Kynferðislegt ofbeldi innan stjórnmála: Frakkland (og örugglega víðar)

Þýðing og formáli: Guðrún C. Emilsdóttir

Þann 9. maí sl., fór í gang undirskriftasöfnun til höfuðs ábyrgðaraðila innan stjórnmálaflokka, þingsins og annarra stjórnarstofnana vegna þess kynferðislega ofbeldis sem viðgengst innan franskra stjórnmála. Í yfirlýsingunni er skorað á þessa aðila að grípa til aðgerða svo koma megi í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi á öllum stigum valdapíramídans innan stjórnmála. Þessi undirskriftasöfnun er enn í gangi og geta allir sem vilja skrifað undir – því þótt sjónum sé beint að frönskum stjórnmálum í yfirlýsingunni, þá viðgengst kynferðislegt ofbeldi án efa í fleiri löndum, m.a. á Íslandi. Með því að skrifa undir er hægt að sýna táknrænan stuðning á heimsvísu.

althingi

Skömmu eftir uppljóstranirnar um þingmanninn Denis Baupin sem hefur áreitt samstarfskonur með grófum sms-um og er sakaður um ýmislegt fleira, ári eftir birtingu ákalls pólítískra blaðakvenna í franska dagblaðinu Libération, fimm árum eftir Dominique Strauss Kahn hneykslið, birtir Libération opið bréf frá félagasamtökunum Levons l’omerta, undirritað af meira en 500 stjórnmálamönnum og kjörnum fulltrúum sem lýsa yfir vanþóknun sinni á hegðun sumra samstarfsfélaganna.

Áreitni og pólítík: „Til að gera út um refsileysi“

„Ef Skúrkur býður þér að koma á veitingastað, segðu nei.“ „Passaðu þig á að vera ekki ein í lyftu með Óþokkanum.“ „Vertu á varðbergi ef þú ert ein að kvöldi til á skrifstofunni með Hundingjanum.“ „Ef Fúlmenni er þarna, lokaðu þá hurðinni, en segðu ekki orð.“ Setningar af þessu tagi eru sagðar á milli kvenna. Þær ganga hljóðlega á milli, oft hvíslið eitt. Þessar setningar segja allt sem þarf. Fyrir það fyrsta segja þær að breytingar á hegðun, leiðréttingar á venjum, séu alfarið á ábyrgð kvenna. Þær segja líka að fólk viti, margir viti, en á sama tíma er það tabú. En umfram allt segja þær að Hundingi, Óþokki og Skúrkur munu halda áfram, þar sem orðunum er aldrei beint til þeirra heldur aðeins til kvennanna sem þurfa að þola, koma sér undan eða lifa með þessu.

Þöggun

Af hverju segja konurnar ekki frá? Af hverju kæra þær ekki kynferðislega áreitni? Hundruð ritverka lýsa því ferli sem fær konurnar til þess að „aðlagast“ aðstæðunum frekar en að segja frá. Ef til er lýsandi dæmi um hversu rökrétt það er að þær segi ekki frá, þá er það án efa þessi yfirlýsing blaðakvenna sem birtist í Libération þann 5. maí 2015. Þessar konur nefndu engin nöfn, en sögðu ýmislegt. Þær settu fram af hugrekki, á opinberum vettvangi, spurningar um tengsl karla og kvenna, um kynjahyggju í pólítík og um þessi einstöku tilfelli karlkyns stjórnmálamanna sem tjá með sinni hegðun og á sérstaklega viðbjóðslegan hátt hin karllægu yfirráð sín. Fjöldi greina og fréttaskýringa voru skrifaðar um þessa yfirlýsingu, margir voru þeir leiðarhöfundar og fréttaskýrendur af öllu tagi sem fylgdu þessu eftir, en svo … ekkert. Eða mjög lítið.

Í yfirlýsingunni stóð: „Þeir eru úr öllum stjórnmálaflokkum, enginn flokkur er þar undanskilinn, þeir eru á öllum stigum valdapýramídans og hafa engan rétt á refsileysi.“ Í orði kveðnu. Í rauninni er það þó refsileysið sem hefur vinninginn. Hvernig fylgdu stjórnmálaflokkar þessari yfirlýsingu eftir? Til hverra aðgerða var gripið? Til hverra var leitað í því augnamiði að komast að því hverjir einstaklingarnir voru sem yfirlýsingin beindist að og finna ráð til að bæta þessa hegðun? Svarið er að ekkert var gert eða svo til ekkert; aðeins einhverjar ófullnægjandi smáaðgerðir.

Þögn stjórnmálamanna afhjúpar af fullum krafti refsileysið, of algengan skort á aðgerðaferlum innan flokka og sér í lagi vandann við að viðurkenna tilvist þessarar hegðunar – jafnvel þótt um það sé pískrað og það sé öllum kunnugt.

Svo við viljum bara segja takk.

Þakkir til þeirra kvenna sem höfðu hugrekki til að rjúfa þagnarmúrinn og draga fram af enn meiri krafti opinberlega í dagsljósið að slík hegðun raunverulega viðgengst. Því augljóslega er það einungis með því að nafngreina einstaklinga opinberlega sem einhver möguleiki er á að hlutirnir fari að ganga. Í raun er sjaldgæft að ákærur séu bornar fram. Og þegar ákært er, leiðir það sjaldan til málshöfðunar. „Samkomulag um bætur“ er algengasta leiðin  sem valin er, í stað eiginlegra réttarhalda.

Smáheimur stjórnmálanna

Þegar „aðeins“ er um áreitni að ræða byggist þöggunin í hópnum út frá „æ, enn og aftur! Hann gerir þetta alltaf“ til „en hann er svo klár varðandi þetta og hitt“, eða jafnvel „ef þú talar um þetta kemur það sér illa fyrir þig og þú munt veikja ímynd flokksins“. Vandi kvenna sem felst í að tala um þessa tegund ofbeldis er almennur, en verður líklega margfalt meiri í smáheimi stjórnmálanna, þar sem, og hér er krafan sterkari en annars staðar, þær mega aldrei sýna veikleikamerki og þurfa eilíflega að setja sig í stellingar sem eru andstæða hlutverks þolanda. Bak við þessa þögn er ávallt þessi ótti við að vera sú sem leiðir til vandræða, dæmd, sett á varamannabekk og að lokum talin ótraust pólítískt séð.

Til að það verði hegðun karla sem breytist en ekki kvenna sem aðlaga sig, til að koma hreyfingu á málin og gera út um refsileysi, til að skila skömminni þar sem hún á heima, verður að segja frá. Þessi rödd, þessi orð þurfa að endingu að verða að pólítísku málefni í staðinn fyrir að vera aðeins innanflokksmál, því þar stendur hnífurinn í kúnni.

Af ofangreindum ástæðum styðjum við, þökkum og hvetjum áfram þær konur sem hafa talað – þær hafa gert lýðræðinu stóran greiða. Og til að ekki verði um orðin tóm að ræða, þurfa stjórnmálaflokkar að taka málefnið traustum tökum.

Hér má svo lesa yfirlýsinguna sjálfa og skrifa undir: Kynferðislegt ofbeldi innan stjórnmála: #levonslomerta levons l’omerta þýðir afléttum þöggun en hægt væri að ræða þessi mál undir íslenskum töggum sem þegar eru til, #konurtala og #þöggun).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.