Þegar náttúran bregst: brjóstagjöf og ögun mæðra

Höfundur: Sunna Símonardóttir, doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands

 

Brjóstagjöf er bæði algeng og álitin sjálfsögð á Íslandi en undanfarin ár og áratugi hefur vísindaleg orðræða um brjóstamjólk færst frá því að skilgreina hana sem ávinning fyrir barn og jafnvel móður yfir í það að skilgreina skort á brjóstagjöf sem áhættuþátt. Þessi breyting hefur margvísleg áhrif á stöðu móðurinnar innan orðræðunnar þar sem hún stendur nú frammi fyrir því að ef barnið fái ekki brjóstamjólk, í nægu magni, nógu lengi sé það áhættuþáttur fyrir heilsu þess og velferð.

Hugmyndir okkar og vísindaleg þekking á brjóstagjöf er alltaf nátengd hugmyndum okkar um móðurhlutverkið, hvað felist í því að vera móðir og hvaða eiginleikum góðar mæður skuli búa yfir og því getur það að ná ekki að hafa barn sitt á brjósti haft mikil áhrif á sjálfsmynd þeirra mæðra sem það upplifa. Reynsla þeirra fjölmörgu kvenna sem upplifa mikla erfiðleika við brjóstagjöf og ná ekki að brjóstfæða börn sín hefur ekki verið mikið rannsökuð og mér þótti því mikilvægt að reyna að nálgast þessar konur og fá þeirra sögur og sjónarhorn til þess að varpa ljósi á upplifun þeirra og reynslu.

Ég auglýsti því eftir sögum mæðra þar sem brjóstagjöf gekk illa eða ekki neitt eða þar sem komu upp miklir erfiðleikar. Á einni viku höfðu um 90 konur samband við mig og lýstu yfir áhuga á rannsókninni og 77 konur sendu mér svo sína frásögn. Ástæður þess að brjóstagjöfin gekk illa hjá þeim sem sendu mér sögur sínar eru nokkuð fjölbreytilegar. Endurteknar sýkingar og sár á geirvörtum eru algeng vandamál, sveppasýkingar og innfallnar geirvörtur sömuleiðis, lítil eða engin mjólkurframleiðsla eða að mjólkurframleiðsla dettur niður. Sumar konurnar náðu aldrei að koma brjóstagjöf af stað, aðrar náðu stuttri brjóstagjöf og hjá enn öðrum voru erfiðleikarnir tímabundnir og stóðu yfir í vikur eða mánuði. Konurnar lýsa flestar gríðarlegum sársauka og vanlíðan við brjóstagjöfina og margar kvennanna lýsa því yfir að fæðingin hafi verið barnaleikur í samanburði við þann sársauka sem þær upplifðu við brjóstagjöfina.

Verkefnið brjóstagjöf

Þegar vandamál komu upp vegna of lítillar mjólkurframleiðslu var konunum ráðlagt að fjölga gjöfum og leigja sér þar að auki rafknúna mjaltavél til þess að sitja í þess á milli til að örva framleiðsluna. Eins og margar konur bentu á þýddi þetta í raun að þær voru alltaf annaðhvort að gefa (eða reyna að gefa) eða í mjaltarvélinni. Öll tilvera þeirra gekk út á þetta verkefni að koma brjóstagjöfinni af stað. Ein líkti upplifuninni af því að vera „föst við mjaltavélina“ við stofufangelsi og aðrar minnast á að enginn tími hafi verið til þess að njóta nýja barnsins eða sinna grunnþörfum, allt gekk út á að koma mjólkinni af stað. Andleg líðan flestra mæðranna var mjög slæm og margar minnast þær á þunglyndi, kvíða og jafnvel áfallastreituröskun sem fylgifisk reynslunnar.
Sjálfsmynd þeirra sem mæðra og kvenna bíður mikla hnekki og þær upplifa það margar hverjar mjög sterkt að hafa brugðist barninu sínu. Þær ræða um kraumandi samviskubit, áhyggjur af heilsufari barnsins og framtíðarhorfum. Þær upplifa sig sumar sem annars flokks mæður sem hefðu brugðist skyldum sínum gagnvart barninu.

