Hverjum klukkan glymur

Höfundur: Moira Wiegel

Þýðendur: Katrín Harðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Guðrún C. Emilsdóttir

„Ég sóaði árum í X!“ Ég hef aldrei heyrt gagnkynhneigðan karl segja þetta. En þegar kona tekur svo til orða eftir sambandsslit, skilja allir undir eins hvert hún er að fara. Við erum alin upp við þá trú að konur séu eins og tímasprengjur. Hvert samband sem „gengur ekki upp“ – þ.e. konan verður ekki barnshafandi með manni sem gengst undir að ala upp afkvæmi með henni – færir hana sífellt nær síðasta söludegi. Þegar klukkan slær tólf á miðnætti, verða eggin okkar að dufti.

Hvarvetna og á ýmsum tímum hafa konur fundið fyrir þrýstingi til þess að eignast börn. En hugmyndin um líffræðilega klukku er nýleg uppfinning. Hún birtist fyrst á síðari hluta 8. áratugarins. „Klukka framakonunnar tifar,“ lýsti Washington Post yfir á forsíðu innanbæjarhluta blaðsins hinn 16. mars 1978. Höfundurinn, Richard Cohen, hafði ekki hugmynd um hversu óumflýjanlegt þetta stef myndi verða.

Grein hans hófst á stefnumóti með „ímyndaðri meðalkonu“ sem á að standa fyrir allar konur á aldrinum 27 til 35 ára. „Þarna kemur hún inn úr dyrunum“ byrjaði Cohen. „Hún er falleg. Dökkt hár. Meðalhá. Vel tilhöfð. Nú fer hún úr kápunni. Vel vaxin.“ Ímyndaða konan hefur einnig tileinkað sér jákvætt viðhorf til lífsins: „Vinnan er alveg dásamleg. Henni líður dásamlega“. En síðan lítur hún niður.

„Er eitthvað að?“ spyr deitið hennar.

„Mig langar að eignast barn“, svarar hún.

Cohen hélt því fram að allar konur sem hann þekkti vildu eignast börn, án tillits til þeirra rómantísku sambanda sem þær voru í.

„Ég hef farið á milli, með eljusemi býflugunnar, frá konu til konu”, skrifar hann. „Flestar þeirra tala um að þær heyri klukkuna tifa … Stundum er ímyndaða konan gift og stundum er hún það ekki. Stundum vill svo hræðilega til að enginn karl er í sjónmáli. Það sem þó er alltaf til staðar er þessi tilfinning um að klukkan tifi … Tifið fylgir þér við hvert fótmál.”

Nokkrum mánuðum síðar ofsótti klukkan framakonur alls staðar. Ann Kirchheimer, pistlahöfundur hjá The Boston Globe, tilkynnti að „þær sem nutu góðs af kvennahreyfingunni, þessi fyrsta kynslóð frelsaðra ungra kvenna … sem völdu frama, ferðalög og sjálfstæði frekar en eiginmann, heimili og börn, eru nú eldri og skyndilega er tif líffræðilegu klukkunnar ærandi.“ Önnur kona sem Kirchheimer tók viðtal við, geðlæknir, gantaðist með þessar raunir sínar og einhleypra vinkvenna sinna og sagði þær vera með „uppþornað leg-heilkennið“ (e. withering womb syndrome).

Á þessum tíma voru Bandaríkjamenn vandir við sögur um hverfandi frjósemi. Fæðingatíðni hafði fallið hratt á síðustu tveimur áratugum á undan. Árið 1957 eignaðist hin bandaríska meðalkona 3,5 börn, 1976 eignaðist hún 1,5 börn. Í kjölfar kvennahreyfingarinnar, með tilkomu pillunnar og annarra getnaðarvarna, sem og lögleiðingar fóstureyðinga, frestuðu sífellt fleiri konur hjónabandi og barneignum vegna menntunar og frama.

Jafnvel konur sem ætluðu sér að eignast börn, slógu því lengur á frest en áður tíðkaðist. Árið 1977 áttu 36% mæðra sitt fyrsta barn um þrítugt eða eldri. Það leit út fyrir að konur myndu senda móðurhlutverkið út á gaddinn. Var það svona sem heimurinn myndi farast? Ekki með sprengju heldur pillu?

Í þessum sagnaflaumi um líffræðilegu klukkuna vísuðu sumar sögurnar í þessa víðtæku lýðfræðilegu strauma og áhyggjur af þeim. En athyglinni var þó aðallega beint að einstaklingum. Blöðin vörpuðu dýrðarljóma á framakonur sem ákváðu að eignast börn á sama tíma og þær fylgdu krefjandi starfi eftir og minnti þær sem biðu með að eignast börn á að þær gætu séð eftir uppburðarleysinu síðar meir. (Hugmyndin um að konu gæti hreinlega ekki hugnast að verða móðir kom sjaldan upp).

