Forsetaframbjóðandi gefur konum rangar upplýsingar um orsakir brjóstakrabbameins og forvarnir gegn því.

Höfundur: Ingibjörg Eir Einarsdóttir, doktor í lífeðlisfræði.

Iðulega erum við konur mataðar á upplýsingum sem varða heilsu okkar og vellíðan, ýmist með tilvitnunum í vísindalegar niðurstöður, eða þá að allskonar leikmenn bera á borð fyrir okkur hugmundir sínar, misgáfulegar, sem oft eru sóttar í gamlar hefðir, hjáfræði (pseudoscience) eða austurlensk trúarbrögð. Hverju eigum við að trúa og hvernig getum við skilið á milli réttra og rangra upplýsinga?

Tilefni þessa pistils eru fullyrðingar forsetaframbjóðandans Hildar Þórðardóttur um að brjóstakrabbamein hjá konum sé óháð genamengi einstaklingsins og eigi uppruna sinn í truflunum í orkustöðvum líkamans. Hún hefur fúslega viðurkennt í sjónvarpsviðtali (Facebook Nova) að þessar hugmyndir séu byggðar á trú en ekki vísindum og vill að við notfærum okkur „það besta úr báðum“. Tilgangur þessarrar greinar er að hrekja hugmyndir Hildar um truflanir í orkustöðvum sem orsök brjóstakrabbameins með vísindalegum rökum. Í þeim tilgangi mun ég útskýra hvaða ólíku hugmyndir liggja að baki trú á orkustöðvar og vísindalegri þekkingu.

Hildur Þórðardóttir er þjóðfræðingur og rithöfundur þriggja sjálfstyrkingabóka, leikrita og einnar skáldsögu og hefur starfað sem heilari í mörg ár. Sem heilari leggur Hildur í boðskap sínum miklar áherslur á jákvæðar og neikvæðar tilfinningar og segir að þær neikvæðu komi í veg fyrir að efnislíkaminn starfi eðlilega og að þær valdi sjúkdómum (Austurfrétt 13. ágúst 2013). Auk þess að truflanir í orkustöðvum valdi brjóstakrabbameini, segir hún að fyrirbyggjandi brjóstnám leiði til þess að krabbameinið finni sér annan farveg í lungnakrabbameini eða valdi hjartaáföllum. Hún gengur svo langt að segja að genarannsóknir séu á villigötum. Þessar fullyrðingar ber að taka mjög alvarlega, ekki síst vegna þess að forsetaframbjóðendur fá meira rými í fjölmiðlum en flest fólk og hafa þar með tækifæri til að móta skoðanir fólks á tilteknum málum, í þessu tilfelli heilsu kvenna. Hún hefur látið þessar skoðanir í ljós á bloggi sínu (sem nú hefur verið læst með lykilorði), í bók sinni Taumhald á tilfinningum – leið til betra lífs, og í viðtalsþætti í hjá Harmageddon (6. janúar 2016) sem Hjálmar Friðriksson vitnar til í grein sem hann skrifaði í Stundina (6. janúar). Hún hefur fengið mikla neikvæða umfjöllun síðustu vikur og mánuði vegna yfirlýsinga sinna og í sjónvarpsviðtali á Facebook, 23. maí 2016, sem framleitt er af Nova, dró hún talsvert í land og vildi ekki tala mikið um krabbamein, og taldi vangaveltur um annað líf vera hobbí.

Heilun

Heilarar vinna út frá kenningum sem byggðar eru á austrænum trúarbrögðum, aðallega indverskum með ívafi af kínverskum og japönskum lífsskoðunum. Hindúismi á Indlandi er meðal elstu trúarbragða heims og upp úr þeirri trú spruttu búddismi, Jainismi og síkismi. Hindúismi er sambland af fjölgyðistrú og lífsviðhorfum og hefur tekið miklum breytingum í aldanna rás. Samkvæmt indverskrum trúarbrögðum er sálin eilíf og tekur sér bólfestu í nýjum einstaklingum við endurholdgun (Líf og dauði: Indversk heimspeki; Gunnar Dal; 1963). chakra-symbols-and-names13Hugmyndir um endurholdgun í kristni og gyðingdómi eiga rætur í indverskum trúarbrögðum. Samkvæmt indverskum trúarbrögðum er líkami mannsins samansettur úr þremur líkömum: efnislíkama, geðlíkama sem einnig er kallaður orkulíkaminn og huglíkama. Auk þess eru til fleiri „hærri“ líkamar. Efni þessara þriggja líkama svarar til efnis þriggja mismunandi heima, efnisheimi, geðheimi (astralheimi) og ljósheimi. Orkulíkaminn er eilítið stærri en efnislíkaminn og umframhluti hans er hin litríka ára. Í hindúisma flæðir lífsorkan, eða Prana, í gegnum líkamann eftir sérsökum æðum sem kallast Nadi. Lífsorkan er algjörlega heimspekilegt hugtak og óháð eðlisfræðilegri orku eins og hún er skilgreind í raunvísindum. Í hindúisma samanstendur orkulíkaminn úr orkustöðvum, eða Chakra. Chakra, líka kölluð lífshjól, eru sögð vera einskonar hnúðar þar sem Nadi með fljótandi lífsorku mætast. Aðalarásin sem flytur lífsorkuna um líkamann liggur meðfram hryggnum og aðal sjö orkustöðvarnar (af mörgum) liggja meðfram aðalrásinni í röð. Í orkustöðvunum mætir efnislíkaminn geðlíkamanum. Meiðsli eða sjúkdómar eru taldir hafa áhrif á flæðið í gegn um orkustöðvarnar og öfugt, ójafnvægi í orkustöðvunum er talið geta valdið sjúkdómum.

