Transgender og heilbrigðiskerfið

Höfundur: Erna Magnúsdóttir

Jafnréttisnefndir Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasviðs HÍ stóðu á Jafnréttisdögum fyrir málþingi um aðkomu transgender einstaklinga að heilbrigðiskerfinu. Á þinginu komu fram margar áleitnar spurningar um málefnið. Þar var frumsýnt myndband sem Trans-Ísland hefur látið gera um málefnið.

Þar er upplifun transfólks af heilbrigðiskerfinu lýst á fremur dökkan hátt og niðurstaðan var að íslenska heilbrigðiskerfið væri ómannúðlegt hvað málefni þeirra varðar. Í umræðupanel fyrir hönd Trans-Ísland sátu þau Alda Villiljós og Alexander Björn Gunnarsson.

Í myndbandinu kom m.a. fram að upplifun transfólks er sú að forræðishyggja ríki hvað varðar kynleiðréttingarferlið, að aðgengi að hormónum og hormónahindrum er of takmarkað, sérstaklega þar sem ekki er unnt að hefja ferlið fyrir 18 ára aldur. Jafnframt upplifa þau mikla tvíhyggju í kerfinu þar sem transkonum er til dæmis gert að vera kvenlegri en konur án kynáttunarvanda til þess að sanna að þær séu í raun transgender. Það kom einnig fram að transgender einstaklingum finnst erfitt að kynáttunarvandinn er skilgreindur sem sjúkdómur, en sú skilgreining er forsenda þess að fara í kynleiðréttingarferlið eins og staðan er nú. Einnig kom fram ábending um það að með teyminu mætti gjarnan starfa kynjafræðingur eða transgender einstaklingur auk þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem þar starfa nú.

Elsa Bára Traustadóttir sálfræðingur talaði fyrir hönd transgender teymis Landspítalans, en hlutverk þess er að „hafa umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda“ og með því starfa geðlæknir, sálfræðingar, innkirtlasérfræðingar, lýtalæknar, talmeinafræðingur og félagsráðgjafi. Elsa Bára útskýrði í framsögu sinni að transteymið vinnur eftir lögum um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda frá árinu 2012, sem voru jafnframt fyrstu lög síns eðlis á Íslandi.

Að vissu leyti má segja að lögin hafi verið orðin úrelt um leið og þau voru sett því þekkingu og skilningi á kynáttunarvanda hefur fleygt fram undanfarin ár. Til dæmis er almennt orðið viðurkennt að kynákvörðun er ekki tvíhliða ferli sem gefur af sér annað hvort fullkomlega karlkyns eða kvenkyns einstakling, heldur sé um að ræða kynákvörðunarróf. Þannig er meðal annars talað um erfðafræðilegan bakgrunn kynákvörðunarrófsins í stað ákvörðunar annað hvort karlkyns eða kvenkyns einstaklings [http://www.nature.com/news/sex-redefined-1.16943]. Fram kom í máli Elsu Báru og Óttars Guðmundssonar geðlæknis sem einnig starfar með teyminu að meðferðin hafi tekið stakkaskiptum undanfarin ár og sé í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Þannig er ekki lengur gert ráð fyrir að allir einstaklingar fari á sama hátt í gegnum ferlið og fólki gert kleift að velja aðeins hluta ferlisins eftir óskum þess.

Hins vegar verður transteymið að starfa samkvæmt fyrrnefndum lögum og í þeim sé gert ráð fyrir sex mánaða aðlögunartímabili áður en einstaklingur hefji raunverulegt kynleiðréttingarferli. Hlutverk þessa ferlis er aðallega tvíþætt; að fylgjast með einstaklingnum og hans nánustu um tíma til þess að öðlast fullvissu um að ósk hans/hennar um kynleiðréttingu sé einlæg og jafnframt að greina mögulegan heilbrigðisvanda eins og geðsjúkdóma sem myndu hamla ferlinu. Ekki er til dæmis ráðlagt að einstaklingar sem eru þunglyndir eða þjást af geðhvarfasýki gangist undir kynleiðréttingu fyrr en þeir hafi fyrst fengið meðferð við sjúkdómnum.transfáninn

