Nauðgun í litlu samfélagi

Guðrún Katrín Jóhannesdóttir var meðal ræðumanna í Druslugöngunni í ár en hún vinnur að mastersritgerð í félagsfræði um viðbrögð við nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum. Hún segir þolendur kynferðisofbeldis í litlum bæjarfélögum sem segja frá og kæra málin oft fá neikvæð viðbrögð sem felist í svipbrigðum, hunsun, um þá sé mikið talað og jafnvel gert lítið úr þeirra upplifun. Hún sagði þetta í viðtali við DV í sumar:

„Þetta er það sem fólk á í hættu ef það kærir nauðgun. Svona viðbrögð geta haft miklar afleiðingar í för með sér og fólk kannski kærir ekki. Í þessu felst því ákveðin þöggun enda veit fólk hvaða neikvæðu viðbrögðum það getur þurft að mæta.“

Aðspurð bætir Guðrún því við að fagaðilar geti haft áhrif á í hvaða farveg kynferðisbrotamál fara. „Það er erfitt að tala fyrir hönd einhvers en ég hef rekist á dæmi þar sem fagaðilar hafa áhrif á hvað þolendur gera. Hins vegar er ég ekki beinlínis að skoða það heldur það þegar nauðgun hefur verið kærð og heilu bæjarfélögin fara upp á móti fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Svo virðist sem fólk sé frekar tilbúið til að lýsa yfir stuðningi við gerendur en þolendur.“

gudrun-katrin-johannesdottirGuðrún svaraði líka spurningum knuz.is um þetta efni:

Hvað varð til þess að þú fórst að velta þessu fyrir þér eða hvað vakti athygli þína?

Þetta viðfangsefni varð fyrir valinu af ýmsum ástæðum en það sem ég held að hafi vegið hvað þyngst var að ég man eftir og hafði heyrt af tilvikum frá því að ég var unglingur og eins steig fram kona í fjölmiðlum ekki fyrir löngu síðan og sagði frá reynslu sinni af því að hafa kært nauðgun í litlu bæjarfélagi á Íslandi.

Það hafði líka verið mikil umfjöllun í fjölmiðlum um stúlku sem kærði nauðgun í smábæ í Bandaríkjunum þar sem að áhrifamenn innan bæjarins beittu sér gegn stúlkunni.

Geta smábæjarsamfélög jafnað sig eftir svona átök eða lifir málið með kynslóðum?

Svo virðist sem að nauðgunarkærur í litlum bæjarfélögum geti haft áhrif á samfélagið þar í heild sinni og ef til vill má gera ráð fyrir því að þeim mun harðari afstaða sem er tekin þeim mun meiri áhrif hafi þetta á samfélagið. Sumir bæjarbúar virðast óttast um ímynd bæjarins þegar mál sem þessi koma upp og setja hagsmuni bæjarfélagsins jafnvel ofar en reynslu og líðan brotaþolans.

Hvort að málin lifi með kynslóðum get ég ekki svarað en það væri áhugavert að skoða það.

Er jafnréttishugsjónin komin skemmra á veg í slíkum samfélögum?

Það er erfitt að segja til um það án þess að styðjast við rannsóknir á því en það er einmitt eitthvað sem væri áhugavert að skoða. Út frá félagsfræðilegu sjónarmiði þá getur það verið tilhneiging í samfélögum eins og smábæjum að fólk hafi svipaðar skoðanir og gildi. Ákveðin hegðun er talin sem norm en um leið og einhver sýnir af sér aðra hegðun þá er hann orðinn að fráviki. Sem dæmi má nefna að ef það þykir norm að brotaþolar segi ekki frá nauðgun heldur haldi þeim upplýsingum fyrir sig þá verður það frávik að kæra eða segja frá. Brotaþolinn ruggar bátnum og stöðugleikanum í samfélaginu. Í þeim tilvikum sem ég skoðaði varð sá orðrómur hávær að stúlkurnar væru að ljúga til um að hafa verið nauðgað og það hafði áhrif á myndum afstöðu einhverra bæjarbúa. Svo virðist sem að samstaða hafi myndast milli bæjarbúa um að stúlkurnar væru að ljúga og það í raun þjappaði bæjarbúum meira saman á þessum tímapunkti. Sumir sem tóku afstöðu með gerendunum upplifðu sig tilheyra samfélaginu meira en áður.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Húsavík

Telurðu mögulegt að vinna svona mál frá upphafi af hálfu staðaryfirvalda til að forðast drusluskömmun?

Já, ég tel það vera mögulegt. Í raun ætti hvert bæjarfélag og eins vinnustaðir og skólar að vera með tilbúnar aðgerðaráætlanir til að vinna eftir þegar nauðganir eða annað kynferðisofbeldi er tilkynnt eða kært til lögreglu.

Jafnrétti kynjanna, forvarnir og fræðsla skipta máli og eins er viðhorf fólks auðvitað mikilvægt en það segir mikið til um hvernig fólk bregst við þegar það heyrir um nauðgun. En það er þekkt að viðhorf til kynhlutverka hafa áhrif á viðhorf til nauðgana.

Þú nefnir að þolendur verði illa úti. Hvað verður um gerendur?

Ég get í rauninni ekki svarað til um það þar sem ég hef ekki talað við gerendur. En í þeim bæjarfélögum sem ég skoðaði virðist sem að gerendurnir og fjölskyldur þeirra hafi fengið mun meiri stuðning frá öðrum bæjarbúum en brotaþolarnir sem upplifðu takmarkaðan stuðning. Rannsóknir hafa sýnt að stuðningur við brotaþola hefur mikið að segja um bata hans. En á heildina litið þá held ég að engum sé greiði gerður þegar tekinn er hörð afstaða gegn brotaþolanum. Afleiðingarnar af því geta komið upp seinna. Sumir sem tóku afstöðu með gerendunum sáu mjög svo eftir því síðar meir og sögðu frá því að þegar að frá leið þá hefðu þau farið að trúa frásögn brotaþolanna.

Húsavíkurmálið var mikið í fjölmiðlum á sínum tíma og þar komu margir fram undir nafni, bæði þá og síðar.  Verður það víti til varnaðar eða bregðast lítil samfélög alltaf eins við (allir þekkja alla, nálægð, etc.).

Það er einmitt eitthvað sem er áhugavert að rannsaka og ég er einmitt að ljúka við rannsókn þar sem ég tek fyrir nýleg tilvik og það verður áhugavert að skoða hvort eitthvað hafi breyst.

Auðvitað vona ég að aukin umræða og breytt viðhorf fólks til nauðgana hafi áhrif á viðbrögð einstaklinga og lítilla samfélaga í heild sinni.

Guðrún Katrín Jóhannesdóttir

Þerapisti hjá Lausninni

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.