Höfundur: Ásdís Ólafsdóttir
Alþjóðlega hreyfingin HeForShe stendur nú fyrir miklu kynningarátaki á íslensku Barbershop-verkfærakistunni. Verkfærakistan var þróuð af Landsnefnd UN Women á Íslandi í samstarfi við Utanríkisráðuneytið og var afhent HeForShe, alþjóðlegu verkefni UN Women, á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna nú í mars. Heil vika hefur verið tileinkuð verkfærakistunni á samfélagsmiðlum HeForShe, með tæpa milljón fylgjendur samanlagt, í þeim tilgangi að skýra hvernig verkfærakistan getur nýst hverjum þeim sem vill hvetja karla til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.
Barbershop-verkfærakistan er aðgengileg á heimasíðu HeForShe, http://www.heforshe.org/en/barbershop og veitir nákvæmar leiðbeiningar um framkvæmd ólíkra viðburða sem allir hafa það sameiginlega markmið að auka þátttöku karla í umræðunni og baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Sem dæmi má nefna viðburði sem miða sérstaklega að aukinni þátttöku stjórnenda og yfirmanna sem og viðburði sem taka á kynbundnu ofbeldi og mismunun vegna kynferðis. Verkfærakistan gerir þannig ólikum aðilum kleift að virkja karla í sínu nærumhverfi.
Verkfærakistan veitir einnig nákvæmar leiðbeiningar um hvernig best er að byggja upp samstarf við sérfræðinga og frumkvöðla á þessu sviði til að tryggja að þátttaka karla styðji við þá miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin á sviði jafnréttismála.
Barbershop-verkefnið byggir á þeirri hugmynd að jafnrétti kynjanna varði ekki einungis konur og að það sé allra hagur að vinna saman svo jafnrétti náist. Barbershop er vísun í rými sem konur hafa oft lítinn aðgang að, hvort sem það er rakarastofan eða búningsklefinn, og undirstrikar mikilvægi þess að hafa áhrif á þá umræðu sem á sér stað innan þessara lokuðu rýma. Barbershop-viðburðir eiga að skapa einlæga samræðu milli karla um málaflokkinn, kynna fyrir þeim hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum og virkjað karlmennina í kringum sig.
Fyrsta Barbershop-ráðstefnan var haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í janúar 2015 og var markmið hennar að auka umræðu um jafnréttismál meðal karlmanna innan Sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan var einkar vel heppnuð og Ísland hefur í kjölfarið staðið fyrir Barbershop-ráðstefnum víða um heim, meðal annars í höfuðstöðvum NATO í Brussel og hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf.
Á myndbandinu hér að neðan má sjá Ásdísi Ólafsdóttur útskýra verkfærakistuna á ensku: