Í minningu Jo Cox

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

Þingkona breska Verkamannaflokksins, Jo Cox, var myrt í gær 16. júní  á leið á fund með kjósendum í Birstall.

100874731_labour-jocox-news-large_transpje2mqqhf4echa8rm6ooodrbpw1nk10fzivca2orgfo

Jo Cox var smávaxin og skelegg kona með stórt hjarta, miklar hugsjónir og vilja til að bæta heiminn. Hún var skoðanaglöð, ákveðin, fyndin og hlý. Einkennandi og smitandi hlátur hennar er mörgum minnisstæður. Að sama skapi hefur hún ósjaldan fengið mig til að tárast með umfjöllun um stöðu flóttabarna frá Sýrlandi, um þörf á aðgerðum og um mikilvægi þess að væntumþykja og samkennd yrðu sundrung og hatri yfirsterkari. Þvílík kona! Í gær felldi ég mörg tár, þvílíkur er missirinn.

Jo trúði á hugsjónir sínar og barðist af eldmóði fyrir betra lífi til handa þeim sem minna mega sín, jafnt heima fyrir og annars staðar, enda leit hún þannig á að við værum öll samábyrg fyrir að koma á meiri jöfnuði í heiminum.

Jo Cox hafði aðeins setið á þingi í rúmt ár en hafði þegar mikið látið að sér kveða og þótti líkleg til að eiga bjarta framtíð innan flokksins. Meðal annars stofnaði hún þverpólitísku samtökin Vinir Sýrlands innan þingsins. Í jómfrúarræðu sinni á þingi talaði hún meðal annars um að taka vel á móti innflytjendum og fagna fjölbreytileikanum, enda var hún ötull talsmaður mannréttinda og flóttafólks.

„We are far more united and have far more in common than that divides us.“ 

Hún var óhrædd við að láta skoðanir sínar í ljós og var stundum orðhvöss. Hún var gagnrýnin innan flokks sem utan og fékk oft á tíðum bágt fyrir á samfélagsmiðlum. Hún var fylgin sér og hafði greinilega unun af rökræðum. Síðasta sólarhringinn hef ég heyrt marga tala um hvað hún þótti jafnhæf á að hlusta og tala. Þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Breta í Evrópusambandinu verður haldin 23. þessa mánaðar og Jo Cox talaði fyrir því að Bretland yrði áfram hluti af því.

Hún taldi að mikill ójöfnuður og fátækt héldi aftur af framförum og taldi að börn fátækra foreldra ættu að eiga sama möguleika til náms og börn efnaðra foreldra. Úr því vildi hún bæta. Hún var stolt af því að kalla sig femínista og barðist ötullega fyrir réttindum kvenna víða um heim. Meðal annars var hún ráðgjafi varðandi heilsuvernd mæðra og barna í þróunarlöndum og var formaður kvennanets Verkamannaflokksins, sem hefur á stefnuskrá sinni að koma fleiri konum að í stjórnmálum, meðal annars með því að bjóða upp á námskeið og þjálfun.

Jo Cox fæddist og ólst upp í Vestur Yorkshire. Hún var af verkafólki komin og sú fyrsta í fjölskyldunni til að stunda háskólanám. Hún lærði stjórnmála- og félagsfræði og útskrifaðist frá Cambridge árið 1995. Að hennar sögn var það vera hennar í Cambridge sem kveikti áhugann á baráttumálunum. Hún fann fljótt að hún skar sig úr í nemendahópnum, talaði öðruvísi og þekkti ekki rétta fólkið. Á meðan aðrir nemendur ferðuðust um heiminn í fríum sínum, þá vann hún í verksmiðju. Eftir útskrift vann Jo meðal annars sem aðstoðarkona stjórnmálamanna en þó starfaði hún lengst af við hjálparstörf. Þar á meðal má nefna Barnaheill og áður en hún varð þingmaður var hún um árabil ein af stjórnendum bresku hjálparsamtakanna Oxfam. Hún hafði mikla reynslu og þekkingu sem hún tók með sér inn á þing, meðal annars af störfum á átakasvæðum.

Jo Cox lætur eftir sig eiginmann, Brendan, og tvö ung börn. Hjónin kynntust við vinnu að mannúðarmálum, en Brendan hætti nýlega sem stjórnarmaður Barnaheilla.

Arfleifð Jo Cox er mikil þó hennar hafi ekki notið lengi við. Öll berum við ábyrgð á að flytja boðskapinn áfram til fólks og stuðla þannig að því að raddir sem boða kærleika og mannúð verði ætíð háværari en hatursumræða.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.