Frjósemi karla minnkar einnig með aldrinum. Sífellt fleiri rannsóknir sýna að fjöldi sæðisfruma fer minnkandi með árunum.

Af forsíðu Time, 22. febrúar, 1982.Í febrúar 1982 birtist mynd af leikkonunni Jaclyn Smith, einni af Charlie´s Angels stjörnunum, á forsíðu Time. Hún var klædd víðum, bláum kjól og hélt þétt um ávalan kviðinn. „Nýi barnablóminn“ stóð á forsíðunni. „Framakonur velja þungun og þær gera það með stæl.“ Í blaðinu endurtók höfundurinn John Reed viðvörun sem var að verða æ kunnuglegri.

„Margar konur standa í þeim sporum að líffræðileg klukka frjósemi þeirra gengur brátt sinn síðasta hring“, skrifaði Reed. „Hið ævaforna kall tungls og sjávarfalla, salt blóðsins og genakóðun sem falin er djúpt í litningum undir lögum af menningu – og ómenningu – gerir það að verkum að farsælar viðskiptakonur, sérfræðingar og jafnvel mæður fullvaxta barna staldra við og hugsa sinn gang.“

Myndlíking líffræðilegu klukkunnar var ekki jafn skrautleg og þær sem fylgdu á eftir, en hún lét sömu nauðhyggjuna í ljós. Reed tefldi fram tilvist líffræðilegrar klukku sem sönnun fyrir því að konur ættu ekki að hætta sér of langt frá sínu hefðbundna hlutverki. Hann skilgreindi líf kvenna á forsendum móðurhlutverksins, eða á vangetu þeirra til að verða mæður.

Jafnvel þótt konur gætu nú keppt við karla um best launuðu störfin og sofið hjá eins og þeim sýndist, gáfu þessar greinar í skyn að frjálsar ástir og kvennahreyfingin hefðu í grundvallaraatriðum ekki breytt neinu. Konur gætu klætt sig í jakkaföt eins og þær lysti, en á endanum myndi líkami þeirra þrá börn.

Það kann að hafa hljómað eins og lýsing, en í þessu fólst skipun.

Sagan um líffræðilegu klukkuna er saga um vísindi og kynjahyggju. Hún er lýsandi fyrir það hvernig staðhæfingar um kyn geta mótað forgangsröðun í vísindalegum rannsóknum og hvernig uppgötvanir vísindamanna geta þjónað tilgangi kynjahyggjunnar. Við erum vön því að hugsa um myndlíkingar á borð við „líffræðilegu klukkuna“ eins og þær væru alls ekki myndlíkingar, heldur einfaldlega hlutlausar lýsingar á staðreyndum um mannslíkamann. En þegar við skoðum nánar hvaðan orðræðan kemur og hvernig hún kom til, verður ljóst að hugmyndin um líffræðilegu klukkuna hefur alveg jafn mikið að gera með menningu og hún hefur að gera með náttúru. Menningarlegt hlutverk orðræðunnar var að sporna við áhrifum kvenfrelsis.

Í fyrsta lagi þrýsti tal um „líffræðilegu klukkuna“ móðurhlutverkinu að konum með því að gefa til kynna að jafnvel þótt eitthvað af tvíhyggjunni um kynin væri á undanhaldi, yrði alltaf þessi munur; konur þyrftu alltaf að plana ástarlíf sitt með barneignir í huga, áður en það yrði um seinan. Í öðru lagi gefur myndlíkingin til kynna að það væri eðlilegt að konur sem reyndu að etja kappi við karla á vinnumarkaði og eignast börn á sama tíma, myndu alltaf búa við misrétti.

Hugmyndin um að það að vera kvenkyns sé veikleiki liggur í uppruna frasans „líffræðileg klukka“. Orðtakið var fyrst búið til af vísindamönnum til þess að lýsa dægursveiflum, ferlunum sem segja líkama okkar hvenær við eigum að vakna, borða og sofa. Á 6. áratugnum styrkti bandaríski flugherinn rannsóknir sem beindust að virkni líffræðilegu klukkunnar. Brátt kepptust rannsakendur við að þróa lyf sem gætu eytt þörfinni fyrir hvíld. Hugmyndin var sú að ef við skiljum líkamann nógu vel, getum við komist yfir takmarkanir hans. Á 8. og 9. áratugnum breyttist merking orðtaksins til þess sem við þekkjum nú: lýsing á frjósemi kvenna. En er það að vera kona veikleiki sem við höldum að konur í atvinnulífi vilji ráða bót á?

