Körlum nægir að hvísla þegar konur þurfa að öskra

Höfundur: Kolbeinn Óttarsson Proppé

Fulltrúar Alþingis á kvennaþinginu; Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir.

Ys og þys. Litaskrúð. Skvaldur. Risastórir gangar og enn stærri salir. Hátt til lofts og vítt til veggja. Biðraðir. Og fólk. Allsstaðar er fólk, konur í miklum meirihluta en við erum þarna líka, karlarnir. Og við erum einsleitari. Karlar í jakkafötum með bindi.
Ég er mættur á 61. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Hér erum við, þúsundum saman, að ræða stöðu kvenna, jafnréttismála, í heiminum. Og það er aðalatriðið, hver er staðan og hvað ætlum við að gera?
Mér hlotnaðist sá heiður að sitja fundinn fyrir hönd Alþingis. Þetta var í fyrsta sinn frá hruni sem þingmenn voru sendir á fundinn, en ásamt mér sátu hann þau Hildur Sverrisdóttir og Vilhjálmur Árnason, bæði úr Sjálfstæðisflokknum. Skipuleggjendur lögðu ríka áherslu á að karlar tækju þátt í fundinum og það varð til þess að við í Vinstri grænum skiptum út fulltrúa, settum karl fyrir konu, og því var ég allt í einu staddur í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Og ég var eins og krakki í dótabúð.
Ég er alinn upp við jafnréttishugsjón. Einhvers konar femínisma. Söng Áfram stelpur með mömmu og pabba og hef alltaf talið fráleitt að ég, og kynbræður mínir, ættum að fá eitthvað umfram konur af því að við erum með typpi. En ég játa að þetta er málaflokkur sem ég hef ekki sökkt mér ofan í, hef ekki tölur á hraðbergi, veit ekki um prósentumun o.s.frv. Ég veit bara að staðan er ósanngjörn og úr óréttlætinu verður að bæta.
Og ég fræðist.
Ég heyri af því að hvar sem okkur ber niður, í löndum Afríku eða Norðurálfu, hjá þeim sem lifa undir fátæktarmörkum eða ríkasta fólkinu, hjá þeim sem vinna meira en þeim er hollt eða þeim sem litla sem enga vinnu fá – í stuttu máli sagt; allsstaðar er staðan sú að það hallar á konur. Þær hafa lægri laun. Vinna meira. Sinna ólaunuðum störfum meira. Allsstaðar. Alltaf.

Kolbeinn á málstofu um sexisma, kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi gegn konum í pólítik; með Maryam Monsef, ráðherra kvenréttinda í Kanada og Martin Chungong, framkvæmdarstjóra Alþjóða þingmannasambandsins.

