Af ranghugmyndum karla um langanir kvenna

Höfundur: Þórhildur Sæmundsdóttir

Fimmtudaginn 29. september 2016 staðfesti Hæstiréttur sýknudóm í héraði á hendur fjórum 17 ára piltum og einum 19 ára, þar sem þeim var gert að sök að hafa nauðgað 16 ára stúlku, einn hafi myndað athæfið og dreift því. Mig langar til að velta upp nokkrum spurningum og efasemdum, sem hafa truflað mig síðan ég las þennan dóm.

heradsdomurrHéraðsdómur greinir frá í niðurstöðum sínum að vitnisburður stúlkunnar hefði verið breytilegur og að hún mundi sumt illa. Segir í niðurstöðum: „Hún virðist fyrst hafa greint frá nauðgun eftir að myndbandsupptökuna bar á góma” en stúlkan hafði áður talað um atburðinn sem „kynlífsathafnir sem hún var ekki samþykk”. Að auki bendir dómurinn á vitnisburð aðila sem tengdist stúlkunni og hitti hana daginn eftir samkvæmið. Vitnið sagði stúlkuna hafa „komið sér ágætlega fyrir sjónir. Hún hafi verið mjög eðlileg. Ekkert hafi bent til þess að A hefði lent í einhverju en hún sagðist hafa farið í partí kvöldið áður.”

Þá er fjallað um að stúlkan hafi átt í samskiptum við einn ákærða daginn eftir samkvæmið og ekki minnst á nauðgun „ […] þótt hún hafi þar rætt við einn hinna ákærðu sem gefið er að sök að hafa nauðgað henni nokkrum klukkustundum áður“. Einnig var stúlkan spurð hvers vegna hún hefði ekki greint móður sinni frá því sem gerðist daginn eftir samkvæmið, og jafnframt hvers vegna hún sagði tveimur vinum sínum, sem hún hitti  daginn eftir, ekki frá. Líkt og til að kóróna þá þolendaábyrgð sem einkennir úrskurð Héraðsdóms segir um upptöku úr eftirlitsmyndavél þar sem stúlkan sést fara úr húsinu eftir samkvæmið:

Þar sést hún tala í síma jafnframt því að sækja þýfi sem komið hafði verið fyrir undir stiga í húsinu. Af þessari upptöku verður ekki ráðið að hún hafi skömmu fyrr orðið fyrir því alvarlega broti sem lýst er í ákæru.

Að nota ekki lykilorðið

Samkvæmt rökfærslu Héraðsdóms notaði brotaþoli ekki orðið ,,nauðgun” yfir athæfið nægilega snemma, eða ekki fyrr en 2-3 dögum eftir samkvæmið, heldur ,,kynlífsathafnir án samþykkis”. Hver er skilningur Héraðsdóms á kynlífsathöfnum án samþykkis? Fellur það ekki innan skilgreiningar á nauðgun?

Eðlileg hegðun?

Hún hegðaði sér „eðlilega” daginn eftir samkvæmið, en ekki eins og hún „hefði lent í einhverju”. Hún nefndi ekki við geranda sinn að hann hefði nauðgað henni daginn eftir samkvæmið, þegar hún spurði hann um myndbandið gegnum facebook. Hún sagði hvorki móður sinni frá nægilega snemma, né tveimur vinum sínum. Síðast en ekki síst fór hún og sótti þýfi eftir samkvæmið og dómarar gátu ekki séð á henni að henni hefði verið nauðgað skömmu áður.

Styðst Héraðsdómur við einhver sérstök viðmið þegar hann metur hvað teljast eðlileg viðbrögð konu við nauðgun? Bregðast allir einstaklingar á sama hátt við áföllum? Er Héraðsdómur með sérþekkingu á því að lesa úr fasi kvenna af upptökum hvort þær hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða ekki?

Í rannsókn sem unnin var af Peterson og Muehlendard er skoðað hvernig konur skýra frá kynferðislegum athöfnum, sem voru án þeirra samþykkis. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að konur sem hafa orðið fyrir nauðgun eru líklegar til þess að greina eigin hegðun í samræmi við gildandi nauðgunarmýtur.

Afleiðing þess er að fórnarlömb finna frekar fyrir sektarkennd vegna eigin hegðunar í kjölfar árásarinnar. Þá kann að vera að þau saki sjálfa sig um að hafa ekki streist nógu mikið á móti í árásinni og skýri ekki frá atvikinu sem nauðgun. Það er gjarnan túlkað brotaþolum í óhag fyrir dómstólum, að skilgreina árásina ekki sem nauðgun um leið og hún er yfirstaðin.

Dr. Rebecca Campbell, fyrirlesari og prófessor í sálfræði við Michigen háskóla, hefur með erindum sínum greint frá því sem gerist í líkamanum við árás og þeim viðbrögðum sem algeng eru meðal þolenda. Með reifun sinni afhjúpar Héraðsdómur hversu fráfróður hann er um viðbrögð þolenda við kynferðisofbeldi. 7-neurobiologyRebecca Campbell hefur bent á að það að haga sér „undarlega“ (e. confusing) eigi sér taugalíffræðilegar skýringar. Erfitt getur verið fyrir þolendur að segja frá minningum í rökréttri röð þar sem upplýsingar eru geymdar á víð og dreif um minnið í órökréttri röð. Þá virðist það oft draga úr trúverðugleika þolenda gagnvart dómstólum að hafa ekki sýnt „rétt“ viðbrögð, líkt og að hreyfa sig meðan á árásinni stóð eða ekki sýnt viðbrögð sem gáfu til kynna hræðslu eða ótta, þó að vitað sé að það eru í raun mjög eðlileg líffræðileg viðbrögð að frjósa við svona aðstæður.

Héraðsdómur rökstyður misræmi á framburði stúlkunnar m.a. með því að hún bar fyrst að einn ákærðu hefði leitt sig inná klósett en síðar sagði hún að hann hefði togað í sig. Hæstiréttur féllst á með ákæruvaldi að í Héraðsdómi væri gert óþarflega mikið úr misræmi í frásögn brotaþola um hvort einn ákærðu hefði leitt hana eða togað inn á baðherbergið, og að ekki yrði séð að það atriði skipti máli við úrlausn um sekt eða sýknu þess ákærða.

Í reifun Héraðsdóms er aftur á móti hvergi nefnt að þrjú vitni, stúlkur sem staddar voru í samkvæminu báru allar að ákærðu, eða minnsta kosti einhverjir þeirra hefðu verið kynferðislega ágengir við stúlkur sem þar voru. Hæstiréttur féllst á með ákæruvaldinu að þess hefði mátt geta í reifun af framburði vitnanna.

Hlutdræg umfjöllun

gerendurÞá fjallar Héraðsdómur einungis með almennum hætti um facebook samskipti ákærðu, en Hæstiréttur staðfestir að ,,sumt af því sem þar kemur fram gefi vísbendingu um að ákærðu hefðu séð eftir framkomu sinni umrætt sinn”.  Samskiptin voru því fremur til þess fallin að varpa sök á ákærðu en Héraðsdómur greinir ekkert frá því hvað fór þeirra á milli. Hins vegar fjallar Héraðsdómur um samskipti stúlkunnar við systur eins ákærða en stúlkan hafði ásamt vinkonu sinni stolið úr íbúð systurinnar í umræddu samkvæmi. Ekki er að sjá að þessar upplýsingar komi málinu sérstaklega við en þar segir um framburð systurinnar: ,,Hún lýsti samskiptum vegna þessa en að lokum hringdi A (brotaþoli) í vitnið, sagðist vera með dótið sem hún ætti og að hún ætti að koma heim til A og sækja eigur sínar. Hún hafi síðan gert það og sótt mest af því sem stolið hafði verið heim til A á sunnudeginum um klukkan 14. Hún hefði sagt A að sér líkaði ekki framferði hennar og að hún hefði hug á að kæra. A hefði hlegið að sér og ekkert virst ama að henni. Er hún spurði hvers vegna mununum hefði verið stolið sagði A að þær vinkonur hefðu verið svo fullar að þær hefðu ekki vitað hvað þær gerðu.”

