,,Ástæður þess að ég mun aldrei aftur taka Pilluna“

Höfundur: Holly Grigg-Spall

Þegar Holly Grigg-Spall uppgötvaði að getnaðarvörnin væri orsök kvíða og depurðar sem hún fann fyrir ákvað hún að rannsaka það nánar. Hún komst að því að hún var ekki ein um það að finna fyrir þeim áhrifum.

Holly Grigg-Spall

Alla tíð síðan að Pillan kom á markað fyrir 50 árum hefur hún verið samnefnari fyrir frelsun. Ég var á Pillunni í áratug – frá 16 til 26 ára. Þó myndi ég ekki lýsa reynslu minni sem frelsandi. Í bloggi sem ég rek, Sykurhúðun pillunnar, hef ég rakið það hvernig þessi örsmáa tafla varð til þess að mér leið innilokaðri, þaggaðri, staðnaðri, eins og mér væri haldið niðri. Hún lét mér líða eins og ég væri í gíslingu, og síðar meir, eins og ég væri fíkill. Ég veit að ég er ekki eina konan sem hefur átt, eða á enn, í vanda með Pilluna, vegna þess að ég heyri í fleirum með álíka sögur á hverjum degi.

Ég tek ekki þátt í afmælisfagnaði Pillunnar; Ég get ekki einu sinni þakkað henni fyrir að umbreyta mér í aðgerðasinna og rithöfund sem sérhæfir sig í heilsu kvenna. Það var ekki fyrr en þann dag sem ég hætti að taka þetta lyf sem að ég öðlaðist orkuna, hvatann og nógu skýran hug til þess að skrifa um það af hverju ég yrði að hætta.

Í umfjöllun sinni um hormónagetnaðarvörnina Pilluna sagði hinn vísindalega þjálfaði fjármálasérfræðingur James Balog, sem árið 1960 starfaði fyrir Merch Pharmaceuticals: „Vandamálið þá var það hvort nokkur kona myndi taka pillu dag hvern til að koma í veg fyrir þungun. Þeir trúðu því ekki að manneskja myndi gera slíkt þegar hún er hraust; og þær eru hraustar!“

Greinin birtist á prenti í tilefni af fimmtugsafmælinu. Þar er Pillunni lýst sem allt-í-einni lausn við öllum kvenlegum vandamálum; líffræðilegum sem félagslegum. Í ritstjórnargrein í Huffington Post er hún kölluð „lítil, örugg og gagnleg“. Þar er því haldið fram að eina vandamálið við þetta undralyf sé að það frelsar konur og því væri það aðeins vandamál þeim sem vilja ekki frjálsar konur.

Nótt eina árið 2008 ræddum við, ég og besta vinkona mín, hvað okkur liði báðum illa og hvað við upplifðum okkur frátengdar. Vinkona mín sagði að hún væri að missa allan lífskraft. Hún lýsti því sem „tómi“ – flötu, innihaldslausu, dempuðu tómi. Ofan á sameiginlegt vonleysi okkar bættist einnig minnkuð kynhvöt sem fékk okkur til að gruna að Pillan væri orsök skapbreytinganna.

Árið áður, auk þunglyndis, hafði ég fundið fyrir gríðarlegum kvíða og vænissýki sem þróaðist yfir í stöðuga tilfinningu um yfirvofandi ógn. Ég fékk snörp reiðiköst orsökuð af óþægindatilfinningunni; sem ollu ítrekuðum rifrildum við kærasta minn. Jafnvel minnsta ósætti varð til þess að ég hrapaði í hringiðu reiði og vonleysis. Mér leið eins og ég væri að missa vitið.