Orkulíkaminn gegnir líka mikilvægu hlutverki í kenningum jóga og heilara. Heilarar kenna að ytri aðstæður og tilfinningar hafi áhrif á orkustöðvar og geti hindrað orkuflæði til líkamans og að stíflun í orkuflæði geti valdið sjúkdómum. Heilarar nota alheimsorku og kærleika til að koma jafnvægi á orkuflæðið og orkustöðvarnar og telja sig þannig líkna og lækna. Heilarinn er þannig veita fyrir alheimsorku til heilunarþegans. Margskonar aðferðum er beitt við heilun. Samkvæmt Heilunarfélagi Íslands eru einna helst notaðar þrjár aðferðir: Prönuheilun (eitt afbrigði hennar er Reiki heilun), hugræn heilun og andleg heilun. Heilun er veitt með handayfirlagningu, með því að senda hugboð til heilunarþega eða með samtölum. Ýmsir fylgihlutir geta verið notaðir til heilunar. Má þar nefna kristalla, ilmkjarnaolíur, blómadropa, tónkvíslar og liti. Nánari upplýsingar um heilun má finna á vef Heilunarfélags Íslands og á heimasíðum ýmissa heilara. Flestir heilarar á Íslandi eru konur.

Raunvísindi

Heilun byggist á trú og ósannanlegum hugmyndum um veruleikann en raunvísindi aftur á móti á kunnáttu sem fengist hefur með nákvæmum rannsóknaraðferðum. Vísindalegar aðferðir snúast í megindráttum um að virða fyrir sér fyrirbæri, hugsa um það sem maður sér, spyrja áhugaverðra spurninga um t.d. orsakir og mynstur og setja fram tilgátur um fyrirbærið. Tilgátur eru síðan sannreyndar með kerfisbundnum athugunum, mælingum eða tilraunum. Niðurstöðurnar eru greindar og flokkaðar. Vísindalegar tilraunir verður að vera hægt að endurtaka og fá sömu niðurstöður. Að fengnum niðurstöðum er tölfræði beitt til að komast að því hvort tilgátan hafi verið rétt eða röng. Að lokum er sett fram kenning sem stenst samanburð við allt sem vitað er um fyrirbærið og einnig þær kenningar sem settar hafa verið fram áður. Nýjar kenningar krefjast frekari rannsókna til staðfestingar.

Rannsóknir í erfðafræði byrjuðu á nítjándu öld þegar að austurríski munkurinn Gregor Johann Mendel (f. 1822) hóf rannsóknir sínar á breytileika í baunaplöntum. Allt frá forsögulegum tíma hefur manneskjan nýtt sér erfðir á óbeinan hátt með því að kynbæta nytjadýr og –jurtir, til að auka nyt og framleiðslu í landbúnaði. Með kerfisbundnum, vel skipulögðum tilraunum rannsakaði Mendel eiginleika sem erfðust óháðir hvor öðrum og uppgötvaði þannig genin, þó að hann vissi ekki hvaða líffræðilegu þættir lægju þar að baki. Síðan þá hefur erfðarannsóknum fleygt ótrúlega fram. Búið er að kortleggja erfðamengið í manneskjunni og ótal fleiri dýrategundum. Hægt er að rannsaka tilgang einstakra gena og hvort þau séu virk eða óvirk. Gen eru langar keðjur af efnasambandinu DNA (deoxyribonucleic acid). Þúsundir gena eru samtengdar í svokallaða litninga, sem eru 23 talsins í flestum frumum mannslíkamans. Öll genasamsetning einstaklingsins fyrirfinnst í kjarna hverrar einustu frumu í líkamanum, nema í rauðum blóðkornum, sem hafa ekki kjarna. Í mjög grófum dráttum eru gen einskonar forrit fyrir byggingu prótína. Prótínin (áður kölluð eggjahvítuefni) gegna marskonar hlutverkum. Þau eru byggingarefni í frumum, hvatar fyrir efnahvörf (ensím), hormón og flytja efni um líkamann (t.d. súrefni). Prótín eru mikilvægur hluti af ónæmiskerfinu sem ver okkur fyrir sjúkdómum. Sum prótín stjórna virkni annarra gena og þannig geta gen haft áhrif hvort á annað. BRCA1-genið (Breast Cancer 1 early onset) er af þeim toga spunnið.