Er Héraðsdómur að tína allt til sem styrkir trúverðugleika framburðar ákærðu en leggur litla sem enga áherslu á það sem gæti mögulega sakfellt þá? Er hlutverk dómstólanna að sýna fram á sakleysi sakborninga? Á sama tíma er hegðun og framkoma stúlkunnar skoðuð líkt og um sakborning væri að ræða.

Hæstiréttur tók undir athugasemdir ákæruvaldsins um reifun héraðsdóms en taldi ,,þær ekki þess eðlis að þeir hnökrar á hinum áfrýjaða dómi, sem af því leiðir, valdi ómerkingu hans af þeirri ástæðu að samningu hans hafi verið áfátt.”

Hluti upptökunnar af athæfinu lá fyrir við meðferð málsins. Héraðsdómur byggir niðurstöðu sína m.a. á framburði tveggja vitna sem voru félagar eins ákærða og sáu myndbandið. Segir í niðurstöðum að vitnin ,,hefðu upplifað það sem þau sáu þannig að A væri samþykk því sem gerðist og hún hafi ekki sést ýta ákærðu frá eins og hún bar fyrir dóminum”. Hæstiréttur bendir á að Héraðsdómur fari með rangt mál í forsendum málsins, en aðeins annað vitnið bar um þessa upplifun við horf á umræddu myndskeiði. Að auki segir í Hæstarétti: ,,Myndskeiðið sem lagt hefur verið fram í málinu og er eins og áður segir styttri útgáfa af hinu upprunalega myndskeiði hefur takmarkað sönnunargildi þar sem upptakan er mjög óskýr. Það sem þar sést staðfestir hvorki að frásögn brotaþola af atvikum sé rétt né að hún sé röng.”

Í málinu lágu einnig fyrir facebook samskipti milli stúlkunnar og bestu vinkonu hennar, sem hvergi er getið í niðurstöðum Héraðsdóms. Í þeim skrifar vinkona stúlkunnar m.a. „þú ert hreyfingarlaus á myndbandinu og gætir notað það sem nauðgun“. Þessi skrif hennar voru þó túlkuð stúlkunni í óhag. Vinkona stúlkunnar kvaðst einnig hafa séð myndbandið og að um nauðgun væri að ræða. Hvergi er fjallað um þetta í niðurstöðum Héraðsdóms en var það mat dómsins með vísan til framburðar ákærðu, og þeirra sem sáu myndbandið í heild, að vitnisburður stúlkunnar um andstöðu sína við því sem fram fór og hvernig hún kveðst hafa gefið ákærðu hana til kynna, sé ótrúverðugur.

Að lokum var það mat Héraðsdóms að ,,framburður ákærðu væri trúverðugur og að hver þeirra um sig hafi greint hreinskilnislega frá. Ekkert er fram komið í málinu sem gefur til kynna að ákærðu hafi haft ástæðu til að ætla annað en að A væri samþykk því sem fram fór inni í herberginu.”

Ósamræmi í framburði

Það verður að teljast skrýtið að hver og einn hinna ákærðu hafi greint hreinskilnislega frá en samt sem áður er ósamræmi í framburði þeirra. Þrír ákærðu halda allir fram að ekkert belti hafi verið spennt um fætur stúlkunnar. Hins vegar kvaðst einn hinna ákærðu hafa séð ól spennta um læri stúlkunnar en vissi ekki í hvaða tilgangi. Þá hafi hann séð einn meðkærðu sjúga geirvörtu stúlkunnar en vissi ekki hvort hann hefði bitið í hana. Er það í samræmi við framburð stúlkunnar sem sagði að belti hefði verið spennt um læri og að bitið hefði verið í geirvörtu hennar. Framburður stúlkunnar á sér stoð í skýrslu Neyðarmóttöku sem læknir staðfesti fyrir dómi. Þar kom fram að stúlkan hafði áverka á geirvörtu líkt og bitið hefði verið í hana og einnig hafði hún ferska marbletti á lærinu sem gætu samrýmst frásögn hennar.

Hins vegar var það mat dómsins að hvorki gögn um skoðun á Neyðarmóttöku né önnur gögn málsins, svo sem vitnisburður, styðji vitnisburð A þannig að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni, gegn eindreginni neitun allra ákærðu frá upphafi, og gegn vitnisburði og gögnum og var að mati dómsins til þess fallið að veikja og draga úr trúverðugleika vitnisburðar hennar.

