Hrelliklám snýst um viðhorf samfélagsins

„Hrelliklám snýst ekki um gerendur og þolendur, heldur alla hina,” segir hin 25 ára Emma Holten sem er brotaþoli hrellikláms og ein helsta baráttukona gegn hrelliklámi í heiminum í dag. Sögu hennar og samþykkisverkefnisins má lesa hér . Emma var stödd hér á landi um helgina á vegum Samfylkingarinnar, og blaðakona Knúzz náði tali af henni og byrjaði á að spyrja hvort hún hafi gert ráð fyrir þeirri miklu athygli sem samþykkisverkefnið hennar fékk.

„Óhætt er að segja að viðbrögðin við samþykkisverkefninu hafi komið á óvart. Ég kynnti það 1. nóvember 2014, daginn eftir að brotið hafði veimg_20161014_110418rið á friðhelgi einkalífs margra frægra kvikmyndastjarna og myndir af þeim voru út um allt á netinu. Ég held að vegna þess hafi þetta orðið fréttnæmt. En það sem gerði útslagið að mínu mati var að Guardian fann þetta einhvern veginn og fékk mikinn áhuga. Ég gerði myndband fyrir þau þar sem ég útskýrði verkefnið. Ég vissi að þetta var vandamál sem margir vissu af en var ekki mikið rætt. En það kom samt á óvart hvað þetta gekk vel og það var svo augljóst að margir þurftu að heyra rödd þolanda þar sem ekki var sagt að þolandi hefði átt að haga sér öðruvísi. Og þessi rödd varð… ég.

Ég hef ferðast víða um heim, ég er nýkomin frá New York og er á leið til Mósambík og hér er ég núna. Vandamálið er víða til staðar. Ég talaði við femínista í Kenía um daginn sem sagði mér hvernig vinkonur hennar hefðu verið með mönnum, trúlofaðar mönnum sem mynduðu kynlíf þeirra án þeirra samþykkis og hótuðu síðan að birta myndirnar ef konurnar hættu ekki að vera feministar. Þetta er mál sem hefur svo margar hliðar. Ég held almennt að þetta snúist um einkalíf og það hvernig einkalíf tengist réttindum kvenna og frelsun kvenna skiptir gríðarlega miklu máli núna.

Það er annað mál sem tengist hrelliklámi og það er skömmin.

Ég er ein af fáum sem hef bæði birt nektarmyndir af mér að yfirlögðu ráði og nektarmyndir hafa verið birtar af mér án míns samþykkis, og mér finnst að viðhorfin til þess að fólk eigi að skammast sín fyrir nekt sína hafi breyst, sem betur fer. En þegar einstaklingur missir yfirráð yfir líkama sínum eða kynfrelsi sínu eins og gerist þegar kona sætir hrelliklámi, þegar vilji hennar er hunsaður, þá er það mikil skömm. Við dáumst að konum sem eru kynþokkafullar á eigin forsendum en þegar brotið er á konum þá líta eiginlega allir niður á þær því þær eru ekki við stjórnvölinn. Á netinu jaðrar það við þráhyggju að ráða lífi sínu og útliti, þú velur prófílmynd, ákveður stöðufærslur, við sviðsetjum okkur. Þegar við ráðum þessu ekki lengur, hvernig fólk sér okkur, ímynd okkar, okkur sem einstakling, líkama okkar, í því felst mesta skömmin, að einhver annar tekur völdin í lífi manns.“

Ættum við sem samfélag að skoða viðhorf okkar gagnvart skömminni?

Já. Mér fannst fólk setja skömmina á mig, það sagði: Mikið hlýtur þú að skammast þín og ég svaraði: Mér fannst ég ekkert hafa gert til að skammast mín fyrir, fyrr en þú sagðir þetta. Þú skapar skömmina, ef þér fyndist þetta ekki, væri engin skömm. Ég veit að ég gerði ekkert skammarlegt. Okkur hættir til að sjá skömmina hjá fólki og líkömum sem brotið hefur verið á en skömmin kemur utan frá. Það er kjarninn í þessu. Þegar fólk spyr mig hvað þolendur eigi að gera til að þeim líði betur þá segi ég að þolendur geti lítið gert en fólk sem er í tengslum við þolendur, í samfélaginu með þolendum, á ekki að gera ráð fyrir að þeir upplifi skömm. Ekki að koma skömminni á þá og ekki ákveða hvernig þeir eigi að upplifa brotin. Mér finnst hrelliklám stundum ekki endilega snúast um gerendur og þolendur, heldur um alla hina.

