Ógifta systirin

Höfundur: David Arnason

ógiftasystirin

Ógifta systirin er hneykslanleg. Hún verður full í samkvæmum og segir sögur sem fá karlmenn til að roðna. Hún er nú meiri kvenmaðurinn, segja eiginmennirnir. Eiginkonurnar segja að það sé nú ekki furða.

Ógifta systirin kaupir rauðan sportbíl. Enginn skilur hvernig hún hefur efni á því. Hún keyrir of hratt og fær tvær sektir fyrstu vikuna.

Ógifta systirin fer til Hong Kong. Hún á í ástarævintýri með kínverskum fararstjóra og er næstum því stungin í bakið í húsasundi. Eiginkonurnar trúa henni ekki. Eiginmennirnir segja að hún geti gert betur.

Haldið er samkvæmi. Einhver býður Ógiftum bróður, háum og feimnum með stórar hendur. Ógifta systirin segir: „Ég á í nógum vandræðum svo ég sé ekki að taka að mér kryppling.“

Ógifta systirin grætur. Bræðurnar vilja vita hvað þeir geta gert. Þeir vilja fá að berja einhvern, en Ógifta systirin segir: „Nei, það er ekkert svoleiðis.“

Ógifta systirin fer í boð hjá yngri konum sem eru að fara að gifta sig. Hún kemur angandi af viskíi og fer snemma. Hún gefur stærstu gjöfina og allir verða reiðir.

Ógifta systirin ákveður að verða læknir. Faðirinn útbýr herbergið í kjallaranum með sérinngangi og litlu eldhúshorni, en Ógifta systirin ákveður að fara til Finnlands í staðinn.

Loksins er maður í lífi hennar. Enginn sér hann en sögur ganga um að hann sé viðriðinn hvíta þrælasölu. Allt í einu fær Ógifta systirin heimsóknir. Fólk spyr spurninga. Hún segir þeim: „Þetta er mitt líf. Ég lifi því eins og ég vil.“

Ógifta systirin segir brandara. Það er mjög fyndinn brandari en þegar fólk talar um hann síðar virðist hann vera lesbíubrandari. Er Ógifta systirin lesbía?

Ógifta systirin vill ekki koma heim um jólin. Hún segist ekki hafa efni á því að kaupa jólagjafir. Allir eru sammála um að hún ætti ekki að þurfa að kaupa svona margar jólagjafir. Hún kemur samt og gjafir hennar eru betri en hinna. Hún veit ekki hvað hún á að gera við peningana sína.

Ógifta systirin er falleg. Ja, ekki falleg, en mjög hugguleg, ef hún aðeins gæti losnað við svo sem þrjú kíló. Því vill enginn giftast henni?

Ógifta systirin er svekkt. Ekki reið eða niðurdregin, bara svekkt. Hvers vegna? Hún segir að það sé móður sinni að kenna. Móður hennar líkar alltaf betur við Yngri systurina sem er gift. Því elskar Móðirin ekki Ógiftu systurina?

Ógifta systirin verður vinkona Fyrrverandi eiginkvenna. Eru þetta launráð?

Ógifta systirin slasast í bílslysi. Slysið er henni að kenna. Allir heimsækja hana á spítalann.

Hjúkrunarfræðingar segja að hún sé fyndnasti sjúklingur sem þær hafi nokkurn tímann haft. Allir á spítalanum dýrka hana. Þegar hún kemur heim fær hún ekki mjög marga gesti.

Ógifta systirin neitar að borða hvítt brauð og rautt kjöt. Hún er á móti sykri. Hvað getur Fjölskyldan gert í þessu?

Ógifta systirin litar hárið á sér svart. Þannig virðist hún hörð. Enginn veit hvernig á að segja henni þetta.

Ógifta systirin hverfur. Hringt er á lögregluna. Viku síðar finnst hún í Grand Forks, Norður-Dakota með giftum Fasteignasala. Ógifta systirin verður brjáluð. Er það sanngjarnt gagnvart Fjölskyldunni sem hafði svo miklar áhyggjur af henni?

Ógifta systirin er með ofnæmi. Hún getur ekki komið í hús þar sem er köttur eða hundur. Hún getur ekki sofið með kodda úr fjöðrum. Hún má ekki borða jarðarber eða nokkuð með kókos. Hún hnerrar í fataverslunum. Þegar hún fer til Ástralíu hverfur ofnæmið. Hún segist kannski ætla að flytja til Ástralíu en allir eru sammála um að það væru mistök.

Ógiftu systurina dreymir að hún missi allt hárið. Hún flytur í aðra íbúð.

Nauðgarar og morðingjar sitja um Ógiftu systurina. Þeir fela sig á bílastæðum og gægjast inn um gluggann hjá henni um nætur. Hún virðist ekki taka eftir þessu en allir eru sammála um að það væri betra að hún flytti heim og hugsaði um móður sína sem býr við versnandi heilsu.

Ógifta systirin dansar. Hún dansar rúmbu, samba og tangó. Hún dansar foxtrott, gamaldags vals og hæltáarpolka. Hún getur tvistað, dansað kanínuhopp og skottís, charleston, kvadrill, kontradans, kotiljon, gavotta, menúett, djigg, galljard, masúrka, fiðrildi, stomp, kökudans, stroll, djæf og hálandafling. Stundum dansar hún seint um kvöld þegar hún er alein í herberginu sínu, en sá dans er nafnlaus.

Höfundurinn er prófessor við Manitobaháskóla. Sagan birtist upphaflega í The Happiest Man in the World and Other Stories (1989). Kristín M. Jóhannsdóttir þýddi.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s