Ákærðu báru allir við að allt sem fram fór hafi verið af fúsum og frjálsum vilja stúlkunnar. Þá bera þeir einnig við að stúlkan hafi ekki verið hrædd. Samt sem áður spurði enginn þeirra stúlkuna hvort hún væri samþykk því sem fór fram eða hvort hún væri hrædd. Hvernig vernda lögin kynfrelsi brotaþola þegar gerandi sýnir kynferðislega hegðun án þess að tryggja að hann hafi til þess fullgilt samþykki hjá þeim sem hegðunin beinist að? Er hreinlega gert ráð fyrir því að kona vilji stunda kynlíf ef hún lætur ekki í ljós mótspyrnu og ýti geranda frá sér? Hvergi er gerð sú krafa í löggjöf að brotaþoli sýni virka mótspyrnu. Þegar fimm aðilar skiptast á að hafa kynmök við eina manneskju, hvílir ekki rík ábyrgð á þeim að ganga úr skugga um að manneskjan sé samþykk öllu því sem fram fer?

Meðal gagna málsins var sálfræðivottorð um stúlkuna þar sem fram kom að hún hafi uppfyllt skilyrði áfallastreituröskunar. Þá báru fjölskyldumeðlimir og vinir stúlkunnar um það að merkja mætti breytingar í fari hennar eftir atburðinn. Hæstiréttur taldi að ekki væri hægt að álykta með einhlítum hætti að ákærðu hafi brotið gegn stúlkunni eins og þeim var gefið að sök í kærunni, heldur gæti líðan hennar stafað af öðrum ástæðum. Þá sagði Hæstiréttur um framburð læknis og skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem gerð var á brotaþola þremur dögum eftir samkvæmið, að ekki væri hægt að ráða af þeim upplýsingum að hún hafi verið beitt ofbeldi eða ólögmætum þvingunum. Hins vegar taldi Hæstiréttur þau gögn ekki útiloka að slíkt hafi gerst. Gögn málsins hafa því mjög mismunandi vægi þar sem vottorð um áfallastreituröskun og vitnisburður fjölskyldumeðlima og vina voru nánast virt að vettugi.

Ásættanlegur aflsmunur

Þegar yfirráð karlsins í gagnkynhneigðum samskiptum eru erótíseruð eða gerð kynferðisleg getur vilji konunnar til kynferðisathafna orðið mjög óljós. Hið sama gerist í gagnkynhneigðum samskiptum þegar talið er eðlilegt að karlinn hafi yfirráð í kynlífi. Skilningur karlsins á löngunum konunnar ákvarðar, oftar en ekki, hvort talið er að konan hafi orðið fyrir kynferðislegri misbeitingu eða ekki.

Mörgum konum er nauðgað af karlmönnum sem vita að um misbeitingu er að ræða, en svo eru til þeir karlmenn sem gera sér enga grein fyrir misbeitingunni. Fyrir þeim er þetta heilbrigt kynlíf og lögin virðast ítrekað staðfesta þá ranghugmynd.

Veruleiki þar sem konur eru undirskipaðar endurspeglar veruleika þar sem karlmenn kerfisbundið veita því ekki athygli hver vilji kvenna er. Gerendur gera sér yfirleitt ekki grein fyrir hver raunverulegur vilji brotaþola er, láta sig lítið um það varða eða telja að brotaþoli njóti kynmakanna.

Með því að skilgreina nauðgun út frá sjónarhorni karla, er miðað við aðgreiningu á kynlífi og nauðgun út frá því hvað körlum finnst ásættanlegur aflsmunur í kynlífi, miðað við kynhegðun þeirra. Löggjöfin styður þessa skilgreiningu með því að festa í sessi þá hugmynd að aflsmunur sé eðlilegur í kynlífi, fremur en að hlustað sé á hvað brotaþolar telja brot á kynfrelsi sínu. Hvergi er bent á í dóminum að um gífurlegan aflsmun hafi verið að ræða þar sem stúlkan er yngri en gerendur og að strákarnir fimm talsins voru í óvéfengjanlegri yfirburðastöðu gagnvart henni vegna líkamlegra aflsmuna sinna.

 

HEIMILDIR
Björg Sveinbjörnsdóttir: Hinir undarlegu þolendur, Knúz 2015
Campbell, Rebecca: The Neurobiology of Sexual Assault, útskrift fyrirlesturs, National Institut of Justice, 2012
Campbell, Rebecca: The Neurobiology of Sexual Assault, myndband, National Institut of Justice, 2012
Peterson, Z.D.  og Muehlenhard, C. L.: „Was it rape? The function of Women‘s rape myth acceptance and definitions of sex in labeling their own experience” Sex Roles, 2004.

2 athugasemdir við “Af ranghugmyndum karla um langanir kvenna

 1. Nú er ég einn þeirra manna sem hef haft kynmök. Ég held að ég sé ekki einn um að ég vil ekki láta ljósmynda eða kvikmynda mig við slík tækifæri. Ég álít þetta almenna skoðun nema sérstaklega sé stofnað til kynmakanna til þess að ljósmynda þau og hef ég öngvar athugasemdir við það. Það vekur athygli samkvæmt báðum dómum að hér var um kynmök að ræða með þeim brigðum að nokkrir ungir karlar tóku þátt en bara ein stúlka. Þetta var kvikmyndað. Í báðum dómur er það samt bara stúlkan sem er þolandi myndatökunnar.
  Afhverju hún ein er „brotaþoli“ þess hluta málsina nýtur ekki skýringa. Af hverju vaknaði ekki grunur um að X,Y og Z væru brotaþolar þess hluta ákæru þar sem því er slegið föstu að um kynmök haf verið að ræða en ekki nauðgun?
  Af hverju vóru X, Y og Z ekki þolendur samk. 209. gr. hgl.?
  Hvorki lögreglu saksóknara né dómurum er spurn. Um rannsókn. L. nr. 88/2008 52. gr.
  „Lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki“. Síðar sama grein:
  „Nú er háttsemi ekki refsiverð nema brotaþoli krefjist þess að sakamál skuli höfðað og skal þá ekki byrja rannsókn nema samkvæmt kröfu hans“. Og hin marumtalaða 54. gr.
  „Rannsaka skal og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla má að skipt geti máli, leita þess sem grunaður er um brot, finna sjónarvotta og aðra sem ætla má að borið geti vitni, svo og að hafa uppi á munum sem hald skal leggja á og öðrum sýnilegum sönnunargögnum“. Undatekningar eru svo í 144. gr. laganna:
  “ Nú er það gert að skilyrði fyrir því að sakamál sé höfðað að krafa sé um það gerð og skal það þá því aðeins gert að brotaþoli eða einhver brotaþola krefjist þess“.
  Til hliðsjónar má hafa eftirfarandi ákvæði sömu greinar:
  (“ Ekki á að taka til greina kröfu um málshöfðun skv. 1. mgr. ef sá sem hana gerir vill undanskilja einhvern af þeim sem sekur kann að vera um hina refsiverðu háttsemi.“)
  Þessi skilyrði eru aðeins í X. kafla. Landráð, nánar í 97 gr. 1. mg. 217. XXV. kafla. Ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, nánar skýrt í 242. gr. XXVI. kafla. Auðgunarbrot, nánar skýrt í 256. gr.
  Hvað sem lögreglurannsókn leið þá var Ríkisssaksónara í lófa lagið að senda málið aftur til lögreglu til að rannsaka hvort X, Y og Z væru þolendur samk. 209. gr. hgl.

  Að öðru leiti virðist mér að að höfundur skelli skuldini á dómarana. Saksóknin er með hangandi hendi, saksóknin reynir ekki að setja þessar huglægu sannanir sem eru í greininni sem hlutlæg sannindi. Saksóknara var það í lófa lagið. Kynferðislegar upplifanir karla og kvenna eru ekki eins, rannsókn saksókn og dómar málsins bera það með sér. Að málið skuli rannsakað, ákært og dæmt af aðeins einni konu gerir alla þætti þess beinlínis ólöglega út frá jafningjasjónarmiðum og líkist mjög sakarefninu þar sem ein kona er miðpunktur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.