Á tímum mikilvægra félags- og efnahagslegra breytinga ýtti allt tal um líffræðilegu klukkuna undir gamlar hugmyndir um kynjamun. Aukinheldur voru þær ýktar, með því að koma þeirri hugmynd á framfæri að karl og kona væru jafnvel ólíkari en afturhaldsseggir 6. áratugarins gátu gert sér í hugarlund. Æ fleiri konur brutu sér leið inn í fyrrum karlaheim vel launaðrar vinnu. Samt sem áður bentu umræður um líffræðilegu klukkuna til þess að fjölgun mannkyns væri alfarið mál kvenna.

Menningarlegt hlutverk líffræðilegu klukkunnar var að vinna gegn áhrifum kvenfrelsisns.

Pistlahöfundar eins og Cohen og Kirchheimer vöruðu kvenlesendur við því að þær myndu finna til vaxandi örvæntingar ef þær frestuðu barneignum of lengi. Á sama tíma skelltu þeir fram úrvali sígildra „sanninda“ um karlmennsku sem þó voru ný af nálinni. Þeir sögðu að líkamar karlmanna væru stilltir þannig að þá langaði ekki í langtímasambönd eða afkvæmi. Frjálsir undan tímapressunni sem réði lofum og lögum í ástarlífi kvenna, höfðu karlar þróað með sér löngun til kynlífs án skuldbindinga. (Um þessar mundir kom fram ný fræðigrein í háskólum, þróunarsálfræði, sem lýsti mökunartilburðum gagnkynhneigðra mannvera sem málamiðlun á milli karlkynsvera sem vildu kynlíf og kvenkynsvera sem vildu vernd – og að þær þyrftu því að reiða sig á giftingaraldurinn til þess að öðlast það sem þær vildu).

Engu máli skipti að kannanir sýndu, alveg frá 6. áratugnum, að flestir Bandaríkjamenn töldu hjónaband og fjölskyldu vera hornstein persónulegrar hamingju. Sérfræðingar 9. áratugarins voru sammála um að körlum og konum væri eiginlegt að nálgast hvert annað með algjörlega andstæð markmið í huga og með afar ólík forréttindi. Hinn eilífi piparsveinn var aldurslaus. En ef framakonan vonaðist til að finna verðugan maka varð hún að skipuleggja líf sitt út í ystu æsar.

2317Um miðjan 9. áratuginn voru konur fæddar á fæðingarsprengjutímabilinu orðnar að þeim sem „alltaf eru á klukkunni“, eins og blaðamaðurinn Molly McKaughan lýsti þeim. Í metsölubók hennar frá árinu 1987, Líffræðileg klukka, kom fram að konur sem annars höfðu hin ólíkustu viðhorf, voru allar „gagnteknar af því“ að eignast börn. Nokkrar létu í ljós eftirsjá yfir að hafa beðið of lengi með að fanga mögulegan föður. Samt sem áður viðurkenndu flestar að þær þyrftu að beita herkænsku við leitina. „Tíminn bókstaflega rennur konu úr greipum“ skrifaði McKaughan, „ef hún bíður of lengi.“ Engin önnur bók flytur sambærilegan boðskap um kærasta þessara kvenna.

Enn er óljóst hversu mikið frjósemi kvenna minnkar með árunum. Líkt og sálfræðingurinn Jean Twenge hefur bent á eru títt nefndar tölur um frjósemi kvenna misvísandi. Í grein sem birtist í Atlantic árið 2013 fletti Twenge ofan af ótraustum heimildum fyrir mörgum þeim staðhæfingum sem konum hafði verið talin trú um að væru heilög sannindi. Eftir að hafa skoðað gagnagrunna innan læknavísinda komst hún meðal annars að því að tölfræðiniðurstöður, sem oft var vísað til, um að ein af hverjum þremur konum á aldrinum 35-39 ára muni ekki verða þunguð eftir að hafa látið á það reyna í eitt ár, voru byggðar á rannsókn frá árinu 2004 sem aftur á móti studdist við franskar tölur um fæðingartíðni á árunum 1670-1830. „Það er að segja,“ skrifar Twenge, „milljónum kvenna er sagt hvenær þær eigi að verða óléttar út frá tölfræði sem á rætur að rekja til þess tíma þegar ekki var til staðar rafmagn, sýklalyf eða frjósemisaðgerðir.“

Annað vandamál í sambandi við tölfræðigögn um frjósemi er að upplýsingunum er aðallega safnað frá fólki sem fer til læknis vegna þess að það á við frjósemisvandamál að stríða. Þar af leiðandi er erfitt að meta frjósemi almennt. Hversu mörg pör eignast ekki börn einfaldlega vegna þess að þau vilja það ekki? Hversu mörg nota getnaðarvarnir? Það er eiginlega ómögulegt að hafa yfirsýn yfir allar þessar mismunandi breytur.