Konur vinna 66% vinnunnar í heiminum, þær framleiða 50% matvælanna. Þær uppskera hins vegar aðeins 10% launanna og eiga 1% eigna. Þetta eru svo galnar tölur að þær einar og sér ættu að nægja til þess að allt sanngjarnt fólk settist niður og breytti stöðunni.
Staðreyndin er þó sú að það eru 65 ár síðan það var sett í alþjóðalög og samninga að allir skyldu fá sömu laun fyrir sambærilega vinnu, óháð kyni. En samt erum við enn að kljást við þetta og til er fólk sem lætur eins og vandamálið sé einfaldlega ekki til staðar. Afneitun getur verið háskalegt fyrirbæri.
Konur sinna ólaunuðum umönnunarstörfum margfalt meira en karlar. Skiptir þá engu máli hvaða tekjur þær hafa, þetta á við í öllum tekjubilum. Eða hvað þær vinna mikið úti. Hér er að sjálfsögðu vísað í meðaltal, eins og í öðru þegar kemur að þessu. Og verðmæti starfanna sem konur að mestu sinna, ólaunuðu umönnunarstarfanna? Tíu trilljónir Bandaríkjadala á hverju ári.
Ég er í pólitík og var áður í blaðamennsku og er því vanur að skrifa opinberlega og fá viðbrögð við því. Ég hef verið kallaður ýmislegt, fáviti og fífl, einfeldningur og áni (reyndar aldrei áni, en eitthvað álíka með öðrum orðum) og sakaður um að ganga erinda ýmissa. En mér hefur aldrei verið hótað nauðgun. Að ég þurfi bara einn stóran í bílskúrinn. Ég hef horft upp á konur í pólitík hér á Íslandi fá slíkar svívirðingar og hótanir að það er þyngra en tárum taki. Og ég fræðist um konur sem loka á samfélagsmiðlana. Hætta að tjá sig opinberlega. Óttast um sig og börnin sín. Hætta í pólitík. Af því að þær tjá sig. Tala fyrir breytingum. Femínisma. Gera það sem rétt er.
Paddy Torsney, fyrrum þingkona frá Kanada, hvíslar að mér á einum fundinum að hún hafi reglulega þurf að svara fyrir það í þingsal hvort hún væri á túr. Hvort hún mundi ekki bara fíla það að láta nauðga sér. Og ég hugsa um mig, forréttindapésann sem ég er – hvítur, miðaldra, gagnkynhneigður, ófatlaður, úr millistétt með typpi – og ég hálfskammast mín fyrir að hafa einhvern tímann tekið eitthvað inn á mig sem sagt hefur verið um mig.
Og ég heyri í konum sem þurfa að berjast fyrir því að á þær sé hlustað. Jafnvel þær sem þurfa ekki að búa við hótanir þurfa að hafa meira fyrir því að láta í sér heyra en karlarnir. „Karlar geta hvíslað, þegar konur þurfa að öskra,“ segi ég á fundi og reyni að fanga þetta í þeim orðum. En veit auðvitað ekkert hvernig er að búa við slíkar aðstæður, ég get bara reynt að setja mig í þau spor.
Konur eru í minnihluta á öllum valdasviðum samfélagsins. Þær eru 23% þingmanna heimsins. Og í stjórnum fyrirtækja eru þær í minnihluta. Kvótar skila árangri; í Noregi fjölgaði konum í stjórnum fyrirtækja á markaði í u.þ.b. 40%. Hvatar, eins og skattafsláttur og hagræði, skiluðu 5% fjölgun kvenna í stjórnum, samkvæmt úttekt ESB.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. Myndin er tekin af síðunni https://en.wikipedia.org/wiki/Headquarters_of_the_United_Nations

Og eitt er fjöldi kvenna, annað áhrif. Hvað gerum við karlarnir þegar konum fjölgar? Rottum við okkur meira saman, förum í golf og tökum ákvarðanir í gufunni eftir ræktina? Það þarf að meta áhrif, ekki bara telja hausa.
En kvótar virka. Áður var minnst á Noreg. Afdráttarlausara dæmi um mikilvægi kvóta er Egyptaland, en eftir að kynjakvótar voru lagðir af þar fækkaði konum í áhrifastöðum úr 10% í 2%. Kvótar virka. Á endanum breyta þeir núllpunktinum, viðmiðinu, því sem okkur finnst eðlilegt.
Hugarfarið er svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þrátt fyrir áratuga aðgerðir í jafnréttismálum á Norðurlöndunum er fullu jafnrétti ekki náð þar. Hefur jafnréttisbaráttan þar staðnað? var spurt á fundinum. Við getum litið í eigin barm. Það skortir á fræðslu, kennslu í jafnréttis og kynjamálum. Af hverju erum við ekki að kenna börnunum okkar á öllum skólastigum um þessi mál? Förum yfir þau með leikskólabörnum, hnykkjum betur á því í grunnskóla og látum þau gera úttektir í framhaldsskólum? Af hverju er kennsla í almennilegri kynjafræði ekki hluti af kennaranámi, svo kennarar séu betur í stakk búnir til að mennta börnin okkar í þeim málum? Breytum hugarfarinu.
Hvað þarf að gera? Allt. Það er ekkert svo smátt að ekki sé þess virði að gera það. Enginn árangur of lítill. Það þarf kvóta. Það þarf fræðslu. Það þarf hugarfarsbreytingu. Það þarf lagasetningar. Það þarf að kynjarýna lög, fjárlög, ákvarðanir. Það þarf breytingar. Það þarf ekki varðstöðu okkar karlanna um eigin stöðu, ekki gamlan félagsskap strákanna, ekki ótta við að allir sitji við sama borð.
Mér líður eins og ég sé staddur í miðjum gildrukjaftinum, horfandi á tennta bogana sitt hvoru megin við mig. Ég er að segja hluti sem ótal margar konur hafa sagt á undan mér, hafa sagt það skýrar, betur og af meiri innsýn. Ég veit ósköp fátt. En ég vil þó nýta þennan vettvang, sem aðra, til að hvetja okkur til dáða. Sérstaklega okkur karlana, þar sem það er einfaldlega skylda okkar að leita allra leiða til að breyta stöðunni, því á hverjum degi erum við að brjóta á helmingi jarðarbúa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.