Ég var að taka Yasmin pilluna, sem ég hafði beðið lækninn minn um eftir að hafa lesið í tímaritsgrein um það hversu frábærar aukaverkanir hún hefði; hreinni húð og þyngdartap. Systur mínar og margar af vinkonum mínum tóku hana einnig. Yasmin var markaðsett af ágengni í Bandaríkjunum og fréttir af meintum kostum hennar voru fljótar að berast yfir hafið til ungra kvenna í Bretlandi. New York Times lýsti Yasmin nýlega sem „vinsælasta lyfi markaðsettu fyrir konur“, og að það hefði verið selt sem „lífsgæða“ meðferð. Í fordæmisgefandi aðgerð í fyrra skipaði Bandaríska lyfjaeftirlitsstofnunin FDA, Bayer Pharmaceuticals að senda út auglýsingu þar sem fyrri staðhæfingar þeirra um lyfið væru dregnar til baka. Samkvæmt Dr. Doug Bremner, höfundi bókarinnar Before You Take That Pill, var Yasmin orðin það lyf sem hvað mest er kvartað undan á medications.com, síðu sem heldur skrá yfir aukaverkanir vinsælla lyfja. Sá þáttur sem aðgreindi hana frá öðrum var tilbúið prógesterón dróspírenón, sem hafði verið tengt við 74 lögsóknir gegn framleiðandanum í tengslum við alvarlegar líkamlegar aukaverkanir svo sem blóðtappa, sem og öfgafullar geðsveiflur.

Áhyggjur af einni vinsælli tegund vöktu umræður milli kvenna sem vörpuðu ljósi á þau flóknu áhrif sem allar Pillur hafa á líkama kvenna. Ég hafði alltaf forðast Dianette, tegund sem sérstaklega er ávísað vegna húðvandamála, vegna þess að nokkrum árum fyrr fór fram fjömiðlaumfjöllun um tengsl hennar við aukna hættu á þunglyndi. Nú, þegar ég er ekki lengur á Pillunni, sé ég þegar ég lít til baka að allar fjórar tegundir Pillunnar, sem ég hef tekið, hafa haft neikvæð áhrif á velferð mína. Allar innihalda þær samtengd estrógen etinýlestradíóls ásamt einni tegund tilbúins prógesteróns. Allar geta þær haft neikvæðar afleiðingar á skap þegar þær stoppa egglos, þær fletja út náttúrulegar hormónasveiflur að því marki að stöðugt ástand með lágu hormónamagni verður ríkjandi, þær valda skorti á B-vítamíni og hafa áhrif á heiladingulinn. Ég hef uppgötvað það að skapsveiflur geta byrjað eftir hálft ár, tvö ár eða jafnvel áratug eftir að inntaka á Pillunni hefst, líkamar kvenna bregðast mismunandi við.

Pillan hefur mjög gróf og víðtæk áhrif á líkamann. Eins og Barbara Seaman sagði, í The Doctor‘s Case Against The Pill, þá er það eins og að „fikta í kjarnorkusprengju til að berjast við kvef“. Æxlunarkerfið allt hættir. Þegar við tölum um að Pillan komi í veg fyrir þungun ættum við að minna okkur á það að hún hefur áhrif á allan líkamann. Mánaðarlegar hormónasveiflur tíðahringsins eru órjúfanlegur hluti líkamsstarfsemi af ýmsum toga; þar með talið efnaskipta-, ónæmis- og innkirtlakerfið.

Eftir 10 ár á Pillunni sýndi ég merki um vítamínskort, lágt hormónamagn og bælt ónæmiskerfi – það blæddi úr gómunum, ég fékk ítrekaðar þvagfærasýkingar, hárlos, lélegt blóðflæði, blóðsykurlækkun og ítrekuð flensueinkenni, fyrir utan áhrifin á tilfinningalegt ástand mitt. Alexandra Pope og Jane Bennett segja í The Pill: Are You Sure It‘s For You?:  „Pillan breytir í það minnsta 150 þáttum líkamsstarfseminnar og hefur áhrif á öll líffæri“. Pope lýsir vandamálum sem af henni hljótast sem „skaðlegum lífsgæðum“.