Þrátt fyrir þessar gloppur í þekkingu okkar hafa sterk vísindaleg rök verið færð fyrir því að fjöldi og gæði eggja kvenna minnka með aldrinum. Óteljandi konur sem frestuðu barnseignum af ýmsum ástæðum, hafa uppgötvað sér til angistar að þær geta ekki orðið barnshafandi. Að þessu leyti er örvæting kvenna sem voru „alltaf á klukkunni“ á rökum reist. En í meirihluta þeirra skrifa sem til eru um þessar konur er látið hjá líða að minnast á aðra mikilvæga staðreynd; frjósemi karla minnkar einnig með aldrinum.

Vissulega eru til frægar undantekningar, menn eins og Charlie Chaplin og Pablo Picasso, sem eignuðust börn á áttræðisaldri. En sú útbreidda trú að tíminn bíti ekki á frjósemi karla er einfaldlega röng. Síðan á 9. áratugnum hafa rannsóknir sýnt fram á að fjöldi sáðfruma og gæði þeirra minnka með árunum. Meiri líkur eru á því að börn eldri feðra verði einhverf eða glími við önnur vandkvæði heldur en börn yngri feðra. „Gamlar sáðfrumur“ einfaldlega visna og eyðast í kringum egg sem þær reyna að frjóvga.

Þessar staðreyndir hafa öðru hverju komið fram, nánast alltaf sem tíðindi um „líffræðilegu karlklukkuna“. Þörfin fyrir að bæta forskeytinu ´karl´ við orðasambandið gefur vísbendingu um af hverju þessar upplýsingar hafa að mestu verið hunsaðar: eins og orðræðan er í samfélaginu virðast aðeins konur hafa líkama.

Samkvæmt American Society of Reproductive Medicine (bandarísk samtök um frjósemislækningar) má sjá að af þeim pörum sem leita sér lækninga við ófrjósemi í Bandaríkjunum, uppgötva um 40% að vandamálið liggur hjá konunni, í 40% tilvika hjá karlinum og í 20% tilvika er enga skýringu að finna. Nokkuð jafnt hlutfall kvenna og karla á því við ófrjósemisvandamál að stríða, þótt þess sé hvergi getið í meirihluta fréttaefnis, þar sem fjallað er um málefnið. Við virðumst gera ráð fyrir að fjölgun sé alfarið á ábyrgð kvenna. Allt sem fer úrskeiðis hlýtur þess vegna að vera konum að kenna.

Æxlunarkerfi kvenna er ekki, furðulegt nokk, eins og klukkur. Mánuðirnir stjórna líkömum okkar frekar en klukkustundir og dagar; hormónahringurinn snýst sjaldan jafn fimlega og sekúnduvísir klukkunnar. Og frjósemi karla, rétt eins og kvenna, minnkar með aldrinum. Hvað veldur þá þessari hugmynd um að konur, og aðeins konur, etji kappi við tímann? Hvernig stóð á því að þetta tal um líffræðilegu klukkuna heltók umræðuna?

Vera má að svarið sé hversdagslegra en skammlífi í starfsemi kvenlíkamans sem stýrist af tungli og sjávarföllum. Þegar hugmyndin um líffræðilegu klukkuna fór á flug voru efnahagslegar breytingar að riðla skipulagi vinnu og tíma. Og ástæðan fyrir því að konum fannst þær vera í kappi við tímann hafði lítið með einhvern dularfullan líffræðilegan kraft að gera heldur miklu frekar við þá staðreynd að þær voru að flykkjast inn á vinnumarkaðinn, á sama tíma og þær sáu enn um bróðurpart ólaunaðra heimilisstarfa. Þær voru uppteknari og höfðu einfaldlega minni tíma aflögu en nokkru sinni fyrr.

Sú gerð níu-til-fimm vinnu sem var algeng meirihluta 20. aldarinnar skipti lífinu í tvennt, á vinnutíma og utan vinnutíma. Á 6. og 7. áratugnum var starf unnið „á vinnutíma“ talið vera karlastarf. Konur störfuðu innan veggja heimilisins, í rými sem samfélagið skilgreindi sem „utan vinnutíma“ og óháð hagkerfinu. Það sem þær gerðu líktist meira ást en vinnu.