Í lögunum kemur jafnframt fram að einstaklingar geta ekki hafið ferlið fyrr en við átján ára aldur, en það þykir hamlandi fyrir unglinga sem þurfa þá að ganga í gegnum fullan kynþroska þrátt fyrir ósk sína um kynleiðréttingu. Hormónahamlandi lyf geta hægt á eða komið í veg fyrir kynþroska á meðan unglingur áttar sig á óskum sínum og því auðveldað kynleiðréttingu.

Á fundinum kom jafnframt fram að ný lög eru í undirbúningi til þess að uppfæra núverandi lagaramma.

Elsa Bára fjallaði um rannsókn sem Steinunn Birna Sveinbjörnsdóttir læknanemi gerði á kynáttunarvanda á Íslandi 1997-2015. Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi og niðurstöður hennar eru mjög sláandi. Transfólk á Íslandi er vægast sagt mjög jaðarsettur hópur þar sem hátt hlutfall einstaklinga á við geðrænan vanda að etja, hefur mun lægri atvinnuþáttöku en gengur og gerist í samfélaginu, hefur lægra menntastig og verður frekar fyrir einelti og kynferðislegu ofbeldi.

Það gefur því auga leið að transgender fólk þarfnast þess að heilbrigðiskerfið taki því opnum örmum og sýni málefnum þess skilning. Það virðist þó ekki endilega vera raunin. Transgender fólk er til dæmis mjög oft í þeirri aðstöðu að þurfa að upplýsa heilbrigðisstarfsfólk um málefni transfólks, þar sem þekking á málefninu virðist ekki vera almenn meðal þess. Það gerir því transfólki enn erfiðara fyrir að sækja sér almenna heilbrigðisþjónustu ef það sjálft þarf til dæmis að byrja á því að útskýra sömu hlutina aftur og aftur í hvert skipti sem það hittir nýjan heilbrigðisstarfsmann.

Í því samhengi er áhugavert það frumkvæði sem Ástráður, forvarnarstarf læknanema hefur haft að hinseginfræðslu meðal læknanema, en hinseginfræðsla virðist hvergi hluti af grunnámi á Heilbrigðisvísindasviði HÍ. Ástráður skipuleggur hins vegar svokallaða forvarnarviku í samvinnu við Læknadeild, þar sem annars árs læknanemum eru kynnt málefni sem tengjast kynverund, kynlífi og kynsjúkdómum. Þar eru málefni transfólks meðal annars tekin fyrir. Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir, læknanemi og fyrrverandi formaður Ástráðs, kynnti meðal annars niðurstöður óformlegrar könnunar sem hún lagði fyrir nemendur sviðsins um þekkingu þeirra á málefnum transfólks. Þar kom fram að 80% nemanna sem nutu fræðslunnar þótti hún bæta þekkingu sína á hinsegin málefnum. Á þinginu kom fram sú uppástunga að hinseginfræðsla yrði jafnvel hluti af samskiptafræði eða sambærilegum fögum í grunnnámi á Heilbrigðisvísindasviði.

Í orðum allra frummælenda á málþinginu mátti heyra að bæta má þekkingu heilbrigðisstarfsfólks almennt á málefnum transfólks. Þarna er því kjörið tækifæri fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands að sýna frumkvæði og stuðla að fræðslu nemenda um málefnið, sem og gagnvart öðrum minnihlutahópum. Í því samhengi má nefna að sviðið samþykkti nýverið nýja jafnréttisáætlun þar sem eitt markmiðanna er einmitt að þverfagleg fræðsla um málefni transfólks verði tekin upp í öllu grunnámi á sviðinu.

Erna Magnúsdóttir, formaður jafnréttisnefndar Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.