Þunglyndi eftir fæðingu

þunglyndieftirfæðinguHöfundur: Arndís Bjarnadóttir

Um daginn fórum við Ísak Bjarni í heimsókn á deild 33c. Það er geðdeild. Hvers vegna fórum við þangað í heimsókn? Ég skal segja ykkur það.

Á þessari deild lágum við saman í tæpan mánuð, frá því að Ísak var 3 vikna þar til hann varð 7 vikna.
Á meðgöngunni leið mér alla jafna vel. Ég var spennt fyrir komandi tímum og ímyndaði mér hitt og þetta í tengslum við væntanlega fæðingu og lífið eftir hana. Ég sá þetta fyrir mér í rósrauðum bjarma. Bleika skýið og allt það. Það sem ég hugsaði um var t.d hvernig blautþurrkur ég ætlaði að nota, hvernig sæng, ætlaði ég að stinga snuði að honum strax eða geyma það, hversu mikið af fötum í hverri stærð og listinn heldur áfram.

Ég þurfti að hætta fremur snemma að vinna, eða eftir tæpar 33 vikur. Mikið varð ég leið á að hanga heima. Þegar ég var komin 38 vikur og 4 daga fór allt í gang, Ísak Bjarni fæðist þann 28. febrúar 2016. Ég var þess fullviss um að ég myndi ganga tvær vikur fram yfir, því það var það sem allir höfðu sagt við mig, það væri alveg víst því þetta væri fyrsta barn. Þetta kom mér í opna skjöldu. Ég man eftir því að hafa staðið háskælandi á fæðingarstofunni yfir því að ég kynni ekkert um brjóstagjöf, hana hafði ég aldeilis ætlað að lesa um á viku 40 til að hafa fræðin sem ferskust í minni þegar að þessu kæmi. Allt skipulagt í þaula.

Ég sat inni hjá ljósmóðurinni komin 36 vikur. Hún fór yfir hitt og þetta með mér. Við ræddum fyrstu dagana eftir fæðinguna. Hún sagði mér frá sængurkvennagrátinum. Svo minntist hún á fæðingarþunglyndi, sagði mér að vera bara vakandi fyrir slíkum einkennum. Ég horfði á hana eins og þetta sem hún væri að segja kæmi mér ekkert við. Hvers vegna var hún að tala við mig um fæðingarþunglyndi? Afhverju ætti ég að verða þunglynd yfir að eignast litla strákinn sem mig hafði dreymt um í mörg ár?.. þetta kæmi sko ekki fyrir mig. Ég kom við í búð á leiðinni heim og keypti skiptitösku. Það tók tímann sinn að velja hana. Ætli ég hafi ekki drollað þarna í klukkutíma. Allt skyldi vera fullkomið og úthugsað fyrir erfðaprinsinn.

Fæðingin var erfið, ekkert fór þar eins og ég hafði hugsað mér. Öll plön um vatnsfæðingu og að ætla að anda mig í gegnum verkina flugu út í móa. Næstu dagar voru erfiðir. Öðruvísi en ég hafði séð fyrir mér. Öðruvísi er eiginlega understatement.
Við fórum loks heim eftir tvær nætur á spítalanum. Ég hafði séð myndir af brosandi foreldrum með bílstólinn á milli sín. Heimferðin. Ég eyddi miklum tíma í að finna hið fullkomna heimferðasett fyrir piltinn. Þegar til kastanna kom var hann svo reiður þegar átti að klæða hann að hann fór heim á stuttermasamfellu, skítugum buxum og einum sokk (klæddur í hlýjan flíspoka og með góða húfu að sjálfsögðu). Ég var í kuldaskóm af Gumma (enn bjúguð eftir meðgönguna) og grútskítugum pokabuxum. Vildi ég láta taka mynd af þessum ósköpum? Nei takk, ég hvæsti á aumingja eiginmanninn að við skyldum heim og það ekki seinna en strax. Við gengum út af spítalanum með öskrandi farm í bílstólnum. Eða Gummi gekk og ég kjagaði. Ég fór að gráta í bílnum yfir því að afkvæmið hafi farið öskrandi útaf spítalanum og klætt eins og umrenningur í þokkabót. Ó en sú mæða. 😉