Frá ProteinBoxBot á ensku Wikipediu

Frá ProteinBoxBot á ensku Wikipediu

Það prótín sem myndast samkvæmt upplýsingum frá BRCA1-geninu starfar við DNA viðgerðir í ýmsum frumum líkamans, í samvinnu við prótín sem kóðast af BRCA2 geninu, en DNA getur skaddast af ýmsum ástæðum, t.d. við geislun eða frumuskipingu.. Stökkbreytingar í BRCA geni, t.d. ef hluti DNA raðarinnar hefur fallið burt, verða til þess að forritunin skekkist og missir þá prótínið getu sína til að gera við skaddað DNA í öðrum frumum. Frumur með skaddað DNA geta þá breyst í krabbameinsfrumur. Stökkbreytingarnar eru arfgengar og geta átt rætur sínar að rekja langt aftur í tíð formæðra og forfeðra. Það eru því breytingar í genunum sem valda sjúkdómnum, en ekki genin sjálf, séu þau í eðlilegu ástandi. Margar ástæður eru fyrir krabbameinssjúkdómum, og lífsstílstengdir áhættuþættir eru margir auk þess eykur hækkandi aldur líkurnar á að fá krabbamein. Talið er að 5 til 10 % af brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum stafi af erfðafræðilegum breytileika. Þar vega stökkbreytingar í BRCA1 og BRCA2 genunum þyngst. Um 60 til 80 % kvenna með stökkbreytingar í þessum genum eiga á hættu að fá brjóstakrabbamein. Víðtækar rannsóknir þúsunda vísindamanna liggja að baki þessum niðurstöðum. Á Vísindavef Háskóla Íslands segir: “Þær konur sem greinast með mikla eða talsverða áhættu geta valið milli nokkurra kosta: þær geta farið í reglulegt eftirlit til að hugsanlegt krabbamein greinist fljótt, þær geta tekið lyf sem minnkar verulega hættuna á krabbameini eða valið þá leið að láta fjarlægja brjóstin í forvarnarskyni. Allar þessar leiðir hafa sína kosti og galla. Gott eftirlit er líklega í flestum tilvikum besti kosturinn en er erfitt hjá konum sem eru með hnútótt brjóst eða þegar tekin hafa verið mörg nálarsýni.“

Niðurstöður

Eins og segir á Vísindavefnum gagnast gott eftirlit og lyfjameðferð ekki öllum konum og fyrirbyggjandi brjóstnám getur því verið mikilvægur valkostur fyrir margar konur sem eru í BRCA1 áhættuhópnum. Það er því algerlega óásættanlegt að einstaklingar sem ekki hafa vísindalega sérþekkingu leggi dóm á það hvort rétt sé af þessum konum að láta fjarlægja brjóstin eða ekki. Hildur Þórðardóttir hefur sagt að það sé „sorglegt þegar konur láta fjarlægja brjóstin af ótta við brjóstakrabbamein þótt hið meinta brjóstakrabbameinsgen finnist í þeirra mengi“. Í fyrsta lagi þá er ekki til neitt „brjóstakrabbameinsgen“. Brjóstakrabbamein getur myndast þegar að BRCA-genin bila og geta ekki lengur gert við skemmdir í öðrum genum. Í öðru lagi hlýtur þetta að túlkast þannig að Hildur sé að gefa konum læknisfræðilegar ráðleggingar með því að ráða konum í miklum áhættuhóp frá því að fara í fyrirbyggjandi brjóstnám. Þetta verður enn ljósara þegar hún heldur áfram og segir um brjóstakrabbamein: „Genarannsóknir eru á villigötum því það eru engin gen sem valda sjúkdómum. Niðurstöður þeirra [vísindamanna] valda fólki óþarfa ótta og hvetja til misþyrminga á líkamanum. Eftir einhvern tíma munu vísindamenn komast að því að þeir höfðu rangt fyrir sér, en þá verður það of seint fyrir þær konur sem létu fjarlægja brjóstin með alls kyns eftirkvillum“ (tilvitnunin er tekin úr Stundinni 6. janúar 2016). Með „eftirkvillum“ geri ég ráð fyrir að hún meini stíflun í orkustöðvum vegna brjóstnámsins, sem valdi lungnakrabbameini og hjartaáföllum, eins og greint er frá hér að ofan. Sem heilari telur hún einnig að breyta þurfi neikvæðum tilfinningum til að vinna bug á orkutruflunum sem valda sjúkdómum, sem skilja má þannig að krabbamein geti verið konum sjálfum að kenna vegna þess að þær geri ekkert í því að láta sér líða betur.

Skilaboð hennar til kvenna eru því skýr. Íslenskar konur eiga ekki að treysta nútíma læknavísindum, heldur trúa á hindurvitni úr forneskju, upprunnin á tímum þegar hvorki voru til aðferðir né tæki til að skoða og skilja náttúruleg fyrirbæri, og því gripið til yfirnáttúrulegra skýringa í líkingu við að náttúruhamfarir séu vegna reiði guðanna, eða að nornir geti drepið búfé og eyðilagt uppskeru með göldrum. Látum ekki blekkjast.

Ritað 29. maí 2016

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.