Þær hafa talað og heimurinn hlustar: Vigdís og Gro heiðraðar í París

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

vigdissorbonneÍ gær, þriðjudaginn 11. október, voru Vigdís Finnbogadóttir og Gro Harlem Brundtland sæmdar heiðursdoktorsnafnbót við Sorbonne-háskólann í París. Í tilefni þess héldu þær fyrirlestra fyrir troðfullum sal af fólki.

Gro Harlem Brundtland talaði um mikilvægi þess að tengja loftslagsmál við önnur brýn mál eins og baráttuna gegn fátækt, jafnt aðgengi að góðu heilbrigðiskerfi og tækifærum til menntunar. Allt hangir þetta saman og eina leiðin til að vinna bug á vandanum, er jöfnuður, var inntakið í fyrirlestri hennar. Hún sagði frá því að þegar hún hóf fyrst að tala um tengingu milli mismunandi málaflokka, var hlegið að henni en að í dag teljist þessi hugmynd ekki aðeins sjálfsögð, heldur djúp viska.

Vigdís benti síðan á mikilvægi þess að geta talað saman, að hlusta hvert á annað, að heyra og skilja og að þetta væri forsenda fyrir því að heimurinn gæti með sameiginlegu átaki unnið bug á fátækt og bjargað jörðinni. Þess vegna væri tungumálanám svo mikilvægt, sem og skilningur á mismunandi menningarsvæðum.
Hún sagði frá kvennafrídeginum 1975, aðdraganda hans og afleiðingum, og hvernig það að konur létu í sér heyra þann dag væri rótin að ástæðu þess að hún gat boðið sig fram og sigrað í forsetakosningum fimm árum síðar.

Báðar voru konurnar sammála um að þær þurftu, á sínum tíma, að berjast harðar en karlar til að láta í sér heyra. Gro Harlem Brundtland lýsti því að hún hefði áttað sig fljótt á því að ef hún tæki á sig skítinn sem hún fékk yfir sig í upphafi ferils síns sem forsætisráðherra, væri hún að tryggja að næsta kona þyrfti ekki að gera það. Sem hún segir hafa staðist, því Erna Solberg, sem tók svo við embættinu 2013 hefði sjálf sagt sér að þetta væri mun auðveldara nú, en þá.

Það var merkilegt að vera þarna, innan um franska stúdenta, og hugsa um hve mikill munur er enn á stöðu kvenna í valdastöðum í Frakklandi og á Norðurlöndunum. Þótt enn sé fullu jafnrétti ekki náð hér á landi, eiga franskar konur mun lengra í land en kynsystur þeirra norðar í álfunni. Ef marka má langt og hávært lófaklappið í lokin, má telja næsta víst að viðstaddir heyrðu til þessara mikilmenna, sem eru alls ekki eingöngu fyrirmyndir í eigin löndum, heldur óvéfengjanlega fyrirmyndir fyrir fólk um heiminn allan.

Ein athugasemd við “Þær hafa talað og heimurinn hlustar: Vigdís og Gro heiðraðar í París

  1. Bakvísun: Þær hafa talað og heimurinn hlustar: Vigdís og Gro heiðraðar í París – Betri fréttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.