Næstu dagar liðu eins og í móðu. Okkar nánustu komu í heimsókn. Ég sat eins og slytti á sófanum. Vissi varla hvort ég var að koma eða fara. Grenjaði yfir öllu og engu. Ég gat grátið yfir því að ekki var búið að fjarlægja gasblöðru síðan úr babyshower veislunni minni úr íbúðinni (ath ég hafði aldrei beðið um að henni yrði hent). Ég rauk stundum upp frá matarborðinu og fór inn í herbergi til að gráta. Þetta gat verið oft á dag. Þetta var jú þessi frægi sængurkvennagrátur.
Ég var hrædd við Ísak. Þegar hann grét fékk ég sting um allan líkamann. Fyrsta daginn sem við komum heim fékk ég hnút í magann sem bara óx og óx. Ég man að fyrir fæðinguna hafði ég sagt hverjum sem heyra vildi að við ætluðum sko að vera í friði fyrstu vikuna. Litla fjölskyldan að kynnast. Nei, ég bað fólk um að koma í heimsókn svo það gæti verið með barnið. Ég kom honum á alla sem komu í heimsókn. Mig langaði bara að vera inni í herbergi í friði. Nennti ekki og vildi ekki vera með syni mínum. Ég var hrædd við hann og fannst ég ekki kunna á hann. Ég átti hann ekki skilið.
Ég man að ein nákomin mér gaf mér það ráð fyrstu dagana að hlaupa ekki að vöggunni við fyrsta píp, því oft gerðu þau hljóð upp úr svefni en héldu svo áfram að sofa. Ég hugsaði bara að ég ætti ekki annað eftir en að hlaupa að vöggunni. Helst vildi ég hlaupa frá henni. Ég varð skelfingu lostin við hvert hljóð sem barst frá syni mínum.

Ísak var strax með mikið bakflæði. Honum leið mjög illa. Við vissum ekki fyrr en aðeins seinna hvað raunverulega amaði að honum. Keypt var snuza hero (tæki sem á að nema öndunarhreyfingar og pípir ef engin hreyfing er í ákveðinn tíma). Skemmst er frá því að segja að það tæki var ekki notað fyrstu vikurnar þar sem að litli lét okkur vita að hann væri á lífi hverja einustu mínútu sólarhringsins. Það voru ræskingar og allskonar hljóð. Hann vildi drekka á klukkutíma fresti, stundum oftar. Líklega til að lina verkina vegna bakflæðisins. Ég svaf ekki. Í þrjár vikur svaf ég 1-2 tíma á dag. Þó hann svæfi svaf ég ekki. Lá andvaka og kveið fyrir því þegar hann vaknaði.
Ég grét á hverju kvöldi í langan tíma því ég kveið nóttinni.
Þegar þessar tvær vikur voru liðnar og gráturinn hætti ekki, hætti Gumma að lítast á blikuna. Sagt er að sængurkvennagrátur geti verið upp í tvær vikur, en ef ástandið heldur áfram eftir þann tíma þá ætti að athuga málið.
Ég sagði hluti sem ég mun aldrei geta tekið til baka. Ég hugsaði um hluti sem ég kvelst enn yfir að hafa hugsað.

Ég bað vinkonu mína um að taka Ísak með sér heim, og bara hafa hann hjá sér. Ég kom að máli við Gumma og sagði að ég teldi best að ég flytti út. Nú það væri mikið betra fyrir barnið að alast upp hjá honum einum. Ég væri ekkert hæf til að vera móðir. Ég hugsaði með mér eina nóttina að nú væri tækifærið. Ég gæti bara farið út og ekki komið aftur.
Mig langaði bara að liggja uppi í rúmi og gera ekki neitt. Ég sá ekkert skemmtilegt eða spennandi við þetta allt.
Ég sá stelpur í mömmuhópnum á facebook skrifa á kómískan hátt um andvökunætur og annað slíkt. Ég las þetta með skelfingu og hugsað bara: hvernig er hægt að grínast með svona nokkuð, þetta er hryllingur. Ef einhver sagði þar að hún væri ein heima með hið nýfædda og annað tveggja ára, ji það lá við að ég færi yfir um við tilhugsunina eina saman.

Ég fór og talaði við ráðgjafa á miðstöð foreldra og barna, sú kona er engill í mannsmynd. Þarna fékk ég afhenta tvo skala sem áttu að mæla þunglyndi og kvíða. Ég hugsaði með mér að annaðhvort gæti ég bullað einhverja vitleysu eða sagt sannleikann. Ég ákvað að gera hið síðarnefnda.
Það varð úr að mér var boðið pláss á deild 33c. Þangað inn leggjast meðal annars konur með meðgöngu og fæðingarþunglyndi. Þetta var á föstudegi og var mér uppálagt að mæta á mánudeginum. Jú jú, ég ætlaði alveg að mæta, en ég ætlaði bara að vera í mesta lagi eina nótt. Einnig ætlaði ég að sjá til hvort þetta jafnaði sig ekki bara yfir helgina. Ég var ekkert veik og þurfti nú ekki að leggjast inn. Þetta myndi ég bara hrista af mér á no time eins og hvert annað hundsbit.
Þessi eina nótt mín varð að tæpum mánuði. Það bjargaði mér að hafa samþykkt að þiggja þessa aðstoð. Þetta voru þung skref. Mér fannst ég hræðilega asnaleg og vanþakklát. Að ég væri að leggjast inn á spítala vegna vanlíðan yfir að hafa eignast heilbrigt barn? Heyr á endemi. Í viðtali við geðlækni sagði ég: já, en sá hryllingur, ég eignaðist barn og varð þunglynd í kjölfarið. Ekki eins og ég hafi lent í neinu skelfilegu.
Þá var mér sagt að fólk héldi oft að eitthvað þyrfti að gerast til að það yrði þunglynt. Það er ekki þannig.
Ég harðbannaði Gumma að nefna þetta við nokkurn mann. Ég ætlaði helst ekki að segja fjölskyldunni eða nánustu vinum frá þessu. En afhverju? Hefði ég ekki sagt þeim frá því ef ég þyrfti að leggjast inn vegna sýkingar í fæti?