Að bíða eftir græna ljósinu

Samskipti nýbakaðra mæðra við ljósmæður, brjóstagjafaráðgjafa og annað heilbrigðisstarfsfólk eru mikilvæg og þó að nokkrar konur lýsi samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk sem afskaplega góðum þá er engu að síður greinilegt að stór meirihluti upplifði samskiptin og þjónustuna ekki vel. Konurnar voru flestar hvattar áfram af heilbrigðisstarfsfólki til þess að reyna allt til að láta brjóstagjöfina ganga upp og gefast alls ekki upp. Frásagnir kvennanna benda til þess að þær þurftu að fá „grænt ljós“ frá ljósmæðrum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki til að geta hætt brjóstagjöf. Konurnar upplifðu margar hverjar að þær sjálfar hefðu ekki heimild til þess að ákveða hvort að tilraunum til brjóstagjafar yrði hætt og barnið fengi þurrmjólk.
Friðrika segir í þessu samhengi: „Ég vildi undir yfirborðinu að einhver tæki af mér völdin og segði mér að ég þyrfti að hætta þessu… Mér fannst allir vera að dæma mig“. Breski mannfræðingurinn Charlotte Faircloth hefur réttilega bent á að af öllum þeim þáttum sem snúa að móðurhlutverkinu sé brjóstagjöf og í raun það að gefa börnum að borða sá þáttur sem hefur hvað mestan siðferðilegan undirtón og það birtist okkur með skýrum hætti hér, þar sem orðræðan um hina „góðu“ móður viðurkennir aðeins ákveðna hegðun og afstöðu um leið og andstæðar hugmyndir eru skilgreindar sem óviðeigandi. Ef konurnar eiga að hafa möguleika á því sjálfar að segja nú er komið nóg, ég er hætt að reyna, gefa þær um leið færi á því að þær sjálfar séu skúrkarnir innan þessarar orðræðu, móðirin sem fórnaði sér ekki nægilega mikið fyrir barnið sitt. Því virðist sem að það þurfi oftar en ekki að vera einhver utanaðkomandi aðili sem hafi vald til þess að segja hingað og ekki lengra, þú hefur reynt nóg, þú stóðst prófið. Elísa orðar þessa algengu löngun vel þegar hún segir: „ég hefði viljað heyra það að sama hvað ég gerði þá væri ég góð móðir“.

Brjóstagjöf sem mælikvarði á mæður

Eins og fræðimenn hafa bent á hefur hinn mjólkandi líkami, líkt og þungaði líkaminn, að mörgu leyti verið skilgreindur sem almenningseign og því opinn fyrir athugasemdum frá almenningi. Spurningar um brjóstagjöfina, óumbeðin ráð og reynslusögur, augnatillit eða beinar neikvæðar athugasemdir eru meðal þeirra atriða sem konurnar verða fyrir. Agla segir:
„Það hvöttu mig allir til að gefa brjóst. Ég fékk að heyra ótal sögur um að þetta gæti verið erfitt fyrst en það næðu „allar“ konur að gefa brjóst. Kvenfólk í kringum mig talaði um hvað þær hefðu haft sín börn lengi á brjósti og hvað þetta væru dásamlegar stundir þegar börnin væru á brjósti. Það jók bara á vanlíðan mína.“
Brjóstagjöfin virðist vera mælikvarði sem margar mæður nota til þess að meta aðrar mæður og bera sig saman við. Þær konur sem ná ekki að gefa brjóst eða eru með börn sín stutt á brjósti geta búist við að þurfa stöðugt að réttlæta það fyrir öðrum. Þó að sumar konur hafi aldrei fengið neikvæðar athugasemdir eða annað af því tagi þá er eins og að þær séu samt ávallt viðbúnar því að fá slíka neikvæða athygli og búist jafnvel við henni. Það reynist þeim erfitt að brúa bilið á milli eigin reynslu af því að hafa hætt brjóstagjöfinni, sem getur oft verið mjög jákvæð og einkennist oft af miklum og djúpstæðum létti, og svo þeirra tilfinninga sem samfélagið ætlast til þess að þær sýni. Erla útskýrir þessa togstreitu mjög vel í eftirfarandi tilvitnun:

Ég upplifði þvílíka frelsistilfinningu þegar ég tók þá ákvörðun að gjörsamlega hætta brjóstagjöf. Ég hætti alveg með hana á brjósti þegar hún var 8 vikna. Þegar ég segi frá því nú að kornabarnið mitt sé bara á pela er ég samt full afsökunar og rek söguna af lélegri mjólkurframleiðslu. Ég er sátt við ákvörðunina um að hætta að reyna en skammast mín samt. Vildi að ég gæti bara sagt að barnið mitt væri á pela án þess að „selja” ástæðurnar og afsakanirnar með í hvert sinn. Ég hef ekki fengið ljótt augnráð eða einhver sagt við mig að þetta sé ekki gott fyrir börnin mín en samt er ég alltaf að afsaka mig.

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka þeim konum sem treystu mér fyrir reynslu sinni og ítreka mikilvægi þess að ræða opinskátt um brjóstagjöf og að þeir aðilar sem vinna með konum í mæðravernd og í tengslum við brjóstagjöfina hlusti á konur með opnum hug og það að markmiði að bæta þjónustuna. Við getum öll lagt okkar á vogarskálarnar til þess að breyta orðræðunni með því til að mynda að tala opinskátt um þá staðreynd að brjóstagjöf er ekki alltaf auðveld, náttúruleg eða sjálfsögð.

*Öll nöfn þátttakenda sem koma fyrir í þessari grein eru dulnefni
*Ítarlegri umfjöllun um rannsóknina og niðurstöður hennar má finna hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.