Þær „fjölskyldutekjur“ sem karlinn aflaði áttu að nægja til þess að sjá fyrir ólaunaðri vinnu eiginkonunnar. Engu að síður þýddi launastöðnun 8. áratugarins að æ færri fjölskyldur höfðu efni á aðeins einni fyrirvinnu. Niðurskurður félagslegrar þjónustu kom ennfremur illa niður á fjölskyldum. Hvítir menntaðir femínistar fögnuðu nýjum tækifærum fyrir konur á vinnumarkaði en útrás úthverfahúsmæðranna var ekki síður drifin af efnahagslegri nauðsyn en af frelsisþörf.

Reglum á vinnustöðum var ekki breytt til að gera konum auðveldara fyrir að komast áfram. Afleiðingin varð sú að konur þurftu stöðugt að vera í því að vinnu upp verkefnin ef þær ætluðu sér að tengja frama og fjölskyldu saman eins og karlkyns kollegar þeirra ætluðust til. Þær þurftu að finna leið til þess að láta ólíkar kröfur fjölskyldulífs og fyrirtækis ná saman, og díla auk þess við þreytuna sem þær kunnu að finna fyrir í framhaldi af þeirri glímu. Tikk, takk.

indexÁrið 1989 bjó félagsfræðingurinn Arlie Hochschild til orðatiltæki um fyrirbærið þegar konur í vinnu héldu jafnframt áfram að vinna húsverkin þegar heim var komið. Hún kallaði það „seinni vaktina“. Um áratug síðar tók hún eftir því að fjöldi kvenna tók einnig að sér „þriðju vaktina“. Á þeirri vakt tókust þær á við þær tilfinningar sem vöknuðu þegar farið er í gegnum fyrstu og aðra vaktina – sú yfirþyrmandi sektarkennd og eftirsjá sem konur finna fyrir þegar þær uppgötva að það að „eiga allt“ er einfaldlega ekkert annað en að „gera allt“.

Endalaust klif um líffræðilegu klukkuna gerði það að verkum að erfiðleikarnir við að sameina vinnu og einkalíf hljómuðu eins og sjúklegt ástand einstakra kvenna fremur en víðtækt félagslegt vandamál. (Munið eftir geðlækninum og vinum hennar með „uppþornað leg-heilkennið“).

Þetta skyggði á þá staðreynd að raunverulegu átökin snerust um félagslegan forgang. Ríki eins og Bandaríkin, þar sem varla fyrirfinnst fæðingarorlof eða aðstoð við barnagæslu, gerir konum sem kjósa að eignast börn illmögulegt að taka þátt í efnahag landsins á jafningjagrundvelli. Líffræðilega klukku móðursýkin, sem dregur upp mynd af tifandi tímasprengju í eggjastokkum hverrar konu, gerði þær persónulega ábyrgar fyrir þessum annmarka.

Margar framakonur létu blekkjast. Að minnsta kosti kröfðust þær ekki lengra mæðraorlofs eða ríkisstyrktrar dagvistunar fyrir börnin. Þess í stað hlustuðu þær á sérfræðinga sem sögðu þeim það sem sérfræðingar segja alltaf við konur: það er eitthvað hræðilega mikið að þér! En til allrar hamingju er til eitthvað alveg nýtt og dýrt sem þú getur keypt til þess að laga það.

Læknar fullkomnuðu fyrstu glasafrjóvgunina aðeins nokkrum mánuðum áður en blaðamenn byrjuðu að gala um líffræðilegu klukkuna. Þann 25. júlí 1978 leit fyrsta „tilraunaglasabarnið“ dagsins ljós, Louise Brown sem fæddist á Oldham spítalanum í Englandi. Louise varð fljótlega fræg um allan heim. En ef markaðsteymi hefði ætlað að hrinda af stað markaðsátaki í því skyni að laða fleiri konur að hugmyndinni um glasafrjóvgun, hefði teymið varla getað gert betur en Richard Cohen með þeim flaumi sagna um líffræðilegu klukkuna sem grein hans kom af stað.

Glasafrjóvgun var þróuð til þess að leysa sértækt vandamál. Móðir Louise Brown var ófær um að verða barnshafandi vegna stíflu í eggjaleiðurunum. Árið 1981 var búið að finna út hvernig mætti nota hormón til þess að örva eggjastokka kvenna svo þeir losuðu mörg egg í einu. Frekar en að treysta á tíðahringinn fóru læknar að taka eins mikið af erfðaefni og þeir gátu frá sjúklingum sínum. Áður en langt um leið höfðu þeir hafið sölu á glasafrjóvgun til kvenna sem áttu ekki í neinum vandræðum með eggjaleiðarana.

