„Konur um gjörvallan heim ættu að sameinast og vera systur“


Höfundur: Margrét Helga Erlingsdóttir

„Ég sé eiginlega bara konur hérna í háskólanum. Það eru svo margar konur hérna. Svona er þessu ekki háttað í Sómalíu. Konur í Sómalíu falla úr skóla vegna fátæktar eða vegna menningarlegra þátta eins og að giftast mjög ungar. Umskurður kvenna hefur áhrif á þær andlega og líkamlega og sumar þeirra eru jafnvel seldar í hjónaband,“ segir Bisharo Ali Hussein, nemandi í Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Hún er frá Sómalíu en bjó hluta ævinnar með fjölskyldu sinni í nágrannaríkinu Kenía. Lida Reca er hins vegar fædd og uppalin í Afganistan en báðar eru þær staddar hér á landi til að stunda nám við Jafnréttisskólann og var ferðalag Lida til Íslands í janúar síðastliðnum hennar fyrsta utanlandsferð.

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var fyrstu fjögur árin rekinn sem  tilraunaverkefni í samstarfi Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins en í maí 2013 varð hann hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Eins og kemur fram á vef Háskóla Íslands hefur Jafnréttisskólinn það að markmiði að „veita sérfræðingum frá þróunarlöndum sem starfa að jafnréttismálum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.“

Segjast þær Bisharo og Lida ætla að sækja sér verkfæri í Jafnréttisskólanum til að beita í heimalöndum sínum í þeim tilgangi að knýja fram kynjajafnrétti.

Konur þjást

Bisharo hefur starfað hjá fjölda hjálparsamtaka sem hafa það að markmiði að aðstoða flóttafólk. Síðustu áratugir í heimalandi hennar hafa einkennst af miklum átökum en árið 1991 braust út borgarastyrjöld í Sómalíu.

Það var í gegnum mannúðarstörfin sem Bisharo komst í kynni við nauðstatt fólk og snerti bág staða flóttakvenna hana sérstaklega. „Ég sá að þær liðu þjáningar, þær þurfa að vinna og sjá fyrir fjölskyldum sínum, þær hafa engan ákvörðunarrétt í samfélaginu því karlar fara með öll völd í samfélaginu.“ Ekki er gert ráð fyrir þátttöku kvenna í opinberu starfi og þær eru mjög jaðarsettar,“ segir Bisharo og bætir við að jafnvel grunnþörfum eins og húsaskjóli, mat og menntun sé oft ekki fullnægt.

„Ég vil hjálpa. Það að leggja mitt af mörkum til samfélagsins er fyrir mér ástríða. Ég vil styðja þetta fólk.“

Sækir sér verkfæri í Jafnréttisskólann

Bisharo hefur lokið BA-gráðu í þróunarfræði og segir hún námið hafa opnað augu sín um ýmislegt sem tengist þróunarlöndum og þá sér í lagi vandamálum sem snúa að konum og réttindum þeirra.

Þetta varð til þess að hún vildi sækja sér frekari menntun og fann hún Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna með hjálp internetsins. „Það sem ég hafði í hyggju þegar ég kom hingað var að ná mér í verkfæri og hugmyndir um hvernig sé best að takast á við þau brýnu vandamál sem kynsystur mínar standa frammi fyrir í heimalandi mínu,“ segir Bisharo um markmið sín í náminu við Jafnréttisskólann.

Hún bendir á að vandamálin séu að stórum hluta menningarleg og telur hún að menning geti verið bæði góð og slæm. „Við ættum að vera að skoða slæmar menningarlegar hefðir eins og umskurð kvenna, barnagiftingar og kynbundið ofbeldi. Þetta varðar grunnmannréttindi.“

Aukin vitund um réttindi

Spurð að því hvort sómalskar konur séu í auknum mæli að vakna til vitundar um rétt sinn svarar Bisharo játandi. „Ég held að þó nokkur fjöldi kvenna sé orðinn meðvitaður og þá helst konur sem hafa menntað sig erlendis. Þær koma til baka og vekja aðra til vitundar. Þær hafa styrkinn til þess að gera þetta og hafa átt frumkvæði að alls kyns verkefnum sem miða að því að auka vitund og valdefla konur.“

Bisharo segir að eitt mikilvægasta verkefnið sé að breyta viðhorfi fólks og áhrifaríkasta leiðin til þess sé að vinna með grasrótinni. „Með því að hrinda í framkvæmd verkefnum sem fólkið getur lagað sig að og tengt við í staðinn fyrir herferðir á borð við: „Hættið umskurði kvenna“. Við verðum að leysa gömlu hefðirnar af hólmi með einhverju nýju.“

Hvergi í heiminum er meira um umskurð kvenna en í Sómalíu, 98% prósent stúlkna og kvenna á aldrinum 15 til 49 ára eru umskornar.

Nýtt meistaranám í kynja-og kvennafræðum í Afganistan

Lida Reca hefur lokið BA-gráðu í félagsfræði og heimspeki en í kjölfarið lá leið hennar í meistaranám í kynja-og kvennafræðum við Háskólann í Kabúl. Lida og bekkjarsystkini hennar verða fyrst til þess að útskrifast sem kynjafræðingar í landinu.

Meistaranámið er glænýtt og var sett á laggirnar árið 2015. Segja má að námið marki ákveðin þáttaskil í málefnum afganskra kvenna. Það var hannað af Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna en ríkisstjórn Suður-Kóreu lagði fjárstyrk til verkefnisins.