Ég tók lyf á hverjum degi árum saman vitandi aðeins það sem læknirinn minn hafði sagt: Að Pillan „kæmi reglu“ á blæðingar mínar. Ég hafði alltaf gætt þess að nota líka smokka. Lyfið innbyrti ég á unglingsárum þegar ég stundaði ekki kynlíf. Þetta var vani án íhugunar. Það sem til þurfti var enn ein breyting yfir í nýja pillutegund, tveggja mánaða hlé sem opnaði augu mín og síðan sex mánuðir aftur á Pillunni til þess að fá mig til að átta mig á hvað hún hefði gert líkama mínum og huga öll mín fullorðinsár. Loks skildi ég af hverju ég hafði verið svona veik.

Rannsóknir á áhrifum Pillunnar á skapferli eru sárafáar en niðurstöður þeirra benda allar til þess að um helmingur þeirra sem taka Pilluna upplifa neikvæð áhrif. Rannsókn Háskóla Norður-Karólínu frá árinu 1998, frá Kinsey Institute 2001, Monash Háskóla 2005 og Lakehead Háskól 2008 sýna fram á hversu almenn óánægjan með Pilluna er.

Rannsóknir sýna fram á heilsufarslega kosti þess að hafa ítrekað egglos, og afhjúpast þar með hættan sem fylgir bælingu tíðahringsins. Pillunni er ávísað og hún tekin án umhugsunar. Lyfið hefur um helmings markaðshlutdeild á hinum 16 milljón dollara kvenheilsumarkaði og fræðsla læknanema um getnaðarvarnir í Bandaríkjunum beinist að 96 hundraðshlutum að henni. Í fyrra hóf breska heilbrigðisþjónustan NHS frumrannsóknarverkefni í nokkrum hverfum Lundúna þar sem Pillan var gefin án lyfseðils: Það er ýtt undir notkun hennar með góðum hug.

Á sama tíma sem við hugsum um hvað við borðum, hverju við klæðumst og hvernig við þrífum klósettið, oftar en nokkru sinni fyrr, þá fögnum við því að milljónir annars heilsuhraustra kvenna taki kröftugt lyf daglega, árum saman. James Balog hefur rétt fyrir sér, þær eru ekki veikar, þær eru frjóar og það bara nokkra daga í mánuði. Pillan er sett á svo háan stall að litið er framhjá öðrum getnaðarvörnum. Pillu-æðið hefur veðrað grunnstoðir réttarins til kynheilbrigðis – val, frelsi og upplýsingagjöf.

Pillunni er úthlutað til kvenna með bólur, fyrirtíðarspennu, óreglulegar blæðingar, miklar blæðingar. Pillan var þróuð sem lyf við þeim sjúkdómi að vera kona. Í staðinn fyrir að breyta samfélaginu, hefur samfélagið ákveðið að laga konur. Á 50 ára afmæli Pillunnar skulum við hætta að fagna skálduðum veruleika sjötta áratugarins og beina athygli okkar að byltingunni sem er að eiga sér stað núna. Ungar konur sniðganga Pilluna í stórum stíl. Þær eru farnar að sjá að Pillan getur verið skaðleg, eins og sykurhúðin sem er notuð til að fá okkur til að gleypa hana.

Í stað þess að nota hormóna-getnaðarvarnir er hægt að nota hettuna, kvensmokkinn, karlsmokkinn ásamt sæðisdrepandi kremi og koparlykkjuna. Frjósemiseftirlit er einnig hægt að nota í bland við hinar aðferðirnar. Það er gert með því að fylgjast með hitastigi, leghálsslími og staðsetningu leghálsins til þess að meta frjósemi.

Greinin birtist upphaflega í Independent 10.mars 2010. Hún er hér birt með leyfi höfundar.

Þýðandi: Sandra Kristín Jónasdóttir.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.