Árið 1983 birtu læknarnir Sevgi Aral og Willard Cates, hjá Center for Disease Control (Miðstöð sjúkdómagreininga) í Washingon DC, grein sem boðaði að „ófrjósemisfaraldur“ væri í uppsiglingu. Greinin varð útbreidd og mikið var vitnað í hana. Eftir því sem áhyggjur jukust, óx að sama skapi iðnaðurinn í kringum æxlunartækni vegna hinnar nýju eftirspurnar. Um miðjan 9. áratuginn skutu læknastöðvar upp kollinum vítt og breitt um Bandaríkin og buðu upp á glasafrjóvganir. Um miðjan 10. áratuginn voru síðan stofnsettar miðlanir þar sem boðið var upp á eggjagjafir og staðgöngumæðrun sem og smásjárfrjóvgun (aðferð þar sem sæði er sprautað beint inn í egg til þess að frjóvga það).

Margar konur urðu barnshafandi með glasafrjóvgun en það var ekki auðveld leið. Þetta er dýrt ferli. Í Bandaríkjunum er meðalverð (2015) „fersks“ glasafrjóvgunarferlis (ferli með eggjum sem hafa nýlega verið tekin úr konunni) um 12.400 bandaríkadalir, auk 3-5.000 dala lyfjakostnaðar. Margar konur reyna þessa aðferð til að verða barnshafandi oftar en einu sinni og fáar sjúkratryggingar borga fyrir allan pakkann. Í Bretlandi er meðalkostnaðurinn frá 4.000 til 8.000 punda fyrir skiptið og ekki fá allar konur stuðning frá Tryggingastofnun (NHS). Þar á ofan er glasafrjóvgun inngrip í líkamsstarfsemina og áhættan því mikil, bæði líkamleg og tilfinningaleg. Ófáar rannsóknir lýsa nákvæmlega hversu mikið konum þykir aðgerðin slítandi og niðurdrepandi.

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á því hvaða áhrif hormónameðferð vegna glasafrjóvgunar hefur á líkama kvenna til langs tíma litið. Í október 2015 birtu vísindamenn við Lundúnaháskóla (UCL) rannsókn þar sem fylgst hafði verið með rúmlega 255.000 breskum konum sem höfðu farið í meðferð vegna glasafrjóvgunar á árunum 1991 til 2010. Niðurstaðan var að 37% meiri líkur voru á því að þessar konur fengju krabbamein í eggjastokka, samanborið við viðmiðunarhóp. Ekki er hægt að skera úr um hvort glasafrjóvgunin valdi krabbameininu, eða hvort ófrjósemi kvennanna hafi verið af völdum ógreinds undirliggjandi heilsuvanda. Hvorugur kosturinn er góður.

Þrátt fyrir það gerir menning okkar ráð fyrir því að konan sé tilbúin til að þjást til að verða barnshafandi og aðgerðirnar svo hagstæðar að lítið fjármagn er sett í rannsóknir á öðrum möguleikum. Jafnvel þótt par eigi í erfiðleikum með barneignir vegna karlmannsins, verður konan samt sem áður að gangast undir glasafrjóvgun.

Frjóvgunartækni er oft lýst sem ráði til að komast fram hjá líffræðilegum annmörkum líkamans. Töluverð áhætta er hins vegar fyrir hendi um að þrátt fyrir fjárútlát og angist sem fylgir glasafrjóvgunarferlinu beri aðgerðin einfaldlega ekki árangur. Nýjasta skýrslan frá American Society of Reproductive Medicine sem birt var 2012, sýnir að árangurstölur fyrir glasafrjóvgun eru lágar. Fyrir konur eldri en 42 ára, eru líkurnar á að þær gangi með barn út meðgöngutímann 3,9%.

2526Kona sem hefur treyst á þessa aðferð til að eignast fjölskyldu getur orðið fyrir miklu áfalli ef hún ber ekki tilætlaðan árangur. Það viðhorf að til sé tækni sem gerir kraftaverk gæti ýtt undir þá tilfinningu að aðgerðin hafi misheppnast af hennar völdum.