Lida segir hugmyndina um nám í kynja-og kvennafræðum hafa verið í undirbúningi í um átta ár og að loks hafi tekist að setja það á laggirnar. Hún segir að Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna hafi sniðið kynjafræðina að afgönsku samfélagi: „Þau löguðu námið að okkar menningu og trú og mótuðu námskrána í samræmi við það.“

Brúarsmíð milli háskólanna

Lida hefur sérstakan áhuga á að byggja brú á milli meistaranámsins í kynja- og kvennafræðum Háskólans í Kabúl og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

„Mig langar til þess að tengja skólana vegna þess að við þurfum á Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna að halda í Kabúl: Námið er svo nýtt og við þurfum á stuðningi að halda frá öðrum háskólum til að það verði farsælt og ég hef mikinn áhuga á að vekja athygli á þessu námi og vil hvetja nemendur til að sækja sér menntun á þessu sviði.“

Lida er mjög í mun að styrkja stöðu fagsins og að kynjafræðin fái notið virðingar því hún segir marga ekki taka kynjafræði alvarlega í Afganistan. „Fólk leyfir dætrum sínum ekki að læra þessa fræðigrein og þess vegna viljum við reyna að gera hana meira aðlaðandi með því að bjóða upp á skólastyrki og annað slíkt.“

Öfgaöfl standa í vegi fyrir menntun stúlkna

Lida er þess fullviss að menntun sé besta leiðin til þess að útrýma kynjamismunun. Menntun eigi þó undir högg að sækja því átök hafi geisað í Afganistan um langt skeið og hafa öfgaöfl sölsað undir sig landsvæði og lokað skólum. „Þeir loka skólum fyrir stráka líka en stúlknaskólar eiga sérstaklega undir högg að sækja. Þeir loka þeim eða eyðileggja þá.“

Þetta sé einn liður í þeim vanda sem Afganir glíma við. Þá segir hún öryggið ekki vera gott og stjórnvöld ekki í stakk búin til að takast á við það ófremdarástand sem ríki í landinu.

Samkvæmt skýrslu Thomson Reuters Foundation eru aðstæður kvenna verstar í Afganistan af öllum löndum heims. Í skýrslunni kemur fram að Afganistan hafi komið verst út í þremur af sex flokkum: heilsu, ofbeldi og aðgengi að fjármunum. Þá eru 87% afganskra kvenna ólæsar.

Fyrst í sinni fjölskyldu í meistaranám

Eftir meistaranámið í kynja-og kvennafræðum lá leið Lidu til Íslands en hún er fyrst ættingja sinna til að leggja fyrir sig nám á meistarastigi. Hún segir kynja- og kvennafræðinámið í Kabúl hafa hjálpað sér að skilja kynjafræði í samhengi við íslam en nú, í Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, skoði hún kynjafræðina í hnattrænu samhengi og segist hún vera að upplifa eitthvað nýtt.

„Nú er ég hér og skoða hugtakið í hnattrænu samhengi: hvernig það virkar, allt um kynjajafnrétti og hvernig á að koma því á. Það er þess vegna sem ég valdi þetta nám því styður með beinum hætti við nám mitt í Afganistan.“

Mikill munur á heimalandinu og Íslandi

Spurðar að því hvort þær finni fyrir miklum menningarmun milli heimalandanna og Íslands svara þær játandi. Bisharo segir þær hafa heimsótt Alþingi og að þrátt fyrir að þær viti að staða jafnréttismála sé önnur hér á landi hafi það komið þeim í opna skjöldu að hafa hitt þar 27 ára kvenkyns þingmann, Ástu Guðrúnu Helgadóttur.

„Hún er mjög ung, hún er svo full af orku, hún er svo einbeitt og hún er þingmaður!“, segir Bisharo sem bætir við að þetta sé því miður fjarlægur draumur sómalskra kvenna en þar er ungum konum ekki gefið tækifæri til að taka þátt í stjórnmálum.

Þá undra þær sig á háu hlutfalli kvenna í Háskóla Íslands eins og áður sagði.

Hjálp af hinu góða

Hvað geta Íslendingar gert til þess að hjálpa og er hjálp í vestrænni aðstoð eða upplifa þær hana á þann veg að verið sé að þröngva vestrænum gildum á aðra menningarheima? Bisharo ákveður að svara spurningunni: „Menning er samofin sjálfsmynd okkar. Til er góð menning og til er vond menning en kynbundið ofbeldi er ekki menning heldur ofbeldi. Þetta er vitað alls staðar og það að Íslendingar vilji hjálpa er af hinu góða. Það köllum við mannúð. Að hjálpa öðrum sem eru bjargarlausir er gott og þannig á það að vera. Kynjamisrétti er við lýði í öllum samfélögum og þvert á allar stéttir og ólíka hópa. Þess vegna ættu konur um gjörvallan heim að sameinast og vera systur.“

Lida er sama sinnis og bendir á að ofbeldi gegn konum þrífist allsstaðar og sé þannig ekki bundið einni menningu umfram annarri. „Það er gott að konur standi saman, hjálpist að í baráttu sinni gegn kynbundnu ofbeldi.“

Undir lok viðtalsins tókum við upp léttara hjal og komumst að því að við, þrjár 26 ára gamlar konur úr ólíkum heimshornum, eigum það sameiginlegt að halda mikið upp á fræðikonurnar Judith Butler, R. W. Connell og Simone de Beauvoir. Við vorum jafnframt sammála um að þverþjóðlegt uppbyggingarstarf á sviði jafnréttismála eins og það sem fer fram á vegum Jafnréttisskólans gæti stuðlað að því að ungir námsmenn frá ólíkum heimshlutum gætu brátt deilt dálæti sínu á feminískum fræðikonum utan hins vestræna heims.

Upphafleg birting var á student.is og er endurbirting með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.