Karlkyns brotaþolar – Réttu skilaboðin

drusluganga2016AVið erum öll hérna af því að sættum okkur ekki við að búa í samfélagi þar sem gert er lítið úr kynferðisofbeldi, og brotaþolum er gert erfitt að leita sér hjálpar og réttar síns. Eins og með brotaþola almennt, þá eru alltof margir karlkyns brotaþolar sem upplifa að þeir hafi ekki rétt á að leita sér hjálpar vegna kynferðisofbeldis eða þá einfaldlega að þeir eigi ekki að þurfa þess – af því þeir eru karlar.

Margir karlar lifa með afleiðingum kynferðisofbeldis árum eða áratugum saman án þess að segja nokkrum frá ofbeldinu. Líklegt er talið að karlar leiti sér síður hjálpar við kynferðislegu ofbeldi en konur. Reynsla okkar á Stígamótum gefur til kynna að ranghugmyndir um kynferðisofbeldi sé ein af meginástæðum þess að brotaþolar, bæði konur og karlar, taka á sig skömmina og tjá sig síður um ofbeldið.

Við höfum öll heyrt skaðlegar ranghugmyndir/mýtur um kynferðisofbeldi, sumar lifa ennþá alltof góðu lífi. Þar á meðal eru goðsagnir um karlkyns brotaþola, sem halda því meðal annars fram: að drengir og karlar geta ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi, að drengir sem eru misnotaðir af karli verða samkynhneigðir, að þeir sem hafa verið kynferðislega misnotaðir munu misnota aðra, og ef ofbeldið er framið af konu ætti drengurinn eða karlmaðurinn að álíta sjálfan sig heppinn.

En í staðinn fyrir þessar skaðlegu ranghugmyndir, ættu skilaboðin að vera þessi: Karlar verða fyrir kynferðisofbeldi, bæði sem börn og á fullorðinsaldri; og afleiðingar þess eru mjög skaðlegar og geta dregið verulega úr lífsgæðum þeirra.

En í viðbót við þessar ranghugmyndir er menning okkar enn stútfull af alls konar karlmennskuhugmyndum sem gera ákveðnar kröfur til karla. Kröfur sem segja körlum hvað þeir eiga og eiga ekki að gera, hvað þeir mega og mega ekki gera. Til dæmis: að karlar eigi að hafa stjórn á öllum sviðum lífsins; að karlar eigi að vera til í kynlíf hvar sem er, hvenær sem er og með nánast hverjum sem er; og að þeir eigi ekki að þurfa að leita sér hjálpar þegar þeir verða fyrir áföllum. Margir karlar kenna sér um að hafa ekki haft stjórn á gerandanum eins og ‘alvöru‘ karlar eiga að geta gert í hvaða aðstæðum sem er.

Undanfarin misseri hefur umræðan um karlkyns brotaþola aukist og hafa Stígamót reynt markvisst að tryggja að þeim sé mætt með skilningi þegar þeir leita sér hjálpar. Við notum öll tækifæri til þess að: vekja athygli á kynferðisofbeldi gagnvart körlum; koma á framfæri að karlbrotaþolar eigi rétt á að leita sér hjálpar; og tryggja að þeim sé mætt með skilningi þegar þeir leita sér hjálpar.

En hvað getum við sem samfélag gert meira til þess að fleiri karlar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, rjúfi þögnina, og leiti sér hjálpar? Það er orðið augjóst að við verðum sem samfélag að vinna markvisst og heildrænt að koma réttu skilaboðunum á framfæri. Til þess er ekki nóg að segja öðru hverju “Já ég veit, þetta er alvarlegt.” Nei, heldur, verðum við að breyta hlutum, við þurfum að taka fleiri erfið skref til þess að tryggja að brotaþolum sé sýnd sú virðing sem þeim ber.

Þetta snýst nefnilega ekki bara um einstök tímabundin átök, eða bara um fræðslu um kynferðisofbeldi. Við þurfum skilvirka langtíma forvarnarfræðslu, auk kynfræðslu sem “meikar sens.” En við þurfum líka að brjóta niður kynjakerfið og halda áfram að auka kynjafræðikennslu á öllum skólastigum. Þannig getum við unnið markvisst gegn þeim ranghugmyndum og skilaboðum sem gera brotaþolum, þar á meðal körlum, erfitt að leita sér hjálpar. Og skapa þar með samfélag þar sem það er sjálfsagt, eðlilegt og leyfilegt að leita sér hjálpar.
Takk fyrir mig, þið eruð yndisleg!

Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi á Stígamótum
Ræða flutt 23. ágúst
Druslugangan 2016

——–
Nánari upplýsingar um þjónustu Stígamóta fyrir karlkyns brotaþola er hægt að finna á heimasíðu okkar: http://www.stigamot.is/is/fraedsluefni/fyrir-karla

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.