Miðaldir herja á pólskar konur

14449898_1096038760492651_3388395292875074572_n

Í dag, mánudaginn 3. október, munu þúsundir pólskra kvenna leggja niður vinnu, láta heimilisstörfin sitja á hakanum, klæðast svörtu og mæta til mótmæla. Megi þær verða sem flestar, því tilefnið er ærið. Fyrir pólska þinginu liggur nefnilega lagafrumvarp ættað aftan úr grárri forneskju, um bann við fóstureyðingum.

Einungis ein undantekning við því banni er boðuð, það er ef lífi móður er ógnað á meðgöngu. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að meta hvort svo sé, en gagnrýnendur frumvarpsins hafa bent á að starfsfólkið muni veigra sér við því. Sá eða sú sem framkvæmir fóstureyðingu getur búist við lögsókn og fimm ára fangelsisvist (sem er refsiramminn skv. frumvarpinu, og á við um konurnar líka) ef minnsti vafi leikur á því hvort niðurstaðan hafi verið réttlætanleg. Lögin verða því líklegast dauðadómur yfir konum sem veikjast lífshættulega á meðgöngu.

Í Póllandi gilda nú lög um fóstureyðingar frá 1993. Þau eru með þeim ströngustu í Evrópu og heimila ekki fóstureyðingar nema ef a) lífi og heilsu móður er stefnt í hættu vegna meðgöngu, b) fóstur er ekki lífvænlegt og c) ef að þungun hefur orðið við nauðgun eða sifjaspell. Í bókinni Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum er fjallað um stöðuna í Póllandi, þar sem heilbrigðisþjónusta er að miklu leyti í samkrulli við kaþólsku kirkjuna. Þetta gerir það enn erfiðara að fá fóstureyðingu framkvæmda, eins og saga 14 ára pólskrar stúlku varpar ljósi á:

Hún varð þunguð í kjölfar nauðgunar, en var meinað um fóstureyðingu á tveimur sjúkrahúsum í heimabæ sínum, Lúblín í suðausturhluta Póllands. Á öðru þeirra mætti henni kaþólskur prestur sem reyndi að sannfæra hana um að ljúka meðgöngunni og fæða barnið. Þrýst var á lækna í Varsjá að meina henni um aðgerðina, sem var að lokum framkvæmd í Gdansk, um 500 km frá heimili stúlkunnar, og þá eftir að heilbrigðisráðuneytið hlutaðist til um málið, enda hafði stúlkan þá sætt ofsóknum af hálfu „kristinna“ samlanda sinna og verið færð til yfirheyrslu af lögreglunni. Mannréttindadómstóll Evrópu gagnrýndi pólska ríkið fyrir mál hennar, og dæmdi það skaðabótaskylt, en það er erfitt að ímynda sér að fjármunir vegi upp á móti þessum minningum.

Samkvæmt þessum lögum eru aðeins um 2000 fóstureyðingar heimilaðar árlega í Póllandi. Fullvíst er þó að þær eru miklu fleiri, en eins og í löndum þar sem aðgangur að fóstureyðingum er takmarkaður verulega, fara konur sem hafa efni á því úr landi til að fá fóstureyðingu. Hinar, sem hafa ekki ráð á því, fara í ólöglega fóstureyðingu sem er miklu hættulegri fyrir þær – og kostar samt töluverðar fjárhæðir. Þetta þýðir að aðgangur að öruggri aðgerð verður takmarkaður við þær sem hafa nóg á milli handanna til að flýja land, undan hinni hægrisinnuðu ríkisstjórn og kaþólsku kirkjunni sem var primus motor í að koma henni til valda.

Ef nokkur vafi er í hugum lesenda hvers konar ógnarstjórn er boðuð fyrir konur í Póllandi, þá þarf ekki annað en að líta á tvær aðrar tillögur sem hafa komið fram í pólskum stjórnmálum nýlega og notið stuðnings ríkisstjórnarflokksins eða ráðherra hans. Annars vegar er tillaga um að takmarka aðgengi að tæknifrjóvgunum með því að banna frystingu fósturvísa og takmörkun á fjölda þeirra vísa sem hægt er að setja upp hjá konum við tæknifrjóvganir. Hins vegar er tillaga um að banna  sölu daginn-eftir-pillunnar algerlega. Þessar tillögur eru gróf árás á frjósemisréttindi pólskra kvenna.

Hin hryllilega staðreynd er að allar líkur eru í raun á að lagafrumvarpið verði samþykkt af pólska þinginu. Það nýtur stuðnings þjóðernissinnaðs stjórnarandstöðuflokks auk hins hægrisinnaða Flokks laga og rétts (PiS), sem er einn í ríkisstjórn og komst til valda í krafti kaþólsku kirkjunnar og lélegrar kjörsóknar. Ljósið í myrkrinu er sú mótmælaalda sem hefur riðið yfir Pólland síðan frumvarpið kom fram en því hefur verið mótmælt víða um Pólland. Femínistahreyfingin í Póllandi er sögð hafa verið sundruð en nú sé hún óðum að ná vopnum sínum. Það sem hreyfði við fólki var ekki hvað síst það að gagnrýnendur hafa vakið athygli á þeirri skuggalegu staðreynd að konur gætu jafnvel átt á hættu að vera kærðar fyrir ólöglega fóstureyðingu eftir fósturlát.

Hvað sem verður þá er baráttufólk sammála um að það er mikilvægt að Pólverjar, sem að miklum meirihluta (um 74% skv. könnunum) styðja núgildandi lög, láti í sér heyra og mótmæli fyrirhuguðum lögum, geri allt sem þau geta til að stöðva þá frelsisskerðingu sem er yfirvofandi fyrir pólskar konur. Fyrimyndin að mótmælunum á morgun kemur frá kvennafrídeginum á Íslandi 1975 þegar íslenskar konur lögðu niður störf og kröfðust jafnréttis. Ola Aleksandra Chlipala, sem er pólsk en býr og starfar á Íslandi, hefur ásamt þeim Hannes Rangger og Kuba Urbaniak sett saman myndband til að hvetja til þátttöku í mótmælunum á morgun og miðla stuðningi íslenskra kvenna til pólskra kynsystra sinna. Hér má sjá myndbandið:

Knúz.is hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að sýna pólsku baráttufólki samstöðu á Austurvelli kl. 17:30 í dag 3. október.

Steinunn Rögnvaldsdóttir ritaði:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.