Rýr hlutur kvenna í breskri kvikmyndagerð

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

Ég heiti „John Smith“ og ef ég verð ekki búinn að sofa hjá þér þegar vikan er liðin er ég ekki „John Smith“.

13147357_10208032224217494_2968399664517134448_oÍ pallborði um hlut kvenna í breskri kvikmyndagerð, sl. þriðjudagskvöld, sagði fulltrúi WIFT í Bretlandi að sennilega hefðu flestir í salnum heyrt um frægan breskan leikstjóra, sem kynnti sig gjarnan á þennan hátt fyrir konum sem væru að byrja að vinna með honum.

Leikstjórinn sem vísað er til heitir auðvitað ekki John Smith, en nánast allar konurnar á fundinum vissu um hvern var að ræða. Allar nema sú íslenska sem þetta ritar. Flestar höfðu reynslu af kynferðislegri áreitni á vinnustað og af því að vera látnar finna fyrir því á annan hátt að vera eina konan innan um marga karlmenn. Þær könnuðust líka við að vera sekar um að láta sig hafa misrétti af ýmsu tagi og lægri laun en karlmenn sem störfuðu við það nákvæmlega sama, til þess eins að halda vinnunni. Þær voru þreyttar á að svara í starfsviðtölum spurningu um hvort þær hefðu örugga barnagæslu; spurningu sem karlkyns vinnufélagar þeirra könnuðust ekki við að hafa nokkru sinni fengið.

Fimmtungur eru konur

Fundurinn bar yfirskriftina „Calling the Shots? Counting Women Filmmakers in British Cinema

Hann var haldinn af BFI, bresku kvikmyndastofnuninni, í tilefni af samnefndri rannsóknarskýrslu þriggja fræðikvenna við háskólann í Southampton, Dr. Shelley Cobb, Prof. Linda Ruth Williams og Dr. Natalie Wreyford. Rannsóknin er yfirgripsmikil, en þeir sem vilja glöggva sig á helstu niðurstöðum geta lesið um hana hér.

Talningin í könnuninni spannar árin 2000-2015, auk þess sem rætt var við 50 konur í lykilstörfum í kvikmyndagerð. Þær stöður sem um er rætt eru leikstjórar, framleiðendur, handritshöfundar, kvikmyndatökumenn og klipparar. Einungis fimmtungur þeirra sem vinna í fyrrnefndum störfum í kvikmyndaframleiðslu eru konur. Á fundinum í BFI var sjónum fyrst og fremst beint að síðasta ári.

Einn fjórði þeirra 203 bresku mynda sem voru frumsýndar árið 2015 var ekki með eina einustu konu í fyrrnefndum lykilstörfum. Algengast er að konur séu framleiðendur, en sjaldgæfast að þær séu tökumenn. Einungis 7% sinna því starfi. Allar breskar tökukonur eru hvítar og konur af öðrum kynþáttum eru í miklum minnihluta í öllum störfunum. Það virðist skipta miklu máli hvort kynið sér um ráðningar. Fram kemur að 74% þeirra mynda sem kona leikstýrir eru með konu sem framleiðanda. Ennfremur kemur fram að eftir því sem myndir eru dýrari í framleiðslu, því færri konur vinna við þær. Það er ekki vegna þess að konur hafi ekki áhuga á að vinna við stórmyndir, heldur að þær fái sjaldan vinnu við þær. Of langt mál væri að rekja niðurstöður, en þeir sem vilja skoða þær fyrir síðasta ár geta það hér.

Hvað veldur?

Eins og gefur að skilja, var mikið rætt um hugsanlegar ástæður þess að staðan væri ennþá svona, þ.e. ekki mikið skárri – og í sumum tilfellum verri – en fyrir áratugum síðan. Jafnmargar konur og karlar sækja nám í kvikmyndagerð, en þær skila sér ekki í sama mæli út á vinnumarkaðinn. Helsta niðurstaða fundarins var að um væri að ræða vítahring; þegar konur væru síður ráðnar í verkefni í upphafi, fengju þær ekki reynslu og þegar þær væru með litla reynslu væru þær síður ráðnar. Einnig virðist það algengara meðal kvenna að telja sig þurfa meiri reynslu eða færni til að sækja um ákveðin störf en meðal karla sem sækja um sömu stöður.

13217396_10208032224177493_2058206576668242848_o

Gurinder Chadha er lengst til vinstri.

Ein þeirra sem tók þátt í pallborðinu, kvikmyndaleikstjórinn Gurinder Chadha sem hefur gert myndir eins og Bend It Like Beckham og Bride & Prejudice, sagði það ekki einu sinni nóg að hafa notið velgengni. Nýverið fór mynd sem hún hefur lengi barist fyrir að fá að leikstýra til karlmanns, vegna þess að ef hann leikstýrði henni yrði hún söluvænni á pappírunum að sögn framleiðanda.

Konurnar á fundinum voru líka langþreyttar á að heyra markaðsfólk dæsa yfir því að það væri vandkvæðum bundið að markaðssetja og selja myndir eftir konur og um konur. Í umhverfi þar sem aðalmarkhópurinn hefði lengi verið ungir karlmenn væri það ef til vill ekki undarlegt. Það er þetta með hænuna og eggið.

Töluvert var líka rætt um hvað kvikmyndagerð væri ófjölskylduvænt starfsumhverfi og langar fjarvistir frá heimili virtust ennþá trufla konur meira en karlmenn.

Þrátt fyrir að staðan sé eins og fram hefur komið, var mikill hugur í breskum kvikmyndagerðakonum og þær voru aldeilis ekki á því að gefast upp. Þær líta til Svíþjóðar og sóttu fast að Kate Kinninmont, fulltrúa BFI, að taka upp sama kerfi. Hún benti á að þó ekki væri samsvarandi kerfi í Bretlandi væru þau meðvituð um þetta og væru búin að setja leiðbeinandi verklagsreglur til að leiðrétta kynjahallann og rétta hlut minnihlutahópa. Þá spannst umræða um hve þreytandi það væri þegar litið væri á konur sem minnihlutahóp, þar sem þær væru nú einu sinni helmingur mannkyns. Leikstjórinn Hope Dickson Leach, sem tók þátt í pallborðinu, sagði það undarlega stöðu að vera hvít, gagnkynhneigð miðstéttarkona, en vera samt álitin fulltrúi minnihlutahóps.

Fundargestir glöddust yfir að sjónvarpsstöðvarnar væru að taka á þessum málum líka. BBC hefur sett sér að jafna hlut kynjanna fyrir 2020, bæði meðal yfirmanna og þeirra sem birtast á skjánum.

Þessi skýrsla kemur í kjölfarið á annarri skýrslu sem félag leikstjóra í Bretlandi, Directors UK, lét gera. Í henni kom meðal annars fram að á árunum 2005-2014 leikstýrðu konur aðeins 13,6% breskra mynda og einungis 14,6% þeirra voru skrifaðar af kvenkyns handritshöfundum. Leikstjórafélagið hefur kallað eftir aðgerðum og vill að búið verði að jafna hlut karla og kvenna árið 2020.

Að lokum má geta þess að fundargestir voru sammála um að viðhorfsbreyting væri nauðsynleg og bjartsýnir á að margt gæti breyst til betra horfs á næstu árum með þeirri auknu umræðu sem nú á sér stað.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.