Grein sem er ekki um malaríu

Samkvæmt skýrslu UNICEF frá árinu 2007 smitast árlega um 3,5 milljón manns í Ghana af malaríu. 20 þúsund börn í Ghana deyja árlega úr malaríu. Malaría er algengasta dánarorsök barna í Afríku.

„Það eru ekkert bara börn í Afríku sem deyja úr malaríu! Evrópsk börn geta líka alveg dáið úr malaríu. Ég þekki íslenska stelpu sem fékk malaríu. Er þetta ekki bara rasismi?“

Að sjálfsögðu smitast Evrópubúar líka af malaríu og ef barn í Sviss deyr úr malaríu er það nákvæmlega jafn sorglegt og þegar barn í Ghana deyr úr malaríu. Það er jafn átakanlegt fyrir foreldrana og alla þá sem þekkja viðkomandi barn. Sjúkdómurinn er sá sami og hann hefur sömu lífeðlisfræðilegu verkun á líkama sama frá hvaða heimsálfu líkaminn er. (Nú tökum við ekki með í jöfnuna að aðgengi að meðferð er ekki jafn gott alls staðar í heiminum). Þrátt fyrir allt þetta getum við líklega verið sammála um að malaría er vandamál í Ghana og það væri fáránlegt að Íslendingur myndi móðgast yfir þeirri staðreynd.

Umræða um eitt útilokar ekki annað. Kynferðisofbeldi gagnvart konum er vandamál í öllum heiminum, meðal annars á Íslandi. Það þýðir ekki að kynferðisofbeldi gegn körlum skipti ekki máli. Það er einfaldlega vandamál af öðrum toga. Það virðist vera ákveðin árátta hjá ýmsum að afvegaleiða umræðuna um kynferðisofbeldi gegn konum með því að kvarta yfir því að það sé ekki talað um ofbeldi gegn öllum, alltaf. Þetta er svolítið eins og að vilja ekki hlusta á hreyfinguna Black lives matter og vilja breyta því í All lives matter. Já eða að það megi ekki nefna gyðinga sérstaklega á degi tileinkuðum helförinni vegna þess að fleiri voru ofsóttir af nasistum á þeim tíma.

Umræðan um kynferðisofbeldi gegn körlum er tiltölulega ný af nálinni og ekki langt síðan fólk almennt viðurkenndi að hægt væri að brjóta kynferðislega á körlum. Auk þess kemur alltaf betur og betur í ljós að fleiri karlmenn hafa orðið fyrir slíku ofbeldi en áður var talið. Það er vandamál sem þarf að ræða og reyna að hafa áhrif á. Ofbeldi gegn transfólki er algengt og það er líka eitthvað sem þarf að reyna að breyta. Að því sögðu þá útilokar umræða um ofbeldi gegn konum ekki að aðrir geti orðið fyrir ofbeldi.

notallmenNánast allar konur verða fyrir einhvers konar kynferðisáreiti á ævinni. Það er eitt af stærstu vandamálum sem þjóðin, og heimurinn allur, glímir við. Með því að svara alltaf umræðu um þetta með því að segja að konur séu ekki þær einu sem verða fyrir ofbeldi, er verið að kæfa umræðuna.

Kæri karlmaður, ég er hrædd við alla karlmenn. Ég treysti engum karlmanni yfir 15 ára aldri 100%. Af hverju verður þú reiður við mig ef ég segi það? Af hverju verðurðu ekki reiður við þá kynbræður þína sem hafa gert það að verkum að mér, og svo mörgum öðrum konum, líður svona? Ég er ekki að reyna að móðga þig eða segja að þú sért skrímsli en þetta er staðreyndin: konur hræðast karlmenn.

NOT ALL MEN!notalldrivers

Þegar þú svarar mér með því að segja að þú sért sko ekki ofbeldismaður og að þú myndir aldrei skaða neinn ertu að firra þig ábyrgð á vandamálinu. Við erum öll hluti af vandamálinu. Þetta er ekki barátta milli kvenna og einhverra skrímsla sem fela sig í húsasundi og áreita konur af einskærri illsku. Þetta er vandamál okkar allra og við eigum öll að taka þátt í þessari baráttu. Ef við hugsum um þá sem beita ofbeldi sem skrímsli breytist ekkert. Engin þekkir þessi skrímsli. Enginn á skrímsli fyrir vini, syni, feður. Enginn er skrímsli sjálfur.

Þessir menn lauma lyfjum í drykki ókunnugra stúlkna, elta þær, króa þær af, nauðga þeim og skilja þær eftir uppi í sveit. Þetta gerist því miður en algengasta myndin af kynferðisofbeldi er aðeins öðruvísi. Við erum alltaf að passa okkur á þessum ókunnugu ofbeldismönnum. Við einblínum svo mikið á þá að þegar öðruvísi ofbeldi á sér stað getur það farið fram hjá okkur.

Þegar mér var nauðgað fór það næstum því fram hjá mér því gerandinn var svo góður strákur. Hann er vinur minn og mig langaði að sofa hjá honum. Ég hafði sofið hjá honum áður og ég átti eftir að sofa hjá honum í nokkra mánuði á eftir. Ætli það hafi ekki farið framhjá honum líka því hann veit alveg sjálfur að hann er góður strákur og alls ekkert skrímsli. Hann ætlaði ekkert að vera vondur en hann var það samt. Ætlaði hann samt að vera góður? Hann baðst innilega afsökunar nokkrum mánuðum seinna og lofaði að taka drykkjuna í gegn hjá sér. Þannig klúðraði hann sinni afsökunarbeiðni. Ef þú svarar spurningunni: „Getum við hætt aðeins? Það er allt út í blóði“ með „Nei“ býr eitthvað annað að baki en bara það að þú drakkst fyrir þremur klukkutímum. Góður strákur sem varð fórnarlamb áfengisins og lenti í því að nauðga.

Ég er viss um að ótal margar konur eru, hafa verið og munu lenda í minni stöðu: að telja sínar tilfinningar rangar því gerandinn passar ekki við skilgreiningu samfélagsins á kynferðisofbeldismanni. Persónuleiki þessara tveggja manneskja, vinar þíns og ofbeldismannsins þíns, er ekki sá sami. Hvernig getur ein manneskja bæði verið góð og vond? Hafði ég rangt fyrir mér með allt? Er ég búin að ýkja þetta í hausnum á mér?

Tökum betur eftir okkur sjálfum. Hættum að einblína á það að passa okkur á nauðgurum og förum að passa okkur meira á því að nauðga ekki. Verum vakandi fyrir eigin fordómum og hvernig við erum sjálf hluti af samfélagslegu vandamáli. Ekki hafna eigin hlutdeild í stóru vandamáli vegna þess að þú hefur aldrei brotið aðra manneskju í þúsund mola. Ekki stoppa umræðuna með því að tala um vandamál sem er minna talað um eða með því að segja að þú sért ekki hluti af vandamálinu. Prófaðu að hlusta. Það er nánast garanterað að þú átt vin sem hefur nauðgað og vinkonu sem hefur verið nauðgað. Svo er líklegt að þú eigir líka vin sem hefur verið nauðgað og ef til vill áttu vinkonu sem hefur nauðgað. Pössum upp á hvert annað og útilokum ekki vandamál með því að benda á önnur vandamál. Staðreynd: kynferðisofbeldi sem karlar beita konur er mjög algengt og er stórt vandamál. Leysum það í sameiningu.

Höfundur óskar nafnleyndar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.