Eins og á við um hvern annar iðnað reynir atvinnugreininn í kringum frjóvgunartæknina að vaxa og ná til fleiri markhópa. Rannsóknir hafa sýnt að frá þúsaldamótum hafa æ yngri konur áhyggjur af frjósemi sinni. Í skýrslu á vegum Centers for Disease Control and Prevention og National Survey of Family Growth frá 2002, kemur fram að fjöldi fólks á aldrinum 22-29 ára sem  gekkst undir frjósemismeðferð í Bandaríkjunum tvöfaldaðist á undangengnum sjö árum og var orðinn 23%. Árið 2006 voru 46% lesenda tímaritsins Conceive (Getnaður), sem gefið er út í Orlando í Flórída og sem notar slagorðið „Við erum sérfræðingar í að verða þunguð“, yngri en 30 ára.

Undanfarinn áratug hefur tækniiðnaðurinn í kringum frjósemisaðstoð markaðssett kostnaðarsöm inngrip til æ stærri hóps fólks sem mögulega þarf ekki á þeim að halda. Frysting eggja hefur til dæmis verið markaðssett fyrir framakonur sem fyrirbyggjandi aðgerð. Árið 2014 setti fyrirtækið FertilityAuthority (FrjósemisYfirráð) á stofn nýjung, svonefnt Eggbanxx, sem sér um að opna aðgengi að tengslaneti lækna sem framkvæma eggjafrystingar. Það miðar að því að stækka markaðinn og höfða til kvenna sem enn hafa engin frjósemisvandamál. ,,Við verðum eins og Uber, nema fyrir frystingu eggja,“ sagði Gina Bartasi, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í viðtali við Washington Post vorið 2015.

Hugtökin „birgðir“ og „gjafir“ eru notuð í samræðum um sæðis- og eggjagjafir en sú er ekki raunin í sambandi við eggjafrystingu. Þar er gripið til myndlíkinga úr tungutaki trygginga. Læknastofur sem bjóða frystingu eggja beita iðulega orðræðu fjármálageirans í auglýsingum sínum. Grínast er með „frystar eignir“ og talað er af alvöru um visku „varna gegn áhættu“. Eggjafrysting er ekki aðeins val heldur „valréttur“ í þeim skilningi sem sölumenn á Wall Street nota orðið. Kona sem lætur frysta úr sér egg, greiðir álitlega upphæð til að geta gengið að eggjum sínum vísum síðar meir, en grunngjald í Bandaríkjunum er í kringum 15.000 dalir. Síðan bætist við árlegt geymslugjald.

Rétt eins og glasafrjóvgun, þróaðist eggjafrysting í fyrstu í sérstökum tilgangi: Ungir kvenkyns krabbameinssjúklingar sem þurftu að gangast undir lyfjameðferð gátu valið að láta frysta úr sér egg fyrir meðferðina. Á síðustu árum hafa læknastofur þó boðið þessa meðferð þótt hún sé enn á tilraunastigi sem val fyrir heilbrigðar konur. Raunar eru konur hvattar til að láta frysta egg sín eins snemma og hægt er.

Varla telst það vera traust viðskiptaáætlun að bjóða konum að greiða háar fjárhæðir fyrir valfrjálsa aðgerð, sem enn er flokkuð á tilraunastigi, mörgum árum áður en á reynir. Samt sem áður hefur tekist að sannfæra nokkrar af helstu fyrirtækjasamsteypum í Bandaríkjunum um ágæti þess að frysta egg. Þegar Google, Facebook og Citibank tilkynntu árið 2012 að til athugunar væri að greiða allt að 20.000 bandaríkadölum upp í kostnað af eggjafrystingu kvenkyns starfsmanna á formi heilsustyrks, fögnuðu ýmsir ráðslaginu og töldu það vera töfralausn sem myndi jafna þann kynjamismun sem stöðugt er til vandræða í stórfyrirtækjum. Á forsíðu tímaritsins Time sem fjallaði um málið var því slegið upp að „Eggjafrysting yrði hin sanna leið að jöfnuði“ (Egg Freezing Will Be the Great Equalizer).

Konur sem hafa látið frysta úr sér egg hafa gjarnan látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að þeim finnist aðgerðin hafa verið „valdeflandi“ Þó virðist tónninn í sögunum  fremur tjá erfiðleika þeirra við að finna ástina undir taktföstu og æ háværara tifi líffræðilegu klukkunnar en áhyggjur þeirra af starfsframa.