Ég endaði á að segja þeim frá þessu þegar ég sá að ég gæti ekki sagst ekki vera heima í margar vikur. Ég mætti fullum skilningi frá þeim öllum og fékk að heyra að ég hefði sýnt styrk með því að leita mér hjálpar. Enda er maður sjálfum sér verstur þegar kemur að fordómum.

Mér fannst erfitt að skipta á syni mínum eða sinna honum á annan hátt. Það tók mig langan tíma að þora að prófa að leggja mig á daginn og hafa hann við hliðina á mér í vöggu á meðan. Enn lengri tíma tók það mig að þora að hafa hann inni hjá mér um nótt. Ég tók þetta í litlum skrefum þarna inni á deildinni.
Loksins kom að því að ég tók hann inn til mín um kvöld og hafði hann hjá mér alla nóttina. Síðan þá hefur hann sofið inni hjá mér. Í dag skil ég ekki að mér hafi fundist þetta svona erfitt.
Það er himinn og haf á milli þess hvernig mér líður núna og hvernig mér leið þá. Eg hélt ég gæti aldrei náð bata. Eg spurði starfsfólkið á hverjum degi ,,Helduru að þetta verði einhverntíman betra?”.. fékk alltaf sama svarið ,,já auðvitað”.. ég trúði því ekki. Núna sé ég að þetta er hægt. Það er hægt að líða betur og það er von þó hún virðist ansi langt í burtu.
Nú í dag er Ísak 3 mánaða. Hann er krefjandi barn. Hann er með mikið bakflæði, sefur slitrótt og á æði misjafna daga. Munurinn er sá að núna er ég nógu sterk til að geta tekist á við það. Næstum ekkert getur núna komið mér úr jafnvægi. Það er ansi mikill munur síðan bara fyrir nokkrum vikum þegar mig langaði mest til að hlaupa út þegar hann grét.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa leitað mér hjálpar strax. Eg hefði léttilega getað eytt fyrstu mánuðum og jafnvel árum sonar míns í ómeðhöndlað þunglyndi. Ég er svo þakklát fyrir manninn minn sem tók eftir að eitthvað var alls ekki í lagi og hefur staðið eins og klettur við hlið mér í gegnum allt þetta.
Hann gleymdi að hugsa um sjálfan sig á meðan á öllu þessu stóð svo nú er ég hans klettur. Karlmenn geta líka fengið kvíða eða þunglyndi tengt fæðingu. Ekki bara við konurnar.

Það er svolítið grátbroslegt að segja frá því að ég var í verknámi á þessari deild á sínum tíma og fannst einmitt mjög áhugavert að þar inn legðust mæður með ungbörn. Ekki grunaði mig þá að ég ætti eftir að rannsaka þessa starfsemi svona rækilega.
Það að lenda í því að fá fæðingarþunglyndi er eitthvað sem kom aftan að mér. Ég hugsa að ég hefði orðið minna hissa ef páfinn í Róm hefði sent mér skilaboð á facebook og sagst eiga við mig persónulegt erindi. Svona nokkuð spyr ekki um stétt eða stöðu. Allir geta lent í kvíða eða þunglyndi á meðgöngu eða eftir fæðingu. Það er um að gera að opna umræðuna því það á ekki að vera neitt óeðlilegra að ræða þetta heldur en t.d mígreni eða komandi forsetakosningar.

Núna horfi ég björtum augum til framtíðar og veit að tímarnir sem eiga eftir að koma verða bara betri og betri. Ég elska þennan litla son minn meira en lífið sjálft og fæ fiðrildi í magann af tilhlökkun til komandi ára með honum. Það sem var gert fyrir mig á deild 33c er eitthvað sem ég mun aldrei geta þakkað nóg fyrir. Þarna er yndislegt starfsfólk, allir sem komu að máli okkar Ísaks unnu sína vinnu af mikilli hlýju og fagmennsku.Ég held ég geti alveg fullyrt að ég væri ekki á þeim stað sem ég er á núna ef ekki hefði verið fyrir þau. Það hversu fáránlegt það er hve litla athygli þessi starfsemi fær í fjárlögum er efni í annan og lengri pistil.

Þessi skrif eru risastórt skref út fyrir þægindahringinn. Ef þetta getur hjálpað einhverjum, þó ekki sé nema einhverjum einum, þá er það þess virði. Fólki er svo meira en velkomið að hafa samband við mig eða manninn minn í skilaboðum (líka þó þið séuð ekki á vinalistum okkar á facebook).

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.