Feðraveldið og loftslagsbreytingar

Höfundur: Dr. Auður H. Ingólfsdóttir.

Hvað í ósköpunum hafa loftslagsbreytingar með feðraveldið að gera? Þetta er spurning sem ég hef oft fengið undanfarin ár í tengslum við doktorsverkefnið mitt þar sem ég beitti feminískum greiningatækjum við að skoða mótun og framfylgd loftslagsstefnu á Íslandi.

Í bók kanadíska aðgerðasinnans Naomi Klein, This Changes Everything, er loftslagsbreytingum stillt upp sem andstæðu við kapitalismann. Hið kapítalíska hagkerfi, með öllu sem því fylgir (t.d. áherslan á hagvöxt, samkeppni og sú nálgun að líta á náttúruna fyrst og fremst sem auðlind fyrir mennina til að nýta) er að hennar mati skýringin á því hvers vegna alþjóðasamfélaginu hefur mistekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná þannig utan um loftslagsvandann. Naomi byrjaði að vinna að bókinni árið 2009, á sama tíma og ég hóf mína rannsókn, og upphafsspurningin var sú sama: Hvers vegna erum við ekki að gera neitt? Hún kemst að þeirri niðurstöðu að um kerfislægan vanda sé að ræða og verkefnið framundan felist því í að brjóta upp hið kapítalíska hagkerfi heimsins, leggja áherslu á félagslegt jafnrétti og endurskilgreina tengsl manns og náttúru. Í viðtali um bókina við veftímaritið Truthout er hún spurð út í gagnrýni hennar á ríkjandi kerfi og blaðakonan spyr m.a.: Er það ekki feðraveldið sem þú ert að gagnrýna?

Þó að Naomi Klein setji megináherslu á kapitalismann sem hinn kerfislæga vanda sem þurfi að vinna bug á þá er hún í raun á svipuðum slóðum og ég í minni rannsókn, þó ég beini frekar sjónum að hinum kerfislæga vanda sem leiðir af feðraveldinu og þeim karllægu gildum sem það kerfi byggir á. Enda má kannski segja að kapitalisminn sé einmitt ein birtingarmynd feðraveldisins, eins og Naomi tekur í raun sjálf undir í fyrrnefndu viðtali.

Karllæg og kvenlæg gildi

Í doktorsrannsókninni beini ég sjónum að pólitískri orðræðu um loftslagsbreytingar hér á Ísland og þeim gildum sem ráða för við mótun loftslagsstefnu og við stjórnun náttúruauðlinda. Sérstaklega horfi ég til þess með hvaða hætti gildi sem flokka mætti sem karllæg eða kvenlæg hafa áhrif á ákvarðanatöku og hvernig við skynjum tengsl manns og náttúru. Ég skilgreini karllæg og kvenlæg gildi í þessu samhengi ekki út frá því hvort konur og karlar hafi þessi gildi, heldur fremur út frá því hvernig tiltekin gildi hafa í menningarlegu og sögulegu samhengi verið tengd við hið kvenlæga eða hið karllæga. Þannig  má segja að gildi sem hampa samkeppni, rökhyggju, efnishyggju og sjálfstæði séu karllæg og gildi þar sem áherslan er á samvinnu, innsæi, umhyggju og tengslamyndun séu samofnari hugmyndum okkar um hið kvenlæga. Í anda mótunarhyggju tel ég ekki að einungis konur geti tileinkað sér kvænlæg gildi og að hin karllægu gildi séu bundin við karla – heldur beinist flokkunin aðallega að því hvernig saga og menning hafa mótað hugmyndir okkar um hið kvenlæga og hið karllæga. Bæði karllæg og kvenlæg gildi geta verið gagnleg og átt rétt á sér en vandinn er að feðraveldið hampar hinum karllægu gildum á kostnað þeirra kvenlægu.

Þótt kvenlæg gildi séu oft lofuð á hátíðarstundum þá taka hin karllægu gjarnan yfir þegar kemur að efnahagslegum og pólitískum ákvörðunum. Þetta er í takt við ríkjandi kenningar í hagfræði og stjórnmálafræði, sem ganga út frá því að manneskjan stjórnist fyrst og fremst af eigingjörnum hvötum og leitist ávallt við að hámarka eigin völd og efnisleg gæði. Litið er framhjá þeirri staðreynd að flestir einstaklingar búa líka yfir hæfninni til að sýna öðrum umhyggju og getunni til að taka ákvarðanir út frá heildarhagsmunum fremur en að horfa eingöngu á eigin hagsmuni.

Loftslagsbreytingar og harmleikur almenninga

Þeir sem þekkja til hugtaksins „harmleikur almenninga“, sem kennt er við fræðimanninn Gareth Harding, skilja að mannkyninu mun aldrei takast að ráðast að rótum vandans hvað loftslagsbreytingar varðar nema okkur takist að brjótast út úr því hugmyndakerfi að hvert og eitt okkar þurfi einungis að hugsa um eigin hag þegar við tökum ákvarðanir. Andrúmsloftið er sameiginleg auðlind og fórn eins við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verður einskis virði ef aðrir auka sína losun í staðinn. Það er því ljóst að við þurfum að horfa meira til hinna kvenlægari gilda eigi okkur að takast að vinda ofan af loftslagsbreytingum og taka upp vistvænni lífshætti.

Þó að tæknilegar lausnir og hagrænir hvatar séu mikilvæg verkfæri duga þau ekki ein og sér. Djúpstæðari breyting þarf að eiga sér stað þar sem við endurskilgreinum gildi okkar, tengsl við hvert annað og tengsl manns og náttúru. Sú hugmyndafræði að maðurinn standi til hliðar við náttúruna, geti ráðskast með hana en sé ekki hluti af henni, gengur ekki upp. Við erum hluti af náttúrunni og jafnvægi þarf að ríkja milli þess sem við tökum og þess sem við gefum til baka. Aukin áhersla á kvenlæg gildi eins og samvinnu, umhyggju (fyrir hvert öðru og náttúrunni) og að horfa á heildarmyndina er mikilvægur hluti þess að leita lausna. Rót loftslagsvandans liggur að hluta til í þeirri staðreynd að þeir sem hafa mestra hagsmuna að gæta að viðhalda núverandi ástandi, t.d. olíuiðnaðurinn, eiga sér djúpar rætur í valdakerfum heimsins. Það þarf því að finna leið til að brjóta upp það valdakerfi sem feðraveldið viðheldur.

Loftslagsbreytingar og orðræðan á Íslandi

En hver ætli sé staðan hér á Íslandi, landinu sem trónir á toppi listans sem reiknar út jafnréttisvísitölu ríkja? Til að fá vísbendingu um þau undirliggjandi gildi sem hafa áhrif á mótun loftslagsstefnu hérlendis notaði ég aðferð sem heitir orðræðugreining til að rýna í umfjöllun um loftslagsbreytingar í stefnumarkandi skjölum, í ræðum stjórnmálamanna og annarri opinberri umræðu. Ég studdist einnig við 18 viðtöl við einstaklinga sem allir eiga það sammerkt að hafa beitt sér í opinberri umræðu um loftslagsbreytingar á Íslandi í hlutverki sínu sem stjórnmálamenn, embættismenn, aktivistar eða sérfræðingar.

Þegar rýnt er í orðræðu um loftslagsbreytingar og loftslagsstefnu á Íslandi má segja að ákveðið jafnvægi ríki milli karllægra og kvenlægra gilda. Í opinberum stefnuskjölum er t.d. áhersla á bæði tæknilegar lausnir og lífsstílsbreytingar. Tæknilausnirnar fá þó meira rými þegar kemur að útfærslu en þeir þættir sem snúa að því að draga úr neyslu og breyta lífsstíl.

Til að átta sig á hvaða gildi ráða för þegar kemur að ákvarðanatöku sem hefur áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda er þó ekki nóg að horfa eingöngu á orðræðu um loftslagsbreytingar. Það getur verið jafnvel enn mikilvægara að rýna í orðræðu um efnahagslegar framkvæmdir, sem eru ekki beintengdar opinberri umræðu um loftslagsstefnu, en hafa engu að síður umtalsverð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kom best í ljós í opinberri umræðu um Drekasvæðið. Olíu- og gasleit á Drekasvæðinu komst í kastljósið snemma árs 2009, þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað að hefja útboðsferli fyrir sérleyfi til olíu- og gasleitar. Ferlið naut mikils stuðnings bæði almennings og stjórnmálaflokka og möguleikinn á olíu við Íslandsstrendur kveikti von í brjósti þjóðar sem enn var í sárum eftir bankahrunið haustið áður. Sú eina sem lýsti opinberlega yfir efasemdum var Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, sem taldi olíu- og gasleit á Drekasvæði ekki samrýmast alþjóðlegum loftslagsskuldbindingum. Viðbrögðin við efasemdum Kolbrúnar voru merkileg. Hún var ekki aðeins gagnrýnd af pólitískum andstæðingum heldur var sjónarmiðum hennar einnig afneitað af eigin þingflokki. Það sjónarmið sem hún talaði fyrir var í raun þaggað niður og heyrðust ekki gagnrýnisraddir aftur fyrr en 3-4 árum síðar, eftir að þremur sérleyfum hafði þegar verið úthlutað.

Ferlið við veitingu sérleyfa var keyrt áfram af vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem sat við völd 2009-2013, og virtust loftslagsmálin ekki vefjast fyrir neinum stjórnmálamönnum þegar kom að Drekasvæðinu. Þegar lesið er í orðræðuna frá þessum tíma er í raun eins og olíu- og gasleit á Drekasvæðinu komi loftslagsvandanum ekki við. Veiting sérleyfanna átti sér stað á sama tíma og ríkisstjórnin samþykkti metnaðarfulla aðgerðaráætlun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og Alþingi samþykkti umfangsmikil lög um loftslagsbreytingar. Drekasvæðið var hinsvegar algjörlega aftengt þeirri umræðu sem átti sér stað um loftslagsbreytingar og loftslagsstefnu á þessum tíma.

Ísland byggir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Við erum þjóð sem treystir á fiskinn í hafinu, orkuna í fallvötnunum og náttúruna sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á alþjóðavettvangi á rétt fullvalda ríkja til að nýta auðlindir sínar. Það virðist sem þetta grundvallargildi hafi verið í forgrunni þegar kom að umræðu um Drekasvæðið. Hinn undirliggjandi tónn í umræðunni var sá að ef olíu væri að finna við Íslandsstrendur þá kemur ekkert annað til greina en að nýta þær auðlindir. Sú staðreynd að fyrir liggur að ekki sé hægt að nýta nema brot af því jarðefnaeldsneyti sem þegar er vitað um, ef halda á meðalhækkun hitastigs undir 2°C, virtist ekki koma málinu við. Með öðrum orðum: Hin karllægu gildi, þar sem litið er á náttúruna sem auðlind sem mannkyn geti ráðskast með að vild, voru ríkjandi. Önnur sjónarmið, þar sem áform um olíu- og gasleit voru dregin í efa vegna ábyrgðar varðandi loftslagsbreytingar voru skjótlega þögguð niður.

Orðræðan um Drekasvæðið sýnir að þrátt fyrir að í orði sé Ísland með metnaðarfulla loftslagsstefnu þá vill sú stefna vera fljót að gleymast þegar möguleikinn á skammtíma efnahagsgróða er í sjónmáli. Réttur mannsins til að nýta náttúruna er rauður þráður í opinberri orðræðu og karllæg gildi enn ríkjandi. Hin mýkri kvenlægari gildi, þar sem meiri áhersla er lögð á umhverfisstjórnarmið, mikilvægi lífsstílsbreytinga og umhyggju og virðingu fyrir náttúrunni eru þó til staðar, en þegar fram kemur nýtt málefni – eins og Drekasvæðið – tekur tíma til að skapa rými fyrir önnur sjónarmið. Mótmæli gegn olíu- og gasleit fóru á endanum að verða háværari í opinberri umræðu. Náttúruverndarsamtök og ungliðasamtök stjórnmálaflokka á vinstri vængnum fóru að beita sér og árið 2015 breyttu bæði Samfylking og Vinstri græn um stefnu varðandi Drekasvæðið. Þá voru flokkarnir hinsvegar komnir í stjórnarandstöðu og þegar búið að ganga frá veitingu sérleyfanna.

Dr. Auður H. Ingólfsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst, hefur nýlokið við doktorsgráðu frá Háskólanum í Lapplandi (Finnlandi) og Háskóla Íslands á sviði alþjóðastjórnmála og kynjafræði. Greinin byggir á hugmyndum sem hún fjallar um í doktorsritgerðinni.

Hægt er að nálgast rafræna útgáfu af ritgerðinni hér

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.