Árið 2011 var birt umfjöllun um „35 ára gamla, tággranna konu, framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækis“ sem hafði nýlega látið frysta egg úr sér. Hún lagði áherslu á kostina sem af því hlytist þegar hún færi á stefnumót. „Leah vissi að hún var komin háskalega nálægt þeim aldri þegar ákjósanlegir karlmenn gætu átt það til að vera á varðbergi gagnvart því að örvæntin speglaðist í augum hennar, sem kæmi upp um hina ósæmilegu tilfinningu: „Klukkan-mín-tifar“. „Eggjafrystingin er litla leyndarmálið mitt“, segir hún. „Ég þarf að vera meðvituð um að ég er með varaáætlun“.

contentBlaðamaðurinn Sarah Elizabeth Richards gaf út bókina Motherhood: Rescheduled árið 2013. Þar er fimm konum fylgt eftir þegar þær láta frysta úr sér egg. Höfundur segir að sjálf sé hún yfir sig ánægð með hvað þrýstingnum létti í ástalífi hennar eftir að hún lét verða af þessu. ,,Frysting eggjanna […] sefaði sára eftirsjá vegna þeirra ára sem ég sólundaði á þrítugsaldrinum með manni sem ég vildi ekki að yrði faðir barna minna, og vegna þeirra ára á fertugsaldri sem ég sóaði í mann sem var ekki einu sinni viss um að hann langaði í börn. Þetta létti á þessum vonda þrýstingi á að finna sér lífsförunaut og hjálpaði mér 42 ára gamalli að finna ástina að nýju“. Samkvæmt þessu hljómar eggjafrysting frekar eins og dýr aðferð til að framlengja leitina að hinum eina rétta en sem tækifæri til að ná fram jafnrétti á vinnustað.

Hinar atkvæðamiklu konur sem vitnað er til í auglýsingum fyrir eggjafrystingu nota tungutak sjálfsákvörðunar og valdeflingar. Í raun er það þó svo að eggjafrystingin þvingar konur til að samþykkja væntingar um ástarlíf og barnsburð sem byggðar eru á tilteknum hugmyndum um kynhlutverk þeirra. Eftir því sem ferlið verður sjálfsagðara, þeim mun meir styrkist hugmyndin um að bæði vinnan og fjármögnun barneigna sé á þeirra ábyrgð. Það er auðvelt að ímynda sér að möguleikar snúist upp í kvaðir; að í fyrirtæki sem býður upp á eggjafrystingu sem styrkveitingu, verði kona sem kýs að láta ekki frysta eggin sín álitin metnaðarlaus í starfi. Það er einkennileg valdefling; að eyða tugum þúsunda dala til að láta deitinu sínu líða vel – eða til þess að klífa upp framastiga sem sveigist ekki, ekki agnarögn, til að koma til móts við konu á barnseignaaldri.

Það er einkennileg valdefling; að eyða tugum þúsunda dala til að láta deitinu líða vel.

Helmingur bandarísks vinnuafls er nú kvenkyns. Í Bretlandi vinna meira en 67% kvenna utan heimilis í fullu starfi. Ef við ættum að velja á milli stefnu um betri heilsugæslu og fæðingarorlof kvenna annars vegar og hins vegar um tækni sem „frystir tímann“, – höldum við virkilega að „tímafrystingin“ sé raunhæfari kostur til að bæta hag kvenna á vinnumarkaði?

Það er auðvelt að skilja hvers vegna einstakar konur gætu viljað frysta eggin sín. Frysting leysir þó sjaldan vanda. Þvert á móti, hún gæti teygt á því að lausn fyndist.

Hin líffræðilega klukka hefur haft það hlutverk að láta líta svo út að það sé einfaldlega náttúrulegt – raunar nauðsynlegt – að byrði mannfjölgunar falli næstum eingöngu á konur. Bæði siðferðilegar og praktískar vísbendingar renna stoðum undir þær hugmyndir að sú sem ekki skipuleggur líf sitt fyrirfram á það skilið að standa eftir ein og örvæntingarfull að lokum.

Þessi uppspuni um að það sé í eðli kvenna að axla einar ábyrgð á mannfjölguninni hleður fargi á konur og gerir ástarsambönd karla og kvenna stríðari. Hugmyndin um að konur og karlar sem þrá kynlíf og rómantík hvert með öðru séu innstillt á andstæðar óskir er slæm fyrir alla. Væri ekki hreinna og beinna að viðurkenna það að karlar jafnt sem konur hafa líkama sem eldist – og að flestir menn eiga sameiginlega grundvallarþrá eftir ástúð, trausti og virðingu?

Ritgerð þessi er byggð á bókinni Labor of Love: The Invention of Dating, eftir Moira Weigel, sem kom út hinn 17. maí 2016.

Myndskreyting: Nathalie Lees

Greinin birtist fyrst hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.