilningi“. Plus d´une langue undirstrikar þar af leiðandi ósmættanlega margröddun innan „eins“ tungumáls og allra tungumála, „veitir viðnám gegn ótvíræðri þýðingu og þýðanleika“ og síðast en ekki síst, tengir þýðingar og afbyggingu traustum böndum (14).
Littau kýs að ganga lengra en Derrida og nýtir sér sjónarhól femínísta í stað afbyggingar með því að líta missinn og óráðanleikann með augum fyrstu konunnar Pandóru, í stað karlguðsins Babels. Því spyr hún hvort ekki sé allt eins mögulegt að ekki sé aðeins um tvær goðsögur af Pandóru að ræða, heldur gefi óráðanleikinn á milli þeirra kost á þriðju sögunni. Ómöguleiki þess að ákveða á milli sagna Pandóru er í sjálfu sér enn önnur sagan, nokkuð sem gefur ástæðu til þess að tala frekar um ofgnótt en missi.
„Óráðanleikinn er þá ekki hugsaður með tilliti til missis, heldur sem mögulegur, óstöðvandi ávinningur. Óráðanleikinn mun aðeins glatast ef við göngum út frá því, eins og Derrida gerir, að ekki sé hægt að flytja upprunalega textann heilan (í öllum sínum fjölbreyti- og óráðanleika) yfir á nýtt mál“ (15).
Hins vegar, segir Littau, ef við léttum á áhyggjunum af tengslum uppruna og eftirlíkingar og þýðingaferlið yrði ekki takmarkað við slík tvípólatengsl, heldur sem ferli þar sem upprunalegi textinn muni halda áfram að geta af sér fleiri en einn texta, þá mun ekkert glatast í endalausri röð mögulegra útgáfna. Þessir eiginleikar þýðingaferlisins (upprunatexti og útgáfa og önnur útgáfa og enn önnur útgáfa) frekar en tvípólaferlið (upprunatexti og þýðing hans) eru upphafspunktar sögu sem Littau segir ekki vera sorgarsaga heldur „gleðilega staðfestingu á því að innihald goðsögunnar um Pandóru sé unnt að flytja aftur og aftur“ (16). (Því hún segir að mismunur sé óhugsandi án endurtekningar vegna þess að endurtekning án mismunar myndi ekki vera endurtekning) (17). Ekkert vantar og ekkert týnist, heldur er með hverri þýðingu alltaf einhverju við að bæta. „Einmitt vegna þess að hægt er að þýða alla texta (og hægt er að endurskrifa allar goðsögur), er keðjuverkun ástand sem hvorki hefur upphaf né endi“ (18).
Er nokkuð til of mikils ætlast ef beðið er um að stigveldinu sé ögrað á þennan keðjuverkandi hátt? Er það ekki bara viðeigandi á þessum tímum fjölbreytileika, flókinna fjölskyldubanda og fallvaltrar fegurðar? Svo ekki sé talað um endurnýtinguna og -vinnsluna? Er fólki ekki nokk sama um það hver er bastarður og hver ekki?
(1) Luise von Flotow 1997:41
(2) Pilar Godayol 2013:99-100
(3) Luise von Flotow 1997:35
(4)…a persistent desire to equate language or language use with morality; of a quest for originality or unity; and a consequent intolerance of duplicity, of what can not be decided (Lori Chamberlain 1988:465).
(5) Godayol 2013:101
(6) Sama:102
(7) Áður en lengra er haldið er vert að minnast endurritunar Susanne Lotbinière-Harwood á orðatiltækinu les belles infidèles en hún nefndi aðferðafræði sína við þýðingar rebelles et infidèles (Lotbinière-Harwood 1991:98)
(8) Steiner 1975:57
(9) Littau 2000:21
(10) Sama:22-23
(11) Sama:23
(12) Sama:24
(13) Um meyjarhaft Derrida má lesa á heimspekivefnum.
(14) Littau 2000:24
(15) Sama:25
(16) Sama:26
(17) Hér vitnar Littau í Gilles Deleuze og rit hans Mismunur og endurtekning frá árinu 1968, þar sem hann fjallaði um heimspeki “mismunarins” sem teflir „hugtakinu fram gegn hugtökum hefðbundinnar samsemdarfrumspeki og gagnrýni[r] jafnframt alla heimspeki og menningu sem byggir á samsemd, heild og upprunaleika” (Davíð Kristinsson og Hjörleifur Finnsson 2002:91).
(18) Littau 2000:31-32