Hver er þróunin núna í baráttunni gegn þessu tiltölulega nýja fyrirbæri  hrelliklámi?

emmaholten1

Myndin er af vefsíðu Emmu, emmaholten.com

Mér finnst þetta vera gamalt þar sem það er engin nýlunda að konur séu smánaðar fyrir að vera kynverur. Það sem einkum er að gerast núna og það gerist frekar hratt er að vefsvæðin sem hagnast á hrelliklámi, Facebook, Google, Twitter og Reddit eru að byrja að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Þegar ég hóf baráttuna fyrir tveimur árum var næstum ógerlegt að fá þessa aðila til að viðurkenna sinn hluta af sökinni. Þeirra viðhorf hefur verið að vefsvæðin beri enga ábyrgð, þau hafi ekki birt efnið og þannig eru lögin í Bandaríkjunum. Það er stórfurðulegt að hægt sé að eyða á augabragði af Facebook geirvörtum sem birtar eru með samþykki en næstum ómögulegt að fá þær fjarlægðar sem birtar eru án samþykkis. En þetta er að byrja að breytast núna. Áður var mest einblínt á gerandann, þann sem fyrstur birti myndirnar á netinu, sem er skiljanlegt því það er skilgreindur glæpur, en mjög lítil áhersla hefur verið á þá sem endurbirta og hýsa myndirnar og gera öðrum kleift að deila þeim og sem í raun hagnast á ofbeldinu því þeim mun vinsælli sem myndin er, því meiri verða tekjur þeirra. Þetta eru miklar og merkilegar breytingar sem ég skynja núna, við erum að beina sjónum okkar að hagnaðinum. Ef okkur tekst að fá peningaöflin í lið með okkur, þá dregur það tennurnar úr gerendunum því ef þeir hafa engan vettvang til að birta efnið á, þá stoppar glæpurinn hjá þeim. Þetta er aðal verkefnið mitt núna, að hitta og ræða við stórfyrirtæki í tæknibransanum um þessi atriði. Viðhorf almennings, notendanna, sem eru farnir að líta á hrelliklám sem vandamál hefur greinilega breytt þeirra viðhorfum. Lengi vel voru það aðeins þolendur sem höfðu áhyggjur af stöðu fyrirtækjanna en vonandi hafa mínar aðgerðir og aðgerðir annarra þau áhrif að þetta verði álitið samfélagsvandamál.

Hefur þú alltaf verið feministi?

Ég var ekki femínisti áður en þetta gerðist. Ég taldi að með því að valdefla mig yrði allt í lagi, ef ég sjálf gæti bara álitið mig eins mikilvæga og karlmann yrði allt í sómanum, en ég verð að segja að þegar ég fór að skoða netið gaumgæfilega eftir að brotið var á mér, bregður mér að sjá hvað konur njóta lítillar virðingar þar. Mér finnst að virðing karla fyrir konum sé eins og hver annar jakki sem þeir fara í á almannafæri en um leið og þeir eru þar ekki lengur, fara þeir úr honum. Nýjasta dæmið er Donald Trump og þetta „búningsklefatal“ hans og hvað margir karlmenn styðja hann. Þetta kemur eiginlega svona út: Ég sýni konum virðingu því ég neyðist til þess, ekki af því að mér þyki það rétt. Og á þeim svæðum þar sem ég þarf ekki að bera ábyrgð á orðum mínum, hverfur þessi virðing.

Hverjar ættu að vera helstu áherslur jafnréttisbaráttunnar núna að þínu mati?

Á Norðurlöndum höfum við verið mjög dugleg að láta líta út fyrir að jafnrétti ríki en í raun er mjög langt í það að karlmenn líti á konur sem jafningja. Þetta verður stór siðferðileg spurning fyrir framtíðina og við þurfum að endurskoða hugmyndir okkar um líffræðilegar forsendur og grundvallarformin í samfélaginu. Og svo allt það sem er er á einkasviðinu eins og hvernig við sviðsetjum kyn og samhengi þess við líffræðilegt kyn og svo framvegis. Mér finnst lykilatriði að við þurrkum út mismuninn milli kynjanna. Ef við komumst alltaf aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að innra með okkur séu kynin í raun afskaplega ólík af líffræðilegum ástæðum þá erum við komin með valdakerfi þar sem er ekki pláss fyrir jafnrétti. Við feministar verðum að spyrja okkur af hverju svo margir hafa þörf fyrir að ríghalda í kynjakerfið, jafnvel þótt þeir séu ekkert að græða á því, jafnvel þó að þeir séu kúgaðir innan þess og missi af stórkostlegum gjöfum lífsins. Ég skil alveg að það sé auðvelt að finna til öryggis innan hefðbundins kynhlutverks og þessvegna verður þetta erfið barátta. Við höfum átt mikilvægar samræður um jafnrétti í opinbera rýminu, samræður sem við getum verið stolt af en hvernig við sjáum kynhlutverk fyrir okkur í einkalífinu er miklu viðkvæmara og erfiðara að horfast í augu við og snerta á. Við eigum eftir að eiga í þessum samræðum næstu hundrað og fimmtíu árin spái ég en þær eru lífsnauðsynlegar til þess að raunverulegt jafnrétti komist á.

Brynhildur Björnsdóttir ræddi við Emmu. Heimasíðan hennar er